31. des. 2006

Dauðarefsingar eru villimennska

Afganistan, Bandaríkin, Írak, Kína og Norður-Kórea eru meðal þeirra ríkja sem iðka þá villimennsku að beita dauðarefsingum.

Rétturinn til lífs er æðstur mannréttinda og önnur réttindi eru sem hjóm eitt í samanburði. Það sýnir einnig hinn innri mann hverrar þjóðar hvernig hún fer með sínu verstu glæpamenn og hvort að hún stenst þá freistingu að gjalda líku líkt, sama hversu hroðalega glæpi þeir hafa framið.

Það væri vonandi að mannkynið fyndi hjá sér minni hvöt á nýju ári til að drepa hvert annað, stofna til stríða og valda hungursneyðum og eymd.

Gleðilegt nýtt ár.

27. des. 2006

Það þarf 4 sæstrengi, ekki bara 2

Undanfarnar vikur hafa nettengingar til útlanda verið lélegar. Er því um að kenna að Cantat-3 sæstrengurinn er bilaður. Þetta er ástand sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Á seinustu árum hafa þeir sæstrengir sem tengja landið við umheiminn, Farice-1 og Cantat-3, bilað ítrekað. Það er í sjálfu sér ekki sérstaklega óeðlilegt, þetta eru langir strengir sem liggja á miklu dýpi í sjó, það er við því að búast að þeir bili öðru hverju. (Svo eru skoskar hálandarottur líka mikil skaðræðiskvikindi...)

Það er hins vegar áhyggjuefni að slíkar bilanir hafi áhrif á fjarskipti, síma- og netumferð, til og frá landinu. Það er áhyggjuefni að fjöldi sæstrengja sem tengja landið sé svo takmarkaður og uppsetning þeirra sé þannig að bilanir á einum stað geti valdið truflunum og/eða sambandsrofi í stað þess að umferðin flæði sjálfkrafa aðra leið.

Við Íslendingar búum núna við ástand sem ég vil kalla að hafa "2 og ½" sæstreng. Það er annars vegar Farice-1 og hins vegar tveir leggir á Cantat-3, til austurs og vesturs. Leggirnir á Cantat-3 eru ekki alveg sjálfstæðir því að við tilteknar bilanir á öðrum leggnum getur þurft að breyta aflfæðingu inn á strenginn til að halda hinum leggnum í sambandi. Greining á slíkri bilun og vinnan við að breyta aflfæðingunni getur tekið nokkurn tíma, sérstaklega þegar miðað er við að markmiðið ætti að vera að heildarsambandsrof sé innan við 5 mínútur á ári. Einnig er millifærsla á samböndum milli leggja Cantat-3 og Farice-1 við bilanir ekki sjálfvirk.

Þessi aðstaða er því ekki jafngóð og að hafa 3 strengi en skárri en að hafa einungis 2 strengi.

Í dag eru um 8 ár eftir af áætluðum líftíma Cantat-3 sæstrengsins, en hann var lagður 1994. Hugsanlega endist hann skemur ef að afkastageta hans verður takmarkandi þáttur. Það er því alveg ljóst að leggja verður annan sæstreng til að taka við áður en rekstri Cantat-3 verður hætt og hefur raunar verið ákveðið að leggja Farice-2. (Af þeim hugmyndum sem fram hafa komið líst mér best á að Farice-2 verði lagður til Írlands, með eða án greinar til Færeyja, og hugað verði sérstaklega að tengingum hans til BNA og Kanada, ásamt auðvitað tengingum milli hans og Farice-1 á Skotlandi.)

Við erum þá hins vegar komin í verri aðstöðu heldur en nú, með einungis 2 sæstrengi sem tengja landið. Öryggi fjarskipta hefur ekki verið nógu gott með "2 og ½" sæstreng og er ekki við því að búast að það verði betra með einungis 2 sæstrengi, jafnvel þó þeir séu báðir af nýrri gerð heldur en Cantat-3.

Eitt af sérkennum Cantat-3 og Farice-1 er að hvorugur strengurinn er hringtengdur. Með lagningu Farice-2 væri í raun einungis verið að ljúka hringtengingu "Eurice" strengsins (Farice parið, Ísland-Evrópa), þar sem samskipti gætu farið um tvær óháðar leiðir og við bilun væri millifærsla sjálfvirk.

Til frambúðar þarf að tengja Ísland við umheiminn með a.m.k. tveimur fjarskiptastrengjum og hvor um sig þarf að vera hringtengdur. Því þarf 4 sæstrengi en ekki bara 2.

Áður en Cantat-3 er tekinn úr notkun þarf því að huga að fleiri tengingum, t.d. fjarskiptastreng til Kanada eða BNA ("Amice", Ísland-Ameríka). Sá strengur þyrfti að vera hringtengdur strax frá upphafi eða a.m.k. gert ráð fyrir því frá upphafi að hringtengingu yrði lokið fyrr en síðar. "Amice" mætti leggja beint vestur til Kanada eða hugsanlega leggja hann til suðurs og tengja inn á strengi eins og Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.

Einnig mætti líka t.d. skoða það að leggja 3. sæstrenginn í Hibernia Atlantic eða þann 4. í AC-1/AC-2, með viðkomu á Íslandi; þ.e.a.s að leggja 2 sjálfstæða sæstrengi, annan til austurs og hinn til vesturs, og hringtengja inn á Hibernia Atlantic eða AC-1/AC-2.

Ef mönnum finnst í of mikið lagt að vera með 4 strengi til og frá Íslandi, þá væri hægt að vel athuguðu máli að skoða það að leggja einungis 3. strenginn til Evrópu, Farice-3, til Írlands, Bretlands, Frakklands, Danmerkur eða Þýskalands, samtengja svo alla Farice strengina og tengja þá svo við einhvern fjarskiptastreng sem er hring- eða margtengdur til N-Ameríku, eins og Hibernia Atlantic, AC-1/AC-2, TAT-12/13, TAT-14, Apollo eða FLAG Atlantic-1.

Það eru margir möguleikar í stöðunni en nauðsynlegt er að fara að skoða þessi mál og vera tilbúin innan 5-10 ára með fleiri óháðar tengingar við landið, heldur en einungis Farice parið, þegar Cantat-3 verður tekinn úr rekstri.

26. des. 2006

Uppfærsla á Picasa (2.6.0.35.97)

Picasa myndaforritið hefur verið uppfært í útgáfu 2.6.0.35.97. Margt er breytt og bætt í þessari nýju útgáfu, m.a. er núna stuðningur við Windows Vista og Internet Explorer 7, betri uppfærslur og hægt er að skoða myndir sem geymdar eru í undirmöppum.

Smellið á "Help : Check for Updates Online" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Einnig má sækja hana beint frá Google.

Click og Over the Hedge

Kvikmyndin Click fjallar um arkitekt á framabraut sem tekur vinnuna fram yfir fjölskylduna. Hann eignast "universal remote control" sem getur "remote controlled the universe". Til að byrja með notar hann þessa fjarstýringu til að flýta fyrir sér en fer svo að misnota hana. Að lokum tekur fjarstýringin af honum völdin og líf hans verður ömurlegt. Þetta er köflótt mynd, sum atriðin eru óborganleg en svo dettur myndin stundum niður þess á milli. Góð skemmtun engu að síður.

Fær 7/10 í einkunn.

Teiknimyndin Over the Hedge er fín afþreying fyrir börn en er annars uppfull af klisjum (ekki ósvipað Cars). Það helsta sem er áhugavert við þessa mynd er hve vel hefur tekist að teikna feld og hár og nokkur hasaratriði sem eru listilega gerð.

Fær 6/10 í einkunn.

24. des. 2006

Jól 2006

... og líða nú jólin við kertaljós og klæðin rauð.

23. des. 2006

Uppfærslur frá Apple (2006-008)

Apple gaf út 1 uppfærslu fyrir Mac OS X (2006-008). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

20. des. 2006

Lélegar nettengingar til útlanda

Seinustu vikur hafa þær nettengingar til útlanda sem ég hef aðgang að verið mjög lélegar, slitróttar og hægvirkar. Þær eru allar hjá Vodafone. Sérstaklega er ástandið slæmt seint á kvöldin.

Nýlega var birt skýrsla starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til að fjalla um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem kom fram í þessari skýrslu (grein 3.10) er að verð á útlandatengingum hér er 8-11 dýrara en erlendis. Afleiðing þessarar háu verðlagningar er sú að netveiturnar kaupa eins litla bandvídd til útlanda og þau komast upp með, reyna að fresta stækkunum í lengstu lög og beita allskonar brögðum eins og Traffic Shaping og Quality of Service til að "minnka álagið". Það verður reyndar til þess að það sem notandinn fær er "Trickle Traffic" og "Lack of Quality of Service".

Netveiturnar keppast við að bjóða 8-12 Mb/s ADSL tengingar en staðreyndin er sú að þessi hraði næst einungis á milli viðskiptavinarins og næsta tengipunktar hjá netveitunni. Hugsanlega næst hann innanlands ef lítið álag er á netinu. En þessi hraði næst ekki frá útlöndum, nema e.t.v. í mjög stuttan tíma og við mjög sérstakar aðstæður, því það eru alltof margir notendur. Segjum t.d. að Vodafone sé með 750 Mb/s heildartengingu til útlanda. Ef hver viðskiptavinur er að nota 12 Mb/s þá geta verið 62 notendur samtímis. Ef þeir eru fleiri (og þeir eru mun fleiri) að þá fær hver og einn minni bandvídd til umráða.

Ástandið snarversnaði þegar Cantat-3 sæstrengurinn bilaði um seinustu helgi. Vodafone segir í tilkynningu á vefsetri sínu að bilunin "getur haft áhrif netsamskipti [...] til útlanda" en það er mjög vægt til orða tekið svo ekki sé nú meira sagt. Tengingar til og frá Bandaríkjunum og Kanada eru hryllilega lélegar þessa dagana.

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.1)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.1. Í þessari útgáfu eru m.a. 8 öryggisuppfærslur (2006 nr. 68-73 og 75-76) auk stuðnings við Windows Vista. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

17. des. 2006

Cantat-3 bilaður

Uppfært 10.01.: Byrjað verður að gera við Cantat-3 sæstrenginn hinn 13.01. nk. og stöðvast umferð í 10 daga á meðan á viðgerð stendur. Þetta mun valda truflunum á netumferð hjá RHnet en ekki hjá Símanum, enda greip Síminn strax til ráðstafana við bilunina og flutti umferð yfir á Farice-1 sæstrenginn. Engar fréttir hafa borist af því hvað Vodafone hefur gert eða mun gera.

Í skýrslu starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta, sem var birt nýlega, kemur fram (sjá grein 3.10) að það væri "áhyggjuefni [...] ef bilun yrði á strengnum í sjó þar sem viðgerð getur tekið allt að 14 daga". Þegar viðgerð lýkur hinn 22.01. hefur Cantat-3 verið bilaður í 37 daga.

Uppfært 18.12.: Vesturleggur Cantat-3 (frá Íslandi til Kanada) bilaði aftur í morgun. Ekki er búist við að takist að gera við þann hluta strengsins í bráð.

Uppfært 17.12.: Bráðabirgðaviðgerð er lokið á Cantat-3 en fullnaðarviðgerð fer fram síðar. Algjört sambandsrof var frá um kl. 23:30 í gær til um kl. 19:30 í kvöld eða í um 20 klukkustundir. Búast má við einhverjum truflunum á netsambandi þar til viðgerðum er endanlega lokið.

Upprunalegt 17.12.: Sæstrengurinn Cantat-3 er bilaður og verður hugsanlega bilaður í 2-3 vikur.

Net- og fjarskiptasamband til og frá Íslandi hangir nú á einum sæstreng, Farice-1. Þeir sem eingöngu nota Cantat-3, eins og RHnet (Landspítalinn og háskólarnir), eru algjörlega sambandslausir við umheiminn.

Fyrr í þessum mánuði var birt skýrsla starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta. Meðal þess sem starfshópurinn lagði til (sjá grein 3.10) var að lagður yrði nýr sæstrengur hið fyrsta, Farice-2, til að hringtengja Farice kerfið svo að bilanir á sjó valdi ekki langvarandi sambandsleysi, en um 14 daga getur tekið að gera við slíka bilun. Var sérstaklega til þess horft að Cantat-3 strengurinn er orðinn mjög gamall, með takmarkaða flutningsgetu og er byggður á úreltri tækni.

Samgönguráðherra hefur samþykkt að fara að tillögum starfshópsins. Mun verða fjallað um þær á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn, skv. frétt RÚV, og er viðeigandi að það gerist í skugga yfirstandandi alvarlegrar bilunar af þessum toga.

Raunveruleikir

Uppfært 28.12.: Ég tjáði mig aftur, sérstaklega hnyttilega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í annarri frétt á RÚV.

Uppfært 27.12.: Ég tjáði mig, ákaflega spekingslega, um mörk raunveruleikans og raunveruleikja í frétt á RÚV.

Upprunalegt 17.12.: Raunveruleikir á netinu (MMORPG), þar sem fólk spilar í sýndarheimi með eða á móti hverju öðru, verða æ vinsælli og umfangsmeiri.

Það eru velþekkt dæmi um það að fólk þarf stundum að mæta í þá leiki á tilteknum tímum, t.d. til að taka þátt í aðgerð með tugum annarra spilara. Svo getur stríð brotist út á hvaða tíma sólarhringsins sem er og þá þurfa menn e.t.v. að vakna um miðja nótt og mæta í leikinn til að aðstoða félaga sína. Eða mæta á réttum tíma fyrir upptökur á kvikmynd í World of Warcraft...

Umfangið er þó farið að taka á sig nýja mynd og slíkir leikir eru farnir að verða æ meiri hluti af raunverulegu lífi fólks. Þetta byrjaði með því að spilarar fóru að selja leikmuni og -peninga á eBay en núna eru fyrirtæki og stjórnvöld farin að taka þátt. Sem dæmi má nefna að Reuters opnaði nýlega fréttastofu í Second Life (en þar "búa" um 2 milljónir manna), Adidas og Toyota hafa opnað verslanir þar og bjóða sýndarútgáfur af raunverulegum vörum og önnur fyrirtæki eru að velta fyrir sér að opna útibú í leiknum til að þjónusta íbúana.

Spilarar eru líka farnir að krefjast þess að fá lögbundin eignarrétt á leikmununum og -peningunum sínum og vernd gagnvart höfundum og rekstraraðilum leikjanna. Á sama tíma eru bandarísk stjórnvöld farin að velta fyrir sér að skattleggja tekjur og eignir fólks í svona leikjum. Enda eru raunveruleikir með sitt eigið hagkerfi, sem m.a. birtist í því að CCP birtir atvinnuauglýsingu í dag og óskar eftir hagfræðingi til að greina og birta skýrslur um hagkerfi EVE Online.

Í mörgum tilfellum er vel skiljanlegt að fólk vilji spila slíka leiki sem afþreyingu, í ævintýraheimum eins og World of Warcraft og EVE Online. En hvers vegna vill fólk frekar fara á fætur, fara í vinnuna, borga af húsnæðinu og þvo þvott í The Sims Online heldur en í raunveruleikanum? Spyr sá sem ekki veit...

15. des. 2006

Viðvörun vegna galla í Yahoo Messenger og uppfærsla (8.1)

Yahoo! Messenger spjallforritið hefur verið uppfært í útgáfu 8.1. Samtímis útgáfunni gaf Yahoo! út viðvörun (120806) vegna öryggisgalla í fyrri útgáfum af Yahoo! Messenger. Vandamálið felst í því að hægt er að misnota ActiveX stýringu sem fylgir með því.

Þeir sem settu upp Yahoo! Messenger fyrir 02.11. ættu að uppfæra upp í þessa nýju útgáfu, sem má sækja beint frá Yahoo!.

Á Íslandi nota nær allir MSN/Live Messenger en á heimsvísu nota álíka margir MSN/Live Messenger og Yahoo! Messenger. Þau eru hins vegar í 2.-3. sæti, langt á eftir AOL Instant Messenger (AIM) sem er með fleiri notendur heldur en öll hin spjallforritin samanlagt.

12. des. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (desember 2006)

Uppfært 16.12.: Samtímis útgáfu öryggisuppfærslna í desember, þá gaf Microsoft út uppfærslu fyrir Internet Explorer 7 (KB 928089). Þessi uppfærsla var ekki gefin út í gegnum Microsoft Update og farið hefur mjög lítið fyrir henni. Hún leysir það vandamál þegar hinn nýi "Phishing Filter" í IE7 verður til þess að örgjörvanotkun IE7 verður mjög mikil og tölvan verður mjög hægvirk.

Uppfært 13.12.: Seinnipart nóvember gaf Microsoft út nýja útgáfu 6.0 af Remote Desktop Connection (einnig þekkt sem RDC eða Terminal Services Client) fyrir Windows XP og Windows Server 2003. Þessi nýja útgáfa er nú aðgengileg í gegnum Microsoft Update.

Upprunalegt 12.12.: Microsoft gaf út 7 öryggisuppfærslur í dag (12.12.) fyrir Windows og Internet Explorer (2006 nr. 72-78). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

6. des. 2006

Ný útgáfa af Adobe Reader og Acrobat (8.0)

Adobe Reader og Acrobat hafa verið uppfærð í nýja útgáfu 8.0, sem býður upp á nýtt viðmót og ný tól til að vinna með PDF skjöl. Nýju útgáfuna af Adobe Reader má sækja beint frá Adobe en kaupa þarf uppfærslu af Adobe Acrobat.

Samtímis útgáfunni gaf Adobe út viðvörun (APSB06-20) vegna öryggisgalla í útgáfum 7.0.0-7.0.8 á Windows. Notendur eru hvattir til að uppfæra upp í nýju útgáfuna (eða fylgja leiðbeiningunum í viðvöruninni um hvernig má lagfæra gallann ef þeir geta ekki uppfært).

3. des. 2006

The Majestic

Kvikmyndin The Majestic er um handritshöfund sem lendir á hinum alræmda "svarta lista" þegar leit að kommúnistum stóð sem hæst í BNA í kalda stríðinu. Hann er rekinn, lendir í slysi, missir minnið og sest svo að í bæ einum þar sem fólk telur hann ranglega vera mann sem týndist í seinni heimsstyrjöldinni. Sagan er dálítið hæg en þetta er þokkaleg skemmtun.

Fær 6/10 í einkunn.

2. des. 2006

Vodafone hendir pósti

Uppfært 05.12.: Pósturinn minn er kominn í lag. Kerfisstjórar Vodafone voru allir af vilja gerðir til að leysa vandamálið (þegar ég loksins komst framhjá þjónustuverinu og í beint samband við þá) en á endanum var niðurstaðan að slökkva á síun hjá mér.

Upprunalegt 02.12.: Fyrr í vikunni tók Vodafone í notkun nýja ruslpóstssíu. Það er lofsvert framtak að bjóða betri þjónustu... ef þessi nýja þjónusta væri í raun betra heldur en það sem fyrir var!

Því miður er hún verri en ekki neitt því Vodafone er að henda raunverulegum pósti í miklum mæli.

Það eru fjölmörg vandamál: Nýja ruslpóstsían á við stórfenglegt "false-positive" vandamál að stríða, þ.e. hún flaggar raunverulegan tölvupóst ranglega sem rusl í miklum mæli. Hún hendir öllum slíkum tölvupósti þannig að viðtakendur geta ekki áttað sig á því sem gerst hefur því þeir fá ekki póstinn (ranglega) merktan sem rusl, heldur berst hann einfaldlega aldrei. Síðan er engin sóttkví á netinu sem hægt er að fara í til að finna slíka tölvupósta og/eða breyta stillingum.

Það versta er svo að starfsfólk í þjónustuveri Vodafone virðist ekki átta sig á vandamálinu og getur ekki hjálpað notendum, nema að vísa málinu til kerfisstjóra. Ég er búinn að kvarta mikið á undanförnum dögum og er í þeirri aðstöðu að geta fullyrt um hvaða tölvupósta ég hefði átt að fá, frá hverjum, klukkan hvað og jafnvel hvaða kennitölu þeir fengu þegar þeir komu inn í póstkerfi Vodafone. En ég bíð enn eftir svari og lausn.

1. des. 2006

Casino Royale

James Bond myndin Casino Royale er líklegasta besta Bond myndin í langan tíma. Hún er hrottaleg eins og þegar Sean Connery lék hann (það sér á Bond eftir slagsmál) og það eru engin heimskuleg fíflalæti með Q.

Þessi mynd er alls ekki gallalaus, hún er stundum alltof hæg en svo er skyndilega hoppað á milli atriða og söguþráðurinn er á köflum varla trúanlegur. Samtölin geta líka verið ansi stirð, nema atriði með James Bond og Vesper Lynd um borð í lest á leið til Svartfjallalands sem er stórgóð skemmtun. En byrjunaratriðið er flott, spennan er þétt, hasarinn góður og skemmtunin fín. Mjög góð mynd.

Fær 8/10 í einkunn.