Þjóðsöngurinn, þjóðfáninn og tjáningarfrelsið
Kverúlantar og nöldurseggir hafa nú fengið "gott" efni til að amast yfir: Útgáfu Spaugstofunnar á þjóðsöngnum sem frumflutt var á laugardaginn sl.
Skv. lögum er bannað að flytja þjóðsönginn nema með tilteknum hætti og bannað að gera tiltekna hluti við þjóðfánann. Engu að síður tryggir stjórnarskráin að "hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar".
Reyndar er strax dregið í land í stjórnarskránni með viðbótinni að "tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum".
Mér er hins vegar fyrirmunað að sjá hvaða allherjarreglu, öryggi, heilsu eða siðgæði er verið að vernda með þessum boðum og bönnum í þjóðsöngs og -fánalögunum. Í stað þess að kvarta og kveina yfir Spaugstofunni finnst mér að orkunni væri betur varið í að fjarlægja þessar takmarkanir úr lögunum, sem og að fjarlægja þessa takmörkun úr tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Allir eiga að hafa þann rétt að afbaka þjóðsönginn eða klæðast þjóðfánanum (bls. 26) ef þeim finnst þörf á því til að tjá skoðanir sínar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli