17. des. 2006

Raunveruleikir

Uppfært 28.12.: Ég tjáði mig aftur, sérstaklega hnyttilega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í annarri frétt á RÚV.

Uppfært 27.12.: Ég tjáði mig, ákaflega spekingslega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í frétt á RÚV.

Upprunalegt 17.12.: Raunveruleikir á netinu (MMORPG), þar sem fólk spilar í sýndarheimi með eða á móti hverju öðru, verða æ vinsælli og umfangsmeiri.

Það eru velþekkt dæmi um það að fólk þarf stundum að mæta í þá leiki á tilteknum tímum, t.d. til að taka þátt í aðgerð með tugum annarra spilara. Svo getur stríð brotist út á hvaða tíma sólarhringsins sem er og þá þurfa menn e.t.v. að vakna um miðja nótt og mæta í leikinn til að aðstoða félaga sína. Eða mæta á réttum tíma fyrir upptökur á kvikmynd í World of Warcraft...

Umfangið er þó farið að taka á sig nýja mynd og slíkir leikir eru farnir að verða æ meiri hluti af raunverulegu lífi fólks. Þetta byrjaði með því að spilarar fóru að selja leikmuni og -peninga á eBay en núna eru fyrirtæki og stjórnvöld farin að taka þátt. Sem dæmi má nefna að Reuters opnaði nýlega fréttastofu í Second Life (en þar "búa" um 2 milljónir manna), Adidas og Toyota hafa opnað verslanir þar og bjóða sýndarútgáfur af raunverulegum vörum og önnur fyrirtæki eru að velta fyrir sér að opna útibú í leiknum til að þjónusta íbúana.

Spilarar eru líka farnir að krefjast þess að fá lögbundin eignarrétt á leikmununum og -peningunum sínum og vernd gagnvart höfundum og rekstraraðilum leikjanna. Á sama tíma eru bandarísk stjórnvöld farin að velta fyrir sér að skattleggja tekjur og eignir fólks í svona leikjum. Enda eru raunveruleikir með sitt eigið hagkerfi, sem m.a. birtist í því að CCP birtir atvinnuauglýsingu í dag og óskar eftir hagfræðingi til að greina og birta skýrslur um hagkerfi EVE Online.

Í mörgum tilfellum er vel skiljanlegt að fólk vilji spila slíka leiki sem afþreyingu, í ævintýraheimum eins og World of Warcraft og EVE Online. En hvers vegna vill fólk frekar fara á fætur, fara í vinnuna, borga af húsnæðinu og þvo þvott í The Sims Online heldur en í raunveruleikanum? Spyr sá sem ekki veit...

Engin ummæli: