6. jan. 2007

Ekki nota vinnupóstföng...

... til persónulegra nota!

Í Fréttablaðinu í dag (06.01., bls. 2, efst) er sagt frá því að sviðsstjóri þróunar- og almannatengsla hjá Íbúðalánsjóði sendi skopauglýsingar á stóran hóp fólks þar sem hent er gaman að auglýsingum Kaupþings.



Í ljósi þess að Íbúðalánasjóður og Kaupþing eru keppinautar, sendandinn er sviðsstjóri almannatengsla hjá Íbúðalánsjóði og þetta var m.a. sent á fjölmiðla þá er ekki óeðlilegt að maður staldri aðeins við og velti fyrir sér hvort að þetta sé hluti af markaðsbaráttu Íbúðalánasjóðs. Svo er víst ekki, útsendingin mun hafa verið mistök.

Þetta eru stórfyndnar auglýsingar með beittri ádeilu og það hefði verið gott og blessað að hann hefði sent þær, nema að hann sendi þær frá vinnupóstfanginu sínu og bendlaði þar með vinnuveitandann sinn við þær.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fólk ætti aldrei að nota vinnupóstfangið sitt til persónulegra nota (og þetta er ekki eina dæmið um hvers vegna það er ekki gáfulegt) og að fyrirtæki ættu að vera mun strangari á því að banna slíka notkun. Því miður er erfitt að setja og framfylgja slíku banni vegna Persónuverndar, sem hefur nánast lögleitt persónulega notkun á vinnupóstföngum.

Það er engin ástæða til að nota vinnupóstföng í persónulegum tilgangi. T.d. eru Síminn og Vodafone með þokkaleg vefpósthús, hægt er að fá ókeypis póstföng hjá Hotmail og Yahoo! Mail og svo er ekki erfitt að komast inn á Gmail. Ég nota sjálfur Gmail og er þeirrar skoðunar að Gmail er besta póstþjónustan og vefpósthús sem til er. Auk þess er POP stuðningur þannig að maður getur blandað saman að nota vefpósthúsið og sitt eigið póstforrit. Það er heldur ekki verra að Gmail er á íslensku, rétt eins og Google Ísland.

Þannig að hér er tilboð, kæru lesendur: Ég á 199 Gmail-boðsmiða. Sendið mér tölvupóst á esth hjá erlendur punktur com og ég sendi ykkur boðsmiða um hæl. Þið skráið ykkur á Gmail og notið í stað vinnupóstfangsins ykkar fyrir persónulegan póst. Þið sendið svo boðsmiða á þá sem þið þekkið og vilja líka fá aðgang. Þetta er klassískt pýramídaskema, við Íslendingar erum mjög færir í slíku, það verða allir komnir með póstfang fyrr en varir.

Útrýmum allri persónulegri notkun á vinnupóstföngum, notum frekar Gmail.

Engin ummæli: