8. des. 2007

Office 2007 Service Pack 1

Microsoft hefur gefið út Service Pack 1 fyrir Office 2007 (KB 936982). Einfaldast er sækja þessa uppfærslu með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

21. nóv. 2007

Uppfærsla á QuickTime (7.3)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.3. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update. Á Windows þarf að nota Apple Software Update tólið sem fylgir með nýlegum útgáfum af QuickTime og iTunes.

Uppfærslur á Mac OS X (10.4.11 og 10.5.1)

Apple hefur gefið út uppfærslur fyrir Mac OS X, útgáfu (10.4.11 fyrir Tiger og útgáfu 10.5.1 fyrir Leopard. Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

Uppfærslur frá Apple (2007-007 og 2007-008)

Apple hefur gefið út 86 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-007 og 2007-008). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

4. nóv. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.9)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.9. Þessi útgáfa lagar nokkur vandamál sem komu upp í útgáfu 2.0.0.8. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

20. okt. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.8)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.8. Í þessari útgáfu er m.a. 8 öryggisuppfærslur (2007 nr. 29-36) auk stuðnings við Mac OS X Leopard. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

10. okt. 2007

Office 2003 Service Pack 3

Microsoft hefur gefið út Service Pack 3 fyrir Office 2003 (KB 923618). Einfaldast er sækja þessa uppfærslu með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Uppfærsla á Picasa (2.7.0.37.32)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.7.0.37.32. Í þessari útgáfu eru ýmsar minniháttar villur lagfærðar.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

9. okt. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (október 2007)

Upprunalegt 09.10.: Microsoft gaf út 6 öryggisuppfærslur í dag (09.10.) fyrir Windows, Internet Explorer, Outlook Express og Office (2007 nr. 55-59). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

18. sep. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.7)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.7. Í þessari útgáfu er m.a. 1 öryggisuppfærsla (2007 nr. 28). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

11. sep. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (september 2007)

Upprunalegt 11.09.: Microsoft gaf út 4 öryggisuppfærslur í dag (11.09.) fyrir Windows 2000, Visual Studio, Windows Services for UNIX, MSN Messenger og Windows Live Messenger (2007 nr. 51-54). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Einnig ættu allir notendur MSN Messenger og Windows Live Messenger að uppfæra í Windows Live Messenger 8.1 hið fyrsta.

14. ágú. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (ágúst 2007)

Upprunalegt 14.08.: Microsoft gaf út 9 öryggisuppfærslur í dag (14.08.) fyrir Windows og Office (2007 nr. 42-50). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

11. ágú. 2007

Sæstrengjafjöld

Á seinustu dögum hafa borist fregnir að margir stefni að því að leggja nýja sæstrengi til Íslands. Eins og ég hef áður fjallað um þá eru sæstrengir hagkvæm fjárfesting en einnig að það þarf a.m.k. tvo sjálfstæða, hringtengda fjarskiptastrengi, þ.e.a.s. 4 sæstrengi í heildina milli Íslands og umheimsins.

Nú bendir allt til þess að bráðum tengi 4 sæstrengir Ísland, þrátt fyrir að Cantat-3 verði aflagður vegna aldurs. Fyrir er Farice-1 og byrjað er á vinnunni vegna Farice-2. Grænlenska TELE-POST ætlar að leggja sæstreng frá Grænlandi til Kanada til að tengjast N-Ameríku og svo annan streng til Íslands til að tengjast Evrópu í gegnum strengi frá Íslandi. Íslendingar munu á móti geta notað sér sambandið til Kanada í gegnum Grænland. Að lokum hafa borist fréttir af því að Hibernia Atlantic ætli að leggja sæstreng frá Íslandi og tengja við strengjaparið sitt.

31. júl. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.6)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.6. Í þessari útgáfu er m.a. 2 öryggisuppfærslur (2007 nr. 26-27). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

22. júl. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.5)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.5. Í þessari útgáfu er m.a. 8 öryggisuppfærslur (2007 nr. 18-25). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

Uppfærsla á QuickTime (7.2)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.2. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update. Á Windows þarf að nota Apple Software Update tólið sem fylgir með nýlegum útgáfum af QuickTime og iTunes.

Uppfærslur frá Apple (2007-006)

Apple gaf út 2 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-006). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

10. júl. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (júlí 2007)

Upprunalegt 10.07.: Microsoft gaf út 6 öryggisuppfærslur í dag (10.07.) fyrir Windows og Office (2007 nr. 36-41). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

5. júl. 2007

Aukauppfærslur frá Microsoft, hluti 2:2

Upprunalegt 05.07.: Microsoft hefur gefið út seinni hlutann af uppfærslunum sem tilkynnt var um í viðvörun SA 927891, sbr. fyrri pistil. Uppfærslurnar voru gefnar út til að laga vandamál við Automatic Updates og Microsoft Update sem allmargir lenda í: Þegar farið er á Microsoft Update þá notar forritið svchost.exe 100% af örgjörvanum í langan tíma og tölvan virðist hætta að virka.

Þessi uppfærsla er sú seinni af tveimur, sú fyrri lagaði Windows Installer og þessi lagar lagar Windows Update forritið.

Hægt að sækja þessa uppfærslu með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

17. jún. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.4)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.4. Í þessari útgáfu er m.a. 5 öryggisuppfærslur (2007 nr. 12-14 og 16-17). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

12. jún. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (júní 2007)

Upprunalegt 12.06.: Microsoft gaf út 6 öryggisuppfærslur í dag (12.06.) fyrir Windows, Internet Explorer og Outlook Express (2007 nr. 30-35). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

11. jún. 2007

Safari fyrir Windows

Apple hefur ákveðið að gefa út Safari vefsjána fyrir Windows.

Skv. fréttatilkynningu Apple þá verður Safari 3 gefin út sem hluti af Mac OS X Leopard og svo geta Mac OS X Tiger, Windows XP og Windows Vista notendur sótt hann ókeypis í október.

Windows notendur geta þá valið um Internet Explorer, Firefox, Opera, Netscape og Safari.

Uppfærslur frá Apple (2007-005)

Apple gaf út 17 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-005). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

Microsoft gefur út Windows Media Player Firefox Plugin

Microsoft hefur gefið út Windows Media Player Firefox Plugin.

Windows Media Player virkar mun betur í Firefox með þessari viðbót heldur en þeirri sem hefur fylgt með Firefox hingað til.

Uppfærsla á Adobe Reader (8.1.0)

Adobe Reader hefur verið uppfærður í útgáfu 8.1.0.

Smellið á "Help : Check for Updates..." til að uppfæra úr útgáfu 8.0.0. Nýju útgáfuna má sækja beint frá Adobe til að uppfæra frá útgáfu 7 eða eldri.

Uppfærslur á Adobe Flash og Shockwave (9.0.45.0 / 10.2.0.022)

Adobe Flash Player og Shockwave Player hafa verið uppfærðir í útgáfu 9.0.45.0 (Flash) og 10.2.0.022 (Shockwave). Hægt er að sjá núverandi útgáfur sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe (vinstra megin í Shockwave glugganum en smella á About í Flash glugganum).

Nýjustu útgáfurnar má sækja beint frá Adobe: Sækja Flash og sækja Shockwave.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Flash annars vegar með IE (eingöngu IE-útgáfan) og hins vegar með einhverri annarri vefsjá (útgáfur fyrir aðrar vefsjár) og svo er einfaldast að sækja Shockwave með einhverri annarri vefsjá en IE (útgáfur fyrir allar vefsjár; ef Shockwave er sótt með IE þá er einungis IE-útgáfan sótt).

26. maí 2007

Stranger Than Fiction

Kvikmyndin Stranger Than Fiction er um skrifstofumann sem verður að sögupersónu í sínu eigin lífi. Hann hittir svo rithöfundinn og kemst að því að í fyrri verkum hans hafa allar sögupersónurnar dáið í lokin. Ágætis skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

24. maí 2007

Aukauppfærslur frá Microsoft, hluti 1:2

Upprunalegt 22.05.: Microsoft gaf út viðvörun í dag (SA 927891) vegna uppfærslu (KB 927891) sem það gaf út til að laga vandamál við Automatic Updates og Microsoft Update sem allmargir lenda í: Þegar farið er á Microsoft Update þá notar forritið svchost.exe 100% af örgjörvanum í langan tíma og tölvan virðist hætta að virka.

Þessi uppfærsla er sú fyrri af tveimur, þessi lagar Windows Installer og sú seinni mun laga Windows Update forritið.

Hægt að sækja þessa uppfærslu með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

13. maí 2007

Eragon

Drekamyndin Eragon er ágætis skemmtun með mjög skemmtilegum tölvuteiknuðum dreka. Söguþráðurinn er ekki merkilegur en hangir saman og myndin er sjónrænt falleg.

Fær 7/10 í einkunn.

Uppfærsla á QuickTime (7.1.6)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.1.6. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update. Á Windows þarf að nota Apple Software Update tólið sem fylgir með nýlegum útgáfum af QuickTime og iTunes.

Kosningasjónvarp

Stöð 2 valtaði yfir Ríkisútvarpið í kosningasjónvarpinu í gær. Stöð 2 var með yfirburðagrafík, frábæra framsetningu á gögnunum og 16:9 mynd. Fréttamenn Stöðvar 2 voru e.t.v. heldur hástemmdari í lýsingunum en fréttamenn RÚV en kom ekki að sök.

Stöð 2 er einkarekin sjónvarpsstöð sem treystir á velvild viðskiptavina sinna; ef þeim líkar ekki dagskráin þá geta þeir sagt upp áskriftinni. RÚV er ríkisrekin sjónvarpstöð sem getur treyst á að fá skatttekjur sem eru teknar með góðu eða illu af af öllum landsmönnum; tekjurnar eru algjörlega óháðar gæðum dagskrárinnar.

12. maí 2007

Spider-Man 3

Kvikmyndin Spider-Man 3 er alltof löng. Það mætti klippa burt heila klukkustund og hún væri samt of löng. Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur. Fyrri myndirnar, Spider-Man (sem fékk 6/10 í einkunn) og Spider-Man 2 (sem fékk 1/10 í einkunn), voru svo sem ekki mikið skárri.

Fær 5/10 í einkunn.

8. maí 2007

Uppfærslur frá Microsoft (maí 2007)

Upprunalegt 08.05.: Microsoft gaf út 7 öryggisuppfærslur í dag (08.05.) fyrir Windows, Internet Explorer og Office (2007 nr. 23-29). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

24. apr. 2007

Ekki gengur Vista vel

Las nýlega fréttir á BBC og News.com um að Dell sé aftur byrjað að selja tölvur með Windows XP, en Dell hætti að selja Windows XP með tölvunum sínum þegar Windows Vista var gefið út í janúar sl.

Dell mun vera að láta undan þrýstingi frá viðskiptavinum sínum sem vilja frekar Windows XP heldur en Windows Vista.

Þetta gerðist ekki þegar Windows XP var gefið út 2001, þá bað enginn um að fá Windows 98 draslið aftur (og það var "enginn" að nota Windows 2000).

Firefox er reyndar mun vinsælli hugmynd hjá viðskiptavinum Dell heldur en Windows XP. Fyrst Windows XP er komið aftur þá er aldrei að vita nema að Firefox verði sjálfgefna vefsjáin á Dell tölvum í náinni framtíð.

20. apr. 2007

Constantine

Kvikmyndin Constantine er um engla og djöfla og manninn sem reynir að koma djöflunum til síns heima. Mjög sérstök mynd.

Fær 6/10 í einkunn.

Uppfærslur frá Apple (2007-004)

Uppfært 13:05.: Apple hefur gefið út lagfæringu á uppfærslu 2007-004.

Upprunalegt 20.04.: Apple gaf út 25 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-004). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

17. apr. 2007

Valþversögnin: Færri möguleikar leiða til betri forrita og meiri skilvirkni

Ég rakst nýlega á mjög skemmtilega grein um hvers vegna fleiri valmöguleikar leiða ekki endilega til betri forrita. Joel Spolsky (Joel on Software) velti því fyrir sér í þessari grein hvers vegna hægt sé að slökkva á Windows Vista á svo marga vegu sem raun ber vitni og hvort það sé raunverulega gagnlegt.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að forrit eiga að vera eins einföld og mögulegt er. Þau eiga fremur að gera fáa hluti á hnitmiðaðan og einfaldan hátt heldur en að vera flókin og gera margt illa.

Reyndar á öll tækni að vera hnitmiðuð og einföld. Því miður er það oft svo að frekar en að gera hlutina einfaldari og auðveldari þá er hlaðið inn nýjum möguleikum til að hafa "feature" listann lengri en í síðustu útgáfu eða lengri en hjá keppinautunum. Farsímar finnst mér vera besta dæmið um tækni sem er komin út í öfgar. Allir kvarta yfir því hvað nýir símar eru flóknir en samt velur fólk sér nýja síma eftir því hvað "feature" listinn er langur.

Reynsla mín kemur fyrst og fremst frá hönnun öryggisforrita. Það hefur enginn gaman af því að vinna í vírusvörninni sinni eða fikta í eldveggnum. Öryggisforrit eiga að vera "install and forget it", það eiga ekki að vera neinar stillingar. Tölvunotendur hafa almennt ekkert vit á öryggismálum og vilja ekki þurfa að verða sér úti um þá vitneskju. Þess vegna kaupa þeir vírusvarnir og eldveggi og ætlast til þess að þessi forrit og þeir sem búa þau til viti hvað eigi að gera. En ef það eru einhverjar stillingar í öryggisforritum þá er verið að biðja notandann um að hafa vit á tölvuöryggismálum. Ef öryggisforrit er með örugg sjálfgildi/hegðun sem notandinn ætti helst ekki að breyta og sem hann hefur líklega ekki þekkingu til að breyta, hvers vegna þá yfirleitt að bjóða upp á stillingar?

Ég tel að þetta sjónarmið, að tækni eigi að vera hnitmiðuð og einföld, eigi við allar tegundir forrita, ekki einungis öryggisforrit. Ég hef t.d. skrifað um leit mín að einfaldri klukku sem gæti sýnt bæði dagsetningu og tíma, sem tók um 5 mánuði því öll forritin sem ég fann voru ofhlaðin af annarri virkni. Þetta á við mjög mörg tól, höfundar þeirra setja oft inn alltof mikið af möguleikum.

En hvað aðrar tegundir af forritum, eins og skrifstofuhugbúnað og leiki?

Rannsóknir hafa sýnt það að flestir nota ekki nema brot af því sem hugbúnaður eins og Microsoft Word og Excel bjóða upp á. Enda er helsta breytingin sem Microsoft gerði í Office 2007 sú að reyna að einfalda forritin og auðvelda aðgang að möguleikunum, en ekki bæta við möguleikum.

Maður gæti ætlað að leikir væri sú tegund forrita þar sem helst ætti að bæta við endalausum möguleikum. Það er e.t.v. að vissu leyti rétt, en þó verður að skoða það að of mikið efni getur orðið til þess að draga athyglina frá aðalsöguþræðinum. Auk þess er dýrt að framleiða leikjaefni (t.d. fleiri og stærri borð). Það er ekki hagkvæmt að hver leikmaður noti einungis 10% af innihaldi leiksins, það þarf að vera nær 90% (og helst þannig að allir leikmenn noti 90% af efninu og 90% af efninu sé notað af leikmönnum). Netleikir eiga svo við annað vandamál að stríða, að eftir því sem fleiri möguleikum er bætt við til að halda athygli núverandi leikmanna þá verður hann flóknari og óaðgengilegri fyrir nýja, óreynda leikmenn.

En hvers vegna er þetta svona? Hvers vegna er svona erfitt að selja einfaldleika? Hvernig verður tækni of flókin? Oftast er það notendum (og markaðsdeildinni) að kenna að of mörgum möguleikum er bætt við en svo geta hlutir líka farið illilega úr böndunum í hönnunar- og þróunarferlinu.

Í svargrein Arno Gourdol við grein Joels (sem þessi pistill hófst á) þá segir Arno frá því hvernig þurfti að berjast fyrir einfaldleika hjá Apple. Svo kom önnur grein frá Joel í framhaldi af svargrein frá Moishe Lettvin, sem er fyrrverandi starfsmaður Microsoft og vann í teyminu sem hannaði og forritaði ræsivalmyndina í Windows Vista. Moishe skrifaði aðra grein degi seinna til að útskýra að það var kerfið og ferlarnir hjá Microsoft, ekki fólkið, sem varð til þess að hlutirnir fóru svona úr böndunum og benti svo á grein eftir vinnufélaga sinn hjá Google um hvernig eigi að gera hlutina. Þessar greinar eru stórskemmtileg lesning og lærdómur fyrir þá sem vilja búa til einföld forrit og stefna að skilvirkum vinnubrögðum.

15. apr. 2007

Saw III, Lucky Number Slevin og Van Helsing

Kvikmyndin Saw III er sú versta í samnefndri röð mynda. Sú fyrsta, Saw (sem fékk 7/10 í einkunn), var nýstárleg og kom á óvart. Önnur myndin, Saw II (sem fékk 6/10 í einkunn), var dálítið "meira af því sama" og sú þriðja er á köflum einungis endurvinnsla á fyrri tveimur myndunum. Allar eru þessar myndir ofboðslega hrottalegar.

Fær 5/10 í einkunn.

Gaman- og spennumyndin Lucky Number Slevin er góð skemmtun strax frá upphafi. Hún fjallar um mann sem lendir á milli tveggja glæpaforingja og hvernig hann sleppur. Sagan er flókin en heilsteypt og stjörnulið leikara skilar fínni vinnu. Góð skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

Van Helsing er leiðinleg vampírumynd. Tölvuteiknuðu atriðin eru mjög flott og það er ágætur hasar á köflum, en handritið er of mikið bull til að hægt sé að horfa framhjá því.

Fær 1/10 í einkunn.

10. apr. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (apríl 2007)

Uppfært 13.04.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 935964) vegna galla í DNS þjónustunni í Windows, sem verið er að misnota til árása.

Uppfært 10.04.: Microsoft gaf út 5 öryggisuppfærslur í dag (10.04.) fyrir Windows (2007 nr. 18-22) til viðbótar MS07-017 sem var gefin út á undan áætlun. Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Uppfært 03.04.: Microsoft gaf út 1 öryggisuppfærslu í dag (03.04.) fyrir Windows (2007 nr. 17).

Þessi uppfærsla (MS07-017) lagar galla í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Uppfærslan kemur á undan áætlun og í kjölfar þess að þessi galli hefur verið notaður til árása.

Í kjölfar uppfærslunnar getur komið villan "«application executable name» - Illegal System DLL Relocation" en hana má laga með því að setja inn uppfærsluna KB 935448 til viðbótar. Sækja þarf viðbótaruppfærsluna beint frá Microsoft.

Upprunalegt 02.04.: Microsoft ætlar að gefa út öryggisuppfærslu á morgun, 03.04., til að laga galla (SA 935423) í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Útgáfan er á undan áætlun vegna þess að verið er að misnota gallann til árása. Microsoft gaf út viðvörun vegna gallans fyrir helgi.

9. apr. 2007

Háðsádeila á stríðsrekstur

Spaugstofumenn voru í fríi um páskana og hneyksluðu því engan. Kverúlantar, nöldurseggir og annað pirrað fólk fékk engu að síður "gott" efni til að amast yfir: Stjórnmálafræðiprófessor við Princeton skrifaði háðsádeilu um stríðsrekstur Bandaríkjamanna og stakk upp á því að sprengja Ísland aftur á miðaldir í stað Írans. Það væri m.a. mun betra frá efnahagslegu sjónarmiði.

Það voru nokkrir sem föttuðu ádeiluna en hinir voru mun fleiri sem gerðu það ekki (m.a. kverúlantar, nöldurseggir, þrefarar, fjasarar, kvartarar, kveinarar, þusarar, tuðarar, þjarkarar og sífrarar)*.

Sagt var frá greininni í frétt á mbl.is og Moggabloggið sprakk af vandlætingu. Ofangreint pirrað fólk ætti að lesa greinina betur og velta fyrir sér efni hennar.

* Mikið vildi ég óska þess að með flipavefsjám hefði komið uppfærsla á HTML, einhverskonar "multi-link href" þannig að maður þyrfti ekki að vera með svona upptalningu.

Lýst eftir veffréttamönnum

Uppfært 12.04.: Rakst á þessa áhugaverðu grein um íhaldssemi (norskra) nemenda í fjölmiðlun, sem tengist mjög vel efni pistilsins míns.

Upprunalegt 09.04.: Vefurinn er ekki nýtt fyrirbrigði, að verða 17 ára gamall um þessar mundir. Þrátt fyrir "háan" aldur er engu að síður oft sem hann er ekki nýttur til fulls.

Fjölmiðlar eru stundum átakanlegt dæmi þar um. Ég hef áður minnst á það í framhjáhlaupi í pistli nýlega að það er ákaflega leiðinlegur siður fréttamanna sem skrifa fyrir vefinn að vísa ekki á heimildir sínar, í þeim tilfellum þegar þær er að finna á vefnum. Ég tel að þetta sé merki um vanþroska fréttamanna sem eru enn fastir í hugsanahætti eldri miðla, eins og útvarps og dagblaða, sem leyfa ekki tilvísanir í heimildir með jafneinföldum, auðveldum og sjálfsögðum hætti og vefurinn. Oft er einungis sagt "að sögn BBC" eða eitthvað álíka í stað þess að vísa á fréttina hjá BCC með því að setja hlekk á viðeigandi stað í textann.

Nýleg frétt á mbl.is reyndi að ganga aðeins lengra og sagði að þetta kæmi fram "á fréttavef Aftenposten („Aldri vært sikrere å fly“)". Auðvitað hefði átt að tengja upprunalegu fréttina við textann í stað þess að setja titil hennar í fréttina. Það er að sjálfsögðu auðveldara að finna hana ef maður veit titilinn en hvers vegna ekki bara að tengja hana beint og spara manni það erfiði að leita að henni? Að auki er þessi frétt strangt til tekið á Forbruker.no en ekki á fréttavef Aftenposten, þó svo að Aftenposten gefi báða vefina út, sem villir um fyrir þeim sem vilja finna upprunalegu fréttina. Heildarniðurstaðan er því sú að þetta er hallærislegra en að segja bara "að sögn Aftenposten" því fréttamaðurinn virðist ekki vita hvað hann er að gera.

Auðvitað eru til ánægjulegar undantekningar eins og þessi frétt á mbl.is. Engu að síður vantar smávegis upp á. Í stað þess að tengja greinina sem um er fjallað t.d. við orðið "háðsádeilugrein" ofarlega í fréttinni þá er settur hlekkur neðst í fréttina. Þetta er því ekki eins og vefurinn er almennt tengdur heldur eins og heimildaskrá í ritgerð. Þetta sést greinilega þegar fréttin er borin saman við útgáfuna hjá RÚV, sem er mun betri.

Taka má saman stuðning miðlanna við helstu miðlunarform með eftirfarandi hætti, þar sem grænn punktur táknar mikla notkun og grár punktur minni notkun:


BlaðHljóðvarpSjónvarpVefur
Texti
Tal
Kyrrmyndir
Hreyfimyndir

HlekkirVefurinn er öflugastur af nútímamiðlum, styður flesta möguleikana. Frelsið leysir sköpunargleðina úr læðingi en niðurstaðan getur orðið samhengislaus glymjandi. Því er erfiðast að búa til fréttir fyrir vefinn.

Vefurinn er líka sá eini sem býður upp á hlekki, beinar tengingar, við heimildir og ítarefni. Hann krefst því nýrra vinnubragða og annarrar nálgunar en hinir eldri miðlar.

Ritskoðun í Tælandi

Lokað var á YouTube í Tælandi nýlega vegna þess að tiltekið myndband þar þótti móðga konung Tælands.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lokað er á YouTube og t.d. gagnrýndi ég Tyrki í pistli nýlega fyrir að loka á YouTube.

Munurinn á Tyrkjum og Tælendingum er þó sá að Tyrkir verða að styrkja lýðræðið hjá sér því þeir vilja komast í Evrópusambandið en Tælendingar eru með herforingjastjórn og geta engan veginn talist stunda lýðræði.

Það tekur því varla að gagnrýna Tælendinga því þeir ættu að vita upp á sig skömmina. Engu að síður má finna kostulega tilvitnun í samskiptaráðherra Tælands í framhaldsfrétt BBC: "I don't want to hear a lecture on free speech... I am a proponent of free speech but this is just culturally insensitive and offensive...". Með öðrum orðum þá styður hann tjáningarfrelsi nema ef einhver segir eitthvað sem er ekki honum að skapi.

Tjáningarfrelsið er erfitt fyrirbæri að umgangast og einungis á færi þroskaðra og menntaðra þjóðfélaga sem hafa einsett sér að stunda lýðræði. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur tjáningarfrelsis að einhverjum tímapunkti þarf maður að umbera særandi ummæli. Ritskoðun og höft eru ekki leyfileg viðbrögð þá. Íslendingar þurfa meðal lýðræðisþjóða að herða varðstöðuna um tjáningarfrelsið, taka til í sínum ranni og mótmæla ritskoðun hvar sem er í heiminum.

8. apr. 2007

Kerfisbakkaklukka

Á gömlu tölvunni minni var ég með lítið forrit, TClockEx, sem sýndi bæði dagsetningu og tíma í kerfisbakkanum (e. system tray, notification area). Það besta við þetta forrit var að það reyndi ekki að gera of mikið, það sýndi bara dagsetningu og tíma og ef maður smellti á klukkuna þá birtist dagatal.

Þegar ég skipti frá Windows 2000 í Windows XP í nóvember á seinasta ári hófst leit að svipuðu forriti því TClockEx virkaði ekki á XP. Ég hef prófað mjög mörg klukkuforrit síðan en öll hafa þau verið ofhlaðin af alltof mikilli virkni. En núna, tæpum tæplega 5 mánuðum seinna, er leitinni loks lokið: AlfaClock er alveg frábært forrit og hagnýtt tól.

7. apr. 2007

"Ertu hryðjuverkamaður?"

Mbl.is greinir frá því að bankar á Íslandi (allavega Kaupþing á Selfossi) spyrji nú nýja viðskiptavini hvort þeir séu hryðjuverkamenn. Nánar tiltekið mun spurningin hljóma svo: "Tengist þú einhverjum hryðjuverkasamtökum eða er einhver í fjölskyldu þinni viðriðinn við slík samtök?"

Ímyndun okkur nú að harðsvíraður hryðjuverkamaður komi inn í íslenskan banka, vilji stofna þar reikning og sé spurður þessarar spurningar. Hvað haldið þið að hann muni segja? Haldið þið virkilega að hann muni segja "já"?

Auðvitað svara allir þessari spurningu neitandi, jafnt hryðjuverkamenn sem aðrir.

Hver er tilgangurinn með því að spyrja spurningar sem allir svara neitandi?

Því miður eru spurningar sem þessar ekki bara heimskulegt bull, þær eru hreint og klárt til þess fallnar að draga úr öryggi.

Einhvers staðar hefur einhver búið til þessar reglur og þessar spurningar. Að verki loknu hefur hann klappað sjálfum sér á bakið fyrir gott verk og vel unnin störf og tilkynnt yfirmönnum sínum að hann hafi aukið öryggi almennings. Það hefur svo verið tilkynnt opinberlega og merkt við á aðgerðalistanum að þessu sé lokið, öryggi almennings hafi verið aukið.

En öryggi almennings hefur ekkert aukist við þessa vitleysu, heldur þvert á móti býr almenningur við það falska öryggi að eitthvað raunverulegt hafi verið gert þegar í raun og veru tímanum var eytt til einskins (á kostnað skattgreiðanda að öllum líkindum).

Það sem er miklu verra er að ekki verður gripið til aðgerða sem raunverulega auka öryggi því menn halda að það sé þegar búið að því. "Er ekki þegar verið að spyrja hryðjuverkamenn að því hvort þeir séu hryðjuverkamenn?"

6. apr. 2007

Uppfærslur frá Apple (2007-003)

Apple gaf út 42 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-003). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

1. apr. 2007

Flyboys og What the #$*! Do We (K)now!?

Flyboys er merkilega langdregin, klisjukennd, einhæf og alltof löng kvikmynd. Hún er full af endurtekningum, með gloppóttan söguþráð og er einfaldlega þrautleiðinleg. Ekki þess virði að horfa á hana, jafnvel þó hún væri ókeypis.

Fær 1/10 í einkunn.

Kvikmyndin What the #$*! Do We (K)now!? er skrýtin blanda af heimildamynd, sögu, tæknibrellum og tölvuteiknuðum atriðum. Þetta er umfjöllun um spurninguna hvað raunveruleikinn sé eiginlega, séð frá sjónarhóli taugaboðefna og skammtafræði.

Skv. stjörnugjöf á IMDb þá skiptast áhorfendurnir í tvo jafnstóra hópa, annar hópurinn elskar þessa mynd og gefur henni fullt hús en hinn hópurinn hatar hana. Vanalega myndar stjörnugjöfin bjöllulaga feril en þessi mynd fær hengirúm, sem er mjög óvanalegt. Mér fannst hún verulega óspennandi.

Fær 1/10 í einkunn.

29. mar. 2007

Uppfærsla á ZoneAlarm (7.0.337.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 7.0.337.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

Þessa nýju útgáfu er ekki hægt að nota með vírusvörn frá CA eða Kaspersky. Hugsanlega eru fleiri vírusvarnir sem ekki er lengur hægt að nota samhliða ZoneAlarm.

26. mar. 2007

Þjóðsöngurinn, þjóðfáninn og tjáningarfrelsið

Kverúlantar og nöldurseggir hafa nú fengið "gott" efni til að amast yfir: Útgáfu Spaugstofunnar á þjóðsöngnum sem frumflutt var á laugardaginn sl.

Skv. lögum er bannað að flytja þjóðsönginn nema með tilteknum hætti og bannað að gera tiltekna hluti við þjóðfánann. Engu að síður tryggir stjórnarskráin að "hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar".

Reyndar er strax dregið í land í stjórnarskránni með viðbótinni að "tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum".

Mér er hins vegar fyrirmunað að sjá hvaða allherjarreglu, öryggi, heilsu eða siðgæði er verið að vernda með þessum boðum og bönnum í þjóðsöngs og -fánalögunum. Í stað þess að kvarta og kveina yfir Spaugstofunni finnst mér að orkunni væri betur varið í að fjarlægja þessar takmarkanir úr lögunum, sem og að fjarlægja þessa takmörkun úr tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Allir eiga að hafa þann rétt að afbaka þjóðsönginn eða klæðast þjóðfánanum (bls. 26) ef þeim finnst þörf á því til að tjá skoðanir sínar.

25. mar. 2007

Forrit, 3. hluti: Google

Þessi pistill um forrit er frábrugðinn fyrri pistlum um póstforrit og vefsjár að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi er ekki fjallað núna um forrit frá mörgum aðilum sem öll leysa sama verkefnið heldur mörg forrit frá sama aðila, Google, sem leysa mismunandi verkefni. Flest snúa að leit eða samskiptum. Helsta ástæðan fyrir því að fjalla sérstaklega um forrit frá Google er sú að þau eru gjarnan þau bestu í sínum flokki.

Í öðru lagi mun ég fjalla bæði um forrit og vefþjónustur, því Google er með margar vefþjónustur sem eru oft betri en samsvarandi forrit frá öðrum aðilum. Sem dæmi þá er Gmail (Google Mail) mun betri þjónusta en öll almenn póstforrit.

Forrit:

Google Desktop  Flokkar öll skjöl, myndir, tölvupóst o.sv.frv. og er með einfalt viðmót til að leita með.
Google Toolbar  Viðbót/takkaslá fyrir Internet Explorer og Firefox fyrir Google leit og margar aðrar Google þjónustur.
Picasa Gríðarlega öflugt og einfalt forrit til að halda utan myndasöfn.
Google Talk Spjallforrit, eins og MSN Messenger, fyrir þá sem nota Google Talk þjónustuna. Getur þó ekki tengst MSN.
Google Pack Þessi forrit og mörg fleiri má fá í einum pakka frá Google, ásamt ýmsum hagnýtum hugbúnaði frá öðrum aðilum.
Vefþjónustur:
Google Besta leit í heimi og á íslensku!
Gmail Besta vefpóstþjónusta í heimi og á íslensku! Hægt að nota samhliða póstforriti með því að nota POP3 aðganginn.
Google Reader Mjög góður fréttalesari (RSS / Atom), t.d. til að lesa blogg.
Blogger Mjög góð bloggþjónusta.
Personalized Home Þín eigin Google leitarsíða. T.d. hægt að setja inn RSS / Atom strauma sem breytast mjög hratt og önnur tól og tæki.
Picasa Web Albums Geymsla og vefur fyrir myndir. Auðvelt að nota með Picasa forritinu en ekki skilyrði.
Google Calendar Dagatal á netinu.
Google Docs & Spreadsheets Ritvinnsluskjöl á netinu, engin þörf á Office.
Google Maps Landakort af flestum stöðum á jörðinni.
Google Earth Gervihnattamyndir af jörðinni. Einnig hægt að fá sem forrit.
Google Groups Spjallþræðir um allt mögulegt.

Borat og Kinsey

"Heimildamyndin" Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan er mikil skemmtun og aðhlátursefni en veldur jafnframt verulega miklum aulahrolli.

Fær 8/10 í einkunn.

Kvikmyndin Kinsey fjallar um ævi Alfred Kinsey, sem var frumkvöðull í rannsóknum á kynlífi. Fjallað er um æsku hans og menntun og síðan rannsóknir hans á kynlífi og kynhvöt frá lífræðilegu sjónarmiði, sem hann varð þekktur fyrir, jafnvel alræmdur, enda hefur kynlíf alltaf verið mikið feimnismál.

Fær 6/10 í einkunn.

Evran óvinsæl?

Skv. fyrirsögn þessarar fréttar hjá RÚV þá er evran óvinsæl meðal íbúa evrulandanna (eða "íbúa evrópsku evru-ríkjanna" eins og RÚV orðar það, ég veit samt ekki hvaða ríki utan Evrópu nota evruna sem lögeyri...).

Þegar maður les fréttina kemur í ljós að 49% af íbúum evrulandanna vilja að fyrri gjaldmiðlar verði teknir upp aftur en 47% vilja halda evrunni. Er ekki fulldjúpt í árina tekið að segja að evran sé óvinsæl, allavega miðað við þessar niðurstöður, væri ekki frekar við hæfi að segja að það séu skiptar skoðanir um evruna? Sérstaklega þegar engin skekkjumörk eru gefin upp og niðurstaðan er nánast helmingaskipti?

Seinna í fréttinni segir "[a]ðeins er meirihluti fyrir því að halda í evruna í 6 af evru-löndunum 13". Með áherslu á aðeins. Nú er 13/2 = 6,5 og þetta er því aftur eins nálægt helmingaskiptum eins og hægt er að komast. Ég gæti skilið notkunina á aðeins ef það hefði verið "aðeins í 1 landi af 13" en "aðeins í 6 löndum af 13"? Ég get ekki séð að hér sé tilefni til að fullyrða mikið meira en að það séu skiptar skoðanir um málið.

Það væri e.t.v. freistandi að halda það að pólitískar skoðanir fréttamanns sjáist hér í fréttaflutningnum en líklega er þetta bara hrein og klár leti. Enda er fréttamaðurinn einungis að þýða beint upp úr fréttatilkynningu Open Europe án þess að vísa í frumheimildina eða segja frá því hvaða samtök þetta eru.

Það er ákaflega leiðinlegur siður fréttamanna sem skrifa fyrir vefinn að vísa ekki á heimildir sínar, í þeim tilfellum þegar þær er að finna á vefnum. Ég tel að þetta sé merki um vanþroska fréttamanna sem eru enn fastir í hugsanahætti eldri miðla, eins og útvarps og dagblaða, sem leyfa ekki tilvísanir í heimildir með jafneinföldum, auðveldum og sjálfsögðum hætti og vefurinn.

Open Europe eru samtök sem munu vera fremur gagnrýnin á Evrópusambandið, nánast pólitísk samtök með tiltekin markmið gegn Evrópusambandinu. Það er því skiljanlegt að þau noti hástemmd lýsingarorð til að lýsa "réttum" niðurstöðum að þeirra mati:

"[A] majority of citizens in the eurozone want to go back to their old national currencies. For the eurozone as a whole 47% wanted to keep the euro, but 49% wanted to go back to their old currency. There is majority support for keeping the euro in only 6 out of the 13 euro member countries."
Fréttamaðurinn hins vegar þýðir beint ofangreindan kafla úr fréttatilkynningunni án nokkurrar gagnrýni, án þess að vísa til heimildarinnar og án þess að fjalla um samtökin sem gerðu könnuna og skrifuðu tilkynninguna. Eftir situr pólitísk yfirlýsing en ekki boðleg frétt.

24. mar. 2007

Uppfærsla á Picasa (2.6.0.36.19)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.6.0.36.19. Í þessari útgáfu er bættur stuðningur við Windows Vista og Picasa Web Albums.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

21. mar. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.3)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.3. Í þessari útgáfu er m.a. 1 öryggisuppfærsla (2007 nr. 11). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

17. mar. 2007

YouTube (nr. 2)

Finnar eru ekki svo ólíkir Íslendingum (fyrir utan saunaáráttu Finna), allavega ef marka má The Helsinki Complaints Choir. Í miðju laginu er gert stórskemmtilegt grín að Nokia og ofnotkun á farsímum.

"Kvartanakórar" eru reyndar alþjóðlegt fyrirbrigði. Sá finnski er langbestur og The Canadian Complaints Choir er líka mjög góður.

YouTube (nr. 1)

Á YouTube má oft finna stórskemmtileg myndbönd og jafnvel framhaldsþætti, eins og t.d. Mr. Deity þar sem gert er grín að guði og sköpunarsögunni:

Mr. Deity Episode 1: Mr. Deity and the Evil
Mr. Deity Episode 2: Mr. Deity and the Really Big Favor
Mr. Deity Episode 3: Mr. Deity and The Light
Mr. Deity Episode 4: Mr. Deity and the Messages
Mr. Deity Episode 5: Mr. Deity and Lucifer
Mr. Deity Superbowl Extra: The Press Conference
Mr. Deity Episode 7: Mr. Deity and the Tour de Hell
Mr. Deity Episode 8: Mr. Deity and the Top Ten

13. mar. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (mars 2007)

Uppfært 02.04.: Microsoft ætlar að gefa út öryggisuppfærslu á morgun, 03.04., til að laga galla (SA 935423) í meðhöndlun Windows á bendlaskrám. Útgáfan er á undan áætlun vegna þess að verið er að misnota gallann til árása.

Uppfært 29.03.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 935423) vegna galla sem hefur uppgötvast í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Verið er að misnota gallann til árása. Nöfn þessara skráa eru allajafna með endinguna .ani en vegna þess hvernig Windows meðhöndlar skrárnar þá er líka hægt að misnota gallann með því að endurskíra skrárnar með .jpg endingu þannig að þær líti út eins og JPEG ljósmyndir.

Upprunalegt 13.03.: Microsoft gaf ekki út öryggisuppfærslur í dag (13.03.). Þó voru gefnar út ýmsar minniháttar uppfærslur sem gagnlegt er að hafa, t.d. var gefin út viðbótaruppfærsla á rótaröryggisskilríkjum sem voru þó seinast uppfærð fyrir mánuði síðan auk þess sem fleiri gallar í Windows Vista voru lagaðir.

Microsoft gaf engu að síður út mjög stóra og mikilvæga uppfærslu í dag, Service Pack 2 fyrir Windows Server 2003 x86, Windows Server 2003 x64 og Windows XP x64 (KB 914961), sem ákaflega mikilvægt er að hafa. Það er því ekki frí þennan mánuðinn heldur meiri vinna við uppfærslur ef eitthvað er. Hægt er að sækja pakkana beint frá Microsoft, sem er hentugt ef uppfæra þarf margar tölvur.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Athugið að Service Pack 2 fyrir Windows XP x64, sem var gefinn út í dag, er ekki sami pakkinn og Service Pack 2 fyrir Windows XP (x86), sem var gefinn út 06.08.2004. Flestar heimatölvur eru með 32-bita (x86) útgáfunni af Windows XP og útgáfan í dag er því ekki fyrir þær.

12. mar. 2007

Búseta á netinu

Mágkona mín krafðist þess um daginn að ég skrifaði um hana hérna á pistlasíðunni minni og bar helst fram þær röksemdir að hún væri sæt og skemmtileg. Sem er alveg rétt, hún er sæt og skemmtileg, en ég verð að hryggja hana með því að ég get engu að síður ekki skrifað um hana. Eru aðallega tvær ástæður fyrir því.

Fyrri ástæðan er sú að það er ekki hægt að vísa í hana á netinu. Hún hefur enga fasta búsetu, notar ekki MySpace, YouTube, Facebook eða Flickr og er ekki með heimasíðu eða blogg. Hún er eiginlega hálfgerð flökkukind á netinu, einskonar netvæddur sígauni sem dúkkar upp á MSN þegar síst varir. Hefur að því virðist enga þörf fyrir að sýna sig eða besserwisserast á netinu... eins og yðar einlægur undirritaður. Þetta er nokkuð sérstakt nú til dags þegar allir og amma hans eru að blogga og eiga annað heimili á netinu.

Seinni ástæðan er sú að það var aldrei ætlunin að þetta yrði persónulegt blogg hérna á þessari síðu. Upphaflega hugmyndin var sú að halda utan um dóma um kvikmyndir sem ég horfi á og skrifa pistla um tölvumál og netöryggi (bæti líklega við meiru um tölvuleiki fljótlega) og svo þróaðist skipulagið yfir í það sem má sjá í efnisflokkunum hér hægra megin.

Ég hef aldrei skilið hugmyndina á bakvið persónuleg blogg ("ég fór snemma að sofa") og endist ekki við að lesa þau en finnst mun meira virði að heyra skoðanir fólks á hinu ýmsu málefnum eða sjá eitthvað sniðugt sem það fann og langar að deila með manni.

9. mar. 2007

Ritskoðun í Tyrklandi

Lögbann var sett á YouTube í Tyrklandi fyrir tveimur dögum en opnað aftur í dag.

Ef Tyrkir reyndu að fara á YouTube fengu þeir skilaboð á tyrknesku og ensku: "Access to www.youtube.com site has been suspended in accordance with decision no: 2007/384 dated 06.03.2007 of Istanbul First Criminal Peace Court".

Lögbannið var sett vegna þess að tiltekið myndband á YouTube þótti móðga Atatürk, frelsishetju og stofnanda nútíma Tyrklands.

Svona uppákomur eiga ekki að líðast í ríkjum sem vilja teljast til opinna og frjálsra lýðræðis- og réttarríkja og eru Tyrklandi til háborinnar skammar.

Því miður erum við Evrópubúar ekki alveg fullkomlega saklausir í þessum efnum, t.d. eru tilteknar skoðanir um seinni heimsstyrjöldina taldar óæskilegar í Þýskalandi og Austurríki og eru bannaðar þar. Í fljótu bragði man ég ekki dæmi frá Íslandi en málsfrelsisákvæðið í íslensku stjórnarskránni er þó ekki algilt; í 73. gr. stendur að tjáningarfrelsi megi setja skorður með lögum.

"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" (Evelyn Beatrice Hall) er mitt móttó.

8. mar. 2007

Æland.is

Forsætisráðuneytið auglýsir nú nýja upplýsinga- og þjónustuveitu fyrir almenning, sem það kallar Ísland.is þrátt fyrir að annað lénsnafn, reyndar mjög svipað, sé notað fyrir þessa veitu.

Ég hef áður skrifað um íslensk lén og þann gífurlega misskilning sem virðist gæta gagnvart íslenskum stöfum í nöfnum léna undir .is þjóðarléninu. Forsætisráðuneytið virðist illa upplýst um þessi mál og þörf á smá fræðslu.

Staðreyndin er sú að lénið Ísland.is er í eigu fyrirtækis sem heitir Netvistun ehf. en forsætisráðuneytið er hins vegar að nota lénið Island.is fyrir þessa nýju veitu sína.

Orðið island er enska, borið fram æland og þýðir eyja. Ákaflega viðeigandi en jafnframt óskiljanlegt hvers vegna forsætisráðuneytið vissi ekki af því að hægt er að skrá íslensk lén með íslenskum stöfum og hvers vegna ekki var leitað eftir því að Netvistun gæfi eftir lénið sitt þannig að þessi nýja upplýsinga- og þjónustuveita væri skráð undir báðum lénsnöfnunum.

Lénum með íslenskum stöfum hefur verið úthlutað síðan mitt ár 2004 og þau virka m.a. í Internet Explorer 7 og Firefox 2.

6. mar. 2007

Uppfærsla á QuickTime (7.1.5)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.1.5. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update. Á Windows þarf að nota Apple Software Update tólið sem fylgir með nýlegum útgáfum af QuickTime og iTunes.

4. mar. 2007

Trúgirni

Trúgirni netnotanda er oft á tíðum ótrúleg. Fólk sem alla jafna hefur varann á sér í daglegu lífi trúir öllu sem það sér á netinu eins og það væri heilagur sannleikur.

Það kom upp skemmtilegt dæmi um þetta í Íslandi í dag nú fyrir helgina. Um morguninn skrifaði Steingrímur Sævarr Ólafsson mjög einlæga bloggfærslu um áfengiseitrun og vísaði í myndband sem sýna átti háskólanema drekka 700 ml flösku af snafsi á tveimur mínútum. Seinna um daginn kom í ljós að myndbandið var sviðsett. Engu að síður var umfjöllunin þá um kvöldið í Íslandi í dag um (meinta) áfengisdrykkju. Það var reyndar rækilega tekið fram að þessi umfjöllun byggði á sviðsettu myndbandi en það er nú ekki mikil fréttamennska að vera með umfjöllun byggða á sviðsettum atburðum. Líklegast er að Steingrímur hafi fattað þetta eftir að var hann búinn að bæta við bloggfærsluna "við fjöllum um málið og sýnum myndbandið í Íslandi í dag í kvöld" og var því búinn að binda hendur sínar.

En þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar hafa hlaupið á sig og tekið myndbönd á YouTube trúanleg og er alls ekki bundið við Ísland. "UNC Breakup" er nýlegt dæmi þar sem mjög margir stórir fjölmiðlar létu gabba sig. Þeir héldu að mjög vinsælt myndband á YouTube væri alvara (sjónarhorn 1, sjónarhorn 2, viðtal) og birtu fréttir um það sem þurfti svo að taka tilbaka nokkrum dögum seinna.

Almennir notendur YouTube hafa líka látið gabbast, sbr. æðið í kringum lonelygirl15, sem kom svo í ljós að er leikkona og stýrt af leikstjóra og handritshöfundum.

Á netinu má finna staðreyndir, eins og á Encyclopædia Britannica og Wikipedia, en allt annað efni á netinu ætti að líta á sem skemmtiefni en ekki staðreyndir, þar til annað sannast.

Uppfærsla á Google Toolbar (3.0.20070217 / 4.0.1601.4978)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu 3.0.20070217 fyrir Firefox og útgáfu 4.0.1601.4978 fyrir Internet Explorer. Firefox útgáfan er mikið breytt og uppfærð til samræmis við Internet Explorer útgáfuna sem hefur aftur á móti lítið breyst.

Nýjustu Firefox útgáfuna verður að sækja beint frá Google (með Firefox), hún birtist ekki ef Add-ons eru uppfærð. Internet Explorer útgáfan ætti að uppfæra sig sjálfkrafa en einnig er hægt að sækja hana beint frá Google (með Internet Explorer) ef það hefur ekki gerst.

3. mar. 2007

Fréttabann hjá AP

Fréttaveitan The Associated Press (AP) gerði sérstaka tilraun á dögunum og flutti engar fréttir af Paris Hilton í heila viku.

Stúlkan sú er eiginlega þekkt fyrir það eitt að vera þekkt. Hún er ekki þekkt fyrir neitt annað. AP ákvað því í raun að flytja engar fréttir af engu og athuga hvort að einhver saknaði þess. AP gafst svo upp eftir eina viku þegar stórbrotnir atburðir urðu í lífi stúlkunnar.

Það undarlega er að þessi ákvörðun, að flytja engar fréttir af engu, urðu að stórfrétt ("Even Ignoring Paris Hilton Makes News"). Þannig að það er fréttnæmt að flytja engar fréttir af ekki neinu.

Paris Hilton getur auðvitað ekki tapað á þessu, annað hvort er hún sjálf í fjölmiðlum eða það er helst í fréttum að fjölmiðlar séu að hunsa hana. Maður vorkennir fjölmiðlum samt hálfpartinn fyrir að vera í þessum vítahring. Þeir geta engu að síður einungis sjálfum sér kennt um þá aðstöðu sem þeir eru í, þeir bjuggu sjálfir til þetta skrímsli, þennan fjölmiðlavírus:

Jeff Jarvis, who teaches journalism at the City University of New York, decries the "one-size-fits-all disease" afflicting media outlets, who feel that "everybody's covering it, so we must, too." [...] "That disease leads to the Paris Hilton virus spreading through the news industry," says Jarvis.

Evra eða euro?

Evruumræðan er búin og ljóst að evran verður aldrei tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi.

Allavega ef marka má frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag (03.03., forsíða, neðst) en þar er sagt frá því að Íslendingar yrðu að nota heitið euro, en ekki evra, um þennan gjaldmiðil.

Hvurslags fréttamat er þetta eiginlega hjá Fréttablaðinu? Í fréttinni er rætt við lögfræðing hjá Seðlabanka Evrópu um möguleika Íslendinga á upptöku evrunnar og ýmis atriði því tengd skoðuð, eins og skilyrði fyrir upptöku hennar, en í fyrirsögn og fyrstu málsgrein er lögð aðaláhersla á smávægilegt lagatæknilegt atriði um hvað gjaldmiðlinn yrði formlega að heita.

Mikil má örvænting evruandstæðinga vera ef þetta er orðin aðalröksemd þeirra...

1. mar. 2007

Um orðið "netfang"

Orðið netfang er oft notað þar sem líklega var ætlunin að nota orðin póstfang, tölvupóstfang eða netpóstfang. Það er útbreiddur misskilningur að ef netpóstfang er stytt í netfang þá haldi það merkingu sinni. Svo er ekki, það breytir um merkingu, en réttari stytting á netpóstfang væri póstfang.

Annars vegar er orðið netfang þýðing á network address (þ.e.a.s. stytting á orðinu netvistfang) sem vísar annað hvort til vistfangs á netlagi, t.d. IP-tölu tölvu/netbúnaðar, eða vistfangs á greinatengilagi, t.d. MAC-tölu tölvu/netbúnaðar. Þetta er augljóslega mjög tæknileg merking sem gagnast fyrst og fremst tæknifólki en ekki venjulegum tölvunotendum.

Hins vegar er orðið netfang almennt samheiti fyrir öll þessi "föng", þ.e. samheiti fyrir póstfang, veffang, MSN-fang eða spjallfang og allar þær aðrar leiðir sem hægt er að nálgast okkur á netinu. Þetta er sú merking sem hinn almenni tölvunotandi ætti að leggja í orðið netfang. Dæmi um notkun væri að nota netföng sem heiti á lista þar sem þessi atriði hér að ofan, eins og póstfang og veffang, væru tíunduð.

28. feb. 2007

Netið eða netið?

Það hefur oft vakið athygli mína og furðu þegar fólk talar um Netið og Vefinn. Hvers vegna að nota stóran staf í þessum orðum?

Eina ástæðan fyrir því að nota stóran staf í þessum orðum (á íslensku og ensku allavega) væri sú að þetta séu nöfn. En þá nöfn á hverju?

Wired News tók þá ákvörðun fyrir nærri þremur árum að hætta að nota stóran staf í þessum hugtökum. Í rökstuðningi sínum benti ritstjóri Wired á að það hefði í raun aldrei verið ástæða til þess að nota stóran staf þarna. Í raun væru netið og vefurinn einungis enn ein aðferðin til að miðla upplýsingum, rétt eins og blað, sjónvarp og útvarp, en ekki heiti á tilteknum hlutum eða miðlum.

Tökum dæmi: Berum setningarnar

Ég sá síðu á Netinu um daginn, á Vísir.is.
Ég heyrði þátt í Útvarpinu um daginn, á Bylgjunni.
saman við
Ég sá síðu á netinu um daginn, á Vísir.is.
Ég heyrði þátt í útvarpinu um daginn, á Bylgjunni.
Í báðum tilfellum er fyrst verið að tala um aðferðina (net, útvarp) og svo um hinn tiltekna miðil (Vísir.is, Bylgjan).

Seinni útgáfan er mun eðlilegri og þess vegna skrifa ég netið, vefurinn, blaðið, útvarpið og sjónvarpið, allt með litlum stöfum, þegar ég er að vísa til miðlunaraðferðarinnar sjálfrar.

12 ára gömul sannindi um handfrjálsan búnað

Fjallað var um handfrjálsan farsímabúnað í frétt á Stöð 2 í kvöld. Þar sagði fréttamaður m.a. að það kæmi kannski á óvart að það væri nákvæmlega jafnhættulegt að tala í síma við akstur hvort sem notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki.

Þetta ætti alls ekki að koma á óvart og eru alls ekki ný sannindi. Ég skrifaði meira að segja pistil um þetta, Það er allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú drekkur bara bjór, fyrir tæpu ári síðan og er nú varla sérfræðingur á þessu sviði.

Þetta eru raunar a.m.k. 12 ára gömul sannindi. Staðreyndin er meira að segja sú að þetta eru svo gömul og þekkt sannindi að þau koma fram í skýrslu starfshóps um notkun farsíma við akstur, sem gefin var út af dómsmálaráðuneytinu árið 1998. Þar er vísað í rannsóknir frá árunum 1995-1998 um að notkun farsíma í akstri sé hættuleg, það sé fjórum sinnum líklegra að lenda í slysi ef talað er í farsíma við akstur og að það skipti engu máli hvort að handfrjáls búnaður sé notaður eða ekki:

Briem og Hedman sýndu fram á að aðgerðir sem tengjast sjálfu símtólinu skerða athygli ökumanna mest og skiptir engu hvort um sé að ræða farsíma með handfrjálsum búnaði eða ekki (1995).

Ef litið var til þess hvort notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki þá var ekki verulegur munur á áhættunni (Redelmeier og Tibshirani, 1997).

Í Svíþjóð gerði Johansen nýlega könnun (1998) á farsímanotkun og komst að því að það er ekki meðhöndlun símtækisins við akstur sem er hættulegust heldur sjálft símtalið.
Lögin um handfrjálsan búnað voru ekki sett fyrr en 2001 en þá voru þessar staðreyndir enn betur þekktar.

Lögin voru byggð á ráðgjöf þessa starfshóps en í skýrslunni segir að "með hliðsjón af afstöðu ökumanna sjálfra leggur starfshópurinn til að ákvæði verði sett í umferðarlög sem leggi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar". Athyglisvert er að þótt að þessar rannsóknir væru þekktar á þessum tíma (m.a. vissi dómsmálaráðuneytið greinilega af þeim) þá var afstaða ökumanna sjálfra látin ráða.

27. feb. 2007

Umsókn um embætti netlögreglustjóra

Kópavogi, 27.02.2007

Undirritaður sækir hér með um embætti netlögreglustjóra, sem auglýst var af Steingrími J. Sigfússyni í sjónvarpi sl. helgi.

Undirritaður er með doktorspróf í tölvunarfræði frá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum, hefur starfað hjá þekktu tölvuöryggisfyrirtæki um árabil og hefur sérþekkingu á tölvu-, net- og öryggismálum. Má í þessi sambandi m.a. vísa til pistla sem undirritaður hefur skrifað um tölvu- og netöryggismál, eins og IP-tölur og listin að fela sig og Vírusar og heimabankar.

Auk þess þekkir undirritaður vel til hins kínverska eldveggs sem kínversk stjórnvöld nota til ritskoðunar og almennt til að tryggja öryggi kínverskra borgara.

Slík undirstöðuþekking á netsíum og hvernig hægt er að fara framhjá netsíum, sem undirritaður hefur, er nauðsynleg þeim sem skipaður er í þetta embætti til að geta beitt ritskoðun almennilega.

Auk þess er undirritaður vel lesinn í klassískum fræðum, eins og bókunum 1984 og Brave New World, og telur sig þar með ágætlega geta framfylgt stefnu réttlátra stjórnvalda sem styðjast við ráðgjöf hófsamra hagsmunasamtaka, eins og Femínistafélags Íslands.

Undiritaður er tilbúinn að gera hvað sem til þarf og réttlæta það opinberlega, svo lengi sem næg laun eru í boði.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson

25. feb. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.2)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.2. Í þessari útgáfu eru m.a. 9 öryggisuppfærslur (2007 nr. 1-9) auk lagfæringa við stuðning við Windows Vista. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

22. feb. 2007

Dulrituð lykilorð

Uppfært 27.02.: Morgunblaðið birti víst ekki einungis lykilorðin heldur allar upplýsingar um eiganda viðkomandi síðu, þ.m.t. póstföngin. Fólk notar oft sama lykilorðið á mörgum stöðum, þó svo að það eigi ekki að gera það, og í þeim tilfellum þurfa viðkomandi að breyta lykilorðinu sínu á öllum þeim sömu stöðum, og byrja þá á póstinum sínum.

Upprunalegt 22.02.: Í Fréttablaðinu í dag (22.02., bls. 13, efst vinstra megin) er sagt frá því að Morgunblaðið hafi birt öll lykilorð bloggara hjá blog.is, fyrir tæknileg mistök.

Fréttamaðurinn spurði hvers vegna lykilorðin hefðu verið geymd ódulrituð í gagnagrunni, sem er ákaflega eðlileg spurning. Svar Morgunblaðsins er mjög sérstakt, "að ekki hafi verið metin þörf á því, upplýsingarnar séu ekki svo leynilegar".

Af þessu mætti draga þá ályktun að það sé erfitt og flókið mál að dulrita lykilorð til geymslu í gagnagrunni og því þurfi að vega og meta ávinninginn á móti vinnunni sem fer í forritun á slíku kerfi. Svo er þó alls ekki, það er mjög auðvelt að vinna með dulrituð gögn í helstu forritunarmálum sem notuð eru til forritunar vefkerfa, eins og Perl, PHP eða Python, og svo eru til heilu hjálparkerfin til dulritunar, eins og OpenSSL, sem er opinn og frjáls hugbúnaður.

Ég hef áður skrifað um þessi mál, neðanmáls í pistlinum IP-tölur og listin að fela sig (neðsta málsgreinin). Þar sagði ég að lykilorð eigi að geyma dulrituð, með einátta hakkafalli, og nota á mismunandi salt fyrir hvert einasta lykilorð. Þetta er auðvitað ekki eina aðferðin til að geyma lykilorð með öruggum hætti, en þetta er einföld aðferð þar sem ekki er krafist mjög mikils öryggis.

Þegar notandinn slær inn nýtt lykilorð þá er búið til nýtt salt, því skeytt saman við nýja lykilorðið og allt saman dulritað með einátta hakkafalli. Síðan er notandanafnið, saltið og dulritaða útkoman geymd í gagnagrunni.

Þegar notandinn skráir sig inn þá slær hann inn notandanafnið sitt og lykilorð. Notandanafnið er notað til að fletta upp saltinu hans, því er svo skeytt saman við lykilorðið sem hann sló inn og dulritað eins og áður. Útkoman er svo borin saman við dulrituðu útkomuna í gagnagrunninum. Ef þær eru eins þá hefur auðkenningin tekist og notandinn er skráður inn.

Með þessum hætti er ómögulegt að birta óvart lykilorðið því það er engin leið til að nálgast það í gagnagrunninum.

Það hefur auðvitað í för með sér að ekki er hægt að senda notandanum lykilorðið hans ef hann gleymir því, heldur verður að endurstilla það og senda honum nýtt lykilorð. En það er ekki flókið mál að forrita þá viðbót.

20. feb. 2007

Frjáls för

Uppfært 27.02.: Smátt og smátt er hinn þögli meirihluti í þessu máli að koma fram. Skv. könnun Fréttablaðsins (bls. 4, fyrir miðju) eru 61,3% landsmanna þeirrar skoðunar að ákvörðun Hótel Sögu að vísa hópnum frá hafi verið röng.

Áberandi er að 71,1% kjósenda Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að þessi ákvörðun hafi verið röng, sérstaklega þegar viðbrögð borgarstjóra Reykjavíkur eru höfð til hliðsjónar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fór mikinn í þessari umræðu, var með hótanir í garð þessa fólks, krafðist lögreglurannsóknar á þeim og setti fordæmalausan þrýsting á fyrirtæki í borginni að eiga ekki viðskipti við þennan hóp. Sýnt er að borgarstjórinn er ekki í takti við borgarbúa, hvað þá kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Mín skoðun er sú að hann hafi brugðist helstu meginreglum lýðræðis og réttarríkis með viðbrögðum sínum.

Einnig er fjallað um þetta mál í leiðara Fréttablaðsins (bls. 16, vinstra megin) er þar skrifar Jón Kaldal um hinn móralska minnihluta. Mjög háværan hóp fólks, en minnihluta Íslendinga. Ég tek undir það með leiðarahöfundi að sem betur fer eru Íslendingar upp til hópa frjálslyndir og umburðarlyndir. Ofstækismenn eru fátíðir þó að hávaðinn geti um stundarsakir blekkt manni sýn.

Valgerður Bjarnadóttir skrifar einnig athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag (bls. 16, fyrir miðju) um þetta mál. Ég er reyndar ósammála Valgerði um margt sem fram kemur í grein hennar en við erum sammála um að málefnið megi ekki kippa úr sambandi lögum og rétti sem hér gilda og að Bændasamtök Íslands eigi ekki að taka ferða- og fundafrelsi af fólki sem ætlar ekki að fremja hér lögbrot. Ég vil einnig taka undir með Valgerði að með þessari niðurstöðu var tekinn af henni rétturinn til þess að standa fyrir utan Hótel Sögu og mótmæla. Það hefði verið hin eðlilega lýðræðislega niðurstaða í réttarfarsríki að hópurinn hefði komið hingað og fengið þá (löglegu) þjónustu sem hann borgaði fyrir og þeir sem væri ósáttir hefðu fengið að mótmæla fyrir utan Hótel Sögu.

Vonandi lærum við Íslendingar eitthvað af þessum farsa, sérstaklega meirihlutinn að láta heyra í sér fyrr og hærra.

Uppfært 22.02.: Bændasamtök Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hafa látið undan sefasýkinni sem hefur heltekið landsmenn undanfarna daga og synjað neðangreindum ferðamönnum um gistingu. Í fréttatilkynningu segir að með "þessu vilja Bændasamtökin lýsa vanþóknun sinni á starfsemi þeirri sem ofangreindur hópur tengist". Fréttastofa RÚV beindi athyglinni að hræsninni í þessari ákvörðun með því að benda á að hægt er að kaupa aðgang að léttbláum myndum á sjónvarpskerfi Hótel Sögu, eða eins og fréttamaður orðaði það, hvers vegna mætti "kaupa klám og horfa á klám [á Hótel Sögu] en ekki tala um klám"? Kannski eru jafnvel þessir sömu leikarar í þeim myndum, sem fá nú ekki að gista á Hótel Sögu og horfa á sínar eigin myndir?

Upprunalegt 20.02.: Heitar umræður eru þessa dagana um hvataferð nokkurra útlendinga hingað til lands. Þetta munu vera leikarar og framleiðendur á erótískum myndum og þykir ýmsum það vera mjög óæskilegt að þetta fólk komi hingað.

Margt ansi ógáfulegt hefur verið sagt í þessari umræðu. Meðal annars hefur koma þeirra verið borin saman við komu meðlima Falun Gong til Ísland og spurt hvers vegna íslensk stjórnvöld stöðva ekki þessa ferðamenn á sama hátt og meðlimi Falun Gong á sínum tíma.

Falun Gong samtökin eru ólögleg í Kína og meðlimir þeirra eru glæpamenn að áliti kínverskra stjórnvalda. Við getum verið ósammála kínverskum stjórnvöldum en það breytir ekki þeirri staðreynd að við verðum að virða ákvörðunarrétt þeirra og forræði á kínverskri grundu. Meðlimir Falun Gong komu hingað gagngert til mótmæla í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína. Þau áform þóttu ógn við allherjarreglu og öryggi á Íslandi og því tóku íslensk stjórnvöld þá ákvörðun að stöðva för þessa fólks.

Og það varð allt vitlaust á Íslandi...

Ofangreindir leikarar og kvikmyndaframleiðendur stunda löglega vinnu í heimalöndum sínum. Okkur getur mislíkað það sem þau hafa fyrir stafni en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er lögleg iðja þar sem þau búa og starfa. Þessi hópur er að koma hingað til lands í löglegum tilgangi, ætla að sjá Gullfoss og Geysi, fara í bæinn og baða sig í Bláa lóninu. Það er vandséð hvað sé ólöglegt við þessar fyrirætlanir og því sjá íslensk stjórnvöld enga ástæðu til að stöðva för þessa fólks.

Og það er allt vitlaust á Íslandi...

Eftir seinasta landsþing Frjálslynda flokksins var formaðurinn gagnrýndur fyrir það að hafa talað um útlendinga og berkla í sömu andránni, undir liðnum málefni innflytjenda. Hann sagði auðvitað aldrei að allir þeir útlendingar sem kæmu hingað væri smitaðir af berklum en með því að tengja þetta saman óbeint og lauslega þá gátu áheyrendur lesið á milli línanna. Þeir skildu skilaboðin og tilganginum var náð, hugmyndinni og óttanum hafði verið sáð.

Í umræðunni um þessa hvataferð hefur ítrekað verið rætt um tengsl við barnaklám og mansal, sem eru meðal viðbjóðslegustu glæpa. Enginn er samt tilbúinn að fullyrða eða sanna að einhver af þessum ferðamönnum sé viðriðin slíkt. Engu að síður er almennum fullyrðingum um þessi tengsl blandað saman við sértækum fullyrðingum um þennan tiltekna hóp ferðamanna. Allir skilja skilaboðin og tilganginum er náð, hugmyndinni og óttanum hefur verið sáð.

Flugfélög og hótel hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að flytja þetta fólk hingað til lands og hýsa það. Þessi "stórabróðurs" hugsunarháttur er stórundarlegur. Fyrirtækjum í ferðamannaiðnaði kemur það ekkert við hvað ferðamenn gera hér á landi og þau eiga ekki að vera njósna um þá. Það er lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu í þessu landi, ekki einkafyrirtækja.

Fáir hafa orðið til andsvara í þessari umræðu, nema Frjálshyggjufélagið, Vefþjóðviljinn og einn lögmaður, enda eiga menn á hættu að vera úthrópaðir sem verndarar barnakláms og mansals. Uppfært 21.02.: Núna hefur formaður SUS einnig orðið til andsvara.

Sú einfalda regla gildir í okkar réttarríki að allir eru saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð fyrir dómi. Rannsókn og eftirlit lögreglu er háð því að rökstuddur grunur um glæp (á Íslandi) sé fyrir hendi og þarf jafnvel dómsúrskurð til. Í stað þess að grafa undan þessum gildum er þörf á að standa vörð um þau.

19. feb. 2007

RV og American Splendor

Gamanmyndin RV er dæmigerð mynd með Robin Williams. Söguþráðurinn skiptir nánast engu máli og myndin skilur lítið eftir sig en þetta er fín kvöldskemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

American Splendor er mjög sérstök mynd, eins og sumar myndir sem Paul Giamatti hefur leikið í, t.d. Sideways (sem fékk 7/10 í einkunn) Kvikmyndin fjallar um venjulegt líf og skáldskap teiknimyndasöguhöfundarins Harvey Pekar. Mjög áhugaverð mynd.

Fær 8/10 í einkunn.