12 ára gömul sannindi um handfrjálsan búnað
Fjallað var um handfrjálsan farsímabúnað í frétt á Stöð 2 í kvöld. Þar sagði fréttamaður m.a. að það kæmi kannski á óvart að það væri nákvæmlega jafnhættulegt að tala í síma við akstur hvort sem notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki.
Þetta ætti alls ekki að koma á óvart og eru alls ekki ný sannindi. Ég skrifaði meira að segja pistil um þetta, Það er allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú drekkur bara bjór, fyrir tæpu ári síðan og er nú varla sérfræðingur á þessu sviði.
Þetta eru raunar a.m.k. 12 ára gömul sannindi. Staðreyndin er meira að segja sú að þetta eru svo gömul og þekkt sannindi að þau koma fram í skýrslu starfshóps um notkun farsíma við akstur, sem gefin var út af dómsmálaráðuneytinu árið 1998. Þar er vísað í rannsóknir frá árunum 1995-1998 um að notkun farsíma í akstri sé hættuleg, það sé fjórum sinnum líklegra að lenda í slysi ef talað er í farsíma við akstur og að það skipti engu máli hvort að handfrjáls búnaður sé notaður eða ekki:
Briem og Hedman sýndu fram á að aðgerðir sem tengjast sjálfu símtólinu skerða athygli ökumanna mest og skiptir engu hvort um sé að ræða farsíma með handfrjálsum búnaði eða ekki (1995).Lögin um handfrjálsan búnað voru ekki sett fyrr en 2001 en þá voru þessar staðreyndir enn betur þekktar.
Ef litið var til þess hvort notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki þá var ekki verulegur munur á áhættunni (Redelmeier og Tibshirani, 1997).
Í Svíþjóð gerði Johansen nýlega könnun (1998) á farsímanotkun og komst að því að það er ekki meðhöndlun símtækisins við akstur sem er hættulegust heldur sjálft símtalið.
Lögin voru byggð á ráðgjöf þessa starfshóps en í skýrslunni segir að "með hliðsjón af afstöðu ökumanna sjálfra leggur starfshópurinn til að ákvæði verði sett í umferðarlög sem leggi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar". Athyglisvert er að þótt að þessar rannsóknir væru þekktar á þessum tíma (m.a. vissi dómsmálaráðuneytið greinilega af þeim) þá var afstaða ökumanna sjálfra látin ráða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli