29. okt. 2006

The Three Burials of Melquiades Estrada og House of Sand and Fog

Kvikmyndin The Three Burials of Melquiades Estrada fjallar um ólöglegan mexíkóskan innflytjanda sem drepinn er af bandarískum landamæraverði. Vinur hans og vinnuveitandi rænir landamæraverðinum og neyðir til að koma með sér til Mexíkó til að grafa hann heima hjá sér. Fyrri hluti myndarinnar er sagður í myndbrotum sem eru ekki í réttri tímaröð en seinni hlutinn er línulegur. Athyglisverð mynd en stundum er lítið að gerast, sérstaklega hjá konu landamæravarðarins.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin House of Sand and Fog er áhrifarík saga um íranska innflytjendur til Bandaríkjanna og tilraunir þeirra til að koma undir sig fótunum. Þau kaupa hús á uppboði og fjallar sagan um baráttu þeirra og fyrri eiganda um húsið. Allt fer á versta veg og eru allar söguhetjurnar dauðar við lok myndar. Mjög góð saga og sannfærandi leikur en fremur hæg mynd á köflum.

Fær 7/10 í einkunn.

28. okt. 2006

Dýr netframköllun á Íslandi

Netframköllun er mjög dýr á Íslandi en sem betur fer er hægt að láta framkalla myndir erlendis og senda heim. Ef við berum saman Hans Petersen á Íslandi og Bonusprint America þá kemur í ljós að Hans Petersen er um 140% dýrari en Bonusprint.

Þessi tala er byggð á raunverulegu dæmi um 223 myndir sem voru sendar í netframköllun hjá Bonusprint.

Hver mynd hjá Bonusprint kostar ¢11 eða kr. 7,47 (m.v. gengi USD í dag). Við það bætist 10% tollur og 24,5% VSK svo að hver mynd kostar kr. 10,04 samtals. Heild fyrir 223 myndir er þá kr. 2.239,88. Við það bætist póstburðargjald kr. 273,02 til Íslands og tollmeðferðargjald kr. 350,00.

Heild er þá kr. 2.862,91 eða kr. 12,84 fyrir hverja mynd hjá Bonusprint.

Berum saman við Hans Petersen. Þar kostar hver mynd með VSK kr. 29,00. Heild fyrir 223 myndir er þá kr. 6.467,00. Við það bætist heimsending kr. 300,00.

Heild er þá kr. 6.767,00 eða kr. 30,35 fyrir hverja mynd hjá Hans Petersen.

Í báðum tilfellum er um nákvæmlega sömu þjónustu að ræða, myndir afhentar með rafrænum hætti og þeim skilað útprentuðum heim að dyrum. Hans Petersen er því 136,40% dýrari en Bonusprint í þessu tiltekna dæmi, sem er gífurlegur verðmunur.

24. okt. 2006

Ný útgáfa af Firefox (2.0)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í nýja útgáfu 2.0. Þessi útgáfa kemur í kjölfar útgáfu 1.5, sem kom út fyrir tæpu ári síðan (29.11.2005), og byggir að mestu leyti á henni en þó með töluverðum viðbótum.

Meðal nýjunga eru endurbætt útlit, aukið öryggi, "live titles", innbyggð ritvilluvörn og endurhannaður viðbótastjóri. Einnig eru betri innbyggðir leitarvélar sem auðveldara er að bæta við og fjarlægja. Flipastjórnun hefur verið bætt mjög. Auk þess er núna innbyggð hrunvörn þannig að ef kerfið hrynur þá er hægt að ræsa Firefox aftur og halda áfram þar sem frá var horfið.

Þessi nýja útgáfa er fyrir allar útgáfur af Windows, Mac OS X, Linux, Solaris, BSD o.sv.frv.

Internet Explorer 7.0 tókst því að vera besta vefsjáin á markaðinum í heila fimm daga áður en Firefox 2.0 hirti aftur titilinn.

Öryggisgalli í Internet Explorer 7.0

Fyrsti öryggisgallinn í Internet Explorer 7.0 er kominn í ljós. Nýja útgáfan var gefin út 18.10. og Secunia gaf út viðvörun (SA22477) strax daginn eftir. Þetta er reyndar ekki nýr galli því samkvæmt fyrri viðvörun Secunia (SA19738) er þetta galli sem uppgötvaðist í Internet Explorer 5.5 og 6.0 í lok apríl, sem enn hefur ekki verið lagaður, og hrjáir greinilega einnig útgáfu 7.0.

Uppi eru deilur um þennan galla. Microsoft hefur mótmælt því að þetta sé galli í Internet Explorer og bendir á að gallinn sé í raun og veru í Outlook Express. Microsoft er auðvitað mikið í mun að halda uppi þeirri ímynd nýju útgáfunnar af Internet Explorer að hún sé mun öruggari en fyrri útgáfur. Secunia hefur á móti bent á að eingöngu er hægt að misnota gallann í gegnum Internet Explorer en ekki í gegnum Outlook Express.

Óljóst er hvenær þessi galli verður lagaður en hugsanlega verður það 14.11. nk.

22. okt. 2006

Viðvörun vegna galla í Opera

Opera Software hefur gefið út viðvörun (2006-10-17) vegna galla í Opera 9.00 og 9.01 sem tölvuþrjótar gætu misnotað. Gallinn er ekki til staðar í útgáfu 9.02 (og reyndar heldur ekki í útgáfu 8).

Opera Software mælir með því að uppfæra upp í útgáfu 9.02 sem gefin var út 21.09. sl.

21. okt. 2006

Er kennitala sönnun þess hver þú ert?

Í Fréttablaðinu í dag (21.10., bls. 6, neðst) er frétt um þjófnað og þar stendur að þetta sé "þriðja málið á tiltölulega skömmum tíma þar sem fólk reynir að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp ranga kennitölu".

Það er alveg ótrúlega algengur misskilningur að halda það að kennitölur séu sönnun fyrir því hver einhver sé. Meira að segja lögreglan hefur fallið í þá gildru og t.d. kært saklaust fólk fyrir of hraðan akstur byggt á því að sá sem var tekinn gaf upp aðra kennitölu en sína eigin.

Hver sem er getur komist að því hver kennitala einhvers annars er og það er hið besta mál. Þetta er mjög þægilegt kerfi sem t.d. auðveldar okkur að millifæra peninga og er til almenns hagræðis, einföldunar í tölvukerfum og þæginda í daglegu lífi.

Þar að auki þá kemur þetta opna kerfi ásamt þjóðskrá í veg fyrir "identity theft" (stundum kallað "kennitölustuldur" á íslensku en það lýsir ekki alveg nógu vel þessari tegund glæpa), sem er víða töluvert vandamál, m.a. í Bandaríkjunum. Sem einfaldað dæmi um identity theft þá myndi glæpamaður sækja um kreditkort og gefa upp nafn og "social security number" (SSN) einhvers annars en rangt heimilisfang, svo viðkomandi fái nú ekki reikningana og fatti strax hvað sé í gangi. Bankinn flettir þessu SSN upp hjá "credit reporting agencies" (það eru þrjú stór slík fyrirtæki í Bandaríkjunum) og kemst að því að SSN-ið passar við nafnið en ekki heimilisfangið. Viðkomandi glæpamaður segist vera nýfluttur og bankinn tekur þetta allt saman gott og gilt. Bankinn lítur á vitneskju glæpamannsins um SSN-ið sem sönnun þess hver hann er og sendir alla reikninga og tilkynningar á heimilisfangið sem hann gaf upp.

Á Íslandi myndi enginn, eða allavega ætti enginn, að líta á vitneskju um kennitölu sem sönnun fyrir einu né neinu og biðja einfaldlega um skilríki. Í öðru lagi senda bankar allar tilkynningar á heimilisfang í þjóðskrá en ekki á eitthvert heimilisfang sem fólk gefur upp. Fólk er einfaldlega beðið um að laga skráningu í þjóðskrá og þá munu tilkynningarnar sjálfkrafa elta það. Því myndi fórnarlamb íslensks kennitölustulds fá tilkynningar mjög fljótlega um hluti sem það kannaðist ekki við.

Kennitölur eru tól til einföldunar og hagræðis en eru ekki sönnun fyrir einu né neinu. Þær ber að nota sem slíkar.

19. okt. 2006

Ný útgáfa af Internet Explorer (7.0)

Internet Explorer vefsjáin hefur verið uppfærð í nýja útgáfu 7.0. Er þetta í fyrsta sinn í meira en fimm ár sem ný útgáfa kemur út en útgáfa 6.0 kom út 27.08.2001.

Meðal nýjunga eru endurhannað útlit, bætt öryggismál, endurbætt prentun og innbyggður RSS/Atom lesari.

Einnig er hægt að skoða síður í flipum, eins og hefur verið hægt í Firefox og Opera mjög lengi en Internet Explorer 7 bætir við "flýtiflipum" ("Quick Tabs") þar sem hægt er að sjá smækkaða útgáfu af þeim vefsíðum sem hafa verið opnaðar í flipum. Þetta er mjög sniðugt og ekki ósvipað Exposé í Mac OS X.

Í þessari nýju útgáfu er loks stuðningur við íslensk lén (IDN), sem hefur verið hægt að skrá hjá ISNIC síðan 01.07.2004 eða í tæp tvö og hálft ár, en aðrar vefsjár (eins og Firefox) hafa stutt IDN lén í nokkurn tíma.

Þessi nýja útgáfa er fyrir Windows XP SP2 og Windows Server 2003 SP1 og mun koma með Windows Vista. Hinsvegar verða Windows 2000 SP4 notendur að halda áfram að nota útgáfu 6.0 (nánar tiltekið útgáfu 6.0 SP1).

Vírus á iPod

Apple sendi frá sér tilkynningu í dag um að nokkrir Video iPods hefðu frá 12.09. verið með tölvuvírus, nánar tiltekið W32/RJump (afbrigði A, B, C eða E; einnig þekktur sem Rajump, Jisx og Siweol; kallaður RavMonE.exe í fréttatilkynningu Apple).

Þessi vírus smitar eingöngu tölvur með Windows stýrikerfinu frá Microsoft en ekki tölvur með Mac OS X stýrikerfinu frá Apple.

17. okt. 2006

Uppfærsla á Google Toolbar (4.0.1019.5764)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu útgáfu 4.0.1019.5764 fyrir Internet Explorer. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Google.

16. okt. 2006

Uppfærsla á Picasa (2.5.0.32.95)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.5.0.32.95. Margt er breytt og bætt í þessari nýju útgáfu og er m.a. búið að laga vandamál sem komu upp ef nöfn mynda innihéldu einhverja af stöfunum "ðýþÐÝÞ", sérstaklega ef nöfnin byrjuðu eða enduðu á einhverjum þessara stafa.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

13. okt. 2006

The da Vinci Code

Kvikmyndin The da Vinci Code er sérstaklega áhugaverð enda byggir hún á mjög skemmtilegri og þekktri bók og skartar úrvals leikurum eins og Tom Hanks, Audrey Tautou, Ian McKellen og Jean Reno sem skila mjög góðri vinnu. Myndvinnslan er mjög góð, áferð myndarinnar falleg og brellur eru notaðar á réttum stöðum án þess að vera yfirþyrmandi. Öll smáatriði eru í lagi, t.d. tala Frakkarnir frönsku sín á milli, sem maður hefði ekki búist við í Hollywood mynd, sem eykur raunsæi myndarinnar. Framúrskarandi skemmtun.

Fær 9/10 í einkunn.

10. okt. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (október 2006)

Uppfært 04.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 927892) um galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Microsoft XML Core Services. Búið er að gefa út sýnikóða sem misnotar gallann og er verið að reyna að nota hann til árása.

Uppfært 01.11.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 927709) um galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Visual Studio 2005. Búið er að gefa út sýnikóða sem misnotar gallann og er verið að reyna að nota hann til árása.

Uppfært 22.10.: Fyrsti öryggisgallinn í Internet Explorer 7.0 er kominn í ljós. Það tók ekki langan tíma en nýja útgáfan var gefin út 18.10. og Secunia gaf út viðvörun (SA22477) strax daginn eftir. Þetta er reyndar ekki nýr galli því samkvæmt fyrri viðvörun Secunia (SA19738) er þetta galli sem uppgötvaðist í Internet Explorer 5.5 og 6.0 í lok apríl, sem enn hefur ekki verið lagaður, og hrjáir greinilega einnig útgáfu 7.0. Óljóst er hvenær þessi galli verður lagaður.

Uppfært 19.10.: Microsoft gaf uppfærslu MS06-061 aftur út í dag fyrir Windows 2000 vegna galla í fyrri útgáfu þeirrar lagfæringar.

Upprunalegt 10.10.: Seinasti mánuður var mjög slæmur fyrir Microsoft. Upphaflega voru einungis gefnar út 3 uppfærslur hinn 12.09. sl. en síðar í mánuðinum var viðbótaruppfærsla (MS06-055) gefin út utan hefðbundins útgáfutíma til að laga galla í Vector Markup Language (VML). Auk þess komu fjölmargir aðrir gallar í ljós, sem Microsoft gaf út viðvaranir vegna.

Microsoft gaf út 10 öryggisuppfærslur í dag (10.10.) fyrir Windows, Office og .NET (2006 nr. 56-65). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Þó svo að Microsoft hafi gefið út 10 öryggisuppfærslur er ekki víst að tölvan sæki 10 viðbætur. T.d. eiga tvær þessara uppfærslna ekki við Windows 2000 og því eru engar viðbætur í því tilfelli. Ein uppfærslan á við allar útgáfur af Windows og einnig Office 2003 (en ekki aðrar útgáfur af Office) og er uppfærslan í tveimur viðbótum. Svo eru einnig gefnar út aðrar lagfæringar, sem sumar snúa ekki að öryggisvandamálum.

Svo dæmi séu tekin, þá myndi Windows Server 2003 sækja 7 viðbætur, Windows XP með Office 2003 myndi sækja 14 viðbætur og Windows 2000 með Office XP myndi sækja 9 viðbætur.

A Scanner Darkly

Kvikmyndin A Scanner Darkly er töluvert sérstök. Hún fjallar um fíkniefnalögreglumann sem verður að fíkniefnaneytanda þegar hann vinnur að leynilegu rannsóknarverkefni. Í raun er lögreglan að misnota hann og ætlar sér að lauma honum inn til framleiðanda hættulegs fíkniefnis í þeirru veiku von að lögreglumaðurinn rakni við sér þegar hann er kominn inn og hjálpi lögreglunni við að afla sannana.

Við myndina er notuð tækni sem kallast rotoscope og hún hefur því yfirbragð venjulegrar kvikmyndar en er með áferð eins og teiknuð mynd.

Fær 7/10 í einkunn.

8. okt. 2006

"Limbó" og skilgreiningar

Á undanförnum dögum hafa birst fréttir um það að páfinn ætli sér hugsanlega að fjarlægja "limbó" úr kaþólskkristinni trú en limbó er sá staður á milli himins og heljar sem óskírð börn fara til því þau hafa ekki verið hreinsuð af erfðasyndinni, sem annars er hreinsuð með skírn. Væntanlega gildir þetta einungis um óskírð kaþólsk börn.

Fyrstu fregnir um að páfinn ætlaði að tilkynna þetta við messu á föstudaginn sl. voru rangar því hann minntist ekkert á þetta og talsmenn páfagarðs sögðu eftir messuna að þetta væri enn til skoðunar og líklega myndi ekkert gerast fyrr en á næsta ári. Þetta er endurskoðunarvinna sem mun hafa staðið yfir síðan 2004.

Ætli það sé verið að reyna að mæla í páfagarði hvort limbó sé til eða ekki með mælitækjum og vísindalegum rannsóknum, eins og stjarneðlisfræðingar reyna að greina stjörnur sem eru langt í burtu? Eða er þetta bara skilgreining sem verið er að fjarlægja af því að hún fellur ekki nógu vel að nútímahugsunarhætti?

Ef hægt er að fjarlægja limbó með því að fjarlægja skilgreiningu, hvað annað í kristinni trú er þá bara skilgreining en ekki raunveruleiki eða staðreynd í einhverjum skilningi (eða í hvaða trú sem er)?

Er guð þá einungis til skv. skilgreiningu og hann má þá fjarlægja hvenær sem er með breyttri skilgreiningu?

X-Men: The Last Stand

Kvikmyndin X-Men: The Last Stand er sú þriðja í röð X-Men myndanna en áður hafa komið X-Men og X2 (sem báðar fengu 6/10 í einkunn). Myndina prýðir fjöldi þekktra leikara og hasarinn er í algleymingi (að mestu leyti allavega). Söguþráðurinn er ekki alveg nógu sannfærandi en þetta er góð afþreying.

Fær 6/10 í einkunn.

1. okt. 2006

Uppfærsla á Adobe Shockwave (10.1.4.020)

Adobe Shockwave Player hefur verið uppfærður í útgáfu 10.1.4.020. Hægt er að sjá núverandi útgáfu sem vefsjáin er að nota á sérstakri vefsíðu hjá Adobe. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Adobe.

Athugið að ef það eru fleiri vefsjár á tölvunni en Internet Explorer (t.d. Firefox eða Opera) þá flækist málið aðeins. Í því tilfelli þarf að sækja Shockwave með einhverri annarri vefsjá en IE (útgáfur fyrir allar vefsjár; ef Shockwave er sótt með IE þá er einungis IE-útgáfan sótt).