Windows Vista gefið út
Uppfært 01.02.: Microsoft hefur varað við því að mögulegt er að nota talkennslin (e. speech recognition) í Windows Vista til óæskilegra hluta. Það er tæknilega mögulegt að ef t.d. hljóðskrá á vefsíðu er spiluð og hún inniheldur skipanir, eins og "delete" og "shutdown", að stýrikerfið hlýði þessum skipunum þó svo að þær komi ekki frá notandanum. BBC fjallaði um þetta og einnig SANS vegna þess að menn höfðu prófað þetta og fengið það til að virka.
Uppfært 31.01: Microsoft gaf út a.m.k. 13 uppfærslur fyrir Windows Vista hinn 29.01., degi áður en stýrikerfið var gefið út.
Upprunalegt 30.01.: Microsoft gaf Windows Vista út í dag. Útgáfan breytir litlu sem engu fyrir tölvunotendur. Í raun ættu skynsamir Windows notendur að halda að sér höndum og nota Windows XP áfram enn um sinn.
Windows Vista er töluvert breytt frá fyrri útgáfum Windows og því má búast við því að það séu mun fleiri gallar í þessari fyrstu útgáfu Windows Vista heldur en eru nú í Windows XP Service Pack 2. Tölvunotendur ættu því að bíða a.m.k. eftir Service Pack 1 fyrir Windows Vista. Biðin eftir fyrsta þjónustupakkanum verður líklega ekki löng því búast má við honum með haustinu.
Gríðarlega öflugar tölvur þarf til að keyra Vista. Notendur ættu því frekar að gera ráð fyrir því að uppfæra í Vista um leið og þeir endurnýja tölvubúnað sinn heldur en að reyna að uppfæra núverandi tölvur frá XP í Vista. Ég hef prófað Vista og XP hlið við hlið á nýrri Dell Optiplex 740 tölvu með AMD Athlon 64 X2 Dual-Core 5000+ örgjörva og 2 GB minni, keyrandi sem sýndarvélar í VMware Server. Vista var ekki hægvirkt í þessu umhverfi en samanburðurinn við XP var sláandi.
Að auki eru fleiri breytingar í tölvuheiminum um þessar mundir. Nýir örgjörvar eru 64-bita (og hafa verið um nokkra hríð) og til að nýta þá að fullu þarf 64-bita stýrikerfi, eins og XP x64 eða Vista x64. Það er hins vegar ekkert hlaupið að því að fá 64-bita Windows umhverfi til að virka almennilega því það eru ekki endilega komnir 64-bita reklar fyrir vélbúnað, margar viðbætur fyrir Explorer virka ekki því þær eru 32-bita og svo eru nánast allar ActiveX stýringar á vefnum einungis 32-bita og virka einungis í 32-bita útgáfunni af Internet Explorer. Ástandið er samt að skána smátt og smátt, en til hvers að setja upp 32-bita Vista núna til þess eins að strauja vélina og setja upp 64-bita Vista eftir tæpt ár?
Mörg nauðsynleg forrit, eins og vírusvarnaforrit, eru ekki enn tilbúinn fyrir Vista. Jafnvel þó að Microsoft hafi gert mjög margt til að auka öryggi í Vista þá ættu almennir tölvunotendur ekki að setja upp og nota Vista án þess að vera með Vista-samhæfðar vírusvarnir og annan öryggisbúnað sem nauðsynlegur er fyrir Windows.
Grafíkin í Vista er mjög flott, skemmtilegir nýir hlutir eins og "desktop gadgets" eru mjög góðir og endurbætt öryggi eins og User Account Control (UAC) er til mikilla bóta. En þetta er allt búið að vera í Mac OS X í langan tíma, engin þörf fyrir vírusvörn á makka og núverandi útgáfa, Mac OS X Tiger, er 64-bita.
Fyrir þann pening sem raunverulega þarf til að uppfæra upp í Windows Vista, þá mæli ég frekar með því að bíða eftir Mac OS X Leopard og kaupa sér makka (kemur í vor, áður en Vista SP1). Ef það er nauðsynlegt að hafa Windows við höndina fyrir einhver sérstök forrit, kaupið þá Parallels Desktop for Mac og setjið upp 32-bita XP SP2 í sýndarvél á makkanum (en reynið að nota Windows eins lítið og hægt er).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli