2. des. 2006

Vodafone hendir pósti

Uppfært 05.12.: Pósturinn minn er kominn í lag. Kerfisstjórar Vodafone voru allir af vilja gerðir til að leysa vandamálið (þegar ég loksins komst framhjá þjónustuverinu og í beint samband við þá) en á endanum var niðurstaðan að slökkva á síun hjá mér.

Upprunalegt 02.12.: Fyrr í vikunni tók Vodafone í notkun nýja ruslpóstssíu. Það er lofsvert framtak að bjóða betri þjónustu... ef þessi nýja þjónusta væri í raun betra heldur en það sem fyrir var!

Því miður er hún verri en ekki neitt því Vodafone er að henda raunverulegum pósti í miklum mæli.

Það eru fjölmörg vandamál: Nýja ruslpóstsían á við stórfenglegt "false-positive" vandamál að stríða, þ.e. hún flaggar raunverulegan tölvupóst ranglega sem rusl í miklum mæli. Hún hendir öllum slíkum tölvupósti þannig að viðtakendur geta ekki áttað sig á því sem gerst hefur því þeir fá ekki póstinn (ranglega) merktan sem rusl, heldur berst hann einfaldlega aldrei. Síðan er engin sóttkví á netinu sem hægt er að fara í til að finna slíka tölvupósta og/eða breyta stillingum.

Það versta er svo að starfsfólk í þjónustuveri Vodafone virðist ekki átta sig á vandamálinu og getur ekki hjálpað notendum, nema að vísa málinu til kerfisstjóra. Ég er búinn að kvarta mikið á undanförnum dögum og er í þeirri aðstöðu að geta fullyrt um hvaða tölvupósta ég hefði átt að fá, frá hverjum, klukkan hvað og jafnvel hvaða kennitölu þeir fengu þegar þeir komu inn í póstkerfi Vodafone. En ég bíð enn eftir svari og lausn.

Engin ummæli: