20. feb. 2007

Frjáls för

Uppfært 27.02.: Smátt og smátt er hinn þögli meirihluti í þessu máli að koma fram. Skv. könnun Fréttablaðsins (bls. 4, fyrir miðju) eru 61,3% landsmanna þeirrar skoðunar að ákvörðun Hótel Sögu að vísa hópnum frá hafi verið röng.

Áberandi er að 71,1% kjósenda Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að þessi ákvörðun hafi verið röng, sérstaklega þegar viðbrögð borgarstjóra Reykjavíkur eru höfð til hliðsjónar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fór mikinn í þessari umræðu, var með hótanir í garð þessa fólks, krafðist lögreglurannsóknar á þeim og setti fordæmalausan þrýsting á fyrirtæki í borginni að eiga ekki viðskipti við þennan hóp. Sýnt er að borgarstjórinn er ekki í takti við borgarbúa, hvað þá kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Mín skoðun er sú að hann hafi brugðist helstu meginreglum lýðræðis og réttarríkis með viðbrögðum sínum.

Einnig er fjallað um þetta mál í leiðara Fréttablaðsins (bls. 16, vinstra megin) er þar skrifar Jón Kaldal um hinn móralska minnihluta. Mjög háværan hóp fólks, en minnihluta Íslendinga. Ég tek undir það með leiðarahöfundi að sem betur fer eru Íslendingar upp til hópa frjálslyndir og umburðarlyndir. Ofstækismenn eru fátíðir þó að hávaðinn geti um stundarsakir blekkt manni sýn.

Valgerður Bjarnadóttir skrifar einnig athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag (bls. 16, fyrir miðju) um þetta mál. Ég er reyndar ósammála Valgerði um margt sem fram kemur í grein hennar en við erum sammála um að málefnið megi ekki kippa úr sambandi lögum og rétti sem hér gilda og að Bændasamtök Íslands eigi ekki að taka ferða- og fundafrelsi af fólki sem ætlar ekki að fremja hér lögbrot. Ég vil einnig taka undir með Valgerði að með þessari niðurstöðu var tekinn af henni rétturinn til þess að standa fyrir utan Hótel Sögu og mótmæla. Það hefði verið hin eðlilega lýðræðislega niðurstaða í réttarfarsríki að hópurinn hefði komið hingað og fengið þá (löglegu) þjónustu sem hann borgaði fyrir og þeir sem væri ósáttir hefðu fengið að mótmæla fyrir utan Hótel Sögu.

Vonandi lærum við Íslendingar eitthvað af þessum farsa, sérstaklega meirihlutinn að láta heyra í sér fyrr og hærra.

Uppfært 22.02.: Bændasamtök Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hafa látið undan sefasýkinni sem hefur heltekið landsmenn undanfarna daga og synjað neðangreindum ferðamönnum um gistingu. Í fréttatilkynningu segir að með "þessu vilja Bændasamtökin lýsa vanþóknun sinni á starfsemi þeirri sem ofangreindur hópur tengist". Fréttastofa RÚV beindi athyglinni að hræsninni í þessari ákvörðun með því að benda á að hægt er að kaupa aðgang að léttbláum myndum á sjónvarpskerfi Hótel Sögu, eða eins og fréttamaður orðaði það, hvers vegna mætti "kaupa klám og horfa á klám [á Hótel Sögu] en ekki tala um klám"? Kannski eru jafnvel þessir sömu leikarar í þeim myndum, sem fá nú ekki að gista á Hótel Sögu og horfa á sínar eigin myndir?

Upprunalegt 20.02.: Heitar umræður eru þessa dagana um hvataferð nokkurra útlendinga hingað til lands. Þetta munu vera leikarar og framleiðendur á erótískum myndum og þykir ýmsum það vera mjög óæskilegt að þetta fólk komi hingað.

Margt ansi ógáfulegt hefur verið sagt í þessari umræðu. Meðal annars hefur koma þeirra verið borin saman við komu meðlima Falun Gong til Ísland og spurt hvers vegna íslensk stjórnvöld stöðva ekki þessa ferðamenn á sama hátt og meðlimi Falun Gong á sínum tíma.

Falun Gong samtökin eru ólögleg í Kína og meðlimir þeirra eru glæpamenn að áliti kínverskra stjórnvalda. Við getum verið ósammála kínverskum stjórnvöldum en það breytir ekki þeirri staðreynd að við verðum að virða ákvörðunarrétt þeirra og forræði á kínverskri grundu. Meðlimir Falun Gong komu hingað gagngert til mótmæla í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína. Þau áform þóttu ógn við allherjarreglu og öryggi á Íslandi og því tóku íslensk stjórnvöld þá ákvörðun að stöðva för þessa fólks.

Og það varð allt vitlaust á Íslandi...

Ofangreindir leikarar og kvikmyndaframleiðendur stunda löglega vinnu í heimalöndum sínum. Okkur getur mislíkað það sem þau hafa fyrir stafni en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er lögleg iðja þar sem þau búa og starfa. Þessi hópur er að koma hingað til lands í löglegum tilgangi, ætla að sjá Gullfoss og Geysi, fara í bæinn og baða sig í Bláa lóninu. Það er vandséð hvað sé ólöglegt við þessar fyrirætlanir og því sjá íslensk stjórnvöld enga ástæðu til að stöðva för þessa fólks.

Og það er allt vitlaust á Íslandi...

Eftir seinasta landsþing Frjálslynda flokksins var formaðurinn gagnrýndur fyrir það að hafa talað um útlendinga og berkla í sömu andránni, undir liðnum málefni innflytjenda. Hann sagði auðvitað aldrei að allir þeir útlendingar sem kæmu hingað væri smitaðir af berklum en með því að tengja þetta saman óbeint og lauslega þá gátu áheyrendur lesið á milli línanna. Þeir skildu skilaboðin og tilganginum var náð, hugmyndinni og óttanum hafði verið sáð.

Í umræðunni um þessa hvataferð hefur ítrekað verið rætt um tengsl við barnaklám og mansal, sem eru meðal viðbjóðslegustu glæpa. Enginn er samt tilbúinn að fullyrða eða sanna að einhver af þessum ferðamönnum sé viðriðin slíkt. Engu að síður er almennum fullyrðingum um þessi tengsl blandað saman við sértækum fullyrðingum um þennan tiltekna hóp ferðamanna. Allir skilja skilaboðin og tilganginum er náð, hugmyndinni og óttanum hefur verið sáð.

Flugfélög og hótel hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að flytja þetta fólk hingað til lands og hýsa það. Þessi "stórabróðurs" hugsunarháttur er stórundarlegur. Fyrirtækjum í ferðamannaiðnaði kemur það ekkert við hvað ferðamenn gera hér á landi og þau eiga ekki að vera njósna um þá. Það er lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu í þessu landi, ekki einkafyrirtækja.

Fáir hafa orðið til andsvara í þessari umræðu, nema Frjálshyggjufélagið, Vefþjóðviljinn og einn lögmaður, enda eiga menn á hættu að vera úthrópaðir sem verndarar barnakláms og mansals. Uppfært 21.02.: Núna hefur formaður SUS einnig orðið til andsvara.

Sú einfalda regla gildir í okkar réttarríki að allir eru saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð fyrir dómi. Rannsókn og eftirlit lögreglu er háð því að rökstuddur grunur um glæp (á Íslandi) sé fyrir hendi og þarf jafnvel dómsúrskurð til. Í stað þess að grafa undan þessum gildum er þörf á að standa vörð um þau.

1 ummæli:

breyni sagði...

Það er nú barasta ekki í lagi með Íslendinga stundum. Aðra eins vitleysu man maður vart. Hér er allt vaðandi í klámi hvort eð er, en við eigum líklega svona erfitt með að líta okkur nær.
Hvað næst? Ætlum við að gera þá kröfu á erlenda gesti okkar að þeir svari nákvæmum spurningalista um hvað þeir ætli að aðhæfast á meðan dvöl þeirra stendur hér? Viljum við setja á þá mónitor tæki svo við getum fullvissað okkur um að hér sé ekki viðhafður neinn viðbjóður í landi voru, þar sem allir eru fullkomnir, enginn gerir neitt af sér, allir eru að springa úr hamingju - já í þessari óspjölluðu Paradís okkar. *hristihaus*