23. ágú. 2006

Tölvuauglýsingar

Á hverju hausti dynja yfir auglýsingar um fartölvur til hinna ýmsu nota, aðallega fyrir skólafólk. Hérna er dæmigerð lýsing, örlítið stytt:

2.0GHz Intel Core Duo T2500 2MB L2 Cache, 2GB DDR2 533MHz 240pin, 120GB SATA 5400RPM, DVD±RW Dual Layer, 15.4" WideScreen WSXGA 1680x1050dpi, 256MB ATI Radeon X1600 PCI-Express HyperMemory 256/512MB, hljóðkerfi með 2 hátölurum og hljóðnema, lyklaborð í fullri stærð, innbyggð snertinæm músarstýring með skrunhjóli í allar áttir, Gigabit 10/100/1000, 54Mbps 802.11g, BlueTooth, Windows XP Pro SP2, 4xUSB 2.0, VGA/DVI, FireWire, S-Video, Infrared, Docking, innbyggður 5 in 1 kortalesari, 1.3MP myndavél, VOIP sími.
Þetta er mikil talna- og skammstafanasúpa sem enginn skilur. Enda þurfa almennir tölvunotendur, sem eru t.d. að kaupa tölvu fyrir skólann, ekki að skilja þetta og hafa lítið gagn af því að skilja þetta. Staðreyndin er sú að fyrir flesta skiptir nánast engu máli hvaða fartölvu þeir kaupa, þær uppfylla allar þær kröfur sem t.d. almennir nemendur myndu gera.

Nemendur í sérhæfðum tölvunámsgreinum eins og tölvunarfræði og verkfræði geta valið sér tölvu byggt á lýsingum eins og er hér að ofan (og hafa væntanlega þekkingu til þess). Hinir þurfa þrjár tölur/staðreyndir til að velja sér tölvu og enginn þeirra kemur fram hér að ofan. Það eru (1) verð tölvunnar, (2) þyngd/umfang tölvunnar og (3) endingartími fullhlaðinnar rafhlöðu.

Ef ætlunin er að nota tölvuna í skóla og bera hana því nánast allan daginn þá skiptir þyngdin öllu máli. Ef hún á að endast allan daginn án þess að hægt sé að stinga henni í samband þá verður rafhlaðan að endast nógu lengi.

Léttustu og þyngstu fartölvurnar eru þær dýrustu (12" skjár og 17" skjár) því annars vegar er búið að troða tölvunum í alltof litlar umbúðir og fjarlægja hvert einasta óþarfa aukagramm og hins vegar eru þær búnar öllum hugsanlegum aukabúnaði. Ódýrustu tölvurnar eru þarna á milli (14-15" skjár). Fartölvur eru vanalega dýrari (og stundum aðeins þyngri) eftir því sem rafhlöðuending er betri.

Síðan er bara að vega og meta þyngd og rafhlöðuendingu á móti því hvað fólk er tilbúið að borga mikið fyrir slíkan grip.

Ef sölumaðurinn fer að tala um hvað einhver tölva er með mikið af dóti þá er um að gera að spyrja hann á móti hvað þú getur gert við þennan aukabúnað og hvernig hann getur hjálpað þér. Hjálpar Bluetooth, innbyggð vefmyndavél og 17" breiðtjaldsskjár þér við að taka glósur?

Það er erfitt að gera mistök. Það eina sem skólafólk þarf að hafa sérstaklega í huga er að kaupa alls ekki stýrikerfið Windows XP Home með tölvunni. Notið Windows XP Professional (algengast), Mac OS X Tiger (flottast) eða Linux (nördalegast; t.d. SUSE, Fedora, Ubuntu, Linspire eða Xandros svo nokkrar Linux útgáfur sé nefndar).

The Out-of-Towners og Me, Myself & Irene

Kvikmyndin The Out-of-Towners er dæmigerð Steve Martin mynd um hjón frá Ohio sem koma til New York og lenda í ýmsum ævintýrum. Fín gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin Me, Myself & Irene er dæmigerð Jim Carrey mynd um geðklofa lögreglumann og ævintýrin sem hann lendir í. Fín gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

19. ágú. 2006

The Pink Panther og Open Water

Kvikmyndin The Pink Panther er fín blanda af dæmigerðri Pink Panther mynd og dæmigerðri Steve Martin mynd. Söguþráðurinn skiptir litlu sem engu máli því myndin er samansafn atriða/brandara, sem flestir heppnast mjög vel. "Söng- og leikkonan" Beyoncé Knowles er einstaklega léleg í hlutverki sínu (á svipaðan hátt og önnur "söng- og leikkona" Jennifer Lopez, sem gert hefur sitt besta til að eyðileggja nokkrar kvikmyndir) en henni tekst ekki að eyðileggja myndina. Fín afþreying.

Fær 7/10 í einkunn.

Ræman Open Water er sérstaklega langdregin mynd um tvo kafara, sem eru skildir eftir úti á rúmsjó og þurfa að berjast við hákarla en tapa baráttunni. Leiðinleg kvikmyndataka og einstök tímasóun.

Fær 1/10 í einkunn.

17. ágú. 2006

Uppfærslur á Adobe Flash og Shockwave (9.0.16.0 / 10.1.3.018)

Adobe Flash Player og Shockwave Player hafa verið uppfærðir í útgáfu 9.0.16.0 (Flash) og 10.1.3.018 (Shockwave). Hægt er að sjá núverandi útgáfur sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe (vinstra megin í Shockwave glugganum en smella á About í Flash glugganum).

Nýjustu útgáfurnar má sækja beint frá Adobe: Sækja Flash og sækja Shockwave.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Flash annars vegar með IE (eingöngu IE-útgáfan) og hins vegar með einhverri annarri vefsjá (útgáfur fyrir aðrar vefsjár) og svo er einfaldast að sækja Shockwave með einhverri annarri vefsjá en IE (útgáfur fyrir allar vefsjár; ef Shockwave er sótt með IE þá er einungis IE-útgáfan sótt).

13. ágú. 2006

Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest

Kvikmyndin Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest kemur í kjölfar mikilla vinsælda fyrstu myndarinnar, Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl (sem fékk 8/10 í einkunn).

Það er gríðarlega erfitt að fylgja fyrstu myndinni eftir því mikill hluti af vinsældunum var hve aðalpersónan Jack Sparrow kom á óvart og hvað hún var ný, fersk og fyndin. Í mynd tvö kemur hún ekki á óvart og hún er ekki heldur nýtt nógu vel. Það væri hægt að vera með mun meira af fyndum atriðum en í staðinn drukknar myndin í tölvuteiknuðum atriðum (CGI) af ýmsum toga, sem eru mjög góð en heldur mikið af því góða. Myndin byrjar fremur rólega og er of löng. Þetta er engu að síður góð afþreying og verður gaman að sjá mynd þrjú næsta sumar.

Fær 6/10 í einkunn.

12. ágú. 2006

Uppfærsla á Google Toolbar (2.1.20060807)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.1.20060807 fyrir Firefox. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Google.

8. ágú. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (ágúst 2006)

Uppfært 25.08.: Það er engin afsökun fyrir því að vera ekki búinn að sækja þessar uppfærslur núna. Microsoft hefur lagfært og gefið út eina af uppfærslunum aftur (MS06-042) og samhliða gefið út viðvörun (SA 923762) um að fyrri útgáfan hafi verið gölluð og að tölvuþrjótar gætu nýtt sér gallann.

Uppfært 14.08.: Núna er kominn vírus sem nýtir sér einn af þessum göllum (MS06-040) og hefur Microsoft gefið út viðvörun (SA 922437) vegna hans. Microsoft kallar hann Win32/Graweg en flest vírusvarnafyrirtækin kalla hann W32/Ircbot (eða álíka nöfnum). Uppfærið tölvurnar ykkar strax!

Upprunalegt 08.08.: Microsoft gaf út 12 öryggisuppfærslur í dag (08.08.) fyrir Windows, Internet Explorer, Outlook Express, Office o.fl. forrit (2006 nr. 40-51). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

LEGO Star Wars

Tölvuleikurinn LEGO Star Wars (PS2) er góður leikur, sérstaklega fyrir börn en einnig fullorðna. Hann er með mjög skemmtilegt "drop in, drop out" kerfi þarf sem tveir spilarar geta spilað saman sem teymi eða einn spilari getur spilað með tölvunni (og seinni spilarinn getur þá komið inn í leikinn þegar honum hentar). Borðin eru skemmtileg og þrautirnar áhugaverðar. Öll borð þarf að spila a.m.k. tvisvar sinnum; fyrst sem hluta af sögunni og síðan aftur með völdum persónum, sem hafa ákveðna hæfileika, sem eru nauðsynlegir til að leysa allar þrautirnar.

Fær 8/10 í einkunn.

Framhaldið, LEGO Star Wars II: The Original Trilogy (PS2), er væntanlegt fljótlega. Borðin í þeim leik verða ekki eins línuleg og í fyrri leiknum og því hægt að flakka um þau og skoða sig um. Grafíkin og hreyfingar verða betri og nýjum möguleikum bætt við spilunina, m.a. verður hægt að nota faratæki.

V for Vendetta

Kvikmyndin V for Vendetta er hasarmynd með beittri pólitískri ádeilu. Hún fjallar um frelsishetju, eða hryðjuverkamann eftir því hvernig á það er litið, sem berst gegn kúgun stjórnvalda, sem birtist í formi "High Chancellor Stutler" (og það eru rauðir krossfánar og skrúðgöngur og margar fleiri tilvísanir í Hitler og nasista).

Samtölin í myndinni eru mjög skemmtileg og Hugo Weaving er mjög góður í hlutverki V. Hann er með grímu fyrir andlitinu allan tímann en tekst samt að koma hugsunum og tilfinningum persónunnar til skila. Sagan er áhugaverð. Hún hefur mikla skírskotun til nútímans og hvert við gætum verið að stefna með auknum völdum lögreglu og minna eftirliti kjörinna fulltrúa og dómstóla. Grafíkin er mjög góð, ekki yfirgengileg eða augljós heldur fellur einstaklega vel að myndinni.

Fær 8/10 í einkunn.

5. ágú. 2006

Peter Jackson's King Kong

Tölvuleikurinn Peter Jackson's King Kong: The Official Game of the Movie (PS2) er ekki merkilegur; um það bil leiðinlegur í öfugu hlutfalli við fáránlega lengd nafnsins. Söguþráðurinn er ekki skemmtilegur, þrautirnar leiðinlegar og grafíkin slæm. Maður þarf endalaust að vera eltast við einhver spjót, sem renna saman við grátt landslagið, til að berjast við sömu skrýmslin aftur og aftur.

Fær 1/10 í einkunn.

3. ágú. 2006

Uppfærsla á Firefox (1.5.0.6)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 1.5.0.6. Þetta er minniháttar lagfæring á seinustu útgáfu, sem var gefin út fyrir tæpri viku síðan.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu.