20. des. 2006

Lélegar nettengingar til útlanda

Seinustu vikur hafa þær nettengingar til útlanda sem ég hef aðgang að verið mjög lélegar, slitróttar og hægvirkar. Þær eru allar hjá Vodafone. Sérstaklega er ástandið slæmt seint á kvöldin.

Nýlega var birt skýrsla starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til að fjalla um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem kom fram í þessari skýrslu (grein 3.10) er að verð á útlandatengingum hér er 8-11 dýrara en erlendis. Afleiðing þessarar háu verðlagningar er sú að netveiturnar kaupa eins litla bandvídd til útlanda og þau komast upp með, reyna að fresta stækkunum í lengstu lög og beita allskonar brögðum eins og Traffic Shaping og Quality of Service til að "minnka álagið". Það verður reyndar til þess að það sem notandinn fær er "Trickle Traffic" og "Lack of Quality of Service".

Netveiturnar keppast við að bjóða 8-12 Mb/s ADSL tengingar en staðreyndin er sú að þessi hraði næst einungis á milli viðskiptavinarins og næsta tengipunktar hjá netveitunni. Hugsanlega næst hann innanlands ef lítið álag er á netinu. En þessi hraði næst ekki frá útlöndum, nema e.t.v. í mjög stuttan tíma og við mjög sérstakar aðstæður, því það eru alltof margir notendur. Segjum t.d. að Vodafone sé með 750 Mb/s heildartengingu til útlanda. Ef hver viðskiptavinur er að nota 12 Mb/s þá geta verið 62 notendur samtímis. Ef þeir eru fleiri (og þeir eru mun fleiri) að þá fær hver og einn minni bandvídd til umráða.

Ástandið snarversnaði þegar Cantat-3 sæstrengurinn bilaði um seinustu helgi. Vodafone segir í tilkynningu á vefsetri sínu að bilunin "getur haft áhrif netsamskipti [...] til útlanda" en það er mjög vægt til orða tekið svo ekki sé nú meira sagt. Tengingar til og frá Bandaríkjunum og Kanada eru hryllilega lélegar þessa dagana.

Engin ummæli: