"Limbó" og skilgreiningar
Á undanförnum dögum hafa birst fréttir um það að páfinn ætli sér hugsanlega að fjarlægja "limbó" úr kaþólskkristinni trú en limbó er sá staður á milli himins og heljar sem óskírð börn fara til því þau hafa ekki verið hreinsuð af erfðasyndinni, sem annars er hreinsuð með skírn. Væntanlega gildir þetta einungis um óskírð kaþólsk börn.
Fyrstu fregnir um að páfinn ætlaði að tilkynna þetta við messu á föstudaginn sl. voru rangar því hann minntist ekkert á þetta og talsmenn páfagarðs sögðu eftir messuna að þetta væri enn til skoðunar og líklega myndi ekkert gerast fyrr en á næsta ári. Þetta er endurskoðunarvinna sem mun hafa staðið yfir síðan 2004.
Ætli það sé verið að reyna að mæla í páfagarði hvort limbó sé til eða ekki með mælitækjum og vísindalegum rannsóknum, eins og stjarneðlisfræðingar reyna að greina stjörnur sem eru langt í burtu? Eða er þetta bara skilgreining sem verið er að fjarlægja af því að hún fellur ekki nógu vel að nútímahugsunarhætti?
Ef hægt er að fjarlægja limbó með því að fjarlægja skilgreiningu, hvað annað í kristinni trú er þá bara skilgreining en ekki raunveruleiki eða staðreynd í einhverjum skilningi (eða í hvaða trú sem er)?
Er guð þá einungis til skv. skilgreiningu og hann má þá fjarlægja hvenær sem er með breyttri skilgreiningu?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli