13. mar. 2010

Ráðdeild og eyðslusemi

Ráðdeild og hagsýni eru lítils metnir eiginleikar á Íslandi en fólki er hampað og það verðlaunað fyrir eyðslusemi.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er rætt um hugmyndir ráðherra um að þvinga afskriftir á bílalánum niður í 110% af markaðsverði. Í fréttinni er bent á að hætta er á að þeir sem tóku mesta áhættu og skuldi mest hagnist á þessum afskriftum en auðvitað er ástæðan fyrir því að ráðherra er að velta þessum hugmyndum fyrir sér sú að það þarf að bjarga fólki.

Bjarga fólki frá vandræðum sem það bjó til sjálft.

Ég er orðinn ofboðslega þreyttur á að hlusta á fólk væla um hvað það eigi bágt, sérstaklega vegna þess að ástand þess virðist vera öllum öðrum að kenna en því sjálfu. Það var verðbólgan, það var gengið, það var fasteignamarkaðurinn, það voru bankarnir, það var ríkisstjórnin, ... Aldrei viðurkennir fólk að það hafi verið þeirra eigin fífldirfska sem sé að koma í bakið á þeim og aldrei heitir fólk því að breyta líferni sínu.

Við hjónin höfum alltaf farið varlega í fjármálum. Þegar við keyptum okkur húsnæði þá skuldsettum við okkur að 65%. Við hefðum getað keypt okkur mun stærra húsnæði á 100% myntkörfuláni en það var einfaldlega fáránleg hugmynd að okkar mati. Í staðinn tókum við lán á lægstu vöxtum sem við gátum fengið, í þeim gjaldmiðli sem við vorum með laun í og einungis að því marki að við töldum okkur með mikilli vissu geta staðið undir afborgunum.

Við höfum aldrei tekið bílalán á Íslandi, við höfum alltaf staðgreitt þá bíla sem við höfum keypt. Við höfum safnað peningum og svo keypt bílinn. Ekki keypt bílinn og svo farið að væla yfir því að við höfum ekki efni á afborgunum.

Það er orðið löngu ljóst að það er fólk eins og við hjónin sem munu þurfa að borga undir rassinn á eyðslusömum vælukjóum næstu árin. Við munum ekki fá að njóta okkur eigin fjármuna. Og gott og vel, það er hin norræna hugsun að standa saman og hjálpa þeim sem minna mega sín. Það er gott samfélagsform.

EN:

Til að sátt náist um slíka lausn þá er kominn tími á fólk líti í eigin barm, viðurkenni þau mistök sem það gerði og setji fram aðgerðaáætlun í eigin lífi. Ekki vísa á einhverja aðra, ekki vísa á að ríkisstjórnin eigi að koma með aðgerðaáætlun; takið ábyrgð, viðurkennið mistökin, lærið af mistökum ykkar, setjið fram raunhæfar hugmyndir um hvernig þið ætlið að bæta tjónið og hvernig þið ætlið að breyta líferni ykkar til frambúðar.

"Ask not what your country can do for you - ask what you can do for your country."

Ég er tilbúinn til að hjálpa, ég hef burði til þess að hjálpa en ég ætla ekki að hjálpa vælukjóum sem ætlast til þess að fá allt upp í hendurnar. Þið þurfið að taka ábyrgð og grípa til aðgerða hvert og eitt.

Hvað ætlar þú að gera?

Engin ummæli: