8. mar. 2007

Æland.is

Forsætisráðuneytið auglýsir nú nýja upplýsinga- og þjónustuveitu fyrir almenning, sem það kallar Ísland.is þrátt fyrir að annað lénsnafn, reyndar mjög svipað, sé notað fyrir þessa veitu.

Ég hef áður skrifað um íslensk lén og þann gífurlega misskilning sem virðist gæta gagnvart íslenskum stöfum í nöfnum léna undir .is þjóðarléninu. Forsætisráðuneytið virðist illa upplýst um þessi mál og þörf á smá fræðslu.

Staðreyndin er sú að lénið Ísland.is er í eigu fyrirtækis sem heitir Netvistun ehf. en forsætisráðuneytið er hins vegar að nota lénið Island.is fyrir þessa nýju veitu sína.

Orðið island er enska, borið fram æland og þýðir eyja. Ákaflega viðeigandi en jafnframt óskiljanlegt hvers vegna forsætisráðuneytið vissi ekki af því að hægt er að skrá íslensk lén með íslenskum stöfum og hvers vegna ekki var leitað eftir því að Netvistun gæfi eftir lénið sitt þannig að þessi nýja upplýsinga- og þjónustuveita væri skráð undir báðum lénsnöfnunum.

Lénum með íslenskum stöfum hefur verið úthlutað síðan mitt ár 2004 og þau virka m.a. í Internet Explorer 7 og Firefox 2.

Engin ummæli: