30. jan. 2007

Windows Vista gefið út

Uppfært 01.02.: Microsoft hefur varað við því að mögulegt er að nota talkennslin (e. speech recognition) í Windows Vista til óæskilegra hluta. Það er tæknilega mögulegt að ef t.d. hljóðskrá á vefsíðu er spiluð og hún inniheldur skipanir, eins og "delete" og "shutdown", að stýrikerfið hlýði þessum skipunum þó svo að þær komi ekki frá notandanum. BBC fjallaði um þetta og einnig SANS vegna þess að menn höfðu prófað þetta og fengið það til að virka.

Uppfært 31.01: Microsoft gaf út a.m.k. 13 uppfærslur fyrir Windows Vista hinn 29.01., degi áður en stýrikerfið var gefið út.

Upprunalegt 30.01.: Microsoft gaf Windows Vista út í dag. Útgáfan breytir litlu sem engu fyrir tölvunotendur. Í raun ættu skynsamir Windows notendur að halda að sér höndum og nota Windows XP áfram enn um sinn.

Windows Vista er töluvert breytt frá fyrri útgáfum Windows og því má búast við því að það séu mun fleiri gallar í þessari fyrstu útgáfu Windows Vista heldur en eru nú í Windows XP Service Pack 2. Tölvunotendur ættu því að bíða a.m.k. eftir Service Pack 1 fyrir Windows Vista. Biðin eftir fyrsta þjónustupakkanum verður líklega ekki löng því búast má við honum með haustinu.

Gríðarlega öflugar tölvur þarf til að keyra Vista. Notendur ættu því frekar að gera ráð fyrir því að uppfæra í Vista um leið og þeir endurnýja tölvubúnað sinn heldur en að reyna að uppfæra núverandi tölvur frá XP í Vista. Ég hef prófað Vista og XP hlið við hlið á nýrri Dell Optiplex 740 tölvu með AMD Athlon 64 X2 Dual-Core 5000+ örgjörva og 2 GB minni, keyrandi sem sýndarvélar í VMware Server. Vista var ekki hægvirkt í þessu umhverfi en samanburðurinn við XP var sláandi.

Að auki eru fleiri breytingar í tölvuheiminum um þessar mundir. Nýir örgjörvar eru 64-bita (og hafa verið um nokkra hríð) og til að nýta þá að fullu þarf 64-bita stýrikerfi, eins og XP x64 eða Vista x64. Það er hins vegar ekkert hlaupið að því að fá 64-bita Windows umhverfi til að virka almennilega því það eru ekki endilega komnir 64-bita reklar fyrir vélbúnað, margar viðbætur fyrir Explorer virka ekki því þær eru 32-bita og svo eru nánast allar ActiveX stýringar á vefnum einungis 32-bita og virka einungis í 32-bita útgáfunni af Internet Explorer. Ástandið er samt að skána smátt og smátt, en til hvers að setja upp 32-bita Vista núna til þess eins að strauja vélina og setja upp 64-bita Vista eftir tæpt ár?

Mörg nauðsynleg forrit, eins og vírusvarnaforrit, eru ekki enn tilbúinn fyrir Vista. Jafnvel þó að Microsoft hafi gert mjög margt til að auka öryggi í Vista þá ættu almennir tölvunotendur ekki að setja upp og nota Vista án þess að vera með Vista-samhæfðar vírusvarnir og annan öryggisbúnað sem nauðsynlegur er fyrir Windows.

Grafíkin í Vista er mjög flott, skemmtilegir nýir hlutir eins og "desktop gadgets" eru mjög góðir og endurbætt öryggi eins og User Account Control (UAC) er til mikilla bóta. En þetta er allt búið að vera í Mac OS X í langan tíma, engin þörf fyrir vírusvörn á makka og núverandi útgáfa, Mac OS X Tiger, er 64-bita.

Fyrir þann pening sem raunverulega þarf til að uppfæra upp í Windows Vista, þá mæli ég frekar með því að bíða eftir Mac OS X Leopard og kaupa sér makka (kemur í vor, áður en Vista SP1). Ef það er nauðsynlegt að hafa Windows við höndina fyrir einhver sérstök forrit, kaupið þá Parallels Desktop for Mac og setjið upp 32-bita XP SP2 í sýndarvél á makkanum (en reynið að nota Windows eins lítið og hægt er).

28. jan. 2007

Hoodwinked!

Teiknimyndin Hoodwinked! fjallar um Rauðhettu og úlfinn og nútímaævintýri þeirra. Þetta er stórskemmtileg mynd þar sem sagan er sögð frá mörgum sjónarhornum og söguþræðirnir spinnast skemmtilega saman. Þetta er varla mynd fyrir börn, hún er eiginlega of flókin fyrir yngri áhorfendur. Fínasta skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

27. jan. 2007

Viðvörun vegna galla í Adobe Reader og uppfærslur

Adobe hefur gefið út viðvörun (APSB07-01) vegna galla í Adobe Reader og Acrobat á Windows, Mac OS X og UNIX. Gallarnir eru í útgáfu 7.0.8 og öllum eldri útgáfum.

Adobe mælir með því að uppfæra upp í útgáfu 8. Ef það er ekki hægt þá mælir Adobe með því að uppfæra upp í útgáfu 7.0.9 eða útgáfu 6.0.6, sem voru gefnar út til að laga gallana. Leiðbeiningar um hvað skal gera í hverju tilfelli má finna í tilkynningu Adobe.

Uppfærsla á Google Desktop (5.0.0701.18382)

Google Desktop leitarforritið hefur verið uppfært í útgáfu 5.0.0701.18382. Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Google.

26. jan. 2007

Uppfærslur frá Apple (2007-001)

Apple gaf út uppfærslu fyrir Quicktime, bæði fyrir Mac OS X og Windows (2007-001). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Á Mac OS X er einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

Á Windows þarf að fara út í nokkrar aðgerðir, þvert á þær upplýsingar sem koma fram í tilkynningu Apple:

Ef núverandi útgáfa Quicktime á tölvunni er eldri en 7.1.3 þá þarf fyrst að sækja þá útgáfu og setja hana inn (veljið QuickTime án iTunes nema ætlunin sé að uppfæra iTunes líka). Nauðsynlegt er að setja inn Apple Software Update (ASU) sem fylgir með pakkanum.

Ef núverandi útgáfa Quicktime er 7.1.3 og ASU er ekki uppsett, þá þarf að sækja Quicktime pakkann aftur, opna hann með tóli eins og WinZip eða 7-Zip, finna skrána AppleSoftwareUpdate.msi og keyra hana til að setja upp ASU. Einnig er hægt að fjarlægja Quicktime og setja það inn aftur til að fá ASU inn á tölvuna, en þá verður að fjarlægja Quicktime algerlega fyrst.

Til þess að sækja uppfærsluna á Quicktime þarf að keyra ASU og fyrst að uppfæra það tól frá útgáfu 1.0.0.7 í útgáfu 1.0.2.2. Svo þarf að keyra það aftur og sækja þá loksins "Security Update 2007-001".

Uppfærsla á ZoneAlarm (7.0.302.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 7.0.302.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

Þessa nýju útgáfu er ekki hægt að nota með vírusvörn frá CA eða Kaspersky. Hugsanlega eru fleiri vírusvarnir sem ekki er lengur hægt að nota samhliða ZoneAlarm.

24. jan. 2007

100

Ákveðnum áfanga er nú náð. En hvers vegna eru tölur sem enda á núllum merkilegri en aðrar tölur?

Tsotsi

Kvikmyndin Tsotsi fjallar um ungan strák í Suður-Afríku sem stelur bíl en áttar sig svo á því að það er lítið barn í aftursætinu. Hann skilar barninu sex dögum seinna og myndin fjallar um líf hans og þá breytingu sem verður á honum á þessum sex dögum. Að mörgu leyti er þessi mynd áþekk Cidade de Deus (sem fékk 8/10 í einkunn), m.a. að því leyti að fjalla um fátæk börn sem verða að sjá um sig sjálf í hörðum heimi. Báðar minna þær mann á að það er gott að búa á Íslandi.

Fær 7/10 í einkunn.

Cantat-3 ennþá bilaður

Cantat-3 sæstrengurinn er búinn að vera bilaður síðan 17.12.2006, eða í 39 daga. Viðgerð átti að ljúka 22.01. en skv. fréttum þá var hætt við að gera við strenginn vegna veðurs.

Tekin var ákvörðun um frestunina 18.01., og var strengurinn þá gangsettur aftur til Evrópu, en af einhverjum óútskýrðum ástæðum var fréttatilkynning um frestunina ekki gefin út fyrr en 22.01.

Af öðrum sæstrengsmálum er það að frétta að Færeyingar hafa ákveðið að leggja sinn eigin sæstreng til Skotlands. Færeyjar og Svalbarði verða innan árs betur tengd við umheiminn en Ísland.

21. jan. 2007

Night at the Museum

Gamanmyndin Night at the Museum er þokkaleg skemmtun. Sagan ristir ekki djúpt en tæknibrellur eru notaðar á skemmtilegan hátt til að búa til fyndnar aðstæður og styðja við brandarana. Margir þekktir gamanleikarar leika í þessari mynd og skila sínu prýðilega. Góð kvöldskemmtun.

Fær 6/10 í einkunn.

18. jan. 2007

Nafnlaus á netinu

Ég var í hádegisviðtali á Stöð 2 í dag og ræddi um þá kunnáttu sem er nauðsynleg til að vera nafnlaus á netinu, sem ég hef áður minnst á í pistlinum IP-tölur og listin að fela sig. Í kvöld var svo frétt á Stöð 2 um tengt mál, þar sem hlutar úr þessu viðtali voru notaðir.

15. jan. 2007

Signs

Kvikmyndin Signs er sérkennileg, eins og eiginlega allar myndir M. Night Shyamalan. Á yfirborðinu fjallar þessi mynd um innrás geimvera. Þær búa yfir mun meiri tækni en við og hafa valið jörðina af kostgæfni en undirbúa innrásina með því að gera "akurhringi" og virðast ekki hafa áttað sig á því að þær þola ekki vatn. Undir niðri fjallar myndin um prest sem hefur hætt að trúa og innri baráttu hans við að öðlast trú sína aftur. Gæti verið vel þess virði að sjá hana þó svo að mér hafi ekki líkað hún.

Fær 5/10 í einkunn.

13. jan. 2007

The Sentinel

Kvikmyndin The Sentinel er eins og mjög langur, fremur lélegur sjónvarpsþáttur. Hún fjallar um samsæri um að myrða forseta BNA og leitina að flugumanni í innsta hring öryggisgæslu hans, sem er þvingaður af einhverjum austur-evrópskum glæpamönnum til að taka þátt.

Myndin skartar stórstjörnum eins og Michael Douglas, Kiefer Sutherland og Eva Longoria, en það dugar engan vegin til því sagan er leiðinleg og samhengislaus og frásögnin óspennandi og ruglingsleg.

Það væri til að æra óstöðugan að tíunda hér allar þær spurningar sem myndin svara engan veginn og þau göt sem eru í handritinu. Þessi mynd er ekki þess virði að sjá hana, það eru mun betri sjónvarpsþættir á hverju kvöldi.

Fær 1/10 í einkunn.

10. jan. 2007

Superman Returns

Kvikmyndin Superman Returns er ansi fyrirsjáanleg. Hún byrjar sæmilega og það er góður hraði í fyrri hluta hennar en svo dofnar verulega yfir henni undir lokin. Sagan er ekki spennandi en tæknibrellur eru þokkalegar.

Fær 5/10 í einkunn.

9. jan. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (janúar 2007)

Uppfært 27.01.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 932553) vegna galla sem hefur uppgötvast í Microsoft Office, í öllum útgáfum nema 2007.

Uppfært 27.01.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 932114) vegna galla sem hefur uppgötvast í Microsoft Word 2000.

Upprunalegt 09.01.: Microsoft gaf út 4 öryggisuppfærslur í dag (09.01.) fyrir Windows, Internet Explorer og Office (2007 nr. 1-4) en hætti við á seinustu stundu að gefa út 4 aðrar uppfærslur. Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

7. jan. 2007

CD-R not accessible - Incorrect function

Nýlega hætti geislabrennarinn minn að virka. Þegar ég setti tóma diska í hann og opnaði drifið í Explorer (ég nota innbyggða brennsluforritið í Windows XP) þá fékk ég villuna: "E:\ not accessible - Incorrect function", sem eru algerlega óskiljanleg skilaboð. Ég gat engu að síður lesið diska í honum, vandamálið var einungis að ég gat ekki brennt nýja diska.

Fyrst hélt ég að diskarnir væru ónýtir og þar sem ég fann fingraför og minniháttar rispur á nokkrum diskum þá henti ég þeim. Brátt varð samt ljóst að það væri ekki vandamálið. Eftir töluverða leit á netinu fann ég nokkrar síður þar sem bent var á að hægrismella á drifið, velja "Properties" í valmyndinn, smella á "Recording" flipann og haka við "Enable CD recording on this drive". Brennarinn fór strax í lag við það.

Þessi brennari var búinn að virka í mörg ár og því ljóst að þessi stilling var búin að vera rétt í jafnmörg ár. Helst dettur mér í hug að þar sem ég brenndi nýlega afrit af ljósmyndunum mínum beint út úr Adobe Photoshop Elements Organizer að það hafi breytt þessari stillingu án þess að segja frá því. Hugsanlega eiga önnur forrit það einnig til að breyta þessari stillingu.

6. jan. 2007

Ekki nota vinnupóstföng...

... til persónulegra nota!

Í Fréttablaðinu í dag (06.01., bls. 2, efst) er sagt frá því að sviðsstjóri þróunar- og almannatengsla hjá Íbúðalánsjóði sendi skopauglýsingar á stóran hóp fólks þar sem hent er gaman að auglýsingum Kaupþings.



Í ljósi þess að Íbúðalánasjóður og Kaupþing eru keppinautar, sendandinn er sviðsstjóri almannatengsla hjá Íbúðalánsjóði og þetta var m.a. sent á fjölmiðla þá er ekki óeðlilegt að maður staldri aðeins við og velti fyrir sér hvort að þetta sé hluti af markaðsbaráttu Íbúðalánasjóðs. Svo er víst ekki, útsendingin mun hafa verið mistök.

Þetta eru stórfyndnar auglýsingar með beittri ádeilu og það hefði verið gott og blessað að hann hefði sent þær, nema að hann sendi þær frá vinnupóstfanginu sínu og bendlaði þar með vinnuveitandann sinn við þær.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fólk ætti aldrei að nota vinnupóstfangið sitt til persónulegra nota (og þetta er ekki eina dæmið um hvers vegna það er ekki gáfulegt) og að fyrirtæki ættu að vera mun strangari á því að banna slíka notkun. Því miður er erfitt að setja og framfylgja slíku banni vegna Persónuverndar, sem hefur nánast lögleitt persónulega notkun á vinnupóstföngum.

Það er engin ástæða til að nota vinnupóstföng í persónulegum tilgangi. T.d. eru Síminn og Vodafone með þokkaleg vefpósthús, hægt er að fá ókeypis póstföng hjá Hotmail og Yahoo! Mail og svo er ekki erfitt að komast inn á Gmail. Ég nota sjálfur Gmail og er þeirrar skoðunar að Gmail er besta póstþjónustan og vefpósthús sem til er. Auk þess er POP stuðningur þannig að maður getur blandað saman að nota vefpósthúsið og sitt eigið póstforrit. Það er heldur ekki verra að Gmail er á íslensku, rétt eins og Google Ísland.

Þannig að hér er tilboð, kæru lesendur: Ég á 199 Gmail-boðsmiða. Sendið mér tölvupóst á esth hjá erlendur punktur com og ég sendi ykkur boðsmiða um hæl. Þið skráið ykkur á Gmail og notið í stað vinnupóstfangsins ykkar fyrir persónulegan póst. Þið sendið svo boðsmiða á þá sem þið þekkið og vilja líka fá aðgang. Þetta er klassískt pýramídaskema, við Íslendingar erum mjög færir í slíku, það verða allir komnir með póstfang fyrr en varir.

Útrýmum allri persónulegri notkun á vinnupóstföngum, notum frekar Gmail.

Sæstrengir borga sig

Í Fréttablaðinu í dag (06.01., forsíðu, efst) er frétt um sæstrengi, en þau mál brenna núna á þjóðinni. Þar er fjallað um nýlega skýrslu frá Póst- og fjarskiptastofnuninni um að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Kostnaður vegna lélegs fjarskiptasambands er talin vera allt að 7 milljarðar króna á ári og vegur fórnarkostnaður vegna tapaðra viðskiptatækifæra þar þyngst.

Í fréttinni segir einn af höfundum skýrslunnar, Þröstur Sigurðsson ráðgjafi hjá ParX viðskiptaráðgjöf IBM, að öryggið í fjarskiptasambandi Íslands við útlönd sé ekki nógu gott en bætir svo við að "með lagningu FARICE-2 eru þessi nauðsynlegu öryggisskilyrði til staðar". Þetta er skrýtin fullyrðing því að í skýrslunni, sem hann samdi, kemur fram að ekki er búið að gera áhættumat og reikna út líkur á sambandsrofi. Því er í raun ekki vitað hvort að þessi nýi sæstrengur dugi til að bæta ástandið, en ég hef áður rökstutt hér að það þurfi 4 sæstrengi en ekki bara 2 og því þurfi meira til.

Þessi fullyrðing Þrastar væri mjög líklega rétt ef að Farice-2 bættist við Farice-1 og Cantat-3, að ástandið myndi verða betra með alla 4 strengina í notkun (eða "3 og ½" eins ég hef kallað það því að leggirnir tveir á Cantat-3 eru ekki alveg sjálfstæðir). Einnig þyrfti síðar að huga að lagningu Farice-3 sem kæmi í staðinn fyrir Cantat-3 til að fullyrðing hans væri áfram rétt.

En skýrslan tekur ekki þann pól í hæðina, hún gengur út frá því að Farice-2 komi í stað Cantat-3 og það verði einungis 2 strengir í notkun. En það er ekkert gefið að það verði skárra en núverandi ástand, og eins og allir vita er núverandi ástand ekki viðunandi.

Jafnvel þótt að Farice-2 verði af nýrri gerð en Cantat-3 þá finnst mér varlegt að fullyrða að Farice-1 + Farice-2 verði betra ástand en Farice-1 + Cantat-3. Ég hef lagt fram rök þess efnis að það þurfi tvo sjálfstæða, hringtengda fjarskiptastrengi, þ.e.a.s. 4 sæstrengi í heildina, og nú bíðum við eftir því að sjá niðurstöður áhættumatsins.

5. jan. 2007

Leggjum strax nýjan sæstreng... en hvað svo?

Rétt fyrir jólin birti samgönguráðuneytið frétt um áhrif truflana á fjarskiptatengingum milli Íslands og umheimsins þar sem fram kom að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu fyrr en síðar. Var vísað í skýrslu sem Póst- og fjarskiptastofnunin (PFS) lét gera um þetta mál. Skömmu eftir áramótin birtist svo frétt á vefsetri PFS sama efnis og skýrslan birt þar í heild sinni.

Skýrslan er mjög áhugaverð lesning, sérstaklega fyrir áhugamenn um sæstrengi. Þar kemur fram að fjárfesting í upplýsingatækni margborgi sig og að það sé hagkvæmast að hefjast strax handa, bið séu tapaðir peningar. Samgönguráðuneytið brást hratt við og tekin var ákvörðun um að leggja nýjan sæstreng.

En hvað svo? Það kemur fram í skýrslunni að ekki er búið að gera áhættumat og reikna út líkur á sambandsrofi. Því er í raun ekki vitað hvort að þessi nýi sæstrengur dugi til að bæta ástandið, en ég hef áður rökstutt hér að það þurfi 4 sæstrengi en ekki bara 2 og því þurfi meira til. Engin stefna er sjáanleg um hvað taki við eftir að þessi strengur hefur verið lagður.

Það sem verra er að ríkið virðist ekki hafa neina stefna um hvernig eigi að laða að fyrirtækin sem munu nýta sér hann. Hvað er ætlunin að gera til að laða þau hingað? Hvert er framhaldið?

Flott, leggjum strax nýjan sæstreng til að redda vandamálum gærdagsins... en hvað svo?

1. jan. 2007

Skaupið 2006/2007

Áramótaskaupið 2006/2007 var frábært, líklega það besta í áratugi. Ég hló frá upphafi til enda. Fremstur á meðal jafningja var "Saga Boutique" brandarinn, sem var hreint út sagt óborganlegur.