9. apr. 2007

Lýst eftir veffréttamönnum

Uppfært 12.04.: Rakst á þessa áhugaverðu grein um íhaldssemi (norskra) nemenda í fjölmiðlun, sem tengist mjög vel efni pistilsins míns.

Upprunalegt 09.04.: Vefurinn er ekki nýtt fyrirbrigði, að verða 17 ára gamall um þessar mundir. Þrátt fyrir "háan" aldur er engu að síður oft sem hann er ekki nýttur til fulls.

Fjölmiðlar eru stundum átakanlegt dæmi þar um. Ég hef áður minnst á það í framhjáhlaupi í pistli nýlega að það er ákaflega leiðinlegur siður fréttamanna sem skrifa fyrir vefinn að vísa ekki á heimildir sínar, í þeim tilfellum þegar þær er að finna á vefnum. Ég tel að þetta sé merki um vanþroska fréttamanna sem eru enn fastir í hugsanahætti eldri miðla, eins og útvarps og dagblaða, sem leyfa ekki tilvísanir í heimildir með jafneinföldum, auðveldum og sjálfsögðum hætti og vefurinn. Oft er einungis sagt "að sögn BBC" eða eitthvað álíka í stað þess að vísa á fréttina hjá BCC með því að setja hlekk á viðeigandi stað í textann.

Nýleg frétt á mbl.is reyndi að ganga aðeins lengra og sagði að þetta kæmi fram "á fréttavef Aftenposten („Aldri vært sikrere å fly“)". Auðvitað hefði átt að tengja upprunalegu fréttina við textann í stað þess að setja titil hennar í fréttina. Það er að sjálfsögðu auðveldara að finna hana ef maður veit titilinn en hvers vegna ekki bara að tengja hana beint og spara manni það erfiði að leita að henni? Að auki er þessi frétt strangt til tekið á Forbruker.no en ekki á fréttavef Aftenposten, þó svo að Aftenposten gefi báða vefina út, sem villir um fyrir þeim sem vilja finna upprunalegu fréttina. Heildarniðurstaðan er því sú að þetta er hallærislegra en að segja bara "að sögn Aftenposten" því fréttamaðurinn virðist ekki vita hvað hann er að gera.

Auðvitað eru til ánægjulegar undantekningar eins og þessi frétt á mbl.is. Engu að síður vantar smávegis upp á. Í stað þess að tengja greinina sem um er fjallað t.d. við orðið "háðsádeilugrein" ofarlega í fréttinni þá er settur hlekkur neðst í fréttina. Þetta er því ekki eins og vefurinn er almennt tengdur heldur eins og heimildaskrá í ritgerð. Þetta sést greinilega þegar fréttin er borin saman við útgáfuna hjá RÚV, sem er mun betri.

Taka má saman stuðning miðlanna við helstu miðlunarform með eftirfarandi hætti, þar sem grænn punktur táknar mikla notkun og grár punktur minni notkun:


BlaðHljóðvarpSjónvarpVefur
Texti
Tal
Kyrrmyndir
Hreyfimyndir

HlekkirVefurinn er öflugastur af nútímamiðlum, styður flesta möguleikana. Frelsið leysir sköpunargleðina úr læðingi en niðurstaðan getur orðið samhengislaus glymjandi. Því er erfiðast að búa til fréttir fyrir vefinn.

Vefurinn er líka sá eini sem býður upp á hlekki, beinar tengingar, við heimildir og ítarefni. Hann krefst því nýrra vinnubragða og annarrar nálgunar en hinir eldri miðlar.

Engin ummæli: