Það þarf 4 sæstrengi, ekki bara 2
Undanfarnar vikur hafa nettengingar til útlanda verið lélegar. Er því um að kenna að Cantat-3 sæstrengurinn er bilaður. Þetta er ástand sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Á seinustu árum hafa þeir sæstrengir sem tengja landið við umheiminn, Farice-1 og Cantat-3, bilað ítrekað. Það er í sjálfu sér ekki sérstaklega óeðlilegt, þetta eru langir strengir sem liggja á miklu dýpi í sjó, það er við því að búast að þeir bili öðru hverju. (Svo eru skoskar hálandarottur líka mikil skaðræðiskvikindi...)
Það er hins vegar áhyggjuefni að slíkar bilanir hafi áhrif á fjarskipti, síma- og netumferð, til og frá landinu. Það er áhyggjuefni að fjöldi sæstrengja sem tengja landið sé svo takmarkaður og uppsetning þeirra sé þannig að bilanir á einum stað geti valdið truflunum og/eða sambandsrofi í stað þess að umferðin flæði sjálfkrafa aðra leið.
Við Íslendingar búum núna við ástand sem ég vil kalla að hafa "2 og ½" sæstreng. Það er annars vegar Farice-1 og hins vegar tveir leggir á Cantat-3, til austurs og vesturs. Leggirnir á Cantat-3 eru ekki alveg sjálfstæðir því að við tilteknar bilanir á öðrum leggnum getur þurft að breyta aflfæðingu inn á strenginn til að halda hinum leggnum í sambandi. Greining á slíkri bilun og vinnan við að breyta aflfæðingunni getur tekið nokkurn tíma, sérstaklega þegar miðað er við að markmiðið ætti að vera að heildarsambandsrof sé innan við 5 mínútur á ári. Einnig er millifærsla á samböndum milli leggja Cantat-3 og Farice-1 við bilanir ekki sjálfvirk.
Þessi aðstaða er því ekki jafngóð og að hafa 3 strengi en skárri en að hafa einungis 2 strengi.
Í dag eru um 8 ár eftir af áætluðum líftíma Cantat-3 sæstrengsins, en hann var lagður 1994. Hugsanlega endist hann skemur ef að afkastageta hans verður takmarkandi þáttur. Það er því alveg ljóst að leggja verður annan sæstreng til að taka við áður en rekstri Cantat-3 verður hætt og hefur raunar verið ákveðið að leggja Farice-2. (Af þeim hugmyndum sem fram hafa komið líst mér best á að Farice-2 verði lagður til Írlands, með eða án greinar til Færeyja, og hugað verði sérstaklega að tengingum hans til BNA og Kanada, ásamt auðvitað tengingum milli hans og Farice-1 á Skotlandi.)
Við erum þá hins vegar komin í verri aðstöðu heldur en nú, með einungis 2 sæstrengi sem tengja landið. Öryggi fjarskipta hefur ekki verið nógu gott með "2 og ½" sæstreng og er ekki við því að búast að það verði betra með einungis 2 sæstrengi, jafnvel þó þeir séu báðir af nýrri gerð heldur en Cantat-3.
Eitt af sérkennum Cantat-3 og Farice-1 er að hvorugur strengurinn er hringtengdur. Með lagningu Farice-2 væri í raun einungis verið að ljúka hringtengingu "Eurice" strengsins (Farice parið, Ísland-Evrópa), þar sem samskipti gætu farið um tvær óháðar leiðir og við bilun væri millifærsla sjálfvirk.
Til frambúðar þarf að tengja Ísland við umheiminn með a.m.k. tveimur fjarskiptastrengjum og hvor um sig þarf að vera hringtengdur. Því þarf 4 sæstrengi en ekki bara 2.
Áður en Cantat-3 er tekinn úr notkun þarf því að huga að fleiri tengingum, t.d. fjarskiptastreng til Kanada eða BNA ("Amice", Ísland-Ameríka). Sá strengur þyrfti að vera hringtengdur strax frá upphafi eða a.m.k. gert ráð fyrir því frá upphafi að hringtengingu yrði lokið fyrr en síðar. "Amice" mætti leggja beint vestur til Kanada eða hugsanlega leggja hann til suðurs og tengja inn á strengi eins og Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.
Einnig mætti líka t.d. skoða það að leggja 3. sæstrenginn í Hibernia Atlantic eða þann 4. í AC-1/AC-2, með viðkomu á Íslandi; þ.e.a.s að leggja 2 sjálfstæða sæstrengi, annan til austurs og hinn til vesturs, og hringtengja inn á Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.
Ef mönnum finnst í of mikið lagt að vera með 4 strengi til og frá Íslandi, þá væri hægt að vel athuguðu máli að skoða það að leggja einungis 3. strenginn til Evrópu, Farice-3, til Írlands, Bretlands, Frakklands, Danmerkur eða Þýskalands, samtengja svo alla Farice strengina og tengja þá svo við einhvern fjarskiptastreng sem er hring- eða margtengdur til N-Ameríku, eins og Hibernia Atlantic, AC-1/AC-2, TAT-12/13, TAT-14, Apollo eða FLAG Atlantic-1.
Það eru margir möguleikar í stöðunni en nauðsynlegt er að fara að skoða þessi mál og vera tilbúin innan 5-10 ára með fleiri óháðar tengingar við landið, heldur en einungis Farice parið, þegar Cantat-3 verður tekinn úr rekstri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli