31. des. 2006

Dauðarefsingar eru villimennska

Afganistan, Bandaríkin, Írak, Kína og Norður-Kórea eru meðal þeirra ríkja sem iðka þá villimennsku að beita dauðarefsingum.

Rétturinn til lífs er æðstur mannréttinda og önnur réttindi eru sem hjóm eitt í samanburði. Það sýnir einnig hinn innri mann hverrar þjóðar hvernig hún fer með sínu verstu glæpamenn og hvort að hún stenst þá freistingu að gjalda líku líkt, sama hversu hroðalega glæpi þeir hafa framið.

Það væri vonandi að mannkynið fyndi hjá sér minni hvöt á nýju ári til að drepa hvert annað, stofna til stríða og valda hungursneyðum og eymd.

Gleðilegt nýtt ár.

27. des. 2006

Það þarf 4 sæstrengi, ekki bara 2

Undanfarnar vikur hafa nettengingar til útlanda verið lélegar. Er því um að kenna að Cantat-3 sæstrengurinn er bilaður. Þetta er ástand sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Á seinustu árum hafa þeir sæstrengir sem tengja landið við umheiminn, Farice-1 og Cantat-3, bilað ítrekað. Það er í sjálfu sér ekki sérstaklega óeðlilegt, þetta eru langir strengir sem liggja á miklu dýpi í sjó, það er við því að búast að þeir bili öðru hverju. (Svo eru skoskar hálandarottur líka mikil skaðræðiskvikindi...)

Það er hins vegar áhyggjuefni að slíkar bilanir hafi áhrif á fjarskipti, síma- og netumferð, til og frá landinu. Það er áhyggjuefni að fjöldi sæstrengja sem tengja landið sé svo takmarkaður og uppsetning þeirra sé þannig að bilanir á einum stað geti valdið truflunum og/eða sambandsrofi í stað þess að umferðin flæði sjálfkrafa aðra leið.

Við Íslendingar búum núna við ástand sem ég vil kalla að hafa "2 og ½" sæstreng. Það er annars vegar Farice-1 og hins vegar tveir leggir á Cantat-3, til austurs og vesturs. Leggirnir á Cantat-3 eru ekki alveg sjálfstæðir því að við tilteknar bilanir á öðrum leggnum getur þurft að breyta aflfæðingu inn á strenginn til að halda hinum leggnum í sambandi. Greining á slíkri bilun og vinnan við að breyta aflfæðingunni getur tekið nokkurn tíma, sérstaklega þegar miðað er við að markmiðið ætti að vera að heildarsambandsrof sé innan við 5 mínútur á ári. Einnig er millifærsla á samböndum milli leggja Cantat-3 og Farice-1 við bilanir ekki sjálfvirk.

Þessi aðstaða er því ekki jafngóð og að hafa 3 strengi en skárri en að hafa einungis 2 strengi.

Í dag eru um 8 ár eftir af áætluðum líftíma Cantat-3 sæstrengsins, en hann var lagður 1994. Hugsanlega endist hann skemur ef að afkastageta hans verður takmarkandi þáttur. Það er því alveg ljóst að leggja verður annan sæstreng til að taka við áður en rekstri Cantat-3 verður hætt og hefur raunar verið ákveðið að leggja Farice-2. (Af þeim hugmyndum sem fram hafa komið líst mér best á að Farice-2 verði lagður til Írlands, með eða án greinar til Færeyja, og hugað verði sérstaklega að tengingum hans til BNA og Kanada, ásamt auðvitað tengingum milli hans og Farice-1 á Skotlandi.)

Við erum þá hins vegar komin í verri aðstöðu heldur en nú, með einungis 2 sæstrengi sem tengja landið. Öryggi fjarskipta hefur ekki verið nógu gott með "2 og ½" sæstreng og er ekki við því að búast að það verði betra með einungis 2 sæstrengi, jafnvel þó þeir séu báðir af nýrri gerð heldur en Cantat-3.

Eitt af sérkennum Cantat-3 og Farice-1 er að hvorugur strengurinn er hringtengdur. Með lagningu Farice-2 væri í raun einungis verið að ljúka hringtengingu "Eurice" strengsins (Farice parið, Ísland-Evrópa), þar sem samskipti gætu farið um tvær óháðar leiðir og við bilun væri millifærsla sjálfvirk.

Til frambúðar þarf að tengja Ísland við umheiminn með a.m.k. tveimur fjarskiptastrengjum og hvor um sig þarf að vera hringtengdur. Því þarf 4 sæstrengi en ekki bara 2.

Áður en Cantat-3 er tekinn úr notkun þarf því að huga að fleiri tengingum, t.d. fjarskiptastreng til Kanada eða BNA ("Amice", Ísland-Ameríka). Sá strengur þyrfti að vera hringtengdur strax frá upphafi eða a.m.k. gert ráð fyrir því frá upphafi að hringtengingu yrði lokið fyrr en síðar. "Amice" mætti leggja beint vestur til Kanada eða hugsanlega leggja hann til suðurs og tengja inn á strengi eins og Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.

Einnig mætti líka t.d. skoða það að leggja 3. sæstrenginn í Hibernia Atlantic eða þann 4. í AC-1/AC-2, með viðkomu á Íslandi; þ.e.a.s að leggja 2 sjálfstæða sæstrengi, annan til austurs og hinn til vesturs, og hringtengja inn á Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.

Ef mönnum finnst í of mikið lagt að vera með 4 strengi til og frá Íslandi, þá væri hægt að vel athuguðu máli að skoða það að leggja einungis 3. strenginn til Evrópu, Farice-3, til Írlands, Bretlands, Frakklands, Danmerkur eða Þýskalands, samtengja svo alla Farice strengina og tengja þá svo við einhvern fjarskiptastreng sem er hring- eða margtengdur til N-Ameríku, eins og Hibernia Atlantic, AC-1/AC-2, TAT-12/13, TAT-14, Apollo eða FLAG Atlantic-1.

Það eru margir möguleikar í stöðunni en nauðsynlegt er að fara að skoða þessi mál og vera tilbúin innan 5-10 ára með fleiri óháðar tengingar við landið, heldur en einungis Farice parið, þegar Cantat-3 verður tekinn úr rekstri.

26. des. 2006

Uppfærsla á Picasa (2.6.0.35.97)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.6.0.35.97. Margt er breytt og bætt í þessari nýju útgáfu, m.a. er núna stuðningur við Windows Vista og Internet Explorer 7, betri uppfærslur og hægt er að skoða myndir sem geymdar eru í undirmöppum.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

Click og Over the Hedge

Kvikmyndin Click fjallar um arkitekt á framabraut sem tekur vinnuna fram yfir fjölskylduna. Hann eignast "universal remote control" sem getur "remote controlled the universe". Til að byrja með notar hann þessa fjarstýringu til að flýta fyrir sér en fer svo að misnota hana. Að lokum tekur fjarstýringin af honum völdin og líf hans verður ömurlegt. Þetta er köflótt mynd, sum atriðin eru óborganleg en svo dettur myndin stundum niður þess á milli. Góð skemmtun engu að síður.

Fær 7/10 í einkunn.

Teiknimyndin Over the Hedge er fín afþreying fyrir börn en er annars uppfull af klisjum (ekki ósvipað Cars). Það helsta sem er áhugavert við þessa mynd er hve vel hefur tekist að teikna feld og hár og nokkur hasaratriði sem eru listilega gerð.

Fær 6/10 í einkunn.

24. des. 2006

Jól 2006

... og líða nú jólin við kertaljós og klæðin rauð.

23. des. 2006

Uppfærslur frá Apple (2006-008)

Apple gaf út 1 uppfærslu fyrir Mac OS X (2006-008). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

20. des. 2006

Lélegar nettengingar til útlanda

Seinustu vikur hafa þær nettengingar til útlanda sem ég hef aðgang að verið mjög lélegar, slitróttar og hægvirkar. Þær eru allar hjá Vodafone. Sérstaklega er ástandið slæmt seint á kvöldin.

Nýlega var birt skýrsla starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til að fjalla um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem kom fram í þessari skýrslu (grein 3.10) er að verð á útlandatengingum hér er 8-11 dýrara en erlendis. Afleiðing þessarar háu verðlagningar er sú að netveiturnar kaupa eins litla bandvídd til útlanda og þau komast upp með, reyna að fresta stækkunum í lengstu lög og beita allskonar brögðum eins og Traffic Shaping og Quality of Service til að "minnka álagið". Það verður reyndar til þess að það sem notandinn fær er "Trickle Traffic" og "Lack of Quality of Service".

Netveiturnar keppast við að bjóða 8-12 Mb/s ADSL tengingar en staðreyndin er sú að þessi hraði næst einungis á milli viðskiptavinarins og næsta tengipunktar hjá netveitunni. Hugsanlega næst hann innanlands ef lítið álag er á netinu. En þessi hraði næst ekki frá útlöndum, nema e.t.v. í mjög stuttan tíma og við mjög sérstakar aðstæður, því það eru alltof margir notendur. Segjum t.d. að Vodafone sé með 750 Mb/s heildartengingu til útlanda. Ef hver viðskiptavinur er að nota 12 Mb/s þá geta verið 62 notendur samtímis. Ef þeir eru fleiri (og þeir eru mun fleiri) að þá fær hver og einn minni bandvídd til umráða.

Ástandið snarversnaði þegar Cantat-3 sæstrengurinn bilaði um seinustu helgi. Vodafone segir í tilkynningu á vefsetri sínu að bilunin "getur haft áhrif netsamskipti [...] til útlanda" en það er mjög vægt til orða tekið svo ekki sé nú meira sagt. Tengingar til og frá Bandaríkjunum og Kanada eru hryllilega lélegar þessa dagana.

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.1)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.1. Í þessari útgáfu eru m.a. 8 öryggisuppfærslur (2006 nr. 68-73 og 75-76) auk stuðnings við Windows Vista. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

17. des. 2006

Cantat-3 bilaður

Uppfært 10.01.: Byrjað verður að gera við Cantat-3 sæstrenginn hinn 13.01. nk. og stöðvast umferð í 10 daga á meðan á viðgerð stendur. Þetta mun valda truflunum á netumferð hjá RHnet en ekki hjá Símanum, enda greip Síminn strax til ráðstafana við bilunina og flutti umferð yfir á Farice-1 sæstrenginn. Engar fréttir hafa borist af því hvað Vodafone hefur gert eða mun gera.

Í skýrslu starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta, sem var birt nýlega, kemur fram (sjá grein 3.10) að það væri "áhyggjuefni [...] ef bilun yrði á strengnum í sjó þar sem viðgerð getur tekið allt að 14 daga". Þegar viðgerð lýkur hinn 22.01. hefur Cantat-3 verið bilaður í 37 daga.

Uppfært 18.12.: Vesturleggur Cantat-3 (frá Íslandi til Kanada) bilaði aftur í morgun. Ekki er búist við að takist að gera við þann hluta strengsins í bráð.

Uppfært 17.12.: Bráðabirgðaviðgerð er lokið á Cantat-3 en fullnaðarviðgerð fer fram síðar. Algjört sambandsrof var frá um kl. 23:30 í gær til um kl. 19:30 í kvöld eða í um 20 klukkustundir. Búast má við einhverjum truflunum á netsambandi þar til viðgerðum er endanlega lokið.

Upprunalegt 17.12.: Sæstrengurinn Cantat-3 er bilaður og verður hugsanlega bilaður í 2-3 vikur.

Net- og fjarskiptasamband til og frá Íslandi hangir nú á einum sæstreng, Farice-1. Þeir sem eingöngu nota Cantat-3, eins og RHnet (Landspítalinn og háskólarnir), eru algjörlega sambandslausir við umheiminn.

Fyrr í þessum mánuði var birt skýrsla starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem starfshópurinn lagði til (sjá grein 3.10) var að lagður yrði nýr sæstrengur hið fyrsta, Farice-2, til að hringtengja Farice kerfið svo að bilanir á sjó valdi ekki langvarandi sambandsleysi, en um 14 daga getur tekið að gera við slíka bilun. Var sérstaklega til þess horft að Cantat-3 strengurinn er orðinn mjög gamall, með takmarkaða flutningsgetu og er byggður á úreltri tækni.

Samgönguráðherra hefur samþykkt að fara að tillögum starfshópsins. Mun verða fjallað um þær á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn, skv. frétt RÚV, og er viðeigandi að það gerist í skugga yfirstandandi alvarlegrar bilunar af þessum toga.

Raunveruleikir

Uppfært 28.12.: Ég tjáði mig aftur, sérstaklega hnyttilega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í annarri frétt á RÚV.

Uppfært 27.12.: Ég tjáði mig, ákaflega spekingslega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í frétt á RÚV.

Upprunalegt 17.12.: Raunveruleikir á netinu (MMORPG), þar sem fólk spilar í sýndarheimi með eða á móti hverju öðru, verða æ vinsælli og umfangsmeiri.

Það eru velþekkt dæmi um það að fólk þarf stundum að mæta í þá leiki á tilteknum tímum, t.d. til að taka þátt í aðgerð með tugum annarra spilara. Svo getur stríð brotist út á hvaða tíma sólarhringsins sem er og þá þurfa menn e.t.v. að vakna um miðja nótt og mæta í leikinn til að aðstoða félaga sína. Eða mæta á réttum tíma fyrir upptökur á kvikmynd í World of Warcraft...

Umfangið er þó farið að taka á sig nýja mynd og slíkir leikir eru farnir að verða æ meiri hluti af raunverulegu lífi fólks. Þetta byrjaði með því að spilarar fóru að selja leikmuni og -peninga á eBay en núna eru fyrirtæki og stjórnvöld farin að taka þátt. Sem dæmi má nefna að Reuters opnaði nýlega fréttastofu í Second Life (en þar "búa" um 2 milljónir manna), Adidas og Toyota hafa opnað verslanir þar og bjóða sýndarútgáfur af raunverulegum vörum og önnur fyrirtæki eru að velta fyrir sér að opna útibú í leiknum til að þjónusta íbúana.

Spilarar eru líka farnir að krefjast þess að fá lögbundin eignarrétt á leikmununum og -peningunum sínum og vernd gagnvart höfundum og rekstraraðilum leikjanna. Á sama tíma eru bandarísk stjórnvöld farin að velta fyrir sér að skattleggja tekjur og eignir fólks í svona leikjum. Enda eru raunveruleikir með sitt eigið hagkerfi, sem m.a. birtist í því að CCP birtir atvinnuauglýsingu í dag og óskar eftir hagfræðingi til að greina og birta skýrslur um hagkerfi EVE Online.

Í mörgum tilfellum er vel skiljanlegt að fólk vilji spila slíka leiki sem afþreyingu, í ævintýraheimum eins og World of Warcraft og EVE Online. En hvers vegna vill fólk frekar fara á fætur, fara í vinnuna, borga af húsnæðinu og þvo þvott í The Sims Online heldur en í raunveruleikanum? Spyr sá sem ekki veit...

15. des. 2006

Viðvörun vegna galla í Yahoo Messenger og uppfærsla (8.1)

Yahoo! Messenger spjallforritið hefur verið uppfært í útgáfu 8.1. Samtímis útgáfunni gaf Yahoo! út viðvörun (120806) vegna öryggisgalla í fyrri útgáfum af Yahoo! Messenger. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með því.

Þeir sem settu upp Yahoo! Messenger fyrir 02.11. ættu að uppfæra upp í þessa nýju útgáfu, sem má sækja beint frá Yahoo!.

Á Íslandi nota nær allir MSN/Live Messenger en á heimsvísu nota álíka margir MSN/Live Messenger og Yahoo! Messenger. Þau eru hins vegar í 2.-3. sæti, langt á eftir AOL Instant Messenger (AIM) sem er með fleiri notendur heldur en öll hin spjallforritin samanlagt.

12. des. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (desember 2006)

Uppfært 16.12.: Samtímis útgáfu öryggisuppfærslna í desember, þá gaf Microsoft út uppfærslu fyrir Internet Explorer 7 (KB 928089). Þessi uppfærsla var ekki gefin út í gegnum Microsoft Update og farið hefur mjög lítið fyrir henni. Hún leysir það vandamál þegar hinn nýi "Phishing Filter" í IE7 verður til þess að örgjörvanotkun IE7 verður mjög mikil og tölvan verður mjög hægvirk.

Uppfært 13.12.: Seinnipart nóvember gaf Microsoft út nýja útgáfu 6.0 af Remote Desktop Connection (einnig þekkt sem RDC eða Terminal Services Client) fyrir Windows XP og Windows Server 2003. Þessi nýja útgáfa er nú aðgengileg í gegnum Microsoft Update.

Upprunalegt 12.12.: Microsoft gaf út 7 öryggisuppfærslur í dag (12.12.) fyrir Windows og Internet Explorer (2006 nr. 72-78). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

6. des. 2006

Ný útgáfa af Adobe Reader og Acrobat (8.0)

Adobe Reader og Acrobat hafa verið uppfærð í nýja útgáfu 8.0, sem býður upp á nýtt viðmót og ný tól til að vinna með PDF skjöl. Nýju útgáfuna af Adobe Reader má sækja beint frá Adobe en kaupa þarf uppfærslu af Adobe Acrobat.

Samtímis útgáfunni gaf Adobe út viðvörun (APSB06-20) vegna öryggisgalla í útgáfum 7.0.0-7.0.8 á Windows. Notendur eru hvattir til að uppfæra upp í nýju útgáfuna (eða fylgja leiðbeiningunum í viðvöruninni um hvernig má lagfæra gallann ef þeir geta ekki uppfært).

3. des. 2006

The Majestic

Kvikmyndin The Majestic er um handritshöfund sem lendir á hinum alræmda "svarta lista" þegar leit að kommúnistum stóð sem hæst í BNA í kalda stríðinu. Hann er rekinn, lendir í slysi, missir minnið og sest svo að í bæ einum þar sem fólk telur hann ranglega vera mann sem týndist í seinni heimsstyrjöldinni. Sagan er dálítið hæg en þetta er þokkaleg skemmtun.

Fær 6/10 í einkunn.

2. des. 2006

Vodafone hendir pósti

Uppfært 05.12.: Pósturinn minn er kominn í lag. Kerfisstjórar Vodafone voru allir af vilja gerðir til að leysa vandamálið (þegar ég loksins komst framhjá þjónustuverinu og í beint samband við þá) en á endanum var niðurstaðan að slökkva á síun hjá mér.

Upprunalegt 02.12.: Fyrr í vikunni tók Vodafone í notkun nýja ruslpóstssíu. Það er lofsvert framtak að bjóða betri þjónustu... ef þessi nýja þjónusta væri í raun betra heldur en það sem fyrir var!

Því miður er hún verri en ekki neitt því Vodafone er að henda raunverulegum pósti í miklum mæli.

Það eru fjölmörg vandamál: Nýja ruslpóstsían á við stórfenglegt "false-positive" vandamál að stríða, þ.e. hún flaggar raunverulegan tölvupóst ranglega sem rusl í miklum mæli. Hún hendir öllum slíkum tölvupósti þannig að viðtakendur geta ekki áttað sig á því sem gerst hefur því þeir fá ekki póstinn (ranglega) merktan sem rusl, heldur berst hann einfaldlega aldrei. Síðan er engin sóttkví á netinu sem hægt er að fara í til að finna slíka tölvupósta og/eða breyta stillingum.

Það versta er svo að starfsfólk í þjónustuveri Vodafone virðist ekki átta sig á vandamálinu og getur ekki hjálpað notendum, nema að vísa málinu til kerfisstjóra. Ég er búinn að kvarta mikið á undanförnum dögum og er í þeirri aðstöðu að geta fullyrt um hvaða tölvupósta ég hefði átt að fá, frá hverjum, klukkan hvað og jafnvel hvaða kennitölu þeir fengu þegar þeir komu inn í póstkerfi Vodafone. En ég bíð enn eftir svari og lausn.

1. des. 2006

Casino Royale

James Bond myndin Casino Royale er líklegasta besta Bond myndin í langan tíma. Hún er hrottaleg eins og þegar Sean Connery lék hann (það sér á Bond eftir slagsmál) og það eru engin heimskuleg fíflalæti með Q.

Þessi mynd er alls ekki gallalaus, hún er stundum alltof hæg en svo er skyndilega hoppað á milli atriða og söguþráðurinn er á köflum varla trúanlegur. Samtölin geta líka verið ansi stirð, nema atriði með James Bond og Vesper Lynd um borð í lest á leið til Svartfjallalands sem er stórgóð skemmtun. En byrjunaratriðið er flott, spennan er þétt, hasarinn góður og skemmtunin fín. Mjög góð mynd.

Fær 8/10 í einkunn.

29. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í Adobe Reader og Acrobat

Adobe hefur gefið út viðvörun (APSA06-02) vegna galla í Adobe Reader og Acrobat útgáfu 7.0.0-7.0.8 á Windows. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með Adobe Reader og Acrobat sem notuð er í Internet Explorer til að birta PDF-skjöl. Notendur annarra vefsjáa eru ekki í hættu. Adobe vinnur að uppfærslu (líklega 7.0.9) sem verður væntanlega gefin út fljótlega.

Uppfærslur frá Apple (2006-007)

Apple gaf út 31 uppfærslu fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2006-007). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

The Lake House

Kvikmyndin The Lake House er rómantísk saga um elskendur sem eru aðskildir í tíma, hjá honum er árið 2004 en hjá henni er 2006. Þau eiga í ástarsambandi með aðstoð dularfulls póstkassa sem þau nota til að senda skilaboð og hluti sín á milli. Þetta er endurgerð á nýlegri kóreskri mynd, Il Mare (Siworae). Þetta er mjög falleg og skemmtileg saga og vel leikin af Keanu Reeves og Söndru Bullock.

Tímaferðalög bjóða upp á allskonar vitleysu um hvaða eintak af hverjum gerði hvað á hverjum tíma. Það er sem betur fer ekki of mikið af slíku í þessari mynd, nema rétt undir lokin þegar handritshöfundunum hefur þótt nauðsynlegt að fá góðan Hollywood endi á myndina. Þrátt fyrir það er þetta góð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

25. nóv. 2006

6 MP er ekki það sama og 6 MP

Ég hef átt Olympus D-490 Zoom stafræna myndavél í rúm 5 ár. Þetta er 2 MP vél með 4,6 cm skjá (1,8") sem tekur ótrúlega góðar myndir. Fallegir litir og skýrar myndir. Því miður var hún farin að láta á sjá; dauðir punktar komnir í myndirnar, flassið ekki eins bjart og áður; og því var nauðsynlegt að fara að kaupa nýja.

Mér áskotnaðist nýlega HP Photosmart E427, sem er 6 MP vél. Á pappírunum er hún mun betri myndavél en Olympus vélin en þvílíkt og annað eins drasl hef ég sjaldan komist í kynni við. Myndirnar eru kornóttar, fókusinn lélegur og þetta er á allan hátt myndavél sem er ekki peninganna virði (þ.e.a.s hefði ég borgað eitthvað fyrir hana). Hún er verri en Olympus vélin og kom alls ekki til greina sem framtíðarmyndavél.

Ég keypti því Canon Ixus 65 (seld í BNA sem Canon PowerShot SD630) sem er 6 MP myndavél með 7,6 cm skjá (3"). Þetta er frábær myndavél sem tekur stórkostlegar myndir og er með allskonar skemmtilega fídusa. Einnig kostaði hún minna í búð á höfuðborgarsvæðinu (m/vsk) heldur en í Fríhöfninni (án/vsk), sem segir töluvert um okrið þar á bæ.

Á pappírunum er enginn sérstakur munur á HP vélinni og Canon vélinni, en í raun og veru eru þær á engan hátt sambærilegar. HP vélin er drasl en Canon vélin er frábær. Það er ekki hægt að treysta lýsingu framleiðandans og hrár samanburður á tölum (eins og upplausn) segir ekki alla söguna. Það er svo margt sem kemur við sögu í heildarpakkanum: Linsan, upplausnin, skjárinn, örgjörvinn og notkunarmöguleikar, svo nokkur helstu atriðin séu nefnd. Það er því alveg bráðnauðsynlegt að sjá myndir sem teknar eru með þeirri vél sem maður ætlar að kaupa og bera saman við svipaðar vélar frá öðrum framleiðendum.

19. nóv. 2006

Thank You for Smoking og The Hitchhiker's Guide to the Galaxy

Kvikmyndin Thank You for Smoking fjallar um talsmann tóbaksframleiðanda, starf hans og samband við fjölskyldu sína. Mjög skemmtileg og áhugaverð sýn inn í starf sem krefst þess að verja slæman málstað. Góð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Hitchhiker's Guide to the Galaxy er byggð á samnefndum bókum eftir Douglas Adams og hann er einnig meðhöfundur að handritinu. Það var við því að búast að það yrði erfitt að kvikmynda þessa sögu og eflaust margir sem verða fyrir vonbrigðum með þessa mynd. Bækurnar eru meinfyndnar, útvarpsleikritin eru stórkostleg, sjónvarpsþættirnir voru lélegir og þessi mynd er ekkert voðalega góð. Hún er þokkaleg ein og sér en stenst ekki samanburð. Ef maður gerir sér ekki of miklar hugmyndir eða vonir fyrirfram þá er þetta góð afþreying. Útvarpsleikritin eru langbest!

Fær 7/10 í einkunn.

16. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í WinZip 10 og uppfærsla (build 7245)

WinZip hefur gefið út viðvörun (WZ 7245) vegna öryggisgalla í Winzip 10. Gallinn er einungis í þeirri tilteknu útgáfu en ekki í útgáfum 8, 9 eða 11. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með WinZip 10 í gegnum Internet Explorer.

WinZip mælir með því að notendur uppfæri í útgáfu 10 build 7245 (ókeypis) eða uppfæri í útgáfu 11 (kostar peninga).

Uppfærsla MS06-067 frá Microsoft sem gefin var út í fyrradag kemur einnig í veg að Internet Explorer geti notað ActiveX stýringar sem fylgja með WinZip 10. Aldrei mun hafa verið ætlunin að hægt væri að nota þær í Internet Explorer og því ákváð Microsoft í samráði við WinZip að fara þá leið að setja "kill bits" fyrir þær.

15. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í Adobe Flash og uppfærsla (9.0.28.0)

Adobe Flash Player hefur verið uppfærður í útgáfu 9.0.28.0. Samtímis útgáfunni gaf Adobe út viðvörun (APSB06-18) vegna öryggisgalla í fyrri útgáfum. Hægt er að sjá núverandi útgáfu sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Adobe.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Flash annars vegar með IE (eingöngu IE-útgáfan) og hins vegar með einhverri annarri vefsjá (útgáfur fyrir aðrar vefsjár).

Þetta er þvert á leiðbeiningar frá Adobe en staðreyndin er sú að útgáfan af Flash sem Adobe vill meina að sé fyrir Firefox, Mozilla, Netscape, Opera og Internet Explorer uppfærir í raun og veru ekki IE. Til þess þarf að sækja IE-útgáfuna.

Athugið að þó að uppfærsla MS06-069 frá Microsoft í gær sé lagfæring á Flash að þá er þar verið að laga aðra og eldri galla í Flash og einungis í þeirri útgáfu af Flash sem fylgdi með Windows XP á sínum tíma en ekki þá útgáfu sem kann að vera á tölvunni núna. Microsoft vísar í gamla viðvörun frá Adobe (APSB06-11) en Adobe lagaði þá galla í útgáfu 9.0.16.0 í sumar.

14. nóv. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (nóvember 2006)

Uppfært 08.12.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 929433) vegna galla sem hefur uppgötvast í Microsoft Word. Verið er að misnota gallann til árása. Microsoft mun auðvitað laga gallann einhverntímann en þangað til eru ráðleggingarnar: "Do not open or save Word files that you receive from un-trusted sources or that you receive unexpectedly from trusted sources". Sem sagt, ekki nota Word...

Uppfært 20.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 928604) vegna þess að búið er að gefa út kóða til að misnota gallann sem lagaður var í uppfærslu MS06-070 fyrr í mánuðinum. Einungis þeir eru í hættu sem ekki hafa enn sett inn þá uppfærslu.

Upprunalegt 14.11.: Microsoft gaf út 6 öryggisuppfærslur í dag (14.11.) fyrir Windows og Internet Explorer (2006 nr. 66-71). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

13. nóv. 2006

Andlát tölvu

Tölvan mín dó fyrir um viku síðan, nánar tiltekið að morgni 04.11.2006. Fyrirvarinn var enginn. Ég hafði ræst hana fyrr um morguninn, um áttaleytið, og lesið fréttir en slökkti svo á henni. Stýrikerfið ræsti aldrei aftur. Það var 5 ára, 3 mánaða og 5 daga gamalt.

Þessi uppsetning var síðan 30.07.2001 kl. 16:23. Orsökin reyndist vera bilaður diskur þannig að ég keypti nýjan disk og setti upp nýtt stýrikerfi, sem ræsti í fyrsta skipti 04.11.2006 kl. 17:34.

Tölvan er látin, lengi lifi tölvan.

11. nóv. 2006

Mission: Impossible III

Kvikmyndin Mission: Impossible III er fín hasarmynd. Söguþráðurinn skiptir ekki öllu máli (en hann er trúanlegur og það er samhengi í honum) því það er góður og skemmtilegur hasar í þessari mynd frá upphafi til enda.

Fyrsta myndin, Mission: Impossible, var mjög góð og fersk og fékk 7/10 í einkunn. Önnur myndin, Mission: Impossible II, var leiðinleg og ruglingsleg, var alveg á mörkum þess að vera þess virði að horfa á honum og fékk 5/10 í einkunn. Menn hafa lært af þeim mistökum og þriðja myndin er mun betri. Góð skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

29. okt. 2006

The Three Burials of Melquiades Estrada og House of Sand and Fog

Kvikmyndin The Three Burials of Melquiades Estrada fjallar um ólöglegan mexíkóskan innflytjanda sem drepinn er af bandarískum landamæraverði. Vinur hans og vinnuveitandi rænir landamæraverðinum og neyðir til að koma með sér til Mexíkó til að grafa hann heima hjá sér. Fyrri hluti myndarinnar er sagður í myndbrotum sem eru ekki í réttri tímaröð en seinni hlutinn er línulegur. Athyglisverð mynd en stundum er lítið að gerast, sérstaklega hjá konu landamæravarðarins.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin House of Sand and Fog er áhrifarík saga um íranska innflytjendur til Bandaríkjanna og tilraunir þeirra til að koma undir sig fótunum. Þau kaupa hús á uppboði og fjallar sagan um baráttu þeirra og fyrri eiganda um húsið. Allt fer á versta veg og eru allar söguhetjurnar dauðar við lok myndar. Mjög góð saga og sannfærandi leikur en fremur hæg mynd á köflum.

Fær 7/10 í einkunn.

28. okt. 2006

Dýr netframköllun á Íslandi

Netframköllun er mjög dýr á Íslandi en sem betur fer er hægt að láta framkalla myndir erlendis og senda heim. Ef við berum saman Hans Petersen á Íslandi og Bonusprint America þá kemur í ljós að Hans Petersen er um 140% dýrari en Bonusprint.

Þessi tala er byggð á raunverulegu dæmi um 223 myndir sem voru sendar í netframköllun hjá Bonusprint.

Hver mynd hjá Bonusprint kostar ¢11 eða kr. 7,47 (m.v. gengi USD í dag). Við það bætist 10% tollur og 24,5% VSK svo að hver mynd kostar kr. 10,04 samtals. Heild fyrir 223 myndir er þá kr. 2.239,88. Við það bætist póstburðargjald kr. 273,02 til Íslands og tollmeðferðargjald kr. 350,00.

Heild er þá kr. 2.862,91 eða kr. 12,84 fyrir hverja mynd hjá Bonusprint.

Berum saman við Hans Petersen. Þar kostar hver mynd með VSK kr. 29,00. Heild fyrir 223 myndir er þá kr. 6.467,00. Við það bætist heimsending kr. 300,00.

Heild er þá kr. 6.767,00 eða kr. 30,35 fyrir hverja mynd hjá Hans Petersen.

Í báðum tilfellum er um nákvæmlega sömu þjónustu að ræða, myndir afhentar með rafrænum hætti og þeim skilað útprentuðum heim að dyrum. Hans Petersen er því 136,40% dýrari en Bonusprint í þessu tiltekna dæmi, sem er gífurlegur verðmunur.

24. okt. 2006

Ný útgáfa af Firefox (2.0)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í nýja útgáfu 2.0. Þessi útgáfa kemur í kjölfar útgáfu 1.5, sem kom út fyrir tæpu ári síðan (29.11.2005), og byggir að mestu leyti á henni en þó með töluverðum viðbótum.

Meðal nýjunga eru endurbætt útlit, aukið öryggi, "live titles", innbyggð ritvilluvörn og endurhannaður viðbótastjóri. Einnig eru betri innbyggðir leitarvélar sem auðveldara er að bæta við og fjarlægja. Flipastjórnun hefur verið bætt mjög. Auk þess er núna innbyggð hrunvörn þannig að ef kerfið hrynur þá er hægt að ræsa Firefox aftur og halda áfram þar sem frá var horfið.

Þessi nýja útgáfa er fyrir allar útgáfur af Windows, Mac OS X, Linux, Solaris, BSD o.sv.frv.

Internet Explorer 7.0 tókst því að vera besta vefsjáin á markaðinum í heila fimm daga áður en Firefox 2.0 hirti aftur titilinn.

Öryggisgalli í Internet Explorer 7.0

Fyrsti öryggisgallinn í Internet Explorer 7.0 er kominn í ljós. Nýja útgáfan var gefin út 18.10. og Secunia gaf út viðvörun (SA22477) strax daginn eftir. Þetta er reyndar ekki nýr galli því samkvæmt fyrri viðvörun Secunia (SA19738) er þetta galli sem uppgötvaðist í Internet Explorer 5.5 og 6.0 í lok apríl, sem enn hefur ekki verið lagaður, og hrjáir greinilega einnig útgáfu 7.0.

Uppi eru deilur um þennan galla. Microsoft hefur mótmælt því að þetta sé galli í Internet Explorer og bendir á að gallinn sé í raun og veru í Outlook Express. Microsoft er auðvitað mikið í mun að halda uppi þeirri ímynd nýju útgáfunnar af Internet Explorer að hún sé mun öruggari en fyrri útgáfur. Secunia hefur á móti bent á að eingöngu er hægt að misnota gallann í gegnum Internet Explorer en ekki í gegnum Outlook Express.

Óljóst er hvenær þessi galli verður lagaður en hugsanlega verður það 14.11. nk.

22. okt. 2006

Viðvörun vegna galla í Opera

Opera Software hefur gefið út viðvörun (2006-10-17) vegna galla í Opera 9.00 og 9.01 sem tölvuþrjótar gætu misnotað. Gallinn er ekki til staðar í útgáfu 9.02 (og reyndar heldur ekki í útgáfu 8).

Opera Software mælir með því að uppfæra upp í útgáfu 9.02 sem gefin var út 21.09. sl.

21. okt. 2006

Er kennitala sönnun þess hver þú ert?

Í Fréttablaðinu í dag (21.10., bls. 6, neðst) er frétt um þjófnað og þar stendur að þetta sé "þriðja málið á tiltölulega skömmum tíma þar sem fólk reynir að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp ranga kennitölu".

Það er alveg ótrúlega algengur misskilningur að halda það að kennitölur séu sönnun fyrir því hver einhver sé. Meira að segja lögreglan hefur fallið í þá gildru og t.d. kært saklaust fólk fyrir of hraðan akstur byggt á því að sá sem var tekinn gaf upp aðra kennitölu en sína eigin.

Hver sem er getur komist að því hver kennitala einhvers annars er og það er hið besta mál. Þetta er mjög þægilegt kerfi sem t.d. auðveldar okkur að millifæra peninga og er til almenns hagræðis, einföldunar í tölvukerfum og þæginda í daglegu lífi.

Þar að auki þá kemur þetta opna kerfi ásamt þjóðskrá í veg fyrir "identity theft" (stundum kallað "kennitölustuldur" á íslensku en það lýsir ekki alveg nógu vel þessari tegund glæpa), sem er víða töluvert vandamál, m.a. í Bandaríkjunum. Sem einfaldað dæmi um identity theft þá myndi glæpamaður sækja um kreditkort og gefa upp nafn og "social security number" (SSN) einhvers annars en rangt heimilisfang, svo viðkomandi fái nú ekki reikningana og fatti strax hvað sé í gangi. Bankinn flettir þessu SSN upp hjá "credit reporting agencies" (það eru þrjú stór slík fyrirtæki í Bandaríkjunum) og kemst að því að SSN-ið passar við nafnið en ekki heimilisfangið. Viðkomandi glæpamaður segist vera nýfluttur og bankinn tekur þetta allt saman gott og gilt. Bankinn lítur á vitneskju glæpamannsins um SSN-ið sem sönnun þess hver hann er og sendir alla reikninga og tilkynningar á heimilisfangið sem hann gaf upp.

Á Íslandi myndi enginn, eða allavega ætti enginn, að líta á vitneskju um kennitölu sem sönnun fyrir einu né neinu og biðja einfaldlega um skilríki. Í öðru lagi senda bankar allar tilkynningar á heimilisfang í þjóðskrá en ekki á eitthvert heimilisfang sem fólk gefur upp. Fólk er einfaldlega beðið um að laga skráningu í þjóðskrá og þá munu tilkynningarnar sjálfkrafa elta það. Því myndi fórnarlamb íslensks kennitölustulds fá tilkynningar mjög fljótlega um hluti sem það kannaðist ekki við.

Kennitölur eru tól til einföldunar og hagræðis en eru ekki sönnun fyrir einu né neinu. Þær ber að nota sem slíkar.

19. okt. 2006

Ný útgáfa af Internet Explorer (7.0)

Internet Explorer vefsjáin hefur verið uppfærð í nýja útgáfu 7.0. Er þetta í fyrsta sinn í meira en fimm ár sem ný útgáfa kemur út en útgáfa 6.0 kom út 27.08.2001.

Meðal nýjunga eru endurhannað útlit, bætt öryggismál, endurbætt prentun og innbyggður RSS/Atom lesari.

Einnig er hægt að skoða síður í flipum, eins og hefur verið hægt í Firefox og Opera mjög lengi en Internet Explorer 7 bætir við "flýtiflipum" ("Quick Tabs") þar sem hægt er að sjá smækkaða útgáfu af þeim vefsíðum sem hafa verið opnaðar í flipum. Þetta er mjög sniðugt og ekki ósvipað Exposé í Mac OS X.

Í þessari nýju útgáfu er loks stuðningur við íslensk lén (IDN), sem hefur verið hægt að skrá hjá ISNIC síðan 01.07.2004 eða í tæp tvö og hálft ár, en aðrar vefsjár (eins og Firefox) hafa stutt IDN lén í nokkurn tíma.

Þessi nýja útgáfa er fyrir Windows XP SP2 og Windows Server 2003 SP1 og mun koma með Windows Vista. Hinsvegar verða Windows 2000 SP4 notendur að halda áfram að nota útgáfu 6.0 (nánar tiltekið útgáfu 6.0 SP1).

Vírus á iPod

Apple sendi frá sér tilkynningu í dag um að nokkrir Video iPods hefðu frá 12.09. verið með tölvuvírus, nánar tiltekið W32/RJump (afbrigði A, B, C eða E; einnig þekktur sem Rajump, Jisx og Siweol; kallaður RavMonE.exe í fréttatilkynningu Apple).

Þessi vírus smitar eingöngu tölvur með Windows stýrikerfinu frá Microsoft en ekki tölvur með Mac OS X stýrikerfinu frá Apple.

17. okt. 2006

Uppfærsla á Google Toolbar (4.0.1019.5764)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu útgáfu 4.0.1019.5764 fyrir Internet Explorer. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Google.

16. okt. 2006

Uppfærsla á Picasa (2.5.0.32.95)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.5.0.32.95. Margt er breytt og bætt í þessari nýju útgáfu og er m.a. búið að laga vandamál sem komu upp ef nöfn mynda innihéldu einhverja af stöfunum "ðýþÐÝÞ", sérstaklega ef nöfnin byrjuðu eða enduðu á einhverjum þessara stafa.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

13. okt. 2006

The da Vinci Code

Kvikmyndin The da Vinci Code er sérstaklega áhugaverð enda byggir hún á mjög skemmtilegri og þekktri bók og skartar úrvals leikurum eins og Tom Hanks, Audrey Tautou, Ian McKellen og Jean Reno sem skila mjög góðri vinnu. Myndvinnslan er mjög góð, áferð myndarinnar falleg og brellur eru notaðar á réttum stöðum án þess að vera yfirþyrmandi. Öll smáatriði eru í lagi, t.d. tala Frakkarnir frönsku sín á milli, sem maður hefði ekki búist við í Hollywood mynd, sem eykur raunsæi myndarinnar. Framúrskarandi skemmtun.

Fær 9/10 í einkunn.

10. okt. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (október 2006)

Uppfært 04.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 927892) um galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Microsoft XML Core Services. Búið er að gefa út sýnikóða sem misnotar gallann og er verið að reyna að nota hann til árása.

Uppfært 01.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 927709) um galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Visual Studio 2005. Búið er að gefa út sýnikóða sem misnotar gallann og er verið að reyna að nota hann til árása.

Uppfært 22.10.: Fyrsti öryggisgallinn í Internet Explorer 7.0 er kominn í ljós. Það tók ekki langan tíma en nýja útgáfan var gefin út 18.10. og Secunia gaf út viðvörun (SA22477) strax daginn eftir. Þetta er reyndar ekki nýr galli því samkvæmt fyrri viðvörun Secunia (SA19738) er þetta galli sem uppgötvaðist í Internet Explorer 5.5 og 6.0 í lok apríl, sem enn hefur ekki verið lagaður, og hrjáir greinilega einnig útgáfu 7.0. Óljóst er hvenær þessi galli verður lagaður.

Uppfært 19.10.: Microsoft gaf uppfærslu MS06-061 aftur út í dag fyrir Windows 2000 vegna galla í fyrri útgáfu þeirrar lagfæringar.

Upprunalegt 10.10.: Seinasti mánuður var mjög slæmur fyrir Microsoft. Upphaflega voru einungis gefnar út 3 uppfærslur hinn 12.09. sl. en síðar í mánuðinum var viðbótaruppfærsla (MS06-055) gefin út utan hefðbundins útgáfutíma til að laga galla í Vector Markup Language (VML). Auk þess komu fjölmargir aðrir gallar í ljós, sem Microsoft gaf út viðvaranir vegna.

Microsoft gaf út 10 öryggisuppfærslur í dag (10.10.) fyrir Windows, Office og .NET (2006 nr. 56-65). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Þó svo að Microsoft hafi gefið út 10 öryggisuppfærslur er ekki víst að tölvan sæki 10 viðbætur. T.d. eiga tvær þessara uppfærslna ekki við Windows 2000 og því eru engar viðbætur í því tilfelli. Ein uppfærslan á við allar útgáfur af Windows og einnig Office 2003 (en ekki aðrar útgáfur af Office) og er uppfærslan í tveimur viðbótum. Svo eru einnig gefnar út aðrar lagfæringar, sem sumar snúa ekki að öryggisvandamálum.

Svo dæmi séu tekin, þá myndi Windows Server 2003 sækja 7 viðbætur, Windows XP með Office 2003 myndi sækja 14 viðbætur og Windows 2000 með Office XP myndi sækja 9 viðbætur.

A Scanner Darkly

Kvikmyndin A Scanner Darkly er töluvert sérstök. Hún fjallar um fíkniefnalögreglumann sem verður að fíkniefnaneytanda þegar hann vinnur að leynilegu rannsóknarverkefni. Í raun er lögreglan að misnota hann og ætlar sér að lauma honum inn til framleiðanda hættulegs fíkniefnis í þeirru veiku von að lögreglumaðurinn rakni við sér þegar hann er kominn inn og hjálpi lögreglunni við að afla sannana.

Við myndina er notuð tækni sem kallast rotoscope og hún hefur því yfirbragð venjulegrar kvikmyndar en er með áferð eins og teiknuð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

8. okt. 2006

"Limbó" og skilgreiningar

Á undanförnum dögum hafa birst fréttir um það að páfinn ætli sér hugsanlega að fjarlægja "limbó" úr kaþólskkristinni trú en limbó er sá staður á milli himins og heljar sem óskírð börn fara til því þau hafa ekki verið hreinsuð af erfðasyndinni, sem annars er hreinsuð með skírn. Væntanlega gildir þetta einungis um óskírð kaþólsk börn.

Fyrstu fregnir um að páfinn ætlaði að tilkynna þetta við messu á föstudaginn sl. voru rangar því hann minntist ekkert á þetta og talsmenn páfagarðs sögðu eftir messuna að þetta væri enn til skoðunar og líklega myndi ekkert gerast fyrr en á næsta ári. Þetta er endurskoðunarvinna sem mun hafa staðið yfir síðan 2004.

Ætli það sé verið að reyna að mæla í páfagarði hvort limbó sé til eða ekki með mælitækjum og vísindalegum rannsóknum, eins og stjarneðlisfræðingar reyna að greina stjörnur sem eru langt í burtu? Eða er þetta bara skilgreining sem verið er að fjarlægja af því að hún fellur ekki nógu vel að nútímahugsunarhætti?

Ef hægt er að fjarlægja limbó með því að fjarlægja skilgreiningu, hvað annað í kristinni trú er þá bara skilgreining en ekki raunveruleiki eða staðreynd í einhverjum skilningi (eða í hvaða trú sem er)?

Er guð þá einungis til skv. skilgreiningu og hann má þá fjarlægja hvenær sem er með breyttri skilgreiningu?

X-Men: The Last Stand

Kvikmyndin X-Men: The Last Stand er sú þriðja í röð X-Men myndanna en áður hafa komið X-Men og X2 (sem báðar fengu 6/10 í einkunn). Myndina prýðir fjöldi þekktra leikara og hasarinn er í algleymingi (að mestu leyti allavega). Söguþráðurinn er ekki alveg nógu sannfærandi en þetta er góð afþreying.

Fær 6/10 í einkunn.

1. okt. 2006

Uppfærsla á Adobe Shockwave (10.1.4.020)

Adobe Shockwave Player hefur verið uppfærður í útgáfu 10.1.4.020. Hægt er að sjá núverandi útgáfu sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Adobe.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Shockwave með einhverri annarri vefsjá en IE (útgáfur fyrir allar vefsjár; ef Shockwave er sótt með IE þá er einungis IE-útgáfan sótt).

28. sep. 2006

Uppfærsla á ZoneAlarm (6.5.737.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 6.5.737.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

27. sep. 2006

Íslensk lén

Í Fréttablaðinu í dag (27.09., bls. 16, efst hægra megin) er frétt um íslensk lén. Fréttin byrjar á þessari setningu: "Íslenskir bókstafir eru ekki leyfilegir í lénum á internetinu."

Þessi fullyrðing Fréttablaðsins er kolröng. Íslenskir stafir eru víst leyfilegir í lénum á netinu. Það er ekki enn útbreiddur stuðningur við aðra bókstafi en þá sem finna má í bandarískri ensku en íslenskir stafir eru engu að síður leyfilegir. Þar að auki eru þeir studdir og eru í notkun á .is en Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hefur tekið við lénaskráningum með íslenskum bókstöfum (svokölluðum IDN skráningum) síðan 01.07.2004 eða í tæp tvö ár og þrjá mánuði.

Það kostulegasta við frétt Fréttablaðsins er að þess eigið lén er skráð með bæði enskum og íslenskum bókstöfum hjá ISNIC, þ.e.a.s. lénin frettabladid.is og fréttablaðið.is eru bæði skráð og það er meira en ár síðan að fréttablaðið.is var skráð af 365-miðlum hf. Hvernig má það vera að skv. Fréttablaðinu eru íslenskir bókstafir ekki leyfilegir í lénum á netinu en Fréttablaðið hefur samt sem áður tekist að skrá fréttablaðið.is með íslenskum stöfum?

Hið íslenska lén Fréttablaðsins virkar ekki sérstaklega vel þrátt fyrir að rúmt ár sé liðið frá skráningu þess. Ef www.frettabladid.is er opnað þá birtist www.visir.is en ef www.fréttablaðið.is er opnað þá birtist einungis vefsíða sem segir: "Þetta vefsvæði er vistað hjá Og Vodafone".

Aðrir gera betur og t.d. er bæði hægt að fara á www.althingi.is og www.alþingi.is og er nú töluvert meiri reisn yfir seinni vefslóðinni. Hún virkar reyndar ekki í Internet Explorer 5.0, 5.5 eða 6.0 (enginn IDN stuðningur þar) nema með sérstakri vefsjárviðbót eins og i-Nav viðbótinni frá Verisign en almennilegar vefsjár eins og Firefox eiga ekki í neinum vandræðum með hana. (Internet Explorer 7 mun styðja IDN lén.)

Fyrirsögn fréttar Fréttablaðsins er "Misskilningur: Íslensk lén" og það eru orð að sönnu því Fréttablaðið hefur algerlega misskilið íslensk lén.

24. sep. 2006

Keeping Mum, The Sum of All Fears og Hostile Waters

Gamanmyndin Keeping Mum er svartur breskur húmor og segir frá fjölskyldu sem fær til sín húshjálp sem leysir vandamál fjölskyldunnar með því að myrða vandamálin.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Sum of All Fears er blanda af sovétógninni, öfgamönnum, kaldastríðinu, hryðjuverkum, kjarnorkuvá og hetjusögu, öllu vafið í snyrtilegan pakka.

Fær 7/10 í einkunn.

Leikna heimildamyndin Hostile Waters segir frá árekstri bandarísks og sovésks kjarnorkukafbáts undan austurströnd Bandaríkjanna í október 1986, nokkrum dögum fyrir leiðtogafund Reagans og Gorbachevs á Íslandi. Sovéski kafbáturinn skemmist alvarlega, það kviknar eldur í eldflaugageymslunni, kjarnakljúfarnir ofhitna og ástandið er mjög alvarlegt um tíma. Að lokum tekst að forða stórslysi, flestir komast lifandi frá borði og kafbáturinn sekkur.

Það er erfitt að staðsetja "leiknar heimildamyndir" því þær eru hvorki "hreinar heimildamyndir" né "skáldmyndir byggðar á sönnum atburðum". Þetta er þokkaleg kafbátamynd í stíl við K-19: The Widowmaker (sem fékk 7/10 í einkunn) en ekki alveg eins góð.

Fær 6/10 í einkunn.

23. sep. 2006

Hostel og The Hunt for Eagle One

Kvikmyndin Hostel er mjög blóðug og ógeðsleg. Þrír félagar fara í nautnaferðalag til Slóvakíu en lenda í klónum á rússnesku glæpagengi sem notar þá sem fórnarlömb til pyntinga. Gengið selur fólki "sem hefur prófað allt" tækifæri til að pynta og drepa einhvern. Einn þeirra félaganna sleppur og hefnir sín. Það væri e.t.v. hægt að segja að þessi mynd sé tilganglaust ofbeldi frá upphafi til enda en það myndi gefa í skyn að til sé ofbeldi sem hafi tilgang.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Hunt for Eagle One er einstaklega léleg. Hún byrjar með óskiljanlegu og samhengislausu bardagaatriði og heldur síðan áfram á þeim sömu nótunum. Í myndinni leikur m.a. Theresa Randle en hún er verri leikkona en Jennifer Love Hewitt, sem átti þó ekki að vera mögulegt. Forðist þessa mynd sem og framhaldið, The Hunt for Eagle One: Crash Point. Hvorutveggja mjög slæmar myndir.

Fær 1/10 í einkunn.

18. sep. 2006

Einokun á .is

Í Fréttablaðinu í dag (18.09., bls. 15, miðju) er stórfrétt um að það sé "einokun á lénsskráningunni .is" því einungis fyrirtækið Internet á Íslandi hf. sér um þá skráningu. Það er ýmislegt skrýtið í þessari frétt því hún er ekki að segja frá neinu nýju eða einhverju leyndarmáli sem enginn vissi. Þetta er búið að vera svona lengi og ætti að vera öllum kunnugt. Að einkafyrirtæki sjái um skráningu á lénum er heldur ekkert nýtt eða óvenjulegt. T.d. sér Verisign Inc. um skráningu og rekstur á .com og .net, sem eru tvö af stærstu rótarlénum heimsins.

17. sep. 2006

The Mask of Zorro

Kvikmyndin The Mask of Zorro fjallar um það þegar hinn upprunalegi Zorró, leikinn af hinum margreynda Anthony Hopkins, sleppur úr fangelsi og snýr aftur til að hefna dauða konu sinnar. Hann fær sér lærling, leikinn af hinum glæsilega Antonio Banderas, og kennir honum að skylmast og að vera herramaður og nýr Zorró. Inn í söguna kemur einnig dóttir Zorró, leikin af hinni íðilfögru og þrýstnu Catherine Zeta-Jones, en hún og Zorró dragast hvort að öðru. Fín hasar-, drama- og gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

16. sep. 2006

Garfield og Garfield 2

Kvikmyndin Garfield er gerð eftir samnefndum myndasögum. Handritið er einstaklega hugmyndasnautt og staglast á klisjum úr sögunum. Kötturinn er vel teiknaður en leikararnir eru lélegir, sérstaklega er Jennifer Love Hewitt alveg vonlaus leikkona.

Fær 1/10 í einkunn.

Framhaldið, Garfield 2, er síst skárra en fyrri myndin. Jennifer Love Hewitt er verri í þessari mynd en þeirri fyrri, og var þó ekki úr háum söðli að detta, en í staðinn eru komnir tveir vel teiknaðir kettir. Húmorinn er fyrir aldurshópinn 3-6 ára.

Fær 1/10 í einkunn.

15. sep. 2006

Uppfærsla á Firefox (1.5.0.7)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 1.5.0.7. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Extensions : Find Updates : Update/Install Now" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

13. sep. 2006

Uppfærsla á QuickTime (7.1.3)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.1.3. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Apple (veljið QuickTime án iTunes nema ætlunin sé að uppfæra iTunes líka) en einnig má uppfæra nýlegar útgáfur með því að smella á "Help : Update Existing Software..." og fylgja leiðbeiningunum.

Viðvörun vegna galla í Adobe Flash Player

Microsoft og Adobe hafa gefið út viðvaranir (925143 og APSB06-11) vegna Adobe Flash Player. Alvarlegir gallar eru í útgáfu 8.0.24.0 og öllum eldri útgáfum sem tölvuþrjótar gætu misnotað.

Microsoft mun gefa út uppfærslur fyrir þær eldri útgáfur sem dreift var með Windows en þær uppfærslur koma ekki að gagni ef fólk hefur sótt sér nýrri útgáfur beint frá Adobe. Microsoft mun ekki uppfæra nýrri útgáfur.

Adobe mælir með því að uppfæra upp í útgáfu 9.0.16.0 sem gefin var út 27.06. sl.

12. sep. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (september 2006)

Uppfært 01.10.: Þetta hefur verið slæmur mánuður fyrir Microsoft og það er ekkert lát á vandræðunum:

Microsoft hefur uppfært viðvörun SA 925444 (sjá einnig neðar) sem snertir galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Windows. Búið var að gefa út sýnikóða en nú er hann greinilega kominn í notkun og reynt er að misnota gallann.

Öllu verra er að Microsoft hefur einnig gefið út viðvörun (SA 925984) vegna galla í PowerPoint sem þegar er verið að misnota. Farið varlega og opnið ekki viðhengi sem þið fáið með tölvupósti nema þið vitið hvað þau innihalda.

Og að lokum þá hefur Microsoft gefið út viðvörun (SA 926043) vegna galla í Windows Shell. Gallinn er í tiltekinni ActiveX stýringu. Lagfæring verður væntanlega gefin út eftir tíu daga, hinn 10.10. (annan þriðjudag í október).

Uppfært 26.09.: Microsoft hefur gefið út uppfærslu (MS06-055) utan hefðbundins útgáfutíma en næsta almenna útgáfa verður annan þriðjudag í október hinn 10.10. nk. Þessi uppfærsla lagar galla í Vector Markup Language (VML) sem Microsoft hafði áður gefið út viðvörun um (SA 925568, sjá einnig neðar) sem þegar er verið að misnota.

Einnig hefur Microsoft gefið út aftur uppfærslu frá því fyrr í mánuðinum (MS06-049) með minniháttar lagfæringum en fyrri lagfæringin átti það til að eyðileggja þjappaðar skrár (KB 925308) á Windows 2000.

Uppfært 22.09.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 925568) vegna galla í Vector Markup Language (VML). Þegar er verið að misnota þennan galla á vefsvæðum. Gallinn er ekki eingöngu bundinn við Internet Explorer heldur öll forrit sem nota útfærslu Microsoft á VML.

Uppfært 15.09.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 925444) vegna galla í Internet Explorer; nánar tiltekið er galli í tiltekinni ActiveX stýringu, sem fylgir með Windows, sem má misnota. Þegar er búið að gefa út kóða til að misnota þennan galla. Lagfæring verður væntanlega ekki gefin út fyrr en eftir tæpan mánuð hinn 10.10. (annan þriðjudag í október).

Microsoft bendir á nokkrar leiðir í viðvöruninni til að lágmarka áhættuna þangað til en allar eru þær meira eða minna á þann veg að slökkva á ActiveX. En þá er alveg eins hægt að nota ekki Internet Explorer heldur einhverja aðra vefsjá, sem styður ekki hið stórhættulega ActiveX, eins og Firefox eða Opera.

Það er orðið regla fremur en undantekning að strax í kjölfar uppfærslna frá Microsoft koma svona gallar í ljós . Microsoft gefur út uppfærslurnar sínar á öðrum þriðjudegi í hverju mánuði, sem er þekktur sem "Patch Tuesday". Miðvikudagurinn þar á eftir er nú orðinn þekktur sem "Zero-Day Wednesday" en þá gefa tölvuþrjótar út upplýsingar um galla sem þeir hafa fundið og hafa þeir þá a.m.k. mánuð til að misnota þá.

"Zero-Day" er hugtakið sem notað er til að vísa til þess að ekki eru til uppfærslur til að laga opinbera galla en strangt til tekið ætti að kalla þetta "Approximately-Minus-Thirty-Day Wednesday" þar sem líklega er enn tæpur mánuður þar til lagfæring verður gefin út. Dagafjöldann á að reikna út frá þeim tíma þegar lagfæring er gefin út þar til reynt er að misnota viðkomandi galla (sem stundum er samdægurs, þess vegna "Zero-Day", í þeirri von að geta brotist inn á tölvur sem ekki hafa verið uppfærðar nógu fljótt). Ef galli er misnotaður áður en lagfæring er gefin út, eins og nú er farið að gerast ítrekað hjá Microsoft, á dagafjöldinn að vera neikvæður.

Upprunalegt 12.09.: Microsoft gaf út 3 öryggisuppfærslur í dag (12.09.) fyrir Windows og Office (2006 nr. 52-54). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Einnig gaf Microsoft út aftur 2 uppfærslur frá fyrra mánuði með minniháttar lagfæringum (MS06-040 og MS06-042), gaf út uppfærslu á Microsoft Filter Manager (viðvörun SA 922582), sem er tækni sem vírusvarnaforrit munu nota í framtíðinni, og sagði frá galla í Word 2000 sem verður lagaður seinna (viðvörun SA 925059).

IP-tölur og listin að fela sig

Í Fréttablaðinu í dag (12.09., bls. 32, miðju) er fjallað um spjallborðsskrif og hvernig hægt er að nota IP-tölur til að rekja skrifin til höfunda sinna, jafnvel þótt þeir skrifi undir dulnefni. Í þessu tiltekna tilfelli var hægt að rekja IP-töluna til fyrirtækis þar sem sex manns starfa og einungis einn þeirra kom til greina, meðal annars vegna tengsla sinna við spjallborðið.

Það er óskiljanlegt að fólk heldur alltaf að það sé sjálfkrafa nafnlaust á netinu. Verður líklega engu öðru um kennt en vankunnáttu og fáfræði. Það þarf að hafa fyrir því að vera nafnlaus á netinu en það er alls ekki erfitt.

Fyrir utan augljósa hluti eins og að nota dulnefni og annað póstfang (t.d. hjá Hotmail eða Yahoo!) þá þarf fólk að fela IP-töluna sína og helst einnig upplýsingar um vefsjána og tölvuna sína.

Undir engum kringumstæðum ætti fólk að nota tölvu í vinnunni sinni. Það er langauðveldast að rekja þær IP-tölur. Þær eru yfirleitt skráðar á viðkomandi fyrirtæki og þar af leiðandi er fjöldi þeirra notanda sem er á bakvið þær mun minni en ef fólk notar tölvu heima hjá sér og "felur" sig í hópi allra áskrifanda viðkomandi netveitu. Auk þess er ekkert víst að fyrirtækið kæri sig um að fólk sé að nota tölvur og net fyrirtækisins til að stunda iðju sem fólk telur að það þurfi að stunda nafnlaust. Það gæti hugsanlega brotið í bága við netreglur viðkomandi fyrirtækis.

Það er mun betra að nota sína eigin tölvu heima hjá sér eða fara með sína eigin fartölvu út á kaffihús eða annan stað þar sem hægt er að fá aðgang að þráðlausu neti án þess að skrá sig, sem er enn betri aðferð. Þetta er ekki fullkomin aðferð en dugar í flestum tilfellum.

Ef þörf er á betri nafnleynd er hægt að kaupa sér svokallaða "anonymous proxy" þjónustu, t.d. Anonymizer Anonymous Surfing. Þær virka þannig að proxy-netþjónninn tekur það að sér að vera milliliður á milli þess sem vill fela sig og umheimsins. Allar aðgerðir og beiðnir er einungis hægt að rekja aftur til proxy-netþjónsins og ekkert lengra. Auk þess er oft boðið upp á að öll samskipti séu dulrituð, þ.e. að notaður sé HTTPS staðallinn eins og netbankar gera en ekki HTTP eins og flestir netþjónar nota. Svona hugbúnaður er notaður af kínverskum andófsmönnum til að forðast kínversk stjórnvöld en er líka hægt að nota til að fela sig af minna tilefni.

Það er lítt þekkt staðreynd, en vefsjáin sendir ýmsar upplýsingar um tölvuna í hvert skipti sem vefsíða er opnuð í svokölluðum User-Agent streng (sjá dæmi). Þó það sé e.t.v. langsótt að þar séu upplýsingar sem nota megi til að rekja skrif til höfundar þá ætti fólk allavega að hafa það í huga. Einnig skilja flestar vefsjár sögu og innihald vefsíðna eftir á viðkomandi tölvu. Til eru vefsjár eins og Browzar sem segjast skilja ekkert eftir og eru því öruggari í þessu tilliti (ef þær standa undir nafni; en athuga verður að engin vefsjá getur ekki falið IP-töluna, til þess þarf nafnlausan proxy).

Eitt skrýtið atriði var að finna í fréttinni, en það voru upplýsingar um að tveir notendur þessa spjallborðs væru með sama lykilorðið. Sá sem hannaði og/eða skrifaði hugbúnaðinn fyrir þennan spjallborðsvef veit greinilega ekkert hvernig á að útfæra geymslu og notkun lykilorða og ætti að skammast sín. Þau á að geyma dulrituð, með einátta hakkafalli, og nota á mismunandi salt fyrir hvert einasta lykilorð þannig að ekki sé hægt að sjá að tveir notendur séu með sama lykilorðið.

11. sep. 2006

Fréttir og íþróttir

Í Fréttablaðinu í dag (11.09., bls. 2, vinstra megin, bls. 30, miðju) er fjallað um þann fáheyrða atburð þegar kvöldfréttir ríkisútvarpsins hófust á réttum tíma í sjónvarpinu á laugardaginn sl. Ég sendi útvarpsstjóra bréf af þessu tilefni og afrit til frétta- og íþróttadeilda ríkisútvarpsins sem og afrit til Fréttablaðsins:

Herra útvarpsstjóri, Páll Magnússon:

Í Fréttablaðinu í morgun er rætt við yður um það "atvik" þegar kvöldfréttir voru í sjónvarpinu á réttum tíma á laugardaginn sl. Efni fréttar Fréttablaðsins er að einhverjir sjónvarpsáhorfendur hafi brugðist illa við þegar fótboltaleikur nokkur fór langt fram úr áætlun og skipt var yfir á kvöldfréttir á réttum tíma.

Þó svo að skiptiborði ríkisútvarpsins hafi borist hundruð símtala og yður talsvert af tölvupósti þar sem þessu var mótmælt vil ég benda á alla þá (eins og undirritaðan) sem enga ástæðu höfðu til að hringja eða senda tölvupóst því fréttirnar voru á réttum tíma, eins og þær áttu að vera. Miðað við áhorfskannanir, þar sem fréttir hafa ítrekað reynst það efni sem flestir horfa á, vil ég halda því fram að við séum hinn þögli meirihluti í þessu máli. Ég vil ennfremur taka undir orð Elísabetar Gunnarsdóttir, þjálfara Vals, í Fréttablaðinu í dag um að þeir sem höfðu áhuga á þessum leik hefðu einfaldlega getað mætt á völlinn. Af myndum frá vellinum mátti sjá að það var gríðarlega mikið laust pláss í stúkum vallarins fyrir alla þá sem hefðu haft áhuga á að horfa á leikinn.

Ég vil hrósa starfsfólki ríkisútvarpsins, og sérstaklega þeim starfsmanni sem tók þá ákvörðun að sýna fréttir á réttum tíma, fyrir þá staðfestu að halda sig við auglýsta dagskrá. Þér, herra minn, gætuð lært af starfsfólki yðar í stað þess að lúta opinberlega í gras og biðjast afsökunar fyrir engar sakir.

Ég krefst þess að þér takið til baka afsökunarbeiðni yðar og ítrekið þá meginstefnu ríkisútvarpsins að auglýst dagskrá standi. Til að víkja frá henni, hvort sem er að rjúfa dagskrá eða fresta dagskrárliðum, ætti að þurfa atburði sem snerta áhorfendur beint og þola enga bið, eins og jarðskjálfta, eldgos, stórbruna í eða nálægt íbúðarhverfi svo nokkur dæmi séu tekin. Íþróttir geta ekki flokkast undir slíka atburði því þær þola vel bið.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson
Það er alveg óþolandi þegar útsendingar frá íþróttaviðburðum verða til þess að dagskrá er raskað, sérstaklega þegar slík röskun hefur ekki verið auglýst með tilhlýðilegum fyrirvara.

Í þessu tilfelli var það víst einhver slatti af fólki sem kvartaði yfir því að klippt væri á útsendinguna en stúkurnar á vellinum voru nærri tómar, sem benti nú ekki til mikils áhuga á leiknum.

Firewall og Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life

Spennumyndin Firewall fjallar um það að fjölskylda yfirmanns net- og tölvuöryggismála hjá banka einum er tekin í gíslingu. Hann er síðan neyddur til að aðstoða ræningjana við að brjótast inn í tölvukerfi bankans og millifæra peninga. Þetta er ekki alslæm mynd en það gerist ekkert í henni fyrstu klukkustundina. Þá fyrst hefst hasarinn sem endar hins vegar einhversstaðar úti í óbyggðum án þess að söguþráðurinn þar að baki sé skiljanlegur.

Fær 5/10 í einkunn.

Tölvuleikjamyndin Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life er slöpp spennumynd. Hún er önnur myndin sem byggð er á samnefndum tölvuleikjum, sú fyrsta var Lara Croft: Tomb Raider. Spilið frekar leikina en að horfa á myndina.

Fær 1/10 í einkunn.

10. sep. 2006

Forrit, 2. hluti: Vefsjár

Það eru til fleiri vefsjár heldur en Internet Explorer og allar eru þær betri og öruggari. Fyrir sumar er til stórt safn viðbóta (t.d. Firefox), aðrar koma með öllu sem þarf til netnotkunar (t.d. Opera) eða þær leggja áherslu á öryggi (t.d. Netscape). Allar bjóða upp á flipa þannig að hægt er að vera með margar vefsíður opnar í sama glugganum (nema auðvitað Internet Explorer) og engin styður hið hættulega ActiveX (nema auðvitað Internet Explorer):

Windows:

Internet Explorer Stórhættuleg.
FirefoxÖflug og skemmtileg.
OperaFullt af möguleikum.
NetscapeÖryggi í fyrirrúmi.
Mac OS X:
SafariSjálfgefna vefsjáin í Mac OS X.
Firefox Öflug og skemmtileg.
OperaFullt af möguleikum.
Linux:
FirefoxÖflug og skemmtileg.
Opera Fullt af möguleikum.
Konqueror Sjálfgefna vefsjáin í KDE.
EpiphanySjálfgefna vefsjáin í GNOME.

9. sep. 2006

Inside Man og Harry Potter and the Philosopher's Stone

Kvikmyndin Inside Man er svikahrappamynd um teymi ræningja sem fremja undarlegt bankarán. Í stað þess að drífa sig að ræna peningum og koma sér út, þá taka þeir fjölmarga viðskiptavini í gíslingu og fara síðan að tefja tímann og halda lögreglunni upptekinni. Að lokum sleppa þeir öllum gíslunum og lögreglan ryðst inn en þá finnast engir ræningjar í bankanum og engu virðist hafa verið stolið. Allavega er eigandi bankans ekki tilbúinn til þess að viðurkenna að nokkru hafi verið stolið en aukasöguþráðurinn í kringum það atriði er mjög óljós og fremur illskiljanlegur. Að öðru leyti er þetta fín afþreying.

Fær 7/10 í einkunn.

Harry Potter and the Philosopher's Stone er hin prýðisgóða byrjun á Harry Potter sjöleiknum. Harry byrjar í Hogwarts og lendir í ýmsum ævintýrum.

Fær 8/10 í einkunn.

7. sep. 2006

Forrit, 1. hluti: Póstforrit

Flestir tölvunotendur eru ákaflega hugmyndasnauðir þegar kemur að póstforritum og velja bara eitthvað. Sérstaklega eru Windows notendur slæmir í þessu og er ekki einskorðað við póstforrit, en þeir nota upp til hópa sömu forritin Word, Outlook / Outlook Express, Internet Explorer, Media Player og MSN Messenger. Helst að þeir brjóti upp mynstrið með því að nota Google öðru hverju.

Staðreyndin er sú að það er til mjög mikið af póstforritum með mismunandi eiginleika, sem henta mismunandi fólki. Hérna er listi af nokkrum algengum og áhugaverðum póstforritum:

Windows:

Outlook Express Einfalt en stórhættulegt.
ThunderbirdÖflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
EudoraÖflugt en höndlar ekki viðhengi skemmtilega.
Opera MailHluti af Opera vefsjánni, fullt af möguleikum.
MulberryFyrir fólk sem fær gríðarlega mikið af tölvupósti.
PC-PineÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
Mac OS X:
MailSjálfgefna póstforritið í Mac OS X.
Thunderbird Öflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
EudoraÖflugt en höndlar ekki viðhengi skemmtilega.
Linux:
Thunderbird Öflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
KMailSjálfgefna póstforritið í KDE.
EvolutionSjálfgefna póstforritið í GNOME.
PineÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
MuttÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
Til viðbótar eru þessi póstforrit eða hópvinnuforrit algeng í fyrirtækjum (Windows):
Outlook(Exchange)Póstur og dagatal.
Lotus Notes (Lotus Domino) Dagatal og hópvinna en póstur er viðbót.
GroupWise(GroupWise)Póstur og dagatal.

3. sep. 2006

Ape Escape 3

Tölvuleikurinn Ape Escape 3 (PS2) er allt að því ávanabindandi og endist nokkuð vel þótt að hann sé tiltölulega einfaldur að allri gerð. Spilunin snýst einfaldlega um að veiða apa og þrautirnar eru ekki erfiðar, enda leikurinn miðaður við yngri aldurshópa.

Fær 7/10 í einkunn.

Around the World in 80 Days og The Bone Collector

Kvikmyndin Around the World in 80 Days er ansi þunn gamanmynd í anda Jackie Chan, sem leikur annað aðalhlutverkið. Aðdáendur hans hafa eflaust gaman af þessari mynd.

Fær 1/10 í einkunn.

Glæparannsóknamyndin The Bone Collector er ekki alvitlaus en söguþráðurinn er fremur fyrirsjáanlegur og þunnur og persónurnar klisjukenndar og ósannfærandi þótt myndin sé stjörnum prýdd. Myndi frekar horfa á CSI (Las Vegas, Miami, New York).

Fær 5/10 í einkunn.

23. ágú. 2006

Tölvuauglýsingar

Á hverju hausti dynja yfir auglýsingar um fartölvur til hinna ýmsu nota, aðallega fyrir skólafólk. Hérna er dæmigerð lýsing, örlítið stytt:

2.0GHz Intel Core Duo T2500 2MB L2 Cache, 2GB DDR2 533MHz 240pin, 120GB SATA 5400RPM, DVD±RW Dual Layer, 15.4" WideScreen WSXGA 1680x1050dpi, 256MB ATI Radeon X1600 PCI-Express HyperMemory 256/512MB, hljóðkerfi með 2 hátölurum og hljóðnema, lyklaborð í fullri stærð, innbyggð snertinæm músarstýring með skrunhjóli í allar áttir, Gigabit 10/100/1000, 54Mbps 802.11g, BlueTooth, Windows XP Pro SP2, 4xUSB 2.0, VGA/DVI, FireWire, S-Video, Infrared, Docking, innbyggður 5 in 1 kortalesari, 1.3MP myndavél, VOIP sími.
Þetta er mikil talna- og skammstafanasúpa sem enginn skilur. Enda þurfa almennir tölvunotendur, sem eru t.d. að kaupa tölvu fyrir skólann, ekki að skilja þetta og hafa lítið gagn af því að skilja þetta. Staðreyndin er sú að fyrir flesta skiptir nánast engu máli hvaða fartölvu þeir kaupa, þær uppfylla allar þær kröfur sem t.d. almennir nemendur myndu gera.

Nemendur í sérhæfðum tölvunámsgreinum eins og tölvunarfræði og verkfræði geta valið sér tölvu byggt á lýsingum eins og er hér að ofan (og hafa væntanlega þekkingu til þess). Hinir þurfa þrjár tölur/staðreyndir til að velja sér tölvu og enginn þeirra kemur fram hér að ofan. Það eru (1) verð tölvunnar, (2) þyngd/umfang tölvunnar og (3) endingartími fullhlaðinnar rafhlöðu.

Ef ætlunin er að nota tölvuna í skóla og bera hana því nánast allan daginn þá skiptir þyngdin öllu máli. Ef hún á að endast allan daginn án þess að hægt sé að stinga henni í samband þá verður rafhlaðan að endast nógu lengi.

Léttustu og þyngstu fartölvurnar eru þær dýrustu (12" skjár og 17" skjár) því annars vegar er búið að troða tölvunum í alltof litlar umbúðir og fjarlægja hvert einasta óþarfa aukagramm og hins vegar eru þær búnar öllum hugsanlegum aukabúnaði. Ódýrustu tölvurnar eru þarna á milli (14-15" skjár). Fartölvur eru vanalega dýrari (og stundum aðeins þyngri) eftir því sem rafhlöðuending er betri.

Síðan er bara að vega og meta þyngd og rafhlöðuendingu á móti því hvað fólk er tilbúið að borga mikið fyrir slíkan grip.

Ef sölumaðurinn fer að tala um hvað einhver tölva er með mikið af dóti þá er um að gera að spyrja hann á móti hvað þú getur gert við þennan aukabúnað og hvernig hann getur hjálpað þér. Hjálpar Bluetooth, innbyggð vefmyndavél og 17" breiðtjaldsskjár þér við að taka glósur?

Það er erfitt að gera mistök. Það eina sem skólafólk þarf að hafa sérstaklega í huga er að kaupa alls ekki stýrikerfið Windows XP Home með tölvunni. Notið Windows XP Professional (algengast), Mac OS X Tiger (flottast) eða Linux (nördalegast; t.d. SUSE, Fedora, Ubuntu, Linspire eða Xandros svo nokkrar Linux útgáfur sé nefndar).

The Out-of-Towners og Me, Myself & Irene

Kvikmyndin The Out-of-Towners er dæmigerð Steve Martin mynd um hjón frá Ohio sem koma til New York og lenda í ýmsum ævintýrum. Fín gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin Me, Myself & Irene er dæmigerð Jim Carrey mynd um geðklofa lögreglumann og ævintýrin sem hann lendir í. Fín gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

19. ágú. 2006

The Pink Panther og Open Water

Kvikmyndin The Pink Panther er fín blanda af dæmigerðri Pink Panther mynd og dæmigerðri Steve Martin mynd. Söguþráðurinn skiptir litlu sem engu máli því myndin er samansafn atriða/brandara, sem flestir heppnast mjög vel. "Söng- og leikkonan" Beyoncé Knowles er einstaklega léleg í hlutverki sínu (á svipaðan hátt og önnur "söng- og leikkona" Jennifer Lopez, sem gert hefur sitt besta til að eyðileggja nokkrar kvikmyndir) en henni tekst ekki að eyðileggja myndina. Fín afþreying.

Fær 7/10 í einkunn.

Ræman Open Water er sérstaklega langdregin mynd um tvo kafara, sem eru skildir eftir úti á rúmsjó og þurfa að berjast við hákarla en tapa baráttunni. Leiðinleg kvikmyndataka og einstök tímasóun.

Fær 1/10 í einkunn.

17. ágú. 2006

Uppfærslur á Adobe Flash og Shockwave (9.0.16.0 / 10.1.3.018)

Adobe Flash Player og Shockwave Player hafa verið uppfærðir í útgáfu 9.0.16.0 (Flash) og 10.1.3.018 (Shockwave). Hægt er að sjá núverandi útgáfur sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe (vinstra megin í Shockwave glugganum en smella á About í Flash glugganum).

Nýjustu útgáfurnar má sækja beint frá Adobe: Sækja Flash og sækja Shockwave.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Flash annars vegar með IE (eingöngu IE-útgáfan) og hins vegar með einhverri annarri vefsjá (útgáfur fyrir aðrar vefsjár) og svo er einfaldast að sækja Shockwave með einhverri annarri vefsjá en IE (útgáfur fyrir allar vefsjár; ef Shockwave er sótt með IE þá er einungis IE-útgáfan sótt).

13. ágú. 2006

Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest

Kvikmyndin Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest kemur í kjölfar mikilla vinsælda fyrstu myndarinnar, Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl (sem fékk 8/10 í einkunn).

Það er gríðarlega erfitt að fylgja fyrstu myndinni eftir því mikill hluti af vinsældunum var hve aðalpersónan Jack Sparrow kom á óvart og hvað hún var ný, fersk og fyndin. Í mynd tvö kemur hún ekki á óvart og hún er ekki heldur nýtt nógu vel. Það væri hægt að vera með mun meira af fyndum atriðum en í staðinn drukknar myndin í tölvuteiknuðum atriðum (CGI) af ýmsum toga, sem eru mjög góð en heldur mikið af því góða. Myndin byrjar fremur rólega og er of löng. Þetta er engu að síður góð afþreying og verður gaman að sjá mynd þrjú næsta sumar.

Fær 6/10 í einkunn.

12. ágú. 2006

Uppfærsla á Google Toolbar (2.1.20060807)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.1.20060807 fyrir Firefox. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Google.

8. ágú. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (ágúst 2006)

Uppfært 25.08.: Það er engin afsökun fyrir því að vera ekki búinn að sækja þessar uppfærslur núna. Microsoft hefur lagfært og gefið út eina af uppfærslunum aftur (MS06-042) og samhliða gefið út viðvörun (SA 923762) um að fyrri útgáfan hafi verið gölluð og að tölvuþrjótar gætu nýtt sér gallann.

Uppfært 14.08.: Núna er kominn vírus sem nýtir sér einn af þessum göllum (MS06-040) og hefur Microsoft gefið út viðvörun (SA 922437) vegna hans. Microsoft kallar hann Win32/Graweg en flest vírusvarnafyrirtækin kalla hann W32/Ircbot (eða álíka nöfnum). Uppfærið tölvurnar ykkar strax!

Upprunalegt 08.08.: Microsoft gaf út 12 öryggisuppfærslur í dag (08.08.) fyrir Windows, Internet Explorer, Outlook Express, Office o.fl. forrit (2006 nr. 40-51). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.