Cantat-3 bilaður
Uppfært 10.01.: Byrjað verður að gera við Cantat-3 sæstrenginn hinn 13.01. nk. og stöðvast umferð í 10 daga á meðan á viðgerð stendur. Þetta mun valda truflunum á netumferð hjá RHnet en ekki hjá Símanum, enda greip Síminn strax til ráðstafana við bilunina og flutti umferð yfir á Farice-1 sæstrenginn. Engar fréttir hafa borist af því hvað Vodafone hefur gert eða mun gera.
Í skýrslu starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta, sem var birt nýlega, kemur fram (sjá grein 3.10) að það væri "áhyggjuefni [...] ef bilun yrði á strengnum í sjó þar sem viðgerð getur tekið allt að 14 daga". Þegar viðgerð lýkur hinn 22.01. hefur Cantat-3 verið bilaður í 37 daga.
Uppfært 18.12.: Vesturleggur Cantat-3 (frá Íslandi til Kanada) bilaði aftur í morgun. Ekki er búist við að takist að gera við þann hluta strengsins í bráð.
Uppfært 17.12.: Bráðabirgðaviðgerð er lokið á Cantat-3 en fullnaðarviðgerð fer fram síðar. Algjört sambandsrof var frá um kl. 23:30 í gær til um kl. 19:30 í kvöld eða í um 20 klukkustundir. Búast má við einhverjum truflunum á netsambandi þar til viðgerðum er endanlega lokið.
Upprunalegt 17.12.: Sæstrengurinn Cantat-3 er bilaður og verður hugsanlega bilaður í 2-3 vikur.
Net- og fjarskiptasamband til og frá Íslandi hangir nú á einum sæstreng, Farice-1. Þeir sem eingöngu nota Cantat-3, eins og RHnet (Landspítalinn og háskólarnir), eru algjörlega sambandslausir við umheiminn.
Fyrr í þessum mánuði var birt skýrsla starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem starfshópurinn lagði til (sjá grein 3.10) var að lagður yrði nýr sæstrengur hið fyrsta, Farice-2, til að hringtengja Farice kerfið svo að bilanir á sjó valdi ekki langvarandi sambandsleysi, en um 14 daga getur tekið að gera við slíka bilun. Var sérstaklega til þess horft að Cantat-3 strengurinn er orðinn mjög gamall, með takmarkaða flutningsgetu og er byggður á úreltri tækni.
Samgönguráðherra hefur samþykkt að fara að tillögum starfshópsins. Mun verða fjallað um þær á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn, skv. frétt RÚV, og er viðeigandi að það gerist í skugga yfirstandandi alvarlegrar bilunar af þessum toga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli