11. sep. 2006

Fréttir og íþróttir

Í Fréttablaðinu í dag (11.09., bls. 2, vinstra megin, bls. 30, miðju) er fjallað um þann fáheyrða atburð þegar kvöldfréttir ríkisútvarpsins hófust á réttum tíma í sjónvarpinu á laugardaginn sl. Ég sendi útvarpsstjóra bréf af þessu tilefni og afrit til frétta- og íþróttadeilda ríkisútvarpsins sem og afrit til Fréttablaðsins:

Herra útvarpsstjóri, Páll Magnússon:

Í Fréttablaðinu í morgun er rætt við yður um það "atvik" þegar kvöldfréttir voru í sjónvarpinu á réttum tíma á laugardaginn sl. Efni fréttar Fréttablaðsins er að einhverjir sjónvarpsáhorfendur hafi brugðist illa við þegar fótboltaleikur nokkur fór langt fram úr áætlun og skipt var yfir á kvöldfréttir á réttum tíma.

Þó svo að skiptiborði ríkisútvarpsins hafi borist hundruð símtala og yður talsvert af tölvupósti þar sem þessu var mótmælt vil ég benda á alla þá (eins og undirritaðan) sem enga ástæðu höfðu til að hringja eða senda tölvupóst því fréttirnar voru á réttum tíma, eins og þær áttu að vera. Miðað við áhorfskannanir, þar sem fréttir hafa ítrekað reynst það efni sem flestir horfa á, vil ég halda því fram að við séum hinn þögli meirihluti í þessu máli. Ég vil ennfremur taka undir orð Elísabetar Gunnarsdóttir, þjálfara Vals, í Fréttablaðinu í dag um að þeir sem höfðu áhuga á þessum leik hefðu einfaldlega getað mætt á völlinn. Af myndum frá vellinum mátti sjá að það var gríðarlega mikið laust pláss í stúkum vallarins fyrir alla þá sem hefðu haft áhuga á að horfa á leikinn.

Ég vil hrósa starfsfólki ríkisútvarpsins, og sérstaklega þeim starfsmanni sem tók þá ákvörðun að sýna fréttir á réttum tíma, fyrir þá staðfestu að halda sig við auglýsta dagskrá. Þér, herra minn, gætuð lært af starfsfólki yðar í stað þess að lúta opinberlega í gras og biðjast afsökunar fyrir engar sakir.

Ég krefst þess að þér takið til baka afsökunarbeiðni yðar og ítrekið þá meginstefnu ríkisútvarpsins að auglýst dagskrá standi. Til að víkja frá henni, hvort sem er að rjúfa dagskrá eða fresta dagskrárliðum, ætti að þurfa atburði sem snerta áhorfendur beint og þola enga bið, eins og jarðskjálfta, eldgos, stórbruna í eða nálægt íbúðarhverfi svo nokkur dæmi séu tekin. Íþróttir geta ekki flokkast undir slíka atburði því þær þola vel bið.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson
Það er alveg óþolandi þegar útsendingar frá íþróttaviðburðum verða til þess að dagskrá er raskað, sérstaklega þegar slík röskun hefur ekki verið auglýst með tilhlýðilegum fyrirvara.

Í þessu tilfelli var það víst einhver slatti af fólki sem kvartaði yfir því að klippt væri á útsendinguna en stúkurnar á vellinum voru nærri tómar, sem benti nú ekki til mikils áhuga á leiknum.

Engin ummæli: