5. feb. 2007

Uppfærslur vegna Office 2007

Nú þegar Microsoft hefur gefið út Office 2007 eru nokkrar uppfærslur sem tölvunotendur ættu e.t.v. að huga að.

Þeir sem eru með Office 2007 ættu að skoða viðbót sem gerir þeim kleift að vista skjölin sín sem PDF (önnur viðbót leyfir bæði PDF og XPS), sbr. fyrri pistil um Office 2007. Þessi viðbót er mjög nytsöm því það er mun betra að senda skjöl sem PDF heldur en á upprunalega Office-sniðinu:

  • PDF-skjöl eru minni að stærð (eru þjöppuð) og því auðveldara að senda þau sem viðhengi við tölvupóst.
  • PDF-skjöl eru sérstaklega ætluð til lestrar og prentunar og líta alltaf nákvæmlega eins út á öllum tölvum og öllum prenturum, meðan að Office-skjöl geta litið mismunandi út. T.d. geta blaðsíðuskil auðveldlega breyst í Office-skjölum.
  • Mun fleiri hafa aðgang að PDF-sjá, eins og Adobe Reader sem er fáanlegur fyrir mjög mörg stýrikerfi og er ókeypis, heldur en Office-sjá.* Það eru ekki allir að nota Windows.
Office 2007 notar önnur skráasnið (Office Open XML, OOXML) heldur en fyrri útgáfur. Þeir sem eru með eldri útgáfur af Office ættu því að skoða samhæfnipakkann sem Microsoft gaf út. Hann gerir það mögulegt að opna og vista nýju sniðin í Office 2000, XP, 2003 og Office Viewer 2003.

Skv. fréttum (CNET, BBC) ætlar Microsoft einnig að styðja annað nýtt skráasnið (OpenDocument, ODF) og gefa út gagnabreyti til að opna og vista ODF-skjöl í Office XP, 2003 og 2007. (ODF er sjálfgefna skráasniðið í OpenOffice.) Fyrsta útgáfan hefur verið gefin út, hún er eingöngu fyrir Word en ætlunin er að útgáfur fyrir Excel og PowerPoint verði komnar út fyrir lok ársins.

* Windows notendur geta sótt Word Viewer 2003, Excel Viewer 2003 og PowerPoint Viewer 2003 til að lesa og prenta Office-skjöl. Þessar sjár eru ókeypis og geta opnað skjöl úr Office 2007 ef samhæfnipakkinn er settur inn.

Engin ummæli: