Er kennitala sönnun þess hver þú ert?
Í Fréttablaðinu í dag (21.10., bls. 6, neðst) er frétt um þjófnað og þar stendur að þetta sé "þriðja málið á tiltölulega skömmum tíma þar sem fólk reynir að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp ranga kennitölu".
Það er alveg ótrúlega algengur misskilningur að halda það að kennitölur séu sönnun fyrir því hver einhver sé. Meira að segja lögreglan hefur fallið í þá gildru og t.d. kært saklaust fólk fyrir of hraðan akstur byggt á því að sá sem var tekinn gaf upp aðra kennitölu en sína eigin.
Hver sem er getur komist að því hver kennitala einhvers annars er og það er hið besta mál. Þetta er mjög þægilegt kerfi sem t.d. auðveldar okkur að millifæra peninga og er til almenns hagræðis, einföldunar í tölvukerfum og þæginda í daglegu lífi.
Þar að auki þá kemur þetta opna kerfi ásamt þjóðskrá í veg fyrir "identity theft" (stundum kallað "kennitölustuldur" á íslensku en það lýsir ekki alveg nógu vel þessari tegund glæpa), sem er víða töluvert vandamál, m.a. í Bandaríkjunum. Sem einfaldað dæmi um identity theft þá myndi glæpamaður sækja um kreditkort og gefa upp nafn og "social security number" (SSN) einhvers annars en rangt heimilisfang, svo viðkomandi fái nú ekki reikningana og fatti strax hvað sé í gangi. Bankinn flettir þessu SSN upp hjá "credit reporting agencies" (það eru þrjú stór slík fyrirtæki í Bandaríkjunum) og kemst að því að SSN-ið passar við nafnið en ekki heimilisfangið. Viðkomandi glæpamaður segist vera nýfluttur og bankinn tekur þetta allt saman gott og gilt. Bankinn lítur á vitneskju glæpamannsins um SSN-ið sem sönnun þess hver hann er og sendir alla reikninga og tilkynningar á heimilisfangið sem hann gaf upp.
Á Íslandi myndi enginn, eða allavega ætti enginn, að líta á vitneskju um kennitölu sem sönnun fyrir einu né neinu og biðja einfaldlega um skilríki. Í öðru lagi senda bankar allar tilkynningar á heimilisfang í þjóðskrá en ekki á eitthvert heimilisfang sem fólk gefur upp. Fólk er einfaldlega beðið um að laga skráningu í þjóðskrá og þá munu tilkynningarnar sjálfkrafa elta það. Því myndi fórnarlamb íslensks kennitölustulds fá tilkynningar mjög fljótlega um hluti sem það kannaðist ekki við.
Kennitölur eru tól til einföldunar og hagræðis en eru ekki sönnun fyrir einu né neinu. Þær ber að nota sem slíkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli