Búseta á netinu
Mágkona mín krafðist þess um daginn að ég skrifaði um hana hérna á pistlasíðunni minni og bar helst fram þær röksemdir að hún væri sæt og skemmtileg. Sem er alveg rétt, hún er sæt og skemmtileg, en ég verð að hryggja hana með því að ég get engu að síður ekki skrifað um hana. Eru aðallega tvær ástæður fyrir því.
Fyrri ástæðan er sú að það er ekki hægt að vísa í hana á netinu. Hún hefur enga fasta búsetu, notar ekki MySpace, YouTube, Facebook eða Flickr og er ekki með heimasíðu eða blogg. Hún er eiginlega hálfgerð flökkukind á netinu, einskonar netvæddur sígauni sem dúkkar upp á MSN þegar síst varir. Hefur að því virðist enga þörf fyrir að sýna sig eða besserwisserast á netinu... eins og yðar einlægur undirritaður. Þetta er nokkuð sérstakt nú til dags þegar allir og amma hans eru að blogga og eiga annað heimili á netinu.
Seinni ástæðan er sú að það var aldrei ætlunin að þetta yrði persónulegt blogg hérna á þessari síðu. Upphaflega hugmyndin var sú að halda utan um dóma um kvikmyndir sem ég horfi á og skrifa pistla um tölvumál og netöryggi (bæti líklega við meiru um tölvuleiki fljótlega) og svo þróaðist skipulagið yfir í það sem má sjá í efnisflokkunum hér hægra megin.
Ég hef aldrei skilið hugmyndina á bakvið persónuleg blogg ("ég fór snemma að sofa") og endist ekki við að lesa þau en finnst mun meira virði að heyra skoðanir fólks á hinu ýmsu málefnum eða sjá eitthvað sniðugt sem það fann og langar að deila með manni.
1 ummæli:
Þannig að þú ert ekki í markaðshópnum fyrir Twitter?
Skrifa ummæli