21. júl. 2006

IP-tölur

Í umfjöllun um hættur á netinu og innbrot í heimabanka í fjölmiðlum hefur hugtakið "IP-tölur" komið upp. IP-tala tölvu (eða annars netbúnaðar) er heimilisfang hennar í staðfræði netsins. Heimilisfang er þó ekki góð samlíking við þann heim sem við lifum í m.a. vegna þess hve netið (heimurinn sem tölvur lifa í) er síbreytilegt frá degi til dags.

Símanúmer er betri samlíking að mínu mati, sérstaklega m.t.t. þess hvernig við notum símanúmer annars vegar og IP-tölur hins vegar í daglegu lífi. Við notum símanúmer til að ná í annað fólk og tölvur nota IP-tölur til að ná í aðrar tölvur.

Ef ég ætla að hafa samband við Jón Jónsson þá fletti ég upp símanúmeri hans, slæ það inn í símann og hringi í hann. Ef ég ætla að sjá www.jonjonson.net þá slæ ég nafnið inn í vefsjána, tölvan flettir upp IP-tölu þess vefþjóns og sækir vefsíðuna. Uppfletting á IP-tölum gerist algjörlega sjálfkrafa á bak við tjöldin í tölvum þannig að maður þarf aldrei að fletta þeim upp handvirkt (það er þó hægt), líkt og ef símar kæmu með innbyggðri allherjarsímaskrá fyrir allan heiminn, sem væri stöðugt og sjálfkrafa uppfærð.

Hver tölva getur haft margar IP-tölur, líkt og fólk getur verið með mörg símanúmer. Málið er reyndar aðeins flóknara því ein tölva getur haft mörg nöfn og margar IP-tölur. Af hagsýnum ástæðum er net samt alltaf sett þannig upp að tiltekin tölva er með eitthvert aðalnafn og aðal-IP-tölu sem engin önnur tölva notar.

(Það er jafnvel enn flóknara því tiltekið nafn getur líka átt við margar tölvur og svo er hægt að setja net þannig upp að tiltekin IP-tala eigi við margar tölvur. Orðið "tölva" er hér notað í merkingunni "eintak af stýrikerfi í keyrslu" en bæði getur ein vél verið að keyra mörg stýrikerfi í einu (VMware Workstation (Windows & Linux), Virtual PC (Windows), Parallels Desktop (Mac OS X)) og einnig er hægt að dreifa eða flytja stýrikerfi sem er í keyrslu á milli margra véla og örgjörva (VMware Infrastructure). Þessi tækni er einungis notuð af fyrirtækjum sem stendur en er á leið til einstaklinga í venjulegum tölvum og venjulegum stýrikerfum.)

Engin ummæli: