Ritskoðun í Tælandi
Lokað var á YouTube í Tælandi nýlega vegna þess að tiltekið myndband þar þótti móðga konung Tælands.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lokað er á YouTube og t.d. gagnrýndi ég Tyrki í pistli nýlega fyrir að loka á YouTube.
Munurinn á Tyrkjum og Tælendingum er þó sá að Tyrkir verða að styrkja lýðræðið hjá sér því þeir vilja komast í Evrópusambandið en Tælendingar eru með herforingjastjórn og geta engan veginn talist stunda lýðræði.
Það tekur því varla að gagnrýna Tælendinga því þeir ættu að vita upp á sig skömmina. Engu að síður má finna kostulega tilvitnun í samskiptaráðherra Tælands í framhaldsfrétt BBC: "I don't want to hear a lecture on free speech... I am a proponent of free speech but this is just culturally insensitive and offensive...". Með öðrum orðum þá styður hann tjáningarfrelsi nema ef einhver segir eitthvað sem er ekki honum að skapi.
Tjáningarfrelsið er erfitt fyrirbæri að umgangast og einungis á færi þroskaðra og menntaðra þjóðfélaga sem hafa einsett sér að stunda lýðræði. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur tjáningarfrelsis að einhverjum tímapunkti þarf maður að umbera særandi ummæli. Ritskoðun og höft eru ekki leyfileg viðbrögð þá. Íslendingar þurfa meðal lýðræðisþjóða að herða varðstöðuna um tjáningarfrelsið, taka til í sínum ranni og mótmæla ritskoðun hvar sem er í heiminum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli