5. jan. 2007

Leggjum strax nýjan sæstreng... en hvað svo?

Rétt fyrir jólin birti samgönguráðuneytið frétt um áhrif truflana á fjarskiptatengingum milli Íslands og umheimsins þar sem fram kom að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu fyrr en síðar. Var vísað í skýrslu sem Póst- og fjarskiptastofnunin (PFS) lét gera um þetta mál. Skömmu eftir áramótin birtist svo frétt á vefsetri PFS sama efnis og skýrslan birt þar í heild sinni.

Skýrslan er mjög áhugaverð lesning, sérstaklega fyrir áhugamenn um sæstrengi. Þar kemur fram að fjárfesting í upplýsingatækni margborgi sig og að það sé hagkvæmast að hefjast strax handa, bið séu tapaðir peningar. Samgönguráðuneytið brást hratt við og tekin var ákvörðun um að leggja nýjan sæstreng.

En hvað svo? Það kemur fram í skýrslunni að ekki er búið að gera áhættumat og reikna út líkur á sambandsrofi. Því er í raun ekki vitað hvort að þessi nýi sæstrengur dugi til að bæta ástandið, en ég hef áður rökstutt hér að það þurfi 4 sæstrengi en ekki bara 2 og því þurfi meira til. Engin stefna er sjáanleg um hvað taki við eftir að þessi strengur hefur verið lagður.

Það sem verra er að ríkið virðist ekki hafa neina stefna um hvernig eigi að laða að fyrirtækin sem munu nýta sér hann. Hvað er ætlunin að gera til að laða þau hingað? Hvert er framhaldið?

Flott, leggjum strax nýjan sæstreng til að redda vandamálum gærdagsins... en hvað svo?

Engin ummæli: