9. apr. 2007

Háðsádeila á stríðsrekstur

Spaugstofumenn voru í fríi um páskana og hneyksluðu því engan. Kverúlantar, nöldurseggir og annað pirrað fólk fékk engu að síður "gott" efni til að amast yfir: Stjórnmálafræðiprófessor við Princeton skrifaði háðsádeilu um stríðsrekstur Bandaríkjamanna og stakk upp á því að sprengja Ísland aftur á miðaldir í stað Írans. Það væri m.a. mun betra frá efnahagslegu sjónarmiði.

Það voru nokkrir sem föttuðu ádeiluna en hinir voru mun fleiri sem gerðu það ekki (m.a. kverúlantar, nöldurseggir, þrefarar, fjasarar, kvartarar, kveinarar, þusarar, tuðarar, þjarkarar og sífrarar)*.

Sagt var frá greininni í frétt á mbl.is og Moggabloggið sprakk af vandlætingu. Ofangreint pirrað fólk ætti að lesa greinina betur og velta fyrir sér efni hennar.

* Mikið vildi ég óska þess að með flipavefsjám hefði komið uppfærsla á HTML, einhverskonar "multi-link href" þannig að maður þyrfti ekki að vera með svona upptalningu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið vildi ég óska þess að með flipavefsjám hefði komið uppfærsla á HTML, einhverskonar "multi-link href" þannig að maður þyrfti ekki að vera með svona upptalningu.

Xlink var tillaga frá W3 um að gera aðeins meira "capable" hypertext. Styður multi-target links, bi-directional links (þ.e. linkur sem birtist á báðum síðum) og fleira.

Var aldrei tekið upp (frekar illa hannað, óþjált í notkun). W3 reyndi líka aftur með hlink sem átti að vera hluti af XHTML 2.0. Var álíka klaufalegt og XHTML 2.0 sjálft.

RDF er annað dæmi sem útlistar linkum sem "triples", þrem URI, en það er aðallega notað sem gagnaform. Vinsælustu forritin sem nota það eru Mozilla-byggð forrit (Joost er það sem virðist nota það mest þessa dagana).

Svo hafa sérhæfð hypertext kerfi (Storyspace t.d.) notað ýmis afbrigði af linkum sem HTML tók aldrei upp.

Að vísu væri lítið mál að búa til kerfi fyrir multi-target linka og byggja inn í blogg-kerfi með javascript. Aðalvandamálið væri viðmótið, sem er að vísu aðalvandamálið með flest allt í forritum.

Nafnlaus sagði...

Ertu svona mikill íslenskusérfræðingur að þú fleygðir fram öllum þessum samheitum yfir rausara án nokkurra vandkvæða?

NB... ég fletti upp nöldur í samheitaorðabókinni til að finna nýtt orð!

Erlendur S. Þorsteinsson sagði...

Nei, upphaflega var listinn "hér, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér". Ég fór svo að reyna að finna einhver orð í staðinn og svo komu pabbi og mamma í heimsókn og bættu við (þetta var mjög skemmtileg fjölskyldukvöldstund). Pabbi var meira segja kominn út í bíl þegar honum datt eitt orð til viðbótar í hug og sneri við.