24. apr. 2007

Ekki gengur Vista vel

Las nýlega fréttir á BBC og News.com um að Dell sé aftur byrjað að selja tölvur með Windows XP, en Dell hætti að selja Windows XP með tölvunum sínum þegar Windows Vista var gefið út í janúar sl.

Dell mun vera að láta undan þrýstingi frá viðskiptavinum sínum sem vilja frekar Windows XP heldur en Windows Vista.

Þetta gerðist ekki þegar Windows XP var gefið út 2001, þá bað enginn um að fá Windows 98 draslið aftur (og það var "enginn" að nota Windows 2000).

Firefox er reyndar mun vinsælli hugmynd hjá viðskiptavinum Dell heldur en Windows XP. Fyrst Windows XP er komið aftur þá er aldrei að vita nema að Firefox verði sjálfgefna vefsjáin á Dell tölvum í náinni framtíð.

20. apr. 2007

Constantine

Kvikmyndin Constantine er um engla og djöfla og manninn sem reynir að koma djöflunum til síns heima. Mjög sérstök mynd.

Fær 6/10 í einkunn.

Uppfærslur frá Apple (2007-004)

Uppfært 13:05.: Apple hefur gefið út lagfæringu á uppfærslu 2007-004.

Upprunalegt 20.04.: Apple gaf út 25 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-004). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

17. apr. 2007

Valþversögnin: Færri möguleikar leiða til betri forrita og meiri skilvirkni

Ég rakst nýlega á mjög skemmtilega grein um hvers vegna fleiri valmöguleikar leiða ekki endilega til betri forrita. Joel Spolsky (Joel on Software) velti því fyrir sér í þessari grein hvers vegna hægt sé að slökkva á Windows Vista á svo marga vegu sem raun ber vitni og hvort það sé raunverulega gagnlegt.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að forrit eiga að vera eins einföld og mögulegt er. Þau eiga fremur að gera fáa hluti á hnitmiðaðan og einfaldan hátt heldur en að vera flókin og gera margt illa.

Reyndar á öll tækni að vera hnitmiðuð og einföld. Því miður er það oft svo að frekar en að gera hlutina einfaldari og auðveldari þá er hlaðið inn nýjum möguleikum til að hafa "feature" listann lengri en í síðustu útgáfu eða lengri en hjá keppinautunum. Farsímar finnst mér vera besta dæmið um tækni sem er komin út í öfgar. Allir kvarta yfir því hvað nýir símar eru flóknir en samt velur fólk sér nýja síma eftir því hvað "feature" listinn er langur.

Reynsla mín kemur fyrst og fremst frá hönnun öryggisforrita. Það hefur enginn gaman af því að vinna í vírusvörninni sinni eða fikta í eldveggnum. Öryggisforrit eiga að vera "install and forget it", það eiga ekki að vera neinar stillingar. Tölvunotendur hafa almennt ekkert vit á öryggismálum og vilja ekki þurfa að verða sér úti um þá vitneskju. Þess vegna kaupa þeir vírusvarnir og eldveggi og ætlast til þess að þessi forrit og þeir sem búa þau til viti hvað eigi að gera. En ef það eru einhverjar stillingar í öryggisforritum þá er verið að biðja notandann um að hafa vit á tölvuöryggismálum. Ef öryggisforrit er með örugg sjálfgildi/hegðun sem notandinn ætti helst ekki að breyta og sem hann hefur líklega ekki þekkingu til að breyta, hvers vegna þá yfirleitt að bjóða upp á stillingar?

Ég tel að þetta sjónarmið, að tækni eigi að vera hnitmiðuð og einföld, eigi við allar tegundir forrita, ekki einungis öryggisforrit. Ég hef t.d. skrifað um leit mín að einfaldri klukku sem gæti sýnt bæði dagsetningu og tíma, sem tók um 5 mánuði því öll forritin sem ég fann voru ofhlaðin af annarri virkni. Þetta á við mjög mörg tól, höfundar þeirra setja oft inn alltof mikið af möguleikum.

En hvað aðrar tegundir af forritum, eins og skrifstofuhugbúnað og leiki?

Rannsóknir hafa sýnt það að flestir nota ekki nema brot af því sem hugbúnaður eins og Microsoft Word og Excel bjóða upp á. Enda er helsta breytingin sem Microsoft gerði í Office 2007 sú að reyna að einfalda forritin og auðvelda aðgang að möguleikunum, en ekki bæta við möguleikum.

Maður gæti ætlað að leikir væri sú tegund forrita þar sem helst ætti að bæta við endalausum möguleikum. Það er e.t.v. að vissu leyti rétt, en þó verður að skoða það að of mikið efni getur orðið til þess að draga athyglina frá aðalsöguþræðinum. Auk þess er dýrt að framleiða leikjaefni (t.d. fleiri og stærri borð). Það er ekki hagkvæmt að hver leikmaður noti einungis 10% af innihaldi leiksins, það þarf að vera nær 90% (og helst þannig að allir leikmenn noti 90% af efninu og 90% af efninu sé notað af leikmönnum). Netleikir eiga svo við annað vandamál að stríða, að eftir því sem fleiri möguleikum er bætt við til að halda athygli núverandi leikmanna þá verður hann flóknari og óaðgengilegri fyrir nýja, óreynda leikmenn.

En hvers vegna er þetta svona? Hvers vegna er svona erfitt að selja einfaldleika? Hvernig verður tækni of flókin? Oftast er það notendum (og markaðsdeildinni) að kenna að of mörgum möguleikum er bætt við en svo geta hlutir líka farið illilega úr böndunum í hönnunar- og þróunarferlinu.

Í svargrein Arno Gourdol við grein Joels (sem þessi pistill hófst á) þá segir Arno frá því hvernig þurfti að berjast fyrir einfaldleika hjá Apple. Svo kom önnur grein frá Joel í framhaldi af svargrein frá Moishe Lettvin, sem er fyrrverandi starfsmaður Microsoft og vann í teyminu sem hannaði og forritaði ræsivalmyndina í Windows Vista. Moishe skrifaði aðra grein degi seinna til að útskýra að það var kerfið og ferlarnir hjá Microsoft, ekki fólkið, sem varð til þess að hlutirnir fóru svona úr böndunum og benti svo á grein eftir vinnufélaga sinn hjá Google um hvernig eigi að gera hlutina. Þessar greinar eru stórskemmtileg lesning og lærdómur fyrir þá sem vilja búa til einföld forrit og stefna að skilvirkum vinnubrögðum.

15. apr. 2007

Saw III, Lucky Number Slevin og Van Helsing

Kvikmyndin Saw III er sú versta í samnefndri röð mynda. Sú fyrsta, Saw (sem fékk 7/10 í einkunn), var nýstárleg og kom á óvart. Önnur myndin, Saw II (sem fékk 6/10 í einkunn), var dálítið "meira af því sama" og sú þriðja er á köflum einungis endurvinnsla á fyrri tveimur myndunum. Allar eru þessar myndir ofboðslega hrottalegar.

Fær 5/10 í einkunn.

Gaman- og spennumyndin Lucky Number Slevin er góð skemmtun strax frá upphafi. Hún fjallar um mann sem lendir á milli tveggja glæpaforingja og hvernig hann sleppur. Sagan er flókin en heilsteypt og stjörnulið leikara skilar fínni vinnu. Góð skemmtun.

Fær 7/10 í einkunn.

Van Helsing er leiðinleg vampírumynd. Tölvuteiknuðu atriðin eru mjög flott og það er ágætur hasar á köflum, en handritið er of mikið bull til að hægt sé að horfa framhjá því.

Fær 1/10 í einkunn.

10. apr. 2007

Uppfærslur frá Microsoft (apríl 2007)

Uppfært 13.04.: Microsoft hefur gefið út viðvörun (SA 935964) vegna galla í DNS þjónustunni í Windows, sem verið er að misnota til árása.

Uppfært 10.04.: Microsoft gaf út 5 öryggisuppfærslur í dag (10.04.) fyrir Windows (2007 nr. 18-22) til viðbótar MS07-017 sem var gefin út á undan áætlun. Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Hérna eru upplýsingar um þessar uppfærslur fyrir venjulega tölvunotendur og einnig fyrir tölvusérfræðinga.

Einfaldast er samt að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Automatic Updates en einnig er hægt að sækja þær handvirkt með því að fara á Microsoft Update (hlekkur virkar einungis í IE) og fylgja leiðbeiningunum þar.

Uppfært 03.04.: Microsoft gaf út 1 öryggisuppfærslu í dag (03.04.) fyrir Windows (2007 nr. 17).

Þessi uppfærsla (MS07-017) lagar galla í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Uppfærslan kemur á undan áætlun og í kjölfar þess að þessi galli hefur verið notaður til árása.

Í kjölfar uppfærslunnar getur komið villan "«application executable name» - Illegal System DLL Relocation" en hana má laga með því að setja inn uppfærsluna KB 935448 til viðbótar. Sækja þarf viðbótaruppfærsluna beint frá Microsoft.

Upprunalegt 02.04.: Microsoft ætlar að gefa út öryggisuppfærslu á morgun, 03.04., til að laga galla (SA 935423) í meðhöndlun Windows á bendlaskrám ("animated cursor files", ANI skrár). Útgáfan er á undan áætlun vegna þess að verið er að misnota gallann til árása. Microsoft gaf út viðvörun vegna gallans fyrir helgi.

9. apr. 2007

Háðsádeila á stríðsrekstur

Spaugstofumenn voru í fríi um páskana og hneyksluðu því engan. Kverúlantar, nöldurseggir og annað pirrað fólk fékk engu að síður "gott" efni til að amast yfir: Stjórnmálafræðiprófessor við Princeton skrifaði háðsádeilu um stríðsrekstur Bandaríkjamanna og stakk upp á því að sprengja Ísland aftur á miðaldir í stað Írans. Það væri m.a. mun betra frá efnahagslegu sjónarmiði.

Það voru nokkrir sem föttuðu ádeiluna en hinir voru mun fleiri sem gerðu það ekki (m.a. kverúlantar, nöldurseggir, þrefarar, fjasarar, kvartarar, kveinarar, þusarar, tuðarar, þjarkarar og sífrarar)*.

Sagt var frá greininni í frétt á mbl.is og Moggabloggið sprakk af vandlætingu. Ofangreint pirrað fólk ætti að lesa greinina betur og velta fyrir sér efni hennar.

* Mikið vildi ég óska þess að með flipavefsjám hefði komið uppfærsla á HTML, einhverskonar "multi-link href" þannig að maður þyrfti ekki að vera með svona upptalningu.

Lýst eftir veffréttamönnum

Uppfært 12.04.: Rakst á þessa áhugaverðu grein um íhaldssemi (norskra) nemenda í fjölmiðlun, sem tengist mjög vel efni pistilsins míns.

Upprunalegt 09.04.: Vefurinn er ekki nýtt fyrirbrigði, að verða 17 ára gamall um þessar mundir. Þrátt fyrir "háan" aldur er engu að síður oft sem hann er ekki nýttur til fulls.

Fjölmiðlar eru stundum átakanlegt dæmi þar um. Ég hef áður minnst á það í framhjáhlaupi í pistli nýlega að það er ákaflega leiðinlegur siður fréttamanna sem skrifa fyrir vefinn að vísa ekki á heimildir sínar, í þeim tilfellum þegar þær er að finna á vefnum. Ég tel að þetta sé merki um vanþroska fréttamanna sem eru enn fastir í hugsanahætti eldri miðla, eins og útvarps og dagblaða, sem leyfa ekki tilvísanir í heimildir með jafneinföldum, auðveldum og sjálfsögðum hætti og vefurinn. Oft er einungis sagt "að sögn BBC" eða eitthvað álíka í stað þess að vísa á fréttina hjá BCC með því að setja hlekk á viðeigandi stað í textann.

Nýleg frétt á mbl.is reyndi að ganga aðeins lengra og sagði að þetta kæmi fram "á fréttavef Aftenposten („Aldri vært sikrere å fly“)". Auðvitað hefði átt að tengja upprunalegu fréttina við textann í stað þess að setja titil hennar í fréttina. Það er að sjálfsögðu auðveldara að finna hana ef maður veit titilinn en hvers vegna ekki bara að tengja hana beint og spara manni það erfiði að leita að henni? Að auki er þessi frétt strangt til tekið á Forbruker.no en ekki á fréttavef Aftenposten, þó svo að Aftenposten gefi báða vefina út, sem villir um fyrir þeim sem vilja finna upprunalegu fréttina. Heildarniðurstaðan er því sú að þetta er hallærislegra en að segja bara "að sögn Aftenposten" því fréttamaðurinn virðist ekki vita hvað hann er að gera.

Auðvitað eru til ánægjulegar undantekningar eins og þessi frétt á mbl.is. Engu að síður vantar smávegis upp á. Í stað þess að tengja greinina sem um er fjallað t.d. við orðið "háðsádeilugrein" ofarlega í fréttinni þá er settur hlekkur neðst í fréttina. Þetta er því ekki eins og vefurinn er almennt tengdur heldur eins og heimildaskrá í ritgerð. Þetta sést greinilega þegar fréttin er borin saman við útgáfuna hjá RÚV, sem er mun betri.

Taka má saman stuðning miðlanna við helstu miðlunarform með eftirfarandi hætti, þar sem grænn punktur táknar mikla notkun og grár punktur minni notkun:


BlaðHljóðvarpSjónvarpVefur
Texti
Tal
Kyrrmyndir
Hreyfimyndir

Hlekkir



Vefurinn er öflugastur af nútímamiðlum, styður flesta möguleikana. Frelsið leysir sköpunargleðina úr læðingi en niðurstaðan getur orðið samhengislaus glymjandi. Því er erfiðast að búa til fréttir fyrir vefinn.

Vefurinn er líka sá eini sem býður upp á hlekki, beinar tengingar, við heimildir og ítarefni. Hann krefst því nýrra vinnubragða og annarrar nálgunar en hinir eldri miðlar.

Ritskoðun í Tælandi

Lokað var á YouTube í Tælandi nýlega vegna þess að tiltekið myndband þar þótti móðga konung Tælands.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lokað er á YouTube og t.d. gagnrýndi ég Tyrki í pistli nýlega fyrir að loka á YouTube.

Munurinn á Tyrkjum og Tælendingum er þó sá að Tyrkir verða að styrkja lýðræðið hjá sér því þeir vilja komast í Evrópusambandið en Tælendingar eru með herforingjastjórn og geta engan veginn talist stunda lýðræði.

Það tekur því varla að gagnrýna Tælendinga því þeir ættu að vita upp á sig skömmina. Engu að síður má finna kostulega tilvitnun í samskiptaráðherra Tælands í framhaldsfrétt BBC: "I don't want to hear a lecture on free speech... I am a proponent of free speech but this is just culturally insensitive and offensive...". Með öðrum orðum þá styður hann tjáningarfrelsi nema ef einhver segir eitthvað sem er ekki honum að skapi.

Tjáningarfrelsið er erfitt fyrirbæri að umgangast og einungis á færi þroskaðra og menntaðra þjóðfélaga sem hafa einsett sér að stunda lýðræði. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur tjáningarfrelsis að einhverjum tímapunkti þarf maður að umbera særandi ummæli. Ritskoðun og höft eru ekki leyfileg viðbrögð þá. Íslendingar þurfa meðal lýðræðisþjóða að herða varðstöðuna um tjáningarfrelsið, taka til í sínum ranni og mótmæla ritskoðun hvar sem er í heiminum.

8. apr. 2007

Kerfisbakkaklukka

Á gömlu tölvunni minni var ég með lítið forrit, TClockEx, sem sýndi bæði dagsetningu og tíma í kerfisbakkanum (e. system tray, notification area). Það besta við þetta forrit var að það reyndi ekki að gera of mikið, það sýndi bara dagsetningu og tíma og ef maður smellti á klukkuna þá birtist dagatal.

Þegar ég skipti frá Windows 2000 í Windows XP í nóvember á seinasta ári hófst leit að svipuðu forriti því TClockEx virkaði ekki á XP. Ég hef prófað mjög mörg klukkuforrit síðan en öll hafa þau verið ofhlaðin af alltof mikilli virkni. En núna, tæpum tæplega 5 mánuðum seinna, er leitinni loks lokið: AlfaClock er alveg frábært forrit og hagnýtt tól.

7. apr. 2007

"Ertu hryðjuverkamaður?"

Mbl.is greinir frá því að bankar á Íslandi (allavega Kaupþing á Selfossi) spyrji nú nýja viðskiptavini hvort þeir séu hryðjuverkamenn. Nánar tiltekið mun spurningin hljóma svo: "Tengist þú einhverjum hryðjuverkasamtökum eða er einhver í fjölskyldu þinni viðriðinn við slík samtök?"

Ímyndun okkur nú að harðsvíraður hryðjuverkamaður komi inn í íslenskan banka, vilji stofna þar reikning og sé spurður þessarar spurningar. Hvað haldið þið að hann muni segja? Haldið þið virkilega að hann muni segja "já"?

Auðvitað svara allir þessari spurningu neitandi, jafnt hryðjuverkamenn sem aðrir.

Hver er tilgangurinn með því að spyrja spurningar sem allir svara neitandi?

Því miður eru spurningar sem þessar ekki bara heimskulegt bull, þær eru hreint og klárt til þess fallnar að draga úr öryggi.

Einhvers staðar hefur einhver búið til þessar reglur og þessar spurningar. Að verki loknu hefur hann klappað sjálfum sér á bakið fyrir gott verk og vel unnin störf og tilkynnt yfirmönnum sínum að hann hafi aukið öryggi almennings. Það hefur svo verið tilkynnt opinberlega og merkt við á aðgerðalistanum að þessu sé lokið, öryggi almennings hafi verið aukið.

En öryggi almennings hefur ekkert aukist við þessa vitleysu, heldur þvert á móti býr almenningur við það falska öryggi að eitthvað raunverulegt hafi verið gert þegar í raun og veru tímanum var eytt til einskins (á kostnað skattgreiðanda að öllum líkindum).

Það sem er miklu verra er að ekki verður gripið til aðgerða sem raunverulega auka öryggi því menn halda að það sé þegar búið að því. "Er ekki þegar verið að spyrja hryðjuverkamenn að því hvort þeir séu hryðjuverkamenn?"

6. apr. 2007

Uppfærslur frá Apple (2007-003)

Apple gaf út 42 uppfærslur fyrir Mac OS X, bæði stýrikerfið sjálft og forrit sem fylgja með því (2007-003). Það er mjög mikilvægt að vera alltaf með nýjustu uppfærslur til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Einfaldast er að stilla tölvuna sína til að sækja þessar uppfærslur sjálfkrafa með því að nota Software Update.

1. apr. 2007

Flyboys og What the #$*! Do We (K)now!?

Flyboys er merkilega langdregin, klisjukennd, einhæf og alltof löng kvikmynd. Hún er full af endurtekningum, með gloppóttan söguþráð og er einfaldlega þrautleiðinleg. Ekki þess virði að horfa á hana, jafnvel þó hún væri ókeypis.

Fær 1/10 í einkunn.

Kvikmyndin What the #$*! Do We (K)now!? er skrýtin blanda af heimildamynd, sögu, tæknibrellum og tölvuteiknuðum atriðum. Þetta er umfjöllun um spurninguna hvað raunveruleikinn sé eiginlega, séð frá sjónarhóli taugaboðefna og skammtafræði.

Skv. stjörnugjöf á IMDb þá skiptast áhorfendurnir í tvo jafnstóra hópa, annar hópurinn elskar þessa mynd og gefur henni fullt hús en hinn hópurinn hatar hana. Vanalega myndar stjörnugjöfin bjöllulaga feril en þessi mynd fær hengirúm, sem er mjög óvanalegt. Mér fannst hún verulega óspennandi.

Fær 1/10 í einkunn.