29. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í Adobe Reader og Acrobat

Adobe hefur gefið út viðvörun (APSA06-02) vegna galla í Adobe Reader og Acrobat útgáfu 7.0.0-7.0.8 á Windows. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með Adobe Reader og Acrobat sem notuð er í Internet Explorer til að birta PDF-skjöl. Notendur annarra vefsjáa eru ekki í hættu. Adobe vinnur að uppfærslu (líklega 7.0.9) sem verður væntanlega gefin út fljótlega.

Uppfærslur frá Apple (2006-007)

Apple gaf út 31 uppfærslu fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2006-007). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

The Lake House

Kvikmyndin The Lake House er rómantísk saga um elskendur sem eru aðskildir í tíma, hjá honum er árið 2004 en hjá henni er 2006. Þau eiga í ástarsambandi með aðstoð dularfulls póstkassa sem þau nota til að senda skilaboð og hluti sín á milli. Þetta er endurgerð á nýlegri kóreskri mynd, Il Mare (Siworae). Þetta er mjög falleg og skemmtileg saga og vel leikin af Keanu Reeves og Söndru Bullock.

Tímaferðalög bjóða upp á allskonar vitleysu um hvaða eintak af hverjum gerði hvað á hverjum tíma. Það er sem betur fer ekki of mikið af slíku í þessari mynd, nema rétt undir lokin þegar handritshöfundunum hefur þótt nauðsynlegt að fá góðan Hollywood endi á myndina. Þrátt fyrir það er þetta góð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

25. nóv. 2006

6 MP er ekki það sama og 6 MP

Ég hef átt Olympus D-490 Zoom stafræna myndavél í rúm 5 ár. Þetta er 2 MP vél með 4,6 cm skjá (1,8") sem tekur ótrúlega góðar myndir. Fallegir litir og skýrar myndir. Því miður var hún farin að láta á sjá; dauðir punktar komnir í myndirnar, flassið ekki eins bjart og áður; og því var nauðsynlegt að fara að kaupa nýja.

Mér áskotnaðist nýlega HP Photosmart E427, sem er 6 MP vél. Á pappírunum er hún mun betri myndavél en Olympus vélin en þvílíkt og annað eins drasl hef ég sjaldan komist í kynni við. Myndirnar eru kornóttar, fókusinn lélegur og þetta er á allan hátt myndavél sem er ekki peninganna virði (þ.e.a.s hefði ég borgað eitthvað fyrir hana). Hún er verri en Olympus vélin og kom alls ekki til greina sem framtíðarmyndavél.

Ég keypti því Canon Ixus 65 (seld í BNA sem Canon PowerShot SD630) sem er 6 MP myndavél með 7,6 cm skjá (3"). Þetta er frábær myndavél sem tekur stórkostlegar myndir og er með allskonar skemmtilega fídusa. Einnig kostaði hún minna í búð á höfuðborgarsvæðinu (m/vsk) heldur en í Fríhöfninni (án/vsk), sem segir töluvert um okrið þar á bæ.

Á pappírunum er enginn sérstakur munur á HP vélinni og Canon vélinni, en í raun og veru eru þær á engan hátt sambærilegar. HP vélin er drasl en Canon vélin er frábær. Það er ekki hægt að treysta lýsingu framleiðandans og hrár samanburður á tölum (eins og upplausn) segir ekki alla söguna. Það er svo margt sem kemur við sögu í heildarpakkanum: Linsan, upplausnin, skjárinn, örgjörvinn og notkunarmöguleikar, svo nokkur helstu atriðin séu nefnd. Það er því alveg bráðnauðsynlegt að sjá myndir sem teknar eru með þeirri vél sem maður ætlar að kaupa og bera saman við svipaðar vélar frá öðrum framleiðendum.

19. nóv. 2006

Thank You for Smoking og The Hitchhiker's Guide to the Galaxy

Kvikmyndin Thank You for Smoking fjallar um talsmann tóbaksframleiðanda, starf hans og samband við fjölskyldu sína. Mjög skemmtileg og áhugaverð sýn inn í starf sem krefst þess að verja slæman málstað. Góð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Hitchhiker's Guide to the Galaxy er byggð á samnefndum bókum eftir Douglas Adams og hann er einnig meðhöfundur að handritinu. Það var við því að búast að það yrði erfitt að kvikmynda þessa sögu og eflaust margir sem verða fyrir vonbrigðum með þessa mynd. Bækurnar eru meinfyndnar, útvarpsleikritin eru stórkostleg, sjónvarpsþættirnir voru lélegir og þessi mynd er ekkert voðalega góð. Hún er þokkaleg ein og sér en stenst ekki samanburð. Ef maður gerir sér ekki of miklar hugmyndir eða vonir fyrirfram þá er þetta góð afþreying. Útvarpsleikritin eru langbest!

Fær 7/10 í einkunn.

16. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í WinZip 10 og uppfærsla (build 7245)

WinZip hefur gefið út viðvörun (WZ 7245) vegna öryggisgalla í Winzip 10. Gallinn er einungis í þeirri tilteknu útgáfu en ekki í útgáfum 8, 9 eða 11. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með WinZip 10 í gegnum Internet Explorer.

WinZip mælir með því að notendur uppfæri í útgáfu 10 build 7245 (ókeypis) eða uppfæri í útgáfu 11 (kostar peninga).

Uppfærsla MS06-067 frá Microsoft sem gefin var út í fyrradag kemur einnig í veg að Internet Explorer geti notað ActiveX stýringar sem fylgja með WinZip 10. Aldrei mun hafa verið ætlunin að hægt væri að nota þær í Internet Explorer og því ákváð Microsoft í samráði við WinZip að fara þá leið að setja "kill bits" fyrir þær.

15. nóv. 2006

Viðvörun vegna galla í Adobe Flash og uppfærsla (9.0.28.0)

Adobe Flash Player hefur verið uppfærður í útgáfu 9.0.28.0. Samtímis útgáfunni gaf Adobe út viðvörun (APSB06-18) vegna öryggisgalla í fyrri útgáfum. Hægt er að sjá núverandi útgáfu sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Adobe.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Flash annars vegar með IE (eingöngu IE-útgáfan) og hins vegar með einhverri annarri vefsjá (útgáfur fyrir aðrar vefsjár).

Þetta er þvert á leiðbeiningar frá Adobe en staðreyndin er sú að útgáfan af Flash sem Adobe vill meina að sé fyrir Firefox, Mozilla, Netscape, Opera og Internet Explorer uppfærir í raun og veru ekki IE. Til þess þarf að sækja IE-útgáfuna.

Athugið að þó að uppfærsla MS06-069 frá Microsoft í gær sé lagfæring á Flash að þá er þar verið að laga aðra og eldri galla í Flash og einungis í þeirri útgáfu af Flash sem fylgdi með Windows XP á sínum tíma en ekki þá útgáfu sem kann að vera á tölvunni núna. Microsoft vísar í gamla viðvörun frá Adobe (APSB06-11) en Adobe lagaði þá galla í útgáfu 9.0.16.0 í sumar.

14. nóv. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (nóvember 2006)

Uppfært 08.12.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 929433) vegna galla sem hefur uppgötvast í Microsoft Word. Verið er að misnota gallann til árása. Microsoft mun auðvitað laga gallann einhverntímann en þangað til eru ráðleggingarnar: "Do not open or save Word files that you receive from un-trusted sources or that you receive unexpectedly from trusted sources". Sem sagt, ekki nota Word...

Uppfært 20.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 928604) vegna þess að búið er að gefa út kóða til að misnota gallann sem lagaður var í uppfærslu MS06-070 fyrr í mánuðinum. Einungis þeir eru í hættu sem ekki hafa enn sett inn þá uppfærslu.

Upprunalegt 14.11.: Microsoft gaf út 6 öryggisuppfærslur í dag (14.11.) fyrir Windows og Internet Explorer (2006 nr. 66-71). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

13. nóv. 2006

Andlát tölvu

Tölvan mín dó fyrir um viku síðan, nánar tiltekið að morgni 04.11.2006. Fyrirvarinn var enginn. Ég hafði ræst hana fyrr um morguninn, um áttaleytið, og lesið fréttir en slökkti svo á henni. Stýrikerfið ræsti aldrei aftur. Það var 5 ára, 3 mánaða og 5 daga gamalt.

Þessi uppsetning var síðan 30.07.2001 kl. 16:23. Orsökin reyndist vera bilaður diskur þannig að ég keypti nýjan disk og setti upp nýtt stýrikerfi, sem ræsti í fyrsta skipti 04.11.2006 kl. 17:34.

Tölvan er látin, lengi lifi tölvan.

11. nóv. 2006

Mission: Impossible III

Kvikmyndin Mission: Impossible III er fín hasarmynd. Söguþráðurinn skiptir ekki öllu máli (en hann er trúanlegur og það er samhengi í honum) því það er góður og skemmtilegur hasar í þessari mynd frá upphafi til enda.

Fyrsta myndin, Mission: Impossible, var mjög góð og fersk og fékk 7/10 í einkunn. Önnur myndin, Mission: Impossible II, var leiðinleg og ruglingsleg, var alveg á mörkum þess að vera þess virði að horfa á honum og fékk 5/10 í einkunn. Menn hafa lært af þeim mistökum og þriðja myndin er mun betri. Góð skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.