7. jan. 2007

CD-R not accessible - Incorrect function

Nýlega hætti geislabrennarinn minn að virka. Þegar ég setti tóma diska í hann og opnaði drifið í Explorer (ég nota innbyggða brennsluforritið í Windows XP) þá fékk ég villuna: "E:\ not accessible - Incorrect function", sem eru algerlega óskiljanleg skilaboð. Ég gat engu að síður lesið diska í honum, vandamálið var einungis að ég gat ekki brennt nýja diska.

Fyrst hélt ég að diskarnir væru ónýtir og þar sem ég fann fingraför og minniháttar rispur á nokkrum diskum þá henti ég þeim. Brátt varð samt ljóst að það væri ekki vandamálið. Eftir töluverða leit á netinu fann ég nokkrar síður þar sem bent var á að hægrismella á drifið, velja "Properties" í valmyndinn, smella á "Recording" flipann og haka við "Enable CD recording on this drive". Brennarinn fór strax í lag við það.

Þessi brennari var búinn að virka í mörg ár og því ljóst að þessi stilling var búin að vera rétt í jafnmörg ár. Helst dettur mér í hug að þar sem ég brenndi nýlega afrit af ljósmyndunum mínum beint út úr Adobe Photoshop Elements Organizer að það hafi breytt þessari stillingu án þess að segja frá því. Hugsanlega eiga önnur forrit það einnig til að breyta þessari stillingu.

Engin ummæli: