Íslensk lén
Í Fréttablaðinu í dag (27.09., bls. 16, efst hægra megin) er frétt um íslensk lén. Fréttin byrjar á þessari setningu: "Íslenskir bókstafir eru ekki leyfilegir í lénum á internetinu."
Þessi fullyrðing Fréttablaðsins er kolröng. Íslenskir stafir eru víst leyfilegir í lénum á netinu. Það er ekki enn útbreiddur stuðningur við aðra bókstafi en þá sem finna má í bandarískri ensku en íslenskir stafir eru engu að síður leyfilegir. Þar að auki eru þeir studdir og eru í notkun á .is en Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hefur tekið við lénaskráningum með íslenskum bókstöfum (svokölluðum IDN skráningum) síðan 01.07.2004 eða í tæp tvö ár og þrjá mánuði.
Það kostulegasta við frétt Fréttablaðsins er að þess eigið lén er skráð með bæði enskum og íslenskum bókstöfum hjá ISNIC, þ.e.a.s. lénin frettabladid.is og fréttablaðið.is eru bæði skráð og það er meira en ár síðan að fréttablaðið.is var skráð af 365-miðlum hf. Hvernig má það vera að skv. Fréttablaðinu eru íslenskir bókstafir ekki leyfilegir í lénum á netinu en Fréttablaðið hefur samt sem áður tekist að skrá fréttablaðið.is með íslenskum stöfum?
Hið íslenska lén Fréttablaðsins virkar ekki sérstaklega vel þrátt fyrir að rúmt ár sé liðið frá skráningu þess. Ef www.frettabladid.is er opnað þá birtist www.visir.is en ef www.fréttablaðið.is er opnað þá birtist einungis vefsíða sem segir: "Þetta vefsvæði er vistað hjá Og Vodafone".
Aðrir gera betur og t.d. er bæði hægt að fara á www.althingi.is og www.alþingi.is og er nú töluvert meiri reisn yfir seinni vefslóðinni. Hún virkar reyndar ekki í Internet Explorer 5.0, 5.5 eða 6.0 (enginn IDN stuðningur þar) nema með sérstakri vefsjárviðbót eins og i-Nav viðbótinni frá Verisign en almennilegar vefsjár eins og Firefox eiga ekki í neinum vandræðum með hana. (Internet Explorer 7 mun styðja IDN lén.)
Fyrirsögn fréttar Fréttablaðsins er "Misskilningur: Íslensk lén" og það eru orð að sönnu því Fréttablaðið hefur algerlega misskilið íslensk lén.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli