27. feb. 2007

Umsókn um embætti netlögreglustjóra

Kópavogi, 27.02.2007

Undirritaður sækir hér með um embætti netlögreglustjóra, sem auglýst var af Steingrími J. Sigfússyni í sjónvarpi sl. helgi.

Undirritaður er með doktorspróf í tölvunarfræði frá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum, hefur starfað hjá þekktu tölvuöryggisfyrirtæki um árabil og hefur sérþekkingu á tölvu-, net- og öryggismálum. Má í þessi sambandi m.a. vísa til pistla sem undirritaður hefur skrifað um tölvu- og netöryggismál, eins og IP-tölur og listin að fela sig og Vírusar og heimabankar.

Auk þess þekkir undirritaður vel til hins kínverska eldveggs sem kínversk stjórnvöld nota til ritskoðunar og almennt til að tryggja öryggi kínverskra borgara.

Slík undirstöðuþekking á netsíum og hvernig hægt er að fara framhjá netsíum, sem undirritaður hefur, er nauðsynleg þeim sem skipaður er í þetta embætti til að geta beitt ritskoðun almennilega.

Auk þess er undirritaður vel lesinn í klassískum fræðum, eins og bókunum 1984 og Brave New World, og telur sig þar með ágætlega geta framfylgt stefnu réttlátra stjórnvalda sem styðjast við ráðgjöf hófsamra hagsmunasamtaka, eins og Femínistafélags Íslands.

Undiritaður er tilbúinn að gera hvað sem til þarf og réttlæta það opinberlega, svo lengi sem næg laun eru í boði.

Virðingarfyllst,
Erlendur S. Þorsteinsson

2 ummæli:

breyni sagði...

Ha ha ha :-D
Þessi pistill er frábær og þyrfti að sjást sem víðast.

Nafnlaus sagði...

Snilldar pistill!