7. apr. 2007

"Ertu hryðjuverkamaður?"

Mbl.is greinir frá því að bankar á Íslandi (allavega Kaupþing á Selfossi) spyrji nú nýja viðskiptavini hvort þeir séu hryðjuverkamenn. Nánar tiltekið mun spurningin hljóma svo: "Tengist þú einhverjum hryðjuverkasamtökum eða er einhver í fjölskyldu þinni viðriðinn við slík samtök?"

Ímyndun okkur nú að harðsvíraður hryðjuverkamaður komi inn í íslenskan banka, vilji stofna þar reikning og sé spurður þessarar spurningar. Hvað haldið þið að hann muni segja? Haldið þið virkilega að hann muni segja "já"?

Auðvitað svara allir þessari spurningu neitandi, jafnt hryðjuverkamenn sem aðrir.

Hver er tilgangurinn með því að spyrja spurningar sem allir svara neitandi?

Því miður eru spurningar sem þessar ekki bara heimskulegt bull, þær eru hreint og klárt til þess fallnar að draga úr öryggi.

Einhvers staðar hefur einhver búið til þessar reglur og þessar spurningar. Að verki loknu hefur hann klappað sjálfum sér á bakið fyrir gott verk og vel unnin störf og tilkynnt yfirmönnum sínum að hann hafi aukið öryggi almennings. Það hefur svo verið tilkynnt opinberlega og merkt við á aðgerðalistanum að þessu sé lokið, öryggi almennings hafi verið aukið.

En öryggi almennings hefur ekkert aukist við þessa vitleysu, heldur þvert á móti býr almenningur við það falska öryggi að eitthvað raunverulegt hafi verið gert þegar í raun og veru tímanum var eytt til einskins (á kostnað skattgreiðanda að öllum líkindum).

Það sem er miklu verra er að ekki verður gripið til aðgerða sem raunverulega auka öryggi því menn halda að það sé þegar búið að því. "Er ekki þegar verið að spyrja hryðjuverkamenn að því hvort þeir séu hryðjuverkamenn?"

Engin ummæli: