Uppfærslur frá Microsoft (mars 2007)
Uppfært 02.04.: Microsoft ætlar að gefa út öryggisuppfærslu á morgun, 03.04., til að laga galla (SA 935423) í meðhöndlun Windows á bendlaskrám. Útgáfan er á undan áætlun vegna þess að verið er að misnota gallann til árása.
Uppfært 29.03.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 935423) vegna galla sem hefur uppgötvast í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Verið er að misnota gallann til árása. Nöfn þessara skráa eru allajafna með endinguna .ani en vegna þess hvernig Windows meðhöndlar skrárnar þá er líka hægt að misnota gallann með því að endurskíra skrárnar með .jpg endingu þannig að þær líti út eins og JPEG ljósmyndir.
Upprunalegt 13.03.: Microsoft gaf ekki út öryggisuppfærslur í dag (13.03.). Þó voru gefnar út ýmsar minniháttar uppfærslur sem gagnlegt er að hafa, t.d. var gefin út viðbótaruppfærsla á rótaröryggisskilríkjum sem voru þó seinast uppfærð fyrir mánuði síðan auk þess sem fleiri gallar í Windows Vista voru lagaðir.
Microsoft gaf engu að síður út mjög stóra og mikilvæga uppfærslu í dag, Service Pack 2 fyrir Windows Server 2003 x86, Windows Server 2003 x64 og Windows XP x64 (KB 914961), sem ákaflega mikilvægt er að hafa. Það er því ekki frí þennan mánuðinn heldur meiri vinna við uppfærslur ef eitthvað er. Hægt er að sækja pakkana beint frá Microsoft, sem er hentugt ef uppfæra þarf margar tölvur.
Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.
Athugið að Service Pack 2 fyrir Windows XP x64, sem var gefinn út í dag, er ekki sami pakkinn og Service Pack 2 fyrir Windows XP (x86), sem var gefinn út 06.08.2004. Flestar heimatölvur eru með 32-bita (x86) útgáfunni af Windows XP og útgáfan í dag er því ekki fyrir þær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli