28. sep. 2006

Uppfærsla á ZoneAlarm (6.5.737.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 6.5.737.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

27. sep. 2006

Íslensk lén

Í Fréttablaðinu í dag (27.09., bls. 16, efst hægra megin) er frétt um íslensk lén. Fréttin byrjar á þessari setningu: "Íslenskir bókstafir eru ekki leyfilegir í lénum á internetinu."

Þessi fullyrðing Fréttablaðsins er kolröng. Íslenskir stafir eru víst leyfilegir í lénum á netinu. Það er ekki enn útbreiddur stuðningur við aðra bókstafi en þá sem finna má í bandarískri ensku en íslenskir stafir eru engu að síður leyfilegir. Þar að auki eru þeir studdir og eru í notkun á .is en Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hefur tekið við lénaskráningum með íslenskum bókstöfum (svokölluðum IDN skráningum) síðan 01.07.2004 eða í tæp tvö ár og þrjá mánuði.

Það kostulegasta við frétt Fréttablaðsins er að þess eigið lén er skráð með bæði enskum og íslenskum bókstöfum hjá ISNIC, þ.e.a.s. lénin frettabladid.is og fréttablaðið.is eru bæði skráð og það er meira en ár síðan að fréttablaðið.is var skráð af 365-miðlum hf. Hvernig má það vera að skv. Fréttablaðinu eru íslenskir bókstafir ekki leyfilegir í lénum á netinu en Fréttablaðið hefur samt sem áður tekist að skrá fréttablaðið.is með íslenskum stöfum?

Hið íslenska lén Fréttablaðsins virkar ekki sérstaklega vel þrátt fyrir að rúmt ár sé liðið frá skráningu þess. Ef www.frettabladid.is er opnað þá birtist www.visir.is en ef www.fréttablaðið.is er opnað þá birtist einungis vefsíða sem segir: "Þetta vefsvæði er vistað hjá Og Vodafone".

Aðrir gera betur og t.d. er bæði hægt að fara á www.althingi.is og www.alþingi.is og er nú töluvert meiri reisn yfir seinni vefslóðinni. Hún virkar reyndar ekki í Internet Explorer 5.0, 5.5 eða 6.0 (enginn IDN stuðningur þar) nema með sérstakri vefsjárviðbót eins og i-Nav viðbótinni frá Verisign en almennilegar vefsjár eins og Firefox eiga ekki í neinum vandræðum með hana. (Internet Explorer 7 mun styðja IDN lén.)

Fyrirsögn fréttar Fréttablaðsins er "Misskilningur: Íslensk lén" og það eru orð að sönnu því Fréttablaðið hefur algerlega misskilið íslensk lén.

24. sep. 2006

Keeping Mum, The Sum of All Fears og Hostile Waters

Gamanmyndin Keeping Mum er svartur breskur húmor og segir frá fjölskyldu sem fær til sín húshjálp sem leysir vandamál fjölskyldunnar með því að myrða vandamálin.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Sum of All Fears er blanda af sovétógninni, öfgamönnum, kaldastríðinu, hryðjuverkum, kjarnorkuvá og hetjusögu, öllu vafið í snyrtilegan pakka.

Fær 7/10 í einkunn.

Leikna heimildamyndin Hostile Waters segir frá árekstri bandarísks og sovésks kjarnorkukafbáts undan austurströnd Bandaríkjanna í október 1986, nokkrum dögum fyrir leiðtogafund Reagans og Gorbachevs á Íslandi. Sovéski kafbáturinn skemmist alvarlega, það kviknar eldur í eldflaugageymslunni, kjarnakljúfarnir ofhitna og ástandið er mjög alvarlegt um tíma. Að lokum tekst að forða stórslysi, flestir komast lifandi frá borði og kafbáturinn sekkur.

Það er erfitt að staðsetja "leiknar heimildamyndir" því þær eru hvorki "hreinar heimildamyndir" né "skáldmyndir byggðar á sönnum atburðum". Þetta er þokkaleg kafbátamynd í stíl við K-19: The Widowmaker (sem fékk 7/10 í einkunn) en ekki alveg eins góð.

Fær 6/10 í einkunn.

23. sep. 2006

Hostel og The Hunt for Eagle One

Kvikmyndin Hostel er mjög blóðug og ógeðsleg. Þrír félagar fara í nautnaferðalag til Slóvakíu en lenda í klónum á rússnesku glæpagengi sem notar þá sem fórnarlömb til pyntinga. Gengið selur fólki "sem hefur prófað allt" tækifæri til að pynta og drepa einhvern. Einn þeirra félaganna sleppur og hefnir sín. Það væri e.t.v. hægt að segja að þessi mynd sé tilganglaust ofbeldi frá upphafi til enda en það myndi gefa í skyn að til sé ofbeldi sem hafi tilgang.

Fær 7/10 í einkunn.

Kvikmyndin The Hunt for Eagle One er einstaklega léleg. Hún byrjar með óskiljanlegu og samhengislausu bardagaatriði og heldur síðan áfram á þeim sömu nótunum. Í myndinni leikur m.a. Theresa Randle en hún er verri leikkona en Jennifer Love Hewitt, sem átti þó ekki að vera mögulegt. Forðist þessa mynd sem og framhaldið, The Hunt for Eagle One: Crash Point. Hvorutveggja mjög slæmar myndir.

Fær 1/10 í einkunn.

18. sep. 2006

Einokun á .is

Í Fréttablaðinu í dag (18.09., bls. 15, miðju) er stórfrétt um að það sé "einokun á lénsskráningunni .is" því einungis fyrirtækið Internet á Íslandi hf. sér um þá skráningu. Það er ýmislegt skrýtið í þessari frétt því hún er ekki að segja frá neinu nýju eða einhverju leyndarmáli sem enginn vissi. Þetta er búið að vera svona lengi og ætti að vera öllum kunnugt. Að einkafyrirtæki sjái um skráningu á lénum er heldur ekkert nýtt eða óvenjulegt. T.d. sér Verisign Inc. um skráningu og rekstur á .com og .net, sem eru tvö af stærstu rótarlénum heimsins.

17. sep. 2006

The Mask of Zorro

Kvikmyndin The Mask of Zorro fjallar um það þegar hinn upprunalegi Zorró, leikinn af hinum margreynda Anthony Hopkins, sleppur úr fangelsi og snýr aftur til að hefna dauða konu sinnar. Hann fær sér lærling, leikinn af hinum glæsilega Antonio Banderas, og kennir honum að skylmast og að vera herramaður og nýr Zorró. Inn í söguna kemur einnig dóttir Zorró, leikin af hinni íðilfögru og þrýstnu Catherine Zeta-Jones, en hún og Zorró dragast hvort að öðru. Fín hasar-, drama- og gamanmynd.

Fær 7/10 í einkunn.

16. sep. 2006

Garfield og Garfield 2

Kvikmyndin Garfield er gerð eftir samnefndum myndasögum. Handritið er einstaklega hugmyndasnautt og staglast á klisjum úr sögunum. Kötturinn er vel teiknaður en leikararnir eru lélegir, sérstaklega er Jennifer Love Hewitt alveg vonlaus leikkona.

Fær 1/10 í einkunn.

Framhaldið, Garfield 2, er síst skárra en fyrri myndin. Jennifer Love Hewitt er verri í þessari mynd en þeirri fyrri, og var þó ekki úr háum söðli að detta, en í staðinn eru komnir tveir vel teiknaðir kettir. Húmorinn er fyrir aldurshópinn 3-6 ára.

Fær 1/10 í einkunn.

15. sep. 2006

Uppfærsla á Firefox (1.5.0.7)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 1.5.0.7. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Extensions : Find Updates : Update/Install Now" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

13. sep. 2006

Uppfærsla á QuickTime (7.1.3)

QuickTime hefur verið uppfært í útgáfu 7.1.3. Samhliða nýju útgáfunni hefur Apple gefið út viðvörun þar sem þessi nýja útgáfa lagar nokkra öryggisgalla.

Nýjustu útgáfuna má sækja beint frá Apple (veljið QuickTime án iTunes nema ætlunin sé að uppfæra iTunes líka) en einnig má uppfæra nýlegar útgáfur með því að smella á "Help : Update Existing Software..." og fylgja leiðbeiningunum.

Viðvörun vegna galla í Adobe Flash Player

Microsoft og Adobe hafa gefið út viðvaranir (925143 og APSB06-11) vegna Adobe Flash Player. Alvarlegir gallar eru í útgáfu 8.0.24.0 og öllum eldri útgáfum sem tölvuþrjótar gætu misnotað.

Microsoft mun gefa út uppfærslur fyrir þær eldri útgáfur sem dreift var með Windows en þær uppfærslur koma ekki að gagni ef fólk hefur sótt sér nýrri útgáfur beint frá Adobe. Microsoft mun ekki uppfæra nýrri útgáfur.

Adobe mælir með því að uppfæra upp í útgáfu 9.0.16.0 sem gefin var út 27.06. sl.

12. sep. 2006

Uppfærslur frá Microsoft (september 2006)

Uppfært 01.10.: Þetta hefur verið slæmur mánuður fyrir Microsoft og það er ekkert lát á vandræðunum:

Microsoft hefur uppfært viðvörun SA 925444 (sjá einnig neðar) sem snertir galla í tiltekinni ActiveX stýringu sem fylgir með Windows. Búið var að gefa út sýnikóða en nú er hann greinilega kominn í notkun og reynt er að misnota gallann.

Öllu verra er að Microsoft hefur einnig gefið út viðvörun (SA 925984) vegna galla í PowerPoint sem þegar er verið að misnota. Farið varlega og opnið ekki viðhengi sem þið fáið með tölvupósti nema þið vitið hvað þau innihalda.

Og að lokum þá hefur Microsoft gefið út viðvörun (SA 926043) vegna galla í Windows Shell. Gallinn er í tiltekinni ActiveX stýringu. Lagfæring verður væntanlega gefin út eftir tíu daga, hinn 10.10. (annan þriðjudag í október).

Uppfært 26.09.: Microsoft hefur gefið út uppfærslu (MS06-055) utan hefðbundins útgáfutíma en næsta almenna útgáfa verður annan þriðjudag í október hinn 10.10. nk. Þessi uppfærsla lagar galla í Vector Markup Language (VML) sem Microsoft hafði áður gefið út viðvörun um (SA 925568, sjá einnig neðar) sem þegar er verið að misnota.

Einnig hefur Microsoft gefið út aftur uppfærslu frá því fyrr í mánuðinum (MS06-049) með minniháttar lagfæringum en fyrri lagfæringin átti það til að eyðileggja þjappaðar skrár (KB 925308) á Windows 2000.

Uppfært 22.09.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 925568) vegna galla í Vector Markup Language (VML). Þegar er verið að misnota þennan galla á vefsvæðum. Gallinn er ekki eingöngu bundinn við Internet Explorer heldur öll forrit sem nota útfærslu Microsoft á VML.

Uppfært 15.09.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 925444) vegna galla í Internet Explorer; nánar tiltekið er galli í tiltekinni ActiveX stýringu, sem fylgir með Windows, sem má misnota. Þegar er búið að gefa út kóða til að misnota þennan galla. Lagfæring verður væntanlega ekki gefin út fyrr en eftir tæpan mánuð hinn 10.10. (annan þriðjudag í október).

Microsoft bendir á nokkrar leiðir í viðvöruninni til að lágmarka áhættuna þangað til en allar eru þær meira eða minna á þann veg að slökkva á ActiveX. En þá er alveg eins hægt að nota ekki Internet Explorer heldur einhverja aðra vefsjá, sem styður ekki hið stórhættulega ActiveX, eins og Firefox eða Opera.

Það er orðið regla fremur en undantekning að strax í kjölfar uppfærslna frá Microsoft koma svona gallar í ljós . Microsoft gefur út uppfærslurnar sínar á öðrum þriðjudegi í hverju mánuði, sem er þekktur sem "Patch Tuesday". Miðvikudagurinn þar á eftir er nú orðinn þekktur sem "Zero-Day Wednesday" en þá gefa tölvuþrjótar út upplýsingar um galla sem þeir hafa fundið og hafa þeir þá a.m.k. mánuð til að misnota þá.

"Zero-Day" er hugtakið sem notað er til að vísa til þess að ekki eru til uppfærslur til að laga opinbera galla en strangt til tekið ætti að kalla þetta "Approximately-Minus-Thirty-Day Wednesday" þar sem líklega er enn tæpur mánuður þar til lagfæring verður gefin út. Dagafjöldann á að reikna út frá þeim tíma þegar lagfæring er gefin út þar til reynt er að misnota viðkomandi galla (sem stundum er samdægurs, þess vegna "Zero-Day", í þeirri von að geta brotist inn á tölvur sem ekki hafa verið uppfærðar nógu fljótt). Ef galli er misnotaður áður en lagfæring er gefin út, eins og nú er farið að gerast ítrekað hjá Microsoft, á dagafjöldinn að vera neikvæður.

Upprunalegt 12.09.: Microsoft gaf út 3 öryggisuppfærslur í dag (12.09.) fyrir Windows og Office (2006 nr. 52-54). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Einnig gaf Microsoft út aftur 2 uppfærslur frá fyrra mánuði með minniháttar lagfæringum (MS06-040 og MS06-042), gaf út uppfærslu á Microsoft Filter Manager (viðvörun SA 922582), sem er tækni sem vírusvarnaforrit munu nota í framtíðinni, og sagði frá galla í Word 2000 sem verður lagaður seinna (viðvörun SA 925059).

IP-tölur og listin að fela sig

Í Fréttablaðinu í dag (12.09., bls. 32, miðju) er fjallað um spjallborðsskrif og hvernig hægt er að nota IP-tölur til að rekja skrifin til höfunda sinna, jafnvel þótt þeir skrifi undir dulnefni. Í þessu tiltekna tilfelli var hægt að rekja IP-töluna til fyrirtækis þar sem sex manns starfa og einungis einn þeirra kom til greina, meðal annars vegna tengsla sinna við spjallborðið.

Það er óskiljanlegt að fólk heldur alltaf að það sé sjálfkrafa nafnlaust á netinu. Verður líklega engu öðru um kennt en vankunnáttu og fáfræði. Það þarf að hafa fyrir því að vera nafnlaus á netinu en það er alls ekki erfitt.

Fyrir utan augljósa hluti eins og að nota dulnefni og annað póstfang (t.d. hjá Hotmail eða Yahoo!) þá þarf fólk að fela IP-töluna sína og helst einnig upplýsingar um vefsjána og tölvuna sína.

Undir engum kringumstæðum ætti fólk að nota tölvu í vinnunni sinni. Það er langauðveldast að rekja þær IP-tölur. Þær eru yfirleitt skráðar á viðkomandi fyrirtæki og þar af leiðandi er fjöldi þeirra notanda sem er á bakvið þær mun minni en ef fólk notar tölvu heima hjá sér og "felur" sig í hópi allra áskrifanda viðkomandi netveitu. Auk þess er ekkert víst að fyrirtækið kæri sig um að fólk sé að nota tölvur og net fyrirtækisins til að stunda iðju sem fólk telur að það þurfi að stunda nafnlaust. Það gæti hugsanlega brotið í bága við netreglur viðkomandi fyrirtækis.

Það er mun betra að nota sína eigin tölvu heima hjá sér eða fara með sína eigin fartölvu út á kaffihús eða annan stað þar sem hægt er að fá aðgang að þráðlausu neti án þess að skrá sig, sem er enn betri aðferð. Þetta er ekki fullkomin aðferð en dugar í flestum tilfellum.

Ef þörf er á betri nafnleynd er hægt að kaupa sér svokallaða "anonymous proxy" þjónustu, t.d. Anonymizer Anonymous Surfing. Þær virka þannig að proxy-netþjónninn tekur það að sér að vera milliliður á milli þess sem vill fela sig og umheimsins. Allar aðgerðir og beiðnir er einungis hægt að rekja aftur til proxy-netþjónsins og ekkert lengra. Auk þess er oft boðið upp á að öll samskipti séu dulrituð, þ.e. að notaður sé HTTPS staðallinn eins og netbankar gera en ekki HTTP eins og flestir netþjónar nota. Svona hugbúnaður er notaður af kínverskum andófsmönnum til að forðast kínversk stjórnvöld en er líka hægt að nota til að fela sig af minna tilefni.

Það er lítt þekkt staðreynd, en vefsjáin sendir ýmsar upplýsingar um tölvuna í hvert skipti sem vefsíða er opnuð í svokölluðum User-Agent streng (sjá dæmi). Þó það sé e.t.v. langsótt að þar séu upplýsingar sem nota megi til að rekja skrif til höfundar þá ætti fólk allavega að hafa það í huga. Einnig skilja flestar vefsjár sögu og innihald vefsíðna eftir á viðkomandi tölvu. Til eru vefsjár eins og Browzar sem segjast skilja ekkert eftir og eru því öruggari í þessu tilliti (ef þær standa undir nafni; en athuga verður að engin vefsjá getur ekki falið IP-töluna, til þess þarf nafnlausan proxy).

Eitt skrýtið atriði var að finna í fréttinni, en það voru upplýsingar um að tveir notendur þessa spjallborðs væru með sama lykilorðið. Sá sem hannaði og/eða skrifaði hugbúnaðinn fyrir þennan spjallborðsvef veit greinilega ekkert hvernig á að útfæra geymslu og notkun lykilorða og ætti að skammast sín. Þau á að geyma dulrituð, með einátta hakkafalli, og nota á mismunandi salt fyrir hvert einasta lykilorð þannig að ekki sé hægt að sjá að tveir notendur séu með sama lykilorðið.

11. sep. 2006

Fréttir og íþróttir

Í Fréttablaðinu í dag (11.09., bls. 2, vinstra megin, bls. 30, miðju) er fjallað um þann fáheyrða atburð þegar kvöldfréttir ríkisútvarpsins hófust á réttum tíma í sjónvarpinu á laugardaginn sl. Ég sendi útvarpsstjóra bréf af þessu tilefni og afrit til frétta- og íþróttadeilda ríkisútvarpsins sem og afrit til Fréttablaðsins:

Herra útvarpsstjóri, Páll Magnússon:

Í Fréttablaðinu í morgun er rætt við yður um það "atvik" þegar kvöldfréttir voru í sjónvarpinu á réttum tíma á laugardaginn sl. Efni fréttar Fréttablaðsins er að einhverjir sjónvarpsáhorfendur hafi brugðist illa við þegar fótboltaleikur nokkur fór langt fram úr áætlun og skipt var yfir á kvöldfréttir á réttum tíma.

Þó svo að skiptiborði ríkisútvarpsins hafi borist hundruð símtala og yður talsvert af tölvupósti þar sem þessu var mótmælt vil ég benda á alla þá (eins og undirritaðan) sem enga ástæðu höfðu til að hringja eða senda tölvupóst því fréttirnar voru á réttum tíma, eins og þær áttu að vera. Miðað við áhorfskannanir, þar sem fréttir hafa ítrekað reynst það efni sem flestir horfa á, vil ég halda því fram að við séum hinn þögli meirihluti í þessu máli. Ég vil ennfremur taka undir orð Elísabetar Gunnarsdóttir, þjálfara Vals, í Fréttablaðinu í dag um að þeir sem höfðu áhuga á þessum leik hefðu einfaldlega getað mætt á völlinn. Af myndum frá vellinum mátti sjá að það var gríðarlega mikið laust pláss í stúkum vallarins fyrir alla þá sem hefðu haft áhuga á að horfa á leikinn.

Ég vil hrósa starfsfólki ríkisútvarpsins, og sérstaklega þeim starfsmanni sem tók þá ákvörðun að sýna fréttir á réttum tíma, fyrir þá staðfestu að halda sig við auglýsta dagskrá. Þér, herra minn, gætuð lært af starfsfólki yðar í stað þess að lúta opinberlega í gras og biðjast afsökunar fyrir engar sakir.

Ég krefst þess að þér takið til baka afsökunarbeiðni yðar og ítrekið þá meginstefnu ríkisútvarpsins að auglýst dagskrá standi. Til að víkja frá henni, hvort sem er að rjúfa dagskrá eða fresta dagskrárliðum, ætti að þurfa atburði sem snerta áhorfendur beint og þola enga bið, eins og jarðskjálfta, eldgos, stórbruna í eða nálægt íbúðarhverfi svo nokkur dæmi séu tekin. Íþróttir geta ekki flokkast undir slíka atburði því þær þola vel bið.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson
Það er alveg óþolandi þegar útsendingar frá íþróttaviðburðum verða til þess að dagskrá er raskað, sérstaklega þegar slík röskun hefur ekki verið auglýst með tilhlýðilegum fyrirvara.

Í þessu tilfelli var það víst einhver slatti af fólki sem kvartaði yfir því að klippt væri á útsendinguna en stúkurnar á vellinum voru nærri tómar, sem benti nú ekki til mikils áhuga á leiknum.

Firewall og Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life

Spennumyndin Firewall fjallar um það að fjölskylda yfirmanns net- og tölvuöryggismála hjá banka einum er tekin í gíslingu. Hann er síðan neyddur til að aðstoða ræningjana við að brjótast inn í tölvukerfi bankans og millifæra peninga. Þetta er ekki alslæm mynd en það gerist ekkert í henni fyrstu klukkustundina. Þá fyrst hefst hasarinn sem endar hins vegar einhversstaðar úti í óbyggðum án þess að söguþráðurinn þar að baki sé skiljanlegur.

Fær 5/10 í einkunn.

Tölvuleikjamyndin Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life er slöpp spennumynd. Hún er önnur myndin sem byggð er á samnefndum tölvuleikjum, sú fyrsta var Lara Croft: Tomb Raider. Spilið frekar leikina en að horfa á myndina.

Fær 1/10 í einkunn.

10. sep. 2006

Forrit, 2. hluti: Vefsjár

Það eru til fleiri vefsjár heldur en Internet Explorer og allar eru þær betri og öruggari. Fyrir sumar er til stórt safn viðbóta (t.d. Firefox), aðrar koma með öllu sem þarf til netnotkunar (t.d. Opera) eða þær leggja áherslu á öryggi (t.d. Netscape). Allar bjóða upp á flipa þannig að hægt er að vera með margar vefsíður opnar í sama glugganum (nema auðvitað Internet Explorer) og engin styður hið hættulega ActiveX (nema auðvitað Internet Explorer):

Windows:

Internet Explorer Stórhættuleg.
FirefoxÖflug og skemmtileg.
OperaFullt af möguleikum.
NetscapeÖryggi í fyrirrúmi.
Mac OS X:
SafariSjálfgefna vefsjáin í Mac OS X.
Firefox Öflug og skemmtileg.
OperaFullt af möguleikum.
Linux:
FirefoxÖflug og skemmtileg.
Opera Fullt af möguleikum.
Konqueror Sjálfgefna vefsjáin í KDE.
EpiphanySjálfgefna vefsjáin í GNOME.

9. sep. 2006

Inside Man og Harry Potter and the Philosopher's Stone

Kvikmyndin Inside Man er svikahrappamynd um teymi ræningja sem fremja undarlegt bankarán. Í stað þess að drífa sig að ræna peningum og koma sér út, þá taka þeir fjölmarga viðskiptavini í gíslingu og fara síðan að tefja tímann og halda lögreglunni upptekinni. Að lokum sleppa þeir öllum gíslunum og lögreglan ryðst inn en þá finnast engir ræningjar í bankanum og engu virðist hafa verið stolið. Allavega er eigandi bankans ekki tilbúinn til þess að viðurkenna að nokkru hafi verið stolið en aukasöguþráðurinn í kringum það atriði er mjög óljós og fremur illskiljanlegur. Að öðru leyti er þetta fín afþreying.

Fær 7/10 í einkunn.

Harry Potter and the Philosopher's Stone er hin prýðisgóða byrjun á Harry Potter sjöleiknum. Harry byrjar í Hogwarts og lendir í ýmsum ævintýrum.

Fær 8/10 í einkunn.

7. sep. 2006

Forrit, 1. hluti: Póstforrit

Flestir tölvunotendur eru ákaflega hugmyndasnauðir þegar kemur að póstforritum og velja bara eitthvað. Sérstaklega eru Windows notendur slæmir í þessu og er ekki einskorðað við póstforrit, en þeir nota upp til hópa sömu forritin Word, Outlook / Outlook Express, Internet Explorer, Media Player og MSN Messenger. Helst að þeir brjóti upp mynstrið með því að nota Google öðru hverju.

Staðreyndin er sú að það er til mjög mikið af póstforritum með mismunandi eiginleika, sem henta mismunandi fólki. Hérna er listi af nokkrum algengum og áhugaverðum póstforritum:

Windows:

Outlook Express Einfalt en stórhættulegt.
ThunderbirdÖflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
EudoraÖflugt en höndlar ekki viðhengi skemmtilega.
Opera MailHluti af Opera vefsjánni, fullt af möguleikum.
MulberryFyrir fólk sem fær gríðarlega mikið af tölvupósti.
PC-PineÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
Mac OS X:
MailSjálfgefna póstforritið í Mac OS X.
Thunderbird Öflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
EudoraÖflugt en höndlar ekki viðhengi skemmtilega.
Linux:
Thunderbird Öflugt og skemmtilegt en vantar fínpússningu.
KMailSjálfgefna póstforritið í KDE.
EvolutionSjálfgefna póstforritið í GNOME.
PineÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
MuttÖruggt en ekki með grafísku viðmóti.
Til viðbótar eru þessi póstforrit eða hópvinnuforrit algeng í fyrirtækjum (Windows):
Outlook(Exchange)Póstur og dagatal.
Lotus Notes (Lotus Domino) Dagatal og hópvinna en póstur er viðbót.
GroupWise(GroupWise)Póstur og dagatal.

3. sep. 2006

Ape Escape 3

Tölvuleikurinn Ape Escape 3 (PS2) er allt að því ávanabindandi og endist nokkuð vel þótt að hann sé tiltölulega einfaldur að allri gerð. Spilunin snýst einfaldlega um að veiða apa og þrautirnar eru ekki erfiðar, enda leikurinn miðaður við yngri aldurshópa.

Fær 7/10 í einkunn.

Around the World in 80 Days og The Bone Collector

Kvikmyndin Around the World in 80 Days er ansi þunn gamanmynd í anda Jackie Chan, sem leikur annað aðalhlutverkið. Aðdáendur hans hafa eflaust gaman af þessari mynd.

Fær 1/10 í einkunn.

Glæparannsóknamyndin The Bone Collector er ekki alvitlaus en söguþráðurinn er fremur fyrirsjáanlegur og þunnur og persónurnar klisjukenndar og ósannfærandi þótt myndin sé stjörnum prýdd. Myndi frekar horfa á CSI (Las Vegas, Miami, New York).

Fær 5/10 í einkunn.