23. ágú. 2006

Tölvuauglýsingar

Á hverju hausti dynja yfir auglýsingar um fartölvur til hinna ýmsu nota, aðallega fyrir skólafólk. Hérna er dæmigerð lýsing, örlítið stytt:

2.0GHz Intel Core Duo T2500 2MB L2 Cache, 2GB DDR2 533MHz 240pin, 120GB SATA 5400RPM, DVD±RW Dual Layer, 15.4" WideScreen WSXGA 1680x1050dpi, 256MB ATI Radeon X1600 PCI-Express HyperMemory 256/512MB, hljóðkerfi með 2 hátölurum og hljóðnema, lyklaborð í fullri stærð, innbyggð snertinæm músarstýring með skrunhjóli í allar áttir, Gigabit 10/100/1000, 54Mbps 802.11g, BlueTooth, Windows XP Pro SP2, 4xUSB 2.0, VGA/DVI, FireWire, S-Video, Infrared, Docking, innbyggður 5 in 1 kortalesari, 1.3MP myndavél, VOIP sími.
Þetta er mikil talna- og skammstafanasúpa sem enginn skilur. Enda þurfa almennir tölvunotendur, sem eru t.d. að kaupa tölvu fyrir skólann, ekki að skilja þetta og hafa lítið gagn af því að skilja þetta. Staðreyndin er sú að fyrir flesta skiptir nánast engu máli hvaða fartölvu þeir kaupa, þær uppfylla allar þær kröfur sem t.d. almennir nemendur myndu gera.

Nemendur í sérhæfðum tölvunámsgreinum eins og tölvunarfræði og verkfræði geta valið sér tölvu byggt á lýsingum eins og er hér að ofan (og hafa væntanlega þekkingu til þess). Hinir þurfa þrjár tölur/staðreyndir til að velja sér tölvu og enginn þeirra kemur fram hér að ofan. Það eru (1) verð tölvunnar, (2) þyngd/umfang tölvunnar og (3) endingartími fullhlaðinnar rafhlöðu.

Ef ætlunin er að nota tölvuna í skóla og bera hana því nánast allan daginn þá skiptir þyngdin öllu máli. Ef hún á að endast allan daginn án þess að hægt sé að stinga henni í samband þá verður rafhlaðan að endast nógu lengi.

Léttustu og þyngstu fartölvurnar eru þær dýrustu (12" skjár og 17" skjár) því annars vegar er búið að troða tölvunum í alltof litlar umbúðir og fjarlægja hvert einasta óþarfa aukagramm og hins vegar eru þær búnar öllum hugsanlegum aukabúnaði. Ódýrustu tölvurnar eru þarna á milli (14-15" skjár). Fartölvur eru vanalega dýrari (og stundum aðeins þyngri) eftir því sem rafhlöðuending er betri.

Síðan er bara að vega og meta þyngd og rafhlöðuendingu á móti því hvað fólk er tilbúið að borga mikið fyrir slíkan grip.

Ef sölumaðurinn fer að tala um hvað einhver tölva er með mikið af dóti þá er um að gera að spyrja hann á móti hvað þú getur gert við þennan aukabúnað og hvernig hann getur hjálpað þér. Hjálpar Bluetooth, innbyggð vefmyndavél og 17" breiðtjaldsskjár þér við að taka glósur?

Það er erfitt að gera mistök. Það eina sem skólafólk þarf að hafa sérstaklega í huga er að kaupa alls ekki stýrikerfið Windows XP Home með tölvunni. Notið Windows XP Professional (algengast), Mac OS X Tiger (flottast) eða Linux (nördalegast; t.d. SUSE, Fedora, Ubuntu, Linspire eða Xandros svo nokkrar Linux útgáfur sé nefndar).

Engin ummæli: