6. jan. 2007

Sæstrengir borga sig

Í Fréttablaðinu í dag (06.01., forsíðu, efst) er frétt um sæstrengi, en þau mál brenna núna á þjóðinni. Þar er fjallað um nýlega skýrslu frá Póst- og fjarskiptastofnuninni um að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Kostnaður vegna lélegs fjarskiptasambands er talin vera allt að 7 milljarðar króna á ári og vegur fórnarkostnaður vegna tapaðra viðskiptatækifæra þar þyngst.

Í fréttinni segir einn af höfundum skýrslunnar, Þröstur Sigurðsson ráðgjafi hjá ParX viðskiptaráðgjöf IBM, að öryggið í fjarskiptasambandi Íslands við útlönd sé ekki nógu gott en bætir svo við að "með lagningu FARICE-2 eru þessi nauðsynlegu öryggisskilyrði til staðar". Þetta er skrýtin fullyrðing því að í skýrslunni, sem hann samdi, kemur fram að ekki er búið að gera áhættumat og reikna út líkur á sambandsrofi. Því er í raun ekki vitað hvort að þessi nýi sæstrengur dugi til að bæta ástandið, en ég hef áður rökstutt hér að það þurfi 4 sæstrengi en ekki bara 2 og því þurfi meira til.

Þessi fullyrðing Þrastar væri mjög líklega rétt ef að Farice-2 bættist við Farice-1 og Cantat-3, að ástandið myndi verða betra með alla 4 strengina í notkun (eða "3 og ½" eins ég hef kallað það því að leggirnir tveir á Cantat-3 eru ekki alveg sjálfstæðir). Einnig þyrfti síðar að huga að lagningu Farice-3 sem kæmi í staðinn fyrir Cantat-3 til að fullyrðing hans væri áfram rétt.

En skýrslan tekur ekki þann pól í hæðina, hún gengur út frá því að Farice-2 komi í stað Cantat-3 og það verði einungis 2 strengir í notkun. En það er ekkert gefið að það verði skárra en núverandi ástand, og eins og allir vita er núverandi ástand ekki viðunandi.

Jafnvel þótt að Farice-2 verði af nýrri gerð en Cantat-3 þá finnst mér varlegt að fullyrða að Farice-1 + Farice-2 verði betra ástand en Farice-1 + Cantat-3. Ég hef lagt fram rök þess efnis að það þurfi tvo sjálfstæða, hringtengda fjarskiptastrengi, þ.e.a.s. 4 sæstrengi í heildina, og nú bíðum við eftir því að sjá niðurstöður áhættumatsins.

Engin ummæli: