4. mar. 2007

Trúgirni

Trúgirni netnotanda er oft á tíðum ótrúleg. Fólk sem alla jafna hefur varann á sér í daglegu lífi trúir öllu sem það sér á netinu eins og það væri heilagur sannleikur.

Það kom upp skemmtilegt dæmi um þetta í Íslandi í dag nú fyrir helgina. Um morguninn skrifaði Steingrímur Sævarr Ólafsson mjög einlæga bloggfærslu um áfengiseitrun og vísaði í myndband sem sýna átti háskólanema drekka 700 ml flösku af snafsi á tveimur mínútum. Seinna um daginn kom í ljós að myndbandið var sviðsett. Engu að síður var umfjöllunin þá um kvöldið í Íslandi í dag um (meinta) áfengisdrykkju. Það var reyndar rækilega tekið fram að þessi umfjöllun byggði á sviðsettu myndbandi en það er nú ekki mikil fréttamennska að vera með umfjöllun byggða á sviðsettum atburðum. Líklegast er að Steingrímur hafi fattað þetta eftir að var hann búinn að bæta við bloggfærsluna "við fjöllum um málið og sýnum myndbandið í Íslandi í dag í kvöld" og var því búinn að binda hendur sínar.

En þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar hafa hlaupið á sig og tekið myndbönd á YouTube trúanleg og er alls ekki bundið við Ísland. "UNC Breakup" er nýlegt dæmi þar sem mjög margir stórir fjölmiðlar létu gabba sig. Þeir héldu að mjög vinsælt myndband á YouTube væri alvara (sjónarhorn 1, sjónarhorn 2, viðtal) og birtu fréttir um það sem þurfti svo að taka tilbaka nokkrum dögum seinna.

Almennir notendur YouTube hafa líka látið gabbast, sbr. æðið í kringum lonelygirl15, sem kom svo í ljós að er leikkona og stýrt af leikstjóra og handritshöfundum.

Á netinu má finna staðreyndir, eins og á Encyclopædia Britannica og Wikipedia, en allt annað efni á netinu ætti að líta á sem skemmtiefni en ekki staðreyndir, þar til annað sannast.

Engin ummæli: