28. feb. 2007

Netið eða netið?

Það hefur oft vakið athygli mína og furðu þegar fólk talar um Netið og Vefinn. Hvers vegna að nota stóran staf í þessum orðum?

Eina ástæðan fyrir því að nota stóran staf í þessum orðum (á íslensku og ensku allavega) væri sú að þetta séu nöfn. En þá nöfn á hverju?

Wired News tók þá ákvörðun fyrir nærri þremur árum að hætta að nota stóran staf í þessum hugtökum. Í rökstuðningi sínum benti ritstjóri Wired á að það hefði í raun aldrei verið ástæða til þess að nota stóran staf þarna. Í raun væru netið og vefurinn einungis enn ein aðferðin til að miðla upplýsingum, rétt eins og blað, sjónvarp og útvarp, en ekki heiti á tilteknum hlutum eða miðlum.

Tökum dæmi: Berum setningarnar

Ég sá síðu á Netinu um daginn, á Vísir.is.
Ég heyrði þátt í Útvarpinu um daginn, á Bylgjunni.
saman við
Ég sá síðu á netinu um daginn, á Vísir.is.
Ég heyrði þátt í útvarpinu um daginn, á Bylgjunni.
Í báðum tilfellum er fyrst verið að tala um aðferðina (net, útvarp) og svo um hinn tiltekna miðil (Vísir.is, Bylgjan).

Seinni útgáfan er mun eðlilegri og þess vegna skrifa ég netið, vefurinn, blaðið, útvarpið og sjónvarpið, allt með litlum stöfum, þegar ég er að vísa til miðlunaraðferðarinnar sjálfrar.

12 ára gömul sannindi um handfrjálsan búnað

Fjallað var um handfrjálsan farsímabúnað í frétt á Stöð 2 í kvöld. Þar sagði fréttamaður m.a. að það kæmi kannski á óvart að það væri nákvæmlega jafnhættulegt að tala í síma við akstur hvort sem notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki.

Þetta ætti alls ekki að koma á óvart og eru alls ekki ný sannindi. Ég skrifaði meira að segja pistil um þetta, Það er allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú drekkur bara bjór, fyrir tæpu ári síðan og er nú varla sérfræðingur á þessu sviði.

Þetta eru raunar a.m.k. 12 ára gömul sannindi. Staðreyndin er meira að segja sú að þetta eru svo gömul og þekkt sannindi að þau koma fram í skýrslu starfshóps um notkun farsíma við akstur, sem gefin var út af dómsmálaráðuneytinu árið 1998. Þar er vísað í rannsóknir frá árunum 1995-1998 um að notkun farsíma í akstri sé hættuleg, það sé fjórum sinnum líklegra að lenda í slysi ef talað er í farsíma við akstur og að það skipti engu máli hvort að handfrjáls búnaður sé notaður eða ekki:

Briem og Hedman sýndu fram á að aðgerðir sem tengjast sjálfu símtólinu skerða athygli ökumanna mest og skiptir engu hvort um sé að ræða farsíma með handfrjálsum búnaði eða ekki (1995).

Ef litið var til þess hvort notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki þá var ekki verulegur munur á áhættunni (Redelmeier og Tibshirani, 1997).

Í Svíþjóð gerði Johansen nýlega könnun (1998) á farsímanotkun og komst að því að það er ekki meðhöndlun símtækisins við akstur sem er hættulegust heldur sjálft símtalið.
Lögin um handfrjálsan búnað voru ekki sett fyrr en 2001 en þá voru þessar staðreyndir enn betur þekktar.

Lögin voru byggð á ráðgjöf þessa starfshóps en í skýrslunni segir að "með hliðsjón af afstöðu ökumanna sjálfra leggur starfshópurinn til að ákvæði verði sett í umferðarlög sem leggi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar". Athyglisvert er að þótt að þessar rannsóknir væru þekktar á þessum tíma (m.a. vissi dómsmálaráðuneytið greinilega af þeim) þá var afstaða ökumanna sjálfra látin ráða.

27. feb. 2007

Umsókn um embætti netlögreglustjóra

Kópavogi, 27.02.2007

Undirritaður sækir hér með um embætti netlögreglustjóra, sem auglýst var af Steingrími J. Sigfússyni í sjónvarpi sl. helgi.

Undirritaður er með doktorspróf í tölvunarfræði frá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum, hefur starfað hjá þekktu tölvuöryggisfyrirtæki um árabil og hefur sérþekkingu á tölvu-, net- og öryggismálum. Má í þessi sambandi m.a. vísa til pistla sem undirritaður hefur skrifað um tölvu- og netöryggismál, eins og IP-tölur og listin að fela sig og Vírusar og heimabankar.

Auk þess þekkir undirritaður vel til hins kínverska eldveggs sem kínversk stjórnvöld nota til ritskoðunar og almennt til að tryggja öryggi kínverskra borgara.

Slík undirstöðuþekking á netsíum og hvernig hægt er að fara framhjá netsíum, sem undirritaður hefur, er nauðsynleg þeim sem skipaður er í þetta embætti til að geta beitt ritskoðun almennilega.

Auk þess er undirritaður vel lesinn í klassískum fræðum, eins og bókunum 1984 og Brave New World, og telur sig þar með ágætlega geta framfylgt stefnu réttlátra stjórnvalda sem styðjast við ráðgjöf hófsamra hagsmunasamtaka, eins og Femínistafélags Íslands.

Undiritaður er tilbúinn að gera hvað sem til þarf og réttlæta það opinberlega, svo lengi sem næg laun eru í boði.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson

25. feb. 2007

Uppfærsla á Firefox (2.0.0.2)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.0.0.2. Í þessari útgáfu eru m.a. 9 öryggisuppfærslur (2007 nr. 1-9) auk lagfæringa við stuðning við Windows Vista. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Add-ons : Find Updates : Install Updates" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

22. feb. 2007

Dulrituð lykilorð

Uppfært 27.02.: Morgunblaðið birti víst ekki einungis lykilorðin heldur allar upplýsingar um eiganda viðkomandi síðu, þ.m.t. póstföngin. Fólk notar oft sama lykilorðið á mörgum stöðum, þó svo að það eigi ekki að gera það, og í þeim tilfellum þurfa viðkomandi að breyta lykilorðinu sínu á öllum þeim sömu stöðum, og byrja þá á póstinum sínum.

Upprunalegt 22.02.: Í Fréttablaðinu í dag (22.02., bls. 13, efst vinstra megin) er sagt frá því að Morgunblaðið hafi birt öll lykilorð bloggara hjá blog.is, fyrir tæknileg mistök.

Fréttamaðurinn spurði hvers vegna lykilorðin hefðu verið geymd ódulrituð í gagnagrunni, sem er ákaflega eðlileg spurning. Svar Morgunblaðsins er mjög sérstakt, "að ekki hafi verið metin þörf á því, upplýsingarnar séu ekki svo leynilegar".

Af þessu mætti draga þá ályktun að það sé erfitt og flókið mál að dulrita lykilorð til geymslu í gagnagrunni og því þurfi að vega og meta ávinninginn á móti vinnunni sem fer í forritun á slíku kerfi. Svo er þó alls ekki, það er mjög auðvelt að vinna með dulrituð gögn í helstu forritunarmálum sem notuð eru til forritunar vefkerfa, eins og Perl, PHP eða Python, og svo eru til heilu hjálparkerfin til dulritunar, eins og OpenSSL, sem er opinn og frjáls hugbúnaður.

Ég hef áður skrifað um þessi mál, neðanmáls í pistlinum IP-tölur og listin að fela sig (neðsta málsgreinin). Þar sagði ég að lykilorð eigi að geyma dulrituð, með einátta hakkafalli, og nota á mismunandi salt fyrir hvert einasta lykilorð. Þetta er auðvitað ekki eina aðferðin til að geyma lykilorð með öruggum hætti, en þetta er einföld aðferð þar sem ekki er krafist mjög mikils öryggis.

Þegar notandinn slær inn nýtt lykilorð þá er búið til nýtt salt, því skeytt saman við nýja lykilorðið og allt saman dulritað með einátta hakkafalli. Síðan er notandanafnið, saltið og dulritaða útkoman geymd í gagnagrunni.

Þegar notandinn skráir sig inn þá slær hann inn notandanafnið sitt og lykilorð. Notandanafnið er notað til að fletta upp saltinu hans, því er svo skeytt saman við lykilorðið sem hann sló inn og dulritað eins og áður. Útkoman er svo borin saman við dulrituðu útkomuna í gagnagrunninum. Ef þær eru eins þá hefur auðkenningin tekist og notandinn er skráður inn.

Með þessum hætti er ómögulegt að birta óvart lykilorðið því það er engin leið til að nálgast það í gagnagrunninum.

Það hefur auðvitað í för með sér að ekki er hægt að senda notandanum lykilorðið hans ef hann gleymir því, heldur verður að endurstilla það og senda honum nýtt lykilorð. En það er ekki flókið mál að forrita þá viðbót.

20. feb. 2007

Frjáls för

Uppfært 27.02.: Smátt og smátt er hinn þögli meirihluti í þessu máli að koma fram. Skv. könnun Fréttablaðsins (bls. 4, fyrir miðju) eru 61,3% landsmanna þeirrar skoðunar að ákvörðun Hótel Sögu að vísa hópnum frá hafi verið röng.

Áberandi er að 71,1% kjósenda Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að þessi ákvörðun hafi verið röng, sérstaklega þegar viðbrögð borgarstjóra Reykjavíkur eru höfð til hliðsjónar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fór mikinn í þessari umræðu, var með hótanir í garð þessa fólks, krafðist lögreglurannsóknar á þeim og setti fordæmalausan þrýsting á fyrirtæki í borginni að eiga ekki viðskipti við þennan hóp. Sýnt er að borgarstjórinn er ekki í takti við borgarbúa, hvað þá kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Mín skoðun er sú að hann hafi brugðist helstu meginreglum lýðræðis og réttarríkis með viðbrögðum sínum.

Einnig er fjallað um þetta mál í leiðara Fréttablaðsins (bls. 16, vinstra megin) er þar skrifar Jón Kaldal um hinn móralska minnihluta. Mjög háværan hóp fólks, en minnihluta Íslendinga. Ég tek undir það með leiðarahöfundi að sem betur fer eru Íslendingar upp til hópa frjálslyndir og umburðarlyndir. Ofstækismenn eru fátíðir þó að hávaðinn geti um stundarsakir blekkt manni sýn.

Valgerður Bjarnadóttir skrifar einnig athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag (bls. 16, fyrir miðju) um þetta mál. Ég er reyndar ósammála Valgerði um margt sem fram kemur í grein hennar en við erum sammála um að málefnið megi ekki kippa úr sambandi lögum og rétti sem hér gilda og að Bændasamtök Íslands eigi ekki að taka ferða- og fundafrelsi af fólki sem ætlar ekki að fremja hér lögbrot. Ég vil einnig taka undir með Valgerði að með þessari niðurstöðu var tekinn af henni rétturinn til þess að standa fyrir utan Hótel Sögu og mótmæla. Það hefði verið hin eðlilega lýðræðislega niðurstaða í réttarfarsríki að hópurinn hefði komið hingað og fengið þá (löglegu) þjónustu sem hann borgaði fyrir og þeir sem væri ósáttir hefðu fengið að mótmæla fyrir utan Hótel Sögu.

Vonandi lærum við Íslendingar eitthvað af þessum farsa, sérstaklega meirihlutinn að láta heyra í sér fyrr og hærra.

Uppfært 22.02.: Bændasamtök Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hafa látið undan sefasýkinni sem hefur heltekið landsmenn undanfarna daga og synjað neðangreindum ferðamönnum um gistingu. Í fréttatilkynningu segir að með "þessu vilja Bændasamtökin lýsa vanþóknun sinni á starfsemi þeirri sem ofangreindur hópur tengist". Fréttastofa RÚV beindi athyglinni að hræsninni í þessari ákvörðun með því að benda á að hægt er að kaupa aðgang að léttbláum myndum á sjónvarpskerfi Hótel Sögu, eða eins og fréttamaður orðaði það, hvers vegna mætti "kaupa klám og horfa á klám [á Hótel Sögu] en ekki tala um klám"? Kannski eru jafnvel þessir sömu leikarar í þeim myndum, sem fá nú ekki að gista á Hótel Sögu og horfa á sínar eigin myndir?

Upprunalegt 20.02.: Heitar umræður eru þessa dagana um hvataferð nokkurra útlendinga hingað til lands. Þetta munu vera leikarar og framleiðendur á erótískum myndum og þykir ýmsum það vera mjög óæskilegt að þetta fólk komi hingað.

Margt ansi ógáfulegt hefur verið sagt í þessari umræðu. Meðal annars hefur koma þeirra verið borin saman við komu meðlima Falun Gong til Ísland og spurt hvers vegna íslensk stjórnvöld stöðva ekki þessa ferðamenn á sama hátt og meðlimi Falun Gong á sínum tíma.

Falun Gong samtökin eru ólögleg í Kína og meðlimir þeirra eru glæpamenn að áliti kínverskra stjórnvalda. Við getum verið ósammála kínverskum stjórnvöldum en það breytir ekki þeirri staðreynd að við verðum að virða ákvörðunarrétt þeirra og forræði á kínverskri grundu. Meðlimir Falun Gong komu hingað gagngert til mótmæla í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kína. Þau áform þóttu ógn við allherjarreglu og öryggi á Íslandi og því tóku íslensk stjórnvöld þá ákvörðun að stöðva för þessa fólks.

Og það varð allt vitlaust á Íslandi...

Ofangreindir leikarar og kvikmyndaframleiðendur stunda löglega vinnu í heimalöndum sínum. Okkur getur mislíkað það sem þau hafa fyrir stafni en það breytir ekki þeirri staðreynd að það er lögleg iðja þar sem þau búa og starfa. Þessi hópur er að koma hingað til lands í löglegum tilgangi, ætla að sjá Gullfoss og Geysi, fara í bæinn og baða sig í Bláa lóninu. Það er vandséð hvað sé ólöglegt við þessar fyrirætlanir og því sjá íslensk stjórnvöld enga ástæðu til að stöðva för þessa fólks.

Og það er allt vitlaust á Íslandi...

Eftir seinasta landsþing Frjálslynda flokksins var formaðurinn gagnrýndur fyrir það að hafa talað um útlendinga og berkla í sömu andránni, undir liðnum málefni innflytjenda. Hann sagði auðvitað aldrei að allir þeir útlendingar sem kæmu hingað væri smitaðir af berklum en með því að tengja þetta saman óbeint og lauslega þá gátu áheyrendur lesið á milli línanna. Þeir skildu skilaboðin og tilganginum var náð, hugmyndinni og óttanum hafði verið sáð.

Í umræðunni um þessa hvataferð hefur ítrekað verið rætt um tengsl við barnaklám og mansal, sem eru meðal viðbjóðslegustu glæpa. Enginn er samt tilbúinn að fullyrða eða sanna að einhver af þessum ferðamönnum sé viðriðin slíkt. Engu að síður er almennum fullyrðingum um þessi tengsl blandað saman við sértækum fullyrðingum um þennan tiltekna hóp ferðamanna. Allir skilja skilaboðin og tilganginum er náð, hugmyndinni og óttanum hefur verið sáð.

Flugfélög og hótel hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að flytja þetta fólk hingað til lands og hýsa það. Þessi "stórabróðurs" hugsunarháttur er stórundarlegur. Fyrirtækjum í ferðamannaiðnaði kemur það ekkert við hvað ferðamenn gera hér á landi og þau eiga ekki að vera njósna um þá. Það er lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu í þessu landi, ekki einkafyrirtækja.

Fáir hafa orðið til andsvara í þessari umræðu, nema Frjálshyggjufélagið, Vefþjóðviljinn og einn lögmaður, enda eiga menn á hættu að vera úthrópaðir sem verndarar barnakláms og mansals. Uppfært 21.02.: Núna hefur formaður SUS einnig orðið til andsvara.

Sú einfalda regla gildir í okkar réttarríki að allir eru saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð fyrir dómi. Rannsókn og eftirlit lögreglu er háð því að rökstuddur grunur um glæp (á Íslandi) sé fyrir hendi og þarf jafnvel dómsúrskurð til. Í stað þess að grafa undan þessum gildum er þörf á að standa vörð um þau.

19. feb. 2007

RV og American Splendor

Gamanmyndin RV er dæmigerð mynd með Robin Williams. Söguþráðurinn skiptir nánast engu máli og myndin skilur lítið eftir sig en þetta er fín kvöldskemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

American Splendor er mjög sérstök mynd, eins og sumar myndir sem Paul Giamatti hefur leikið í, t.d. Sideways (sem fékk 7/10 í einkunn) Kvikmyndin fjallar um venjulegt líf og skáldskap teiknimyndasöguhöfundarins Harvey Pekar. Mjög áhugaverð mynd.

Fær 8/10 í einkunn.

18. feb. 2007

Uppfærslur frá Apple (2007-002)

Apple gaf út 5 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-002). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

16. feb. 2007

„Gæsalappir“

Í Microsoft Office er fídus sem leiðréttir gæsalappir, skiptir út "straight quotes" fyrir “smart quotes”.

Mjög sniðugt, en virkaði bara alls ekki á íslensku. Það fer eftir tungumálinu hvaða gæsalappir á að setja í staðinn en ef tungumálið á skjalinu var „íslenska“ þá voru settar “enskar” gæsalappir. Mikil notkun á Word hefur orðið til þess í gegnum tíðina að fólk er almennt farið að nota enskar gæsalappir á íslensku og heldur að það sé rétt.

En í Office 2007 er þetta loksins lagað. Ef tungumál skjalsins er íslenska þá eru núna notaðar „íslenskar gæsalappir“.

15. feb. 2007

(GMT) Casablanca, Monrovia, Reykjavik

Ný uppfærsla frá Microsoft (KB 931836) lagar vandamál sem er búið að vera lengi í Windows:

Til að stilla tölvu á Íslandi á rétt tímabelti hefur hingað til þurft að velja "(GMT) Casablanca, Monrovia" en það er Greenwich staðaltími án sumarbreytinga (GMT).

Stundum ruglaðist fólk, eða vissi ekki betur, og valdi í staðinn "(GMT) Greenwich Mean Time : Dublin, Edinburgh, Lisbon, London" en það er Greenwich tími með sumarbreytingum (GMT á veturna en BST, IST, WEST á sumrin). Það varð til þess að klukkan á tölvunni þeirra var vitlaus allt sumarið.

Með þessari uppfærslu á framvegis að velja "(GMT) Casablanca, Monrovia, Reykjavik" til að setja tölvu á Íslandi á rétt tímabelti.

Uppfærslan ætti að koma sjálfkrafa í gegnum Automatic Updates en einnig er hægt að sækja hana handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Cantat-3 verður bilaður fram í apríl

Cantat-3 sæstrengurinn er búinn að vera bilaður síðan 17.12.2006, eða í tæpa tvo mánuði.

Í skýrslu starfshóps, sem samgönguráðherra skipaði 2005 um öryggi fjarskipta, og birt var á seinasta ári, kemur fram (sjá grein 3.10) að það væri "áhyggjuefni [...] ef bilun yrði á strengnum í sjó þar sem viðgerð getur tekið allt að 14 daga".

Fyrir þremur dögum birtist frétt á vefsetri Farice að "ólíklegt [er] að reynt verði að gera við strenginn fyrr en í aprílmánuði". Ef gert verður við hann á þeim tíma þá mun bilunin hafa varað í um 4 mánuði eða ⅓ úr ári. Vanáætlunin í skýrslu starfshópsins er því a.m.k. 8-föld og undirstrikar enn frekar nauðsyn þess að hafa 4 sæstrengi en ekki bara 2.

13. feb. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (febrúar 2007)

Uppfært 17.02.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 933052) vegna galla sem hefur uppgötvast í Microsoft Word. Verið er að misnota gallann til árása. Microsoft mun auðvitað laga gallann einhverntímann en þangað til eru ráðleggingarnar: "Do not open or save Office files that you receive from un-trusted sources or that you receive unexpectedly from trusted sources". Sem sagt, ekki nota Office...

Uppfært 15.02.: Engar af þeim uppfærslum sem voru gefnar út í þessum mánuði eiga við Windows Vista, en það er m.a. vegna þess að Microsoft gaf út mjög margar uppfærslur fyrir Vista hinn 29.01, degi áður en það var gefið út.

Uppfært 14.02.: Til viðbótar öryggisuppfærslum þá hefur Microsoft gefið út uppfærslu á rótaröryggisskilríkjum, til að styðja Extended Validation SSL skilríki, og einnig útgáfu 3.0 af .NET Framework. Þessar uppfærslur má nálgast á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) með því að smella á Custom takkann, velja svo þessar uppfærslur undir Software, Optional og smella loks á Review and install updates og fylgja leiðbeiningunum. (Takið einnig allar uppfærslur undir High Priority með.)

Ef .NET Framework 3.0 er valið þá þarf að fara aftur inn á Microsoft Update, þegar uppfærslunum er lokið og búið er að endurræsa tölvuna, og sækja allar High Priority uppfærslur sem koma þá til viðbótar (athugið að tengslin við .NET Framework 3.0 verða ekki augljós). Athugið að það tekur töluverðan tíma bæði að setja inn og uppfæra .NET Framework 3.0 og það getur þurft að svara spurningum frá eldveggjum eins og ZoneAlarm.

Upprunalegt 13.02.: Microsoft gaf út 12 öryggisuppfærslur í dag (13.02.) fyrir Windows, Internet Explorer, Office, Visual Studio og Microsoft Antivirus (2007 nr. 5-16). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Uppfærsla MS07-010 á Microsoft Malware Protection Engine undirstrikar hvers vegna enginn ætti að kaupa vírusvörn frá sama fyrirtæki og býr til það stýrikerfi og þau forrit sem vírusar herja helst á.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

6. feb. 2007

Apple varar við Windows Vista

Apple hefur varað Windows notendur sem nota iTunes og iPod við því að uppfæra upp í Windows Vista. Þess munu m.a. vera dæmi að iPod-spilarar hafi skemmst við það að vera tengdir við tölvur með Windows Vista.

Apple mælir með því að Windows notendur bíði eftir nýrri útgáfu af iTunes sem á að koma innan nokkurra vikna. Almennt styður Apple ekki Windows Vista ennþá.

Bandidas

Gamanmyndin Bandidas fjallar um tvær konur sem missa allt og snúa sér þá að bankaránum. Þetta er stórskemmtileg mynd og mjög fyndin. Byrjunin er hins vegar algjörlega í molum og endirinn heldur sætur og yfirdrifinn. Engu að síður góð skemmtun.

Fær 6/10 í einkunn.

5. feb. 2007

Uppfærslur vegna Office 2007

Nú þegar Microsoft hefur gefið út Office 2007 eru nokkrar uppfærslur sem tölvunotendur ættu e.t.v. að huga að.

Þeir sem eru með Office 2007 ættu að skoða viðbót sem gerir þeim kleift að vista skjölin sín sem PDF (önnur viðbót leyfir bæði PDF og XPS), sbr. fyrri pistil um Office 2007. Þessi viðbót er mjög nytsöm því það er mun betra að senda skjöl sem PDF heldur en á upprunalega Office-sniðinu:

  • PDF-skjöl eru minni að stærð (eru þjöppuð) og því auðveldara að senda þau sem viðhengi við tölvupóst.
  • PDF-skjöl eru sérstaklega ætluð til lestrar og prentunar og líta alltaf nákvæmlega eins út á öllum tölvum og öllum prenturum, meðan að Office-skjöl geta litið mismunandi út. T.d. geta blaðsíðuskil auðveldlega breyst í Office-skjölum.
  • Mun fleiri hafa aðgang að PDF-sjá, eins og Adobe Reader sem er fáanlegur fyrir mjög mörg stýrikerfi og er ókeypis, heldur en Office-sjá.* Það eru ekki allir að nota Windows.
Office 2007 notar önnur skráasnið (Office Open XML, OOXML) heldur en fyrri útgáfur. Þeir sem eru með eldri útgáfur af Office ættu því að skoða samhæfnipakkann sem Microsoft gaf út. Hann gerir það mögulegt að opna og vista nýju sniðin í Office 2000, XP, 2003 og Office Viewer 2003.

Skv. fréttum (CNET, BBC) ætlar Microsoft einnig að styðja annað nýtt skráasnið (OpenDocument, ODF) og gefa út gagnabreyti til að opna og vista ODF-skjöl í Office XP, 2003 og 2007. (ODF er sjálfgefna skráasniðið í OpenOffice.) Fyrsta útgáfan hefur verið gefin út, hún er eingöngu fyrir Word en ætlunin er að útgáfur fyrir Excel og PowerPoint verði komnar út fyrir lok ársins.

* Windows notendur geta sótt Word Viewer 2003, Excel Viewer 2003 og PowerPoint Viewer 2003 til að lesa og prenta Office-skjöl. Þessar sjár eru ókeypis og geta opnað skjöl úr Office 2007 ef samhæfnipakkinn er settur inn.

1. feb. 2007

Ný útgáfa af Microsoft Office (2007)

Microsoft Office hefur verið uppfært í nýja útgáfu 2007, með gjörbreyttu viðmóti. Þeir sem eru ánægðir með sína núverandi útgáfu þurfa e.t.v. ekki nauðsynlega að uppfæra en þegar þetta nýja viðmót venst þá er það miklu skemmtilegra en það gamla og þægilegra að nota.

Þessu til viðbótar er auðveldara að sníða skjöl, bera saman mismunandi útgáfur, fjarlægja persónulegar upplýsingar úr "meta-data" og bæta við stafrænni undirskrift.

Svo er loksins möguleiki að vista sem PDF beint úr Office án þess að vera með Adobe Acrobat (það er einnig hægt að vista sem XPS en það er "PDF-snið sem Microsoft fann upp"). Þetta er ekki innbyggður möguleiki heldur þarf að setja inn viðbót frá Microsoft fyrir Office 2007. Það eru þrjár útgáfur í boði, PDF eingöngu, XPS eingöngu og svo bæði PDF og XPS, sem Microsoft mælir með. Ég mæli með annarri hvorri útgáfunni sem inniheldur PDF því Adobe Reader er nokkuð algengur hugbúnaður á tölvum.