29. mar. 2007

Uppfærsla á ZoneAlarm (7.0.337.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 7.0.337.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

Þessa nýju útgáfu er ekki hægt að nota með vírusvörn frá CA eða Kaspersky. Hugsanlega eru fleiri vírusvarnir sem ekki er lengur hægt að nota samhliða ZoneAlarm.

26. mar. 2007

Þjóðsöngurinn, þjóðfáninn og tjáningarfrelsið

Kverúlantar og nöldurseggir hafa nú fengið "gott" efni til að amast yfir: Útgáfu Spaugstofunnar á þjóðsöngnum sem frumflutt var á laugardaginn sl.

Skv. lögum er bannað að flytja þjóðsönginn nema með tilteknum hætti og bannað að gera tiltekna hluti við þjóðfánann. Engu að síður tryggir stjórnarskráin að "hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar".

Reyndar er strax dregið í land í stjórnarskránni með viðbótinni að "tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum".

Mér er hins vegar fyrirmunað að sjá hvaða allherjarreglu, öryggi, heilsu eða siðgæði er verið að vernda með þessum boðum og bönnum í þjóðsöngs og -fánalögunum. Í stað þess að kvarta og kveina yfir Spaugstofunni finnst mér að orkunni væri betur varið í að fjarlægja þessar takmarkanir úr lögunum, sem og að fjarlægja þessa takmörkun úr tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Allir eiga að hafa þann rétt að afbaka þjóðsönginn eða klæðast þjóðfánanum (bls. 26) ef þeim finnst þörf á því til að tjá skoðanir sínar.

25. mar. 2007

Forrit, 3. hluti: Google

Þessi pistill um forrit er frábrugðinn fyrri pistlum um póstforrit og vefsjár að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi er ekki fjallað núna um forrit frá mörgum aðilum sem öll leysa sama verkefnið heldur mörg forrit frá sama aðila, Google, sem leysa mismunandi verkefni. Flest snúa að leit eða samskiptum. Helsta ástæðan fyrir því að fjalla sérstaklega um forrit frá Google er sú að þau eru gjarnan þau bestu í sínum flokki.

Í öðru lagi mun ég fjalla bæði um forrit og vefþjónustur, því Google er með margar vefþjónustur sem eru oft betri en samsvarandi forrit frá öðrum aðilum. Sem dæmi þá er Gmail (Google Mail) mun betri þjónusta en öll almenn póstforrit.

Forrit:

Google Desktop  Flokkar öll skjöl, myndir, tölvupóst o.sv.frv. og er með einfalt viðmót til að leita með.
Google Toolbar  Viðbót/takkaslá fyrir Internet Explorer og Firefox fyrir Google leit og margar aðrar Google þjónustur.
Picasa Gríðarlega öflugt og einfalt forrit til að halda utan myndasöfn.
Google Talk Spjallforrit, eins og MSN Messenger, fyrir þá sem nota Google Talk þjónustuna. Getur þó ekki tengst MSN.
Google Pack Þessi forrit og mörg fleiri má fá í einum pakka frá Google, ásamt ýmsum hagnýtum hugbúnaði frá öðrum aðilum.
Vefþjónustur:
Google Besta leit í heimi og á íslensku!
Gmail Besta vefpóstþjónusta í heimi og á íslensku! Hægt að nota samhliða póstforriti með því að nota POP3 aðganginn.
Google Reader Mjög góður fréttalesari (RSS / Atom), t.d. til að lesa blogg.
Blogger Mjög góð bloggþjónusta.
Personalized Home Þín eigin Google leitarsíða. T.d. hægt að setja inn RSS / Atom strauma sem breytast mjög hratt og önnur tól og tæki.
Picasa Web Albums Geymsla og vefur fyrir myndir. Auðvelt að nota með Picasa forritinu en ekki skilyrði.
Google Calendar Dagatal á netinu.
Google Docs & Spreadsheets Ritvinnsluskjöl á netinu, engin þörf á Office.
Google Maps Landakort af flestum stöðum á jörðinni.
Google Earth Gervihnattamyndir af jörðinni. Einnig hægt að fá sem forrit.
Google Groups Spjallþræðir um allt mögulegt.

Borat og Kinsey

"Heimildamyndin" Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan er mikil skemmtun og aðhlátursefni en veldur jafnframt verulega miklum aulahrolli.

Fær 8/10 í einkunn.

Kvikmyndin Kinsey fjallar um ævi Alfred Kinsey, sem var frumkvöðull í rannsóknum á kynlífi. Fjallað er um æsku hans og menntun og síðan rannsóknir hans á kynlífi og kynhvöt frá lífræðilegu sjónarmiði, sem hann varð þekktur fyrir, jafnvel alræmdur, enda hefur kynlíf alltaf verið mikið feimnismál.

Fær 6/10 í einkunn.

Evran óvinsæl?

Skv. fyrirsögn þessarar fréttar hjá RÚV þá er evran óvinsæl meðal íbúa evrulandanna (eða "íbúa evrópsku evru-ríkjanna" eins og RÚV orðar það, ég veit samt ekki hvaða ríki utan Evrópu nota evruna sem lögeyri...).

Þegar maður les fréttina kemur í ljós að 49% af íbúum evrulandanna vilja að fyrri gjaldmiðlar verði teknir upp aftur en 47% vilja halda evrunni. Er ekki fulldjúpt í árina tekið að segja að evran sé óvinsæl, allavega miðað við þessar niðurstöður, væri ekki frekar við hæfi að segja að það séu skiptar skoðanir um evruna? Sérstaklega þegar engin skekkjumörk eru gefin upp og niðurstaðan er nánast helmingaskipti?

Seinna í fréttinni segir "[a]ðeins er meirihluti fyrir því að halda í evruna í 6 af evru-löndunum 13". Með áherslu á aðeins. Nú er 13/2 = 6,5 og þetta er því aftur eins nálægt helmingaskiptum eins og hægt er að komast. Ég gæti skilið notkunina á aðeins ef það hefði verið "aðeins í 1 landi af 13" en "aðeins í 6 löndum af 13"? Ég get ekki séð að hér sé tilefni til að fullyrða mikið meira en að það séu skiptar skoðanir um málið.

Það væri e.t.v. freistandi að halda það að pólitískar skoðanir fréttamanns sjáist hér í fréttaflutningnum en líklega er þetta bara hrein og klár leti. Enda er fréttamaðurinn einungis að þýða beint upp úr fréttatilkynningu Open Europe án þess að vísa í frumheimildina eða segja frá því hvaða samtök þetta eru.

Það er ákaflega leiðinlegur siður fréttamanna sem skrifa fyrir vefinn að vísa ekki á heimildir sínar, í þeim tilfellum þegar þær er að finna á vefnum. Ég tel að þetta sé merki um vanþroska fréttamanna sem eru enn fastir í hugsanahætti eldri miðla, eins og útvarps og dagblaða, sem leyfa ekki tilvísanir í heimildir með jafneinföldum, auðveldum og sjálfsögðum hætti og vefurinn.

Open Europe eru samtök sem munu vera fremur gagnrýnin á Evrópusambandið, nánast pólitísk samtök með tiltekin markmið gegn Evrópusambandinu. Það er því skiljanlegt að þau noti hástemmd lýsingarorð til að lýsa "réttum" niðurstöðum að þeirra mati:

"[A] majority of citizens in the eurozone want to go back to their old national currencies. For the eurozone as a whole 47% wanted to keep the euro, but 49% wanted to go back to their old currency. There is majority support for keeping the euro in only 6 out of the 13 euro member countries."
Fréttamaðurinn hins vegar þýðir beint ofangreindan kafla úr fréttatilkynningunni án nokkurrar gagnrýni, án þess að vísa til heimildarinnar og án þess að fjalla um samtökin sem gerðu könnuna og skrifuðu tilkynninguna. Eftir situr pólitísk yfirlýsing en ekki boðleg frétt.

24. mar. 2007

Uppfærsla á Picasa (2.6.0.36.19)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.6.0.36.19. Í þessari útgáfu er bættur stuðningur við Windows Vista og Picasa Web Albums.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

21. mar. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.3)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.3. Í þessari útgáfu er m.a. 1 öryggisuppfærsla (2007 nr. 11). Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

17. mar. 2007

YouTube (nr. 2)

Finnar eru ekki svo ólíkir Íslendingum (fyrir utan saunaáráttu Finna), allavega ef marka má The Helsinki Complaints Choir. Í miðju laginu er gert stórskemmtilegt grín að Nokia og ofnotkun á farsímum.

"Kvartanakórar" eru reyndar alþjóðlegt fyrirbrigði. Sá finnski er langbestur og The Canadian Complaints Choir er líka mjög góður.

YouTube (nr. 1)

Á YouTube má oft finna stórskemmtileg myndbönd og jafnvel framhaldsþætti, eins og t.d. Mr. Deity þar sem gert er grín að guði og sköpunarsögunni:

Mr. Deity Episode 1: Mr. Deity and the Evil
Mr. Deity Episode 2: Mr. Deity and the Really Big Favor
Mr. Deity Episode 3: Mr. Deity and The Light
Mr. Deity Episode 4: Mr. Deity and the Messages
Mr. Deity Episode 5: Mr. Deity and Lucifer
Mr. Deity Superbowl Extra: The Press Conference
Mr. Deity Episode 7: Mr. Deity and the Tour de Hell
Mr. Deity Episode 8: Mr. Deity and the Top Ten

13. mar. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (mars 2007)

Uppfært 02.04.: Microsoft ætlar að gefa út öryggisuppfærslu á morgun, 03.04., til að laga galla (SA 935423) í meðhöndlun Windows á bendlaskrám. Útgáfan er á undan áætlun vegna þess að verið er að misnota gallann til árása.

Uppfært 29.03.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 935423) vegna galla sem hefur uppgötvast í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Verið er að misnota gallann til árása. Nöfn þessara skráa eru allajafna með endinguna .ani en vegna þess hvernig Windows meðhöndlar skrárnar þá er líka hægt að misnota gallann með því að endurskíra skrárnar með .jpg endingu þannig að þær líti út eins og JPEG ljósmyndir.

Upprunalegt 13.03.: Microsoft gaf ekki út öryggisuppfærslur í dag (13.03.). Þó voru gefnar út ýmsar minniháttar uppfærslur sem gagnlegt er að hafa, t.d. var gefin út viðbótaruppfærsla á rótaröryggisskilríkjum sem voru þó seinast uppfærð fyrir mánuði síðan auk þess sem fleiri gallar í Windows Vista voru lagaðir.

Microsoft gaf engu að síður út mjög stóra og mikilvæga uppfærslu í dag, Service Pack 2 fyrir Windows Server 2003 x86, Windows Server 2003 x64 og Windows XP x64 (KB 914961), sem ákaflega mikilvægt er að hafa. Það er því ekki frí þennan mánuðinn heldur meiri vinna við uppfærslur ef eitthvað er. Hægt er að sækja pakkana beint frá Microsoft, sem er hentugt ef uppfæra þarf margar tölvur.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Athugið að Service Pack 2 fyrir Windows XP x64, sem var gefinn út í dag, er ekki sami pakkinn og Service Pack 2 fyrir Windows XP (x86), sem var gefinn út 06.08.2004. Flestar heimatölvur eru með 32-bita (x86) útgáfunni af Windows XP og útgáfan í dag er því ekki fyrir þær.

12. mar. 2007

Búseta á netinu

Mágkona mín krafðist þess um daginn að ég skrifaði um hana hérna á pistlasíðunni minni og bar helst fram þær röksemdir að hún væri sæt og skemmtileg. Sem er alveg rétt, hún er sæt og skemmtileg, en ég verð að hryggja hana með því að ég get engu að síður ekki skrifað um hana. Eru aðallega tvær ástæður fyrir því.

Fyrri ástæðan er sú að það er ekki hægt að vísa í hana á netinu. Hún hefur enga fasta búsetu, notar ekki MySpace, YouTube, Facebook eða Flickr og er ekki með heimasíðu eða blogg. Hún er eiginlega hálfgerð flökkukind á netinu, einskonar netvæddur sígauni sem dúkkar upp á MSN þegar síst varir. Hefur að því virðist enga þörf fyrir að sýna sig eða besserwisserast á netinu... eins og yðar einlægur undirritaður. Þetta er nokkuð sérstakt nú til dags þegar allir og amma hans eru að blogga og eiga annað heimili á netinu.

Seinni ástæðan er sú að það var aldrei ætlunin að þetta yrði persónulegt blogg hérna á þessari síðu. Upphaflega hugmyndin var sú að halda utan um dóma um kvikmyndir sem ég horfi á og skrifa pistla um tölvumál og netöryggi (bæti líklega við meiru um tölvuleiki fljótlega) og svo þróaðist skipulagið yfir í það sem má sjá í efnisflokkunum hér hægra megin.

Ég hef aldrei skilið hugmyndina á bakvið persónuleg blogg ("ég fór snemma að sofa") og endist ekki við að lesa þau en finnst mun meira virði að heyra skoðanir fólks á hinu ýmsu málefnum eða sjá eitthvað sniðugt sem það fann og langar að deila með manni.

9. mar. 2007

Ritskoðun í Tyrklandi

Lögbann var sett á YouTube í Tyrklandi fyrir tveimur dögum en opnað aftur í dag.

Ef Tyrkir reyndu að fara á YouTube fengu þeir skilaboð á tyrknesku og ensku: "Access to www.youtube.com site has been suspended in accordance with decision no: 2007/384 dated 06.03.2007 of Istanbul First Criminal Peace Court".

Lögbannið var sett vegna þess að tiltekið myndband á YouTube þótti móðga Atatürk, frelsishetju og stofnanda nútíma Tyrklands.

Svona uppákomur eiga ekki að líðast í ríkjum sem vilja teljast til opinna og frjálsra lýðræðis- og réttarríkja og eru Tyrklandi til háborinnar skammar.

Því miður erum við Evrópubúar ekki alveg fullkomlega saklausir í þessum efnum, t.d. eru tilteknar skoðanir um seinni heimsstyrjöldina taldar óæskilegar í Þýskalandi og Austurríki og eru bannaðar þar. Í fljótu bragði man ég ekki dæmi frá Íslandi en málsfrelsisákvæðið í íslensku stjórnarskránni er þó ekki algilt; í 73. gr. stendur að tjáningarfrelsi megi setja skorður með lögum.

"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" (Evelyn Beatrice Hall) er mitt móttó.

8. mar. 2007

Æland.is

Forsætisráðuneytið auglýsir nú nýja upplýsinga- og þjónustuveitu fyrir almenning, sem það kallar Ísland.is þrátt fyrir að annað lénsnafn, reyndar mjög svipað, sé notað fyrir þessa veitu.

Ég hef áður skrifað um íslensk lén og þann gífurlega misskilning sem virðist gæta gagnvart íslenskum stöfum í nöfnum léna undir .is þjóðarléninu. Forsætisráðuneytið virðist illa upplýst um þessi mál og þörf á smá fræðslu.

Staðreyndin er sú að lénið Ísland.is er í eigu fyrirtækis sem heitir Netvistun ehf. en forsætisráðuneytið er hins vegar að nota lénið Island.is fyrir þessa nýju veitu sína.

Orðið island er enska, borið fram æland og þýðir eyja. Ákaflega viðeigandi en jafnframt óskiljanlegt hvers vegna forsætisráðuneytið vissi ekki af því að hægt er að skrá íslensk lén með íslenskum stöfum og hvers vegna ekki var leitað eftir því að Netvistun gæfi eftir lénið sitt þannig að þessi nýja upplýsinga- og þjónustuveita væri skráð undir báðum lénsnöfnunum.

Lénum með íslenskum stöfum hefur verið úthlutað síðan mitt ár 2004 og þau virka m.a. í Internet Explorer 7 og Firefox 2.

6. mar. 2007

Uppfærsla á QuickTime (7.1.5)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.1.5. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update. Á Windows þarf að nota Apple Software Update tólið sem fylgir með nýlegum útgáfum af QuickTime og iTunes.

4. mar. 2007

Trúgirni

Trúgirni netnotanda er oft á tíðum ótrúleg. Fólk sem alla jafna hefur varann á sér í daglegu lífi trúir öllu sem það sér á netinu eins og það væri heilagur sannleikur.

Það kom upp skemmtilegt dæmi um þetta í Íslandi í dag nú fyrir helgina. Um morguninn skrifaði Steingrímur Sævarr Ólafsson mjög einlæga bloggfærslu um áfengiseitrun og vísaði í myndband sem sýna átti háskólanema drekka 700 ml flösku af snafsi á tveimur mínútum. Seinna um daginn kom í ljós að myndbandið var sviðsett. Engu að síður var umfjöllunin þá um kvöldið í Íslandi í dag um (meinta) áfengisdrykkju. Það var reyndar rækilega tekið fram að þessi umfjöllun byggði á sviðsettu myndbandi en það er nú ekki mikil fréttamennska að vera með umfjöllun byggða á sviðsettum atburðum. Líklegast er að Steingrímur hafi fattað þetta eftir að var hann búinn að bæta við bloggfærsluna "við fjöllum um málið og sýnum myndbandið í Íslandi í dag í kvöld" og var því búinn að binda hendur sínar.

En þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar hafa hlaupið á sig og tekið myndbönd á YouTube trúanleg og er alls ekki bundið við Ísland. "UNC Breakup" er nýlegt dæmi þar sem mjög margir stórir fjölmiðlar létu gabba sig. Þeir héldu að mjög vinsælt myndband á YouTube væri alvara (sjónarhorn 1, sjónarhorn 2, viðtal) og birtu fréttir um það sem þurfti svo að taka tilbaka nokkrum dögum seinna.

Almennir notendur YouTube hafa líka látið gabbast, sbr. æðið í kringum lonelygirl15, sem kom svo í ljós að er leikkona og stýrt af leikstjóra og handritshöfundum.

Á netinu má finna staðreyndir, eins og á Encyclopædia Britannica og Wikipedia, en allt annað efni á netinu ætti að líta á sem skemmtiefni en ekki staðreyndir, þar til annað sannast.

Uppfærsla á Google Toolbar (3.0.20070217 / 4.0.1601.4978)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu 3.0.20070217 fyrir Firefox og útgáfu 4.0.1601.4978 fyrir Internet Explorer. Firefox útgáfan er mikið breytt og uppfærð til samræmis við Internet Explorer útgáfuna sem hefur aftur á móti lítið breyst.

Nýjustu Firefox útgáfuna verður að sækja beint frá Google (með Firefox), hún birtist ekki ef Add-ons eru uppfærð. Internet Explorer útgáfan ætti að uppfæra sig sjálfkrafa en einnig er hægt að sækja hana beint frá Google (með Internet Explorer) ef það hefur ekki gerst.

3. mar. 2007

Fréttabann hjá AP

Fréttaveitan The Associated Press (AP) gerði sérstaka tilraun á dögunum og flutti engar fréttir af Paris Hilton í heila viku.

Stúlkan sú er eiginlega þekkt fyrir það eitt að vera þekkt. Hún er ekki þekkt fyrir neitt annað. AP ákvað því í raun að flytja engar fréttir af engu og athuga hvort að einhver saknaði þess. AP gafst svo upp eftir eina viku þegar stórbrotnir atburðir urðu í lífi stúlkunnar.

Það undarlega er að þessi ákvörðun, að flytja engar fréttir af engu, urðu að stórfrétt ("Even Ignoring Paris Hilton Makes News"). Þannig að það er fréttnæmt að flytja engar fréttir af ekki neinu.

Paris Hilton getur auðvitað ekki tapað á þessu, annað hvort er hún sjálf í fjölmiðlum eða það er helst í fréttum að fjölmiðlar séu að hunsa hana. Maður vorkennir fjölmiðlum samt hálfpartinn fyrir að vera í þessum vítahring. Þeir geta engu að síður einungis sjálfum sér kennt um þá aðstöðu sem þeir eru í, þeir bjuggu sjálfir til þetta skrímsli, þennan fjölmiðlavírus:

Jeff Jarvis, who teaches journalism at the City University of New York, decries the "one-size-fits-all disease" afflicting media outlets, who feel that "everybody's covering it, so we must, too." [...] "That disease leads to the Paris Hilton virus spreading through the news industry," says Jarvis.

Evra eða euro?

Evruumræðan er búin og ljóst að evran verður aldrei tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi.

Allavega ef marka má frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag (03.03., forsíða, neðst) en þar er sagt frá því að Íslendingar yrðu að nota heitið euro, en ekki evra, um þennan gjaldmiðil.

Hvurslags fréttamat er þetta eiginlega hjá Fréttablaðinu? Í fréttinni er rætt við lögfræðing hjá Seðlabanka Evrópu um möguleika Íslendinga á upptöku evrunnar og ýmis atriði því tengd skoðuð, eins og skilyrði fyrir upptöku hennar, en í fyrirsögn og fyrstu málsgrein er lögð aðaláhersla á smávægilegt lagatæknilegt atriði um hvað gjaldmiðlinn yrði formlega að heita.

Mikil má örvænting evruandstæðinga vera ef þetta er orðin aðalröksemd þeirra...

1. mar. 2007

Um orðið "netfang"

Orðið netfang er oft notað þar sem líklega var ætlunin að nota orðin póstfang, tölvupóstfang eða netpóstfang. Það er útbreiddur misskilningur að ef netpóstfang er stytt í netfang þá haldi það merkingu sinni. Svo er ekki, það breytir um merkingu, en réttari stytting á netpóstfang væri póstfang.

Annars vegar er orðið netfang þýðing á network address (þ.e.a.s. stytting á orðinu netvistfang) sem vísar annað hvort til vistfangs á netlagi, t.d. IP-tölu tölvu/netbúnaðar, eða vistfangs á greinatengilagi, t.d. MAC-tölu tölvu/netbúnaðar. Þetta er augljóslega mjög tæknileg merking sem gagnast fyrst og fremst tæknifólki en ekki venjulegum tölvunotendum.

Hins vegar er orðið netfang almennt samheiti fyrir öll þessi "föng", þ.e. samheiti fyrir póstfang, veffang, MSN-fang eða spjallfang og allar þær aðrar leiðir sem hægt er að nálgast okkur á netinu. Þetta er sú merking sem hinn almenni tölvunotandi ætti að leggja í orðið netfang. Dæmi um notkun væri að nota netföng sem heiti á lista þar sem þessi atriði hér að ofan, eins og póstfang og veffang, væru tíunduð.