Það er allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú drekkur bara bjór
Eflaust eru þeir fáir, ef nokkrir, sem eru sammála þeirri fullyrðingu sem kemur fram í titli þessarar greinar. Enda er þessi fullyrðing fáránleg. Það má ljóst vera að það er ölvunin sjálf sem er vandamálið ef ökumenn keyra drukknir og sem hefur áhrif á getu þeirra til að keyra. Hvernig til ölvunarinnar var stofnað, þ.e. hvaða aðferðum viðkomandi beitti til að verða drukkinn, hefur þar engin áhrif.
Engu að síður virðast ákaflega margir ökumenn vera sammála mjög svipaðri fullyrðingu: "Það er allt í lagi að tala í síma við akstur, svo lengi sem þú notar handfrjálsan búnað" og er trú þeirra studd íslenskum umferðalögum (47. gr. a. umferðarlaga 1987 nr. 50).
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram slysahættuna sem er samfara því að aka og tala og einnig að enginn munur er á slysahættu þeirra sem tala í farsíma án handfrjáls búnaðar og þeirra sem nota handfrjálsan búnað. Símtal hefur það truflandi áhrif á athyglina við aksturinn að um fjórum sinnum líklegra er að viðkomandi lendi í slysi. Hvort handfrjáls búnaður er notaður eða ekki skiptir engu máli. Nýleg rannsókn, sem fjallað var um á fréttavef BBC nýlega, hefur enn og aftur staðfest þetta. Hún sýndi hinsvegar einnig fram á að þeir sem eru drukknir undir stýri (rétt yfir löglegum mörkum) eru færari um að keyra en þeir sem tala í síma við akstur.
Í íslenskum umferðarlögum og viðhorfi ökumanna er ákveðin tvískinnungur. Hvað varðar ölvun þá skiptir ástandið máli en ekki aðferðin. En varðandi farsíma þá er aðferðin aðalatriðið en ástandið virðist engu máli skipta. Í ljósi þess og að drukknir ökumenn eru færari en talandi ökumenn mætti allt eins rökstyðja að það ætti að vera allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú notaðir handfrjálsan búnað. Það virðist vera almenn trú að handfrjáls búnaður lagi athyglis- og getuleysi talandi ökumanna þvert ofan í rannsóknarniðurstöður og því ekki þá líka drukkinna ökumanna? Það er allavega ekki búið að afsanna þessa tilgátu mína, ólíkt því sem gildir með handfrjálsan farsímabúnað, sem samkvæmt rannsóknum skiptir engu máli.
Ölvun er ákveðið viðmið um skort á færni til aksturs og almenn sátt er um að banna ölvunarakstur. Horfa ætti til þeirra atriða sem sýna má fram að leiði til sama athyglisbrests og getuleysis við akstur og ölvun, heldur en að einblína á tilteknar aðferðir til komast í það ástand. Til að leiðrétta þetta misræmi sem nú er í umferðarlögum ætti annað hvort að banna alfarið að tala í farsíma við akstur eða leyfa ölvunarakstur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli