Um orðið "netfang"
Orðið netfang er oft notað þar sem líklega var ætlunin að nota orðin póstfang, tölvupóstfang eða netpóstfang. Það er útbreiddur misskilningur að ef netpóstfang er stytt í netfang þá haldi það merkingu sinni. Svo er ekki, það breytir um merkingu, en réttari stytting á netpóstfang væri póstfang.
Annars vegar er orðið netfang þýðing á network address (þ.e.a.s. stytting á orðinu netvistfang) sem vísar annað hvort til vistfangs á netlagi, t.d. IP-tölu tölvu/netbúnaðar, eða vistfangs á greinatengilagi, t.d. MAC-tölu tölvu/netbúnaðar. Þetta er augljóslega mjög tæknileg merking sem gagnast fyrst og fremst tæknifólki en ekki venjulegum tölvunotendum.
Hins vegar er orðið netfang almennt samheiti fyrir öll þessi "föng", þ.e. samheiti fyrir póstfang, veffang, MSN-fang eða spjallfang og allar þær aðrar leiðir sem hægt er að nálgast okkur á netinu. Þetta er sú merking sem hinn almenni tölvunotandi ætti að leggja í orðið netfang. Dæmi um notkun væri að nota netföng sem heiti á lista þar sem þessi atriði hér að ofan, eins og póstfang og veffang, væru tíunduð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli