25. nóv. 2006

6 MP er ekki það sama og 6 MP

Ég hef átt Olympus D-490 Zoom stafræna myndavél í rúm 5 ár. Þetta er 2 MP vél með 4,6 cm skjá (1,8") sem tekur ótrúlega góðar myndir. Fallegir litir og skýrar myndir. Því miður var hún farin að láta á sjá; dauðir punktar komnir í myndirnar, flassið ekki eins bjart og áður; og því var nauðsynlegt að fara að kaupa nýja.

Mér áskotnaðist nýlega HP Photosmart E427, sem er 6 MP vél. Á pappírunum er hún mun betri myndavél en Olympus vélin en þvílíkt og annað eins drasl hef ég sjaldan komist í kynni við. Myndirnar eru kornóttar, fókusinn lélegur og þetta er á allan hátt myndavél sem er ekki peninganna virði (þ.e.a.s hefði ég borgað eitthvað fyrir hana). Hún er verri en Olympus vélin og kom alls ekki til greina sem framtíðarmyndavél.

Ég keypti því Canon Ixus 65 (seld í BNA sem Canon PowerShot SD630) sem er 6 MP myndavél með 7,6 cm skjá (3"). Þetta er frábær myndavél sem tekur stórkostlegar myndir og er með allskonar skemmtilega fídusa. Einnig kostaði hún minna í búð á höfuðborgarsvæðinu (m/vsk) heldur en í Fríhöfninni (án/vsk), sem segir töluvert um okrið þar á bæ.

Á pappírunum er enginn sérstakur munur á HP vélinni og Canon vélinni, en í raun og veru eru þær á engan hátt sambærilegar. HP vélin er drasl en Canon vélin er frábær. Það er ekki hægt að treysta lýsingu framleiðandans og hrár samanburður á tölum (eins og upplausn) segir ekki alla söguna. Það er svo margt sem kemur við sögu í heildarpakkanum: Linsan, upplausnin, skjárinn, örgjörvinn og notkunarmöguleikar, svo nokkur helstu atriðin séu nefnd. Það er því alveg bráðnauðsynlegt að sjá myndir sem teknar eru með þeirri vél sem maður ætlar að kaupa og bera saman við svipaðar vélar frá öðrum framleiðendum.

Engin ummæli: