23. des. 2014

Hjólaárið 2014

Spandex er ekki eitthvað sem var á dagskrá þetta árið og heldur ekki að taka þátt í hjólreiðakeppnum, en ég hef nálgast hjólreiðar þannig að skipuleggja hlutina ekki alltof mikið en hafa þeim mun meira gaman af því sem ég geri.

Samanburðurinn við 2013 er ákaflega hagstæður, um 140 km þá en nærri 1.300 km núna. Ég tel samt nokkuð víst að níföld aukning á næsta ári, upp í tæpa 12.000 km, sé ekki alveg í spilunum...


Nóvember var besti hjólamánuðurinn, óvanalega gott veður þá, sem margir urðu varir við og nýttu sér, og ég fór að hjóla nokkuð reglulega með Víkingum.


Ég keypti mér þráðlausa vigt til að fylgjast með árangrinum en bíð ennþá spenntur eftir niðurstöðunum. Ég er alveg viss um að þær eru þarna... Annars eru 99 kg töluvert betra en 128 kg, ég hefði bara þurft að skrá þetta betur frá janúar 2012.


Sunnudagurinn 20. júlí var mikill áfangi. Fram að þeim tíma hafði ég mest farið 5-10 km ferðir en þennan sunnudag fórum við Sonja hringinn í kringum Reykjanestána, 46,6 km í góðu veðri, líklega ævintýralega góðu veðri af Reykjanesinu að vera þar sem alltaf er rok ("Keflavíkurflugvöllur, hringur rangsælis").


Eftir þessa ferð var það ekki þess virði að fara út fyrir hússins dyr fyrir minna en 20-30 km. Ég fór að kanna fleiri leiðir, dalina þrjá á höfuðborgarsvæðinu, til og frá vinnu, þó ekki mikið út á Gróttu eins og margir gera. Það var samt ekki enn kominn spandextími, það gerðist seinna.

Í ágúst skipulagði ég að grípa góðviðrisdag og hjóla strendur Reykjavíkur. Þriðjudagurinn 21. ágúst var sá dagur, ég fór úr vinnunni með skömmum fyrirvara fyrir "Strandferðina miklu", eins og ég með mjög hógværum hætti kallaði hana, sem ég skjalfesti í myndum.


Þetta var mjög skemmtileg ferð, sameinaði margt dundur sem ég hef gaman af: Skoða kort, hjóla, slappa af, taka myndir.

September var spandex. Kveikjan var KexReið 2014 hinn 20. september (myndband, ferill); ég ákvað að nota bara gamla hjólið mitt þó svo að ég yrði líklega sá eini sem væri ekki á racer en ný föt var nauðsynlegt að fá.


Þessi keppni var æðisleg og ég var ágætlega ánægður með árangurinn. Á næsta ári er stefnan sett á Tour de Hvolsvöllur B, KexReið 2015 og aðrar keppnir af svipuðum toga ásamt því að hjóla með Reiðhjólabændum og Víkingum, ferðir eins og "Nóbel-Víkingur með kaffi og kanilsnúð", sem var lengsta ferðin á árinu, 55,6 km, seint í nóvember í fríðum hópi valkyrja.


Stefnan er líka sett á nýtt hjól snemma á næsta ári, Specialized Diverge Elite A1 er í sigtinu.


Hjólasjóðurinn er opinn ef þið eruð enn í vandræðum með jólagjöf til mín. ;)

Viðbót: Að lokum er hér myndræn samantekt með helstu staðreyndum frá Strava.