29. júl. 2006

Uppfærsla á Google Toolbar (2.1.20060713 / 4.0.1019.2378)

Google Toolbar tækjasláin hefur verið uppfærð í útgáfu 2.1.20060713 fyrir Firefox og útgáfu 4.0.1019.2378 fyrir Internet Explorer. Nýjustu útgáfurnar má sækja beint frá Google.

28. júl. 2006

Uppfærsla á ZoneAlarm (6.5.731.000)

ZoneAlarm eldveggurinn hefur verið uppfærður í útgáfu 6.5.731.000. Nýjastu útgáfuna má sækja beint frá Zone Labs.

Uppfærsla á Firefox (1.5.0.5)

Firefox vefsjáin hefur verið uppfærð í útgáfu 1.5.0.5. Eins og alltaf er ástæða til að vera með nýjustu útgáfuna til að forðast vírusa og tölvuþrjóta.

Smellið á "Help : Check for Updates..." og svo "Download & Install now »" til að sækja og setja upp þessa nýju útgáfu. Eftir endurræsinguna, smellið þá á "Tools : Extensions : Find Updates : Update/Install Now" til að sækja uppfærslur á öllum viðbótum.

Tomb Raider: Legend

Tölvuleikurinn Tomb Raider: Legend (PS2), sá sjöundi í röðinni, er mjög skemmtilegur. Grafíkin er falleg, Lara hreyfir sig mjög eðlilega, sagan er þokkaleg og þrautirnar eru mjög skemmtilegar (og sumar töluvert erfiðar). Leikurinn er fín blanda af skot- og þrautaleik. Mjög góður leikur.

Fær 8/10 í einkunn.

The Weather Man

Kvikmyndin The Weather Man fjallar um veðurfréttamann í Chicago, sem gengur mjög vel í vinnunni á meðan fjölskyldulíf hans er í rúst. Hann fær mjög góð laun en finnst vinnan, lífið og tilveran vera fremur tilgangslaus. Hann fær tilboð um draumastarf í New York og telur að með því að taka því tilboði og byrja upp á nýtt á nýjum stað þá muni fjölskyldulífið einhvern veginn batna. Myndin er ádeila, dökkur húmor og sorg. Góð mynd og áhugaverð.

Fær 7/10 í einkunn.

23. júl. 2006

The Matador og S.W.A.T.

Kvikmyndin The Matador sýnir nýja og aðra hlið á Pierce Brosnan heldur en James Bond, þar sem hann leikur leigumorðingja á barmi taugaáfalls. Það er e.t.v. fullmikið að kalla þetta gamanmynd þó hún sé kynnt þannig en það er dökkur húmor í henni og ofbeldið (sem hlýtur að vera í mynd um leigumorðingja) er aldrei sýnt. Sagan er þokkaleg þó hún sé örlítið brotakennd og höfundum tekst nokkrum sinnum að koma manni á óvart. Fín afþreying.

Fær 7/10 í einkunn.

Löggumyndin S.W.A.T. er eins og langur sjónvarpsþáttur og það tekur töluverðan tíma að koma sögunni (hasarnum) af stað.

Fær 6/10 í einkunn.

22. júl. 2006

Það er allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú drekkur bara bjór

Eflaust eru þeir fáir, ef nokkrir, sem eru sammála þeirri fullyrðingu sem kemur fram í titli þessarar greinar. Enda er þessi fullyrðing fáránleg. Það má ljóst vera að það er ölvunin sjálf sem er vandamálið ef ökumenn keyra drukknir og sem hefur áhrif á getu þeirra til að keyra. Hvernig til ölvunarinnar var stofnað, þ.e. hvaða aðferðum viðkomandi beitti til að verða drukkinn, hefur þar engin áhrif.

Engu að síður virðast ákaflega margir ökumenn vera sammála mjög svipaðri fullyrðingu: "Það er allt í lagi að tala í síma við akstur, svo lengi sem þú notar handfrjálsan búnað" og er trú þeirra studd íslenskum umferðalögum (47. gr. a. umferðarlaga 1987 nr. 50).

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram slysahættuna sem er samfara því að aka og tala og einnig að enginn munur er á slysahættu þeirra sem tala í farsíma án handfrjáls búnaðar og þeirra sem nota handfrjálsan búnað. Símtal hefur það truflandi áhrif á athyglina við aksturinn að um fjórum sinnum líklegra er að viðkomandi lendi í slysi. Hvort handfrjáls búnaður er notaður eða ekki skiptir engu máli. Nýleg rannsókn, sem fjallað var um á fréttavef BBC nýlega, hefur enn og aftur staðfest þetta. Hún sýndi hinsvegar einnig fram á að þeir sem eru drukknir undir stýri (rétt yfir löglegum mörkum) eru færari um að keyra en þeir sem tala í síma við akstur.

Í íslenskum umferðarlögum og viðhorfi ökumanna er ákveðin tvískinnungur. Hvað varðar ölvun þá skiptir ástandið máli en ekki aðferðin. En varðandi farsíma þá er aðferðin aðalatriðið en ástandið virðist engu máli skipta. Í ljósi þess og að drukknir ökumenn eru færari en talandi ökumenn mætti allt eins rökstyðja að það ætti að vera allt í lagi að keyra fullur, svo lengi sem þú notaðir handfrjálsan búnað. Það virðist vera almenn trú að handfrjáls búnaður lagi athyglis- og getuleysi talandi ökumanna þvert ofan í rannsóknarniðurstöður og því ekki þá líka drukkinna ökumanna? Það er allavega ekki búið að afsanna þessa tilgátu mína, ólíkt því sem gildir með handfrjálsan farsímabúnað, sem samkvæmt rannsóknum skiptir engu máli.

Ölvun er ákveðið viðmið um skort á færni til aksturs og almenn sátt er um að banna ölvunarakstur. Horfa ætti til þeirra atriða sem sýna má fram að leiði til sama athyglisbrests og getuleysis við akstur og ölvun, heldur en að einblína á tilteknar aðferðir til komast í það ástand. Til að leiðrétta þetta misræmi sem nú er í umferðarlögum ætti annað hvort að banna alfarið að tala í farsíma við akstur eða leyfa ölvunarakstur.

21. júl. 2006

IP-tölur

Í umfjöllun um hættur á netinu og innbrot í heimabanka í fjölmiðlum hefur hugtakið "IP-tölur" komið upp. IP-tala tölvu (eða annars netbúnaðar) er heimilisfang hennar í staðfræði netsins. Heimilisfang er þó ekki góð samlíking við þann heim sem við lifum í m.a. vegna þess hve netið (heimurinn sem tölvur lifa í) er síbreytilegt frá degi til dags.

Símanúmer er betri samlíking að mínu mati, sérstaklega m.t.t. þess hvernig við notum símanúmer annars vegar og IP-tölur hins vegar í daglegu lífi. Við notum símanúmer til að ná í annað fólk og tölvur nota IP-tölur til að ná í aðrar tölvur.

Ef ég ætla að hafa samband við Jón Jónsson þá fletti ég upp símanúmeri hans, slæ það inn í símann og hringi í hann. Ef ég ætla að sjá www.jonjonson.net þá slæ ég nafnið inn í vefsjána, tölvan flettir upp IP-tölu þess vefþjóns og sækir vefsíðuna. Uppfletting á IP-tölum gerist algjörlega sjálfkrafa á bak við tjöldin í tölvum þannig að maður þarf aldrei að fletta þeim upp handvirkt (það er þó hægt), líkt og ef símar kæmu með innbyggðri allherjarsímaskrá fyrir allan heiminn, sem væri stöðugt og sjálfkrafa uppfærð.

Hver tölva getur haft margar IP-tölur, líkt og fólk getur verið með mörg símanúmer. Málið er reyndar aðeins flóknara því ein tölva getur haft mörg nöfn og margar IP-tölur. Af hagsýnum ástæðum er net samt alltaf sett þannig upp að tiltekin tölva er með eitthvert aðalnafn og aðal-IP-tölu sem engin önnur tölva notar.

(Það er jafnvel enn flóknara því tiltekið nafn getur líka átt við margar tölvur og svo er hægt að setja net þannig upp að tiltekin IP-tala eigi við margar tölvur. Orðið "tölva" er hér notað í merkingunni "eintak af stýrikerfi í keyrslu" en bæði getur ein vél verið að keyra mörg stýrikerfi í einu (VMware Workstation (Windows & Linux), Virtual PC (Windows), Parallels Desktop (Mac OS X)) og einnig er hægt að dreifa eða flytja stýrikerfi sem er í keyrslu á milli margra véla og örgjörva (VMware Infrastructure). Þessi tækni er einungis notuð af fyrirtækjum sem stendur en er á leið til einstaklinga í venjulegum tölvum og venjulegum stýrikerfum.)

20. júl. 2006

Vírusar og heimabankar

Í Fréttablaðinu í dag (20.07., forsíða, efst, bls. 4, miðju) er fjallað um stuld úr heimabönkum. Þetta er ekki ný frétt heldur samantekt af málum sem komið hafa upp frá október 2005 til júní 2006. Ekki er um að ræða bein innbrot í heimabankana, heldur hafa glæpamenn komist inn á (heima)tölvur viðskiptavina bankanna, náð notandanöfnum og lykilorðum og notað þær upplýsingar til að skrá sig inn á heimabankana og millifæra.

Í fréttinni kemur fram að tölvuvírus hafi komið við sögu í seinasta málinu, en svo var einnig í því fyrsta þó svo að það komi ekki fram í fréttinni. Leiða má líkur að því að tölvuvírusar hafi komið við sögu í öllum málunum.

Þetta undirstrikar þörfina fyrir það að verja tölvuna sína og fara varlega með lykilorð. Bankarnir bera hins vegar vissulega ábyrgð líka því þeir bjóða viðskiptavinum sínum ekki ennþá upp á betra og öruggara innskráningarkerfi. Að nota einungis notandanöfn og lykilorð er orðið gamaldags.

Ég fjallaði um hvernig eigi að verjast nethættum í svari á Vísindavef Háskóla Íslands:

Ofangreindar ráðleggingar eiga við öll stýrikerfi en þó mestmegnis Windows. Annað gott ráð til að forðast flest vandræði er einfaldlega að fá sér Makka (a.m.k. þangað til að þeir verða vinsælir, þá munu sömu vandamál fara að hrjá Mac OS X og Windows).

Önnur tengd svör á Vísindavefnum sem ég hef skrifað um vírusa eru:
Svo hef ég einnig skrifað (ótengt vírusum):
og að lokum veitti ég ráðgjöf við:
Allt frábær svör svo ég segi nú sjálfur frá.

18. júl. 2006

Skattur á gos og sælgæti

Skuggaformaður Samfylkingarinnar skrifar í Blaðinu í dag (18.07., bls. 11, efst) að hann sé sammála öllum tillögum um að lækka matarverð "ef frá er talin lækkun virðisaukaskatts á sætindum og gosi" og bætir við að slík lækkun væri "tóm vitleysa". Fyrir þremur dögum síðan var hann þó sammála öllum tillögum og hafði enga fyrirvara þar á, sagði m.a. í viðtali á NFS (15.07., 05:10, hlekkur virkar einungis í IE) að hann styddi að það yrði "farið að róttækustu tillögunum".

Hann bætir við í greininni að honum sé "annt um heilsu dætra" sinna. Gott hjá honum! Hann ætti þá e.t.v. ekki að kaupa handa þeim sætindi og gos. En ber þá svo að skilja að ef virðisaukaskattur á sætindi og gos yrði lækkaður til jafns við aðra matvöru að þá myndi hann æða stjórnlaust út í búð, kaupa ókjörin öll af sætindum og gosi og neyða ofan í dætur sínar? Þarf hann virkilega á ríkisforsjárhyggju að halda til að hegða sér skynsamlega?

Ríkistjórnin er að vísu ekkert skárri og forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV (18.07.) að hann hefði lítinn áhuga á að "lækka gjöldin á sælgæti og gosdrykkjum". Hann bætti við að það væri "álitamál hvort að þær vörur eru matvæli". Enda er augljóst hver munurinn er. Tökum sem dæmi Prins Póló og Homeblest. Prins Póló súkkulaðikex er ferkantað og hverju stykki er pakkað í sérpakkningu (hár skattur). Homeblest súkkulaðikex er hringlaga og þeim er pakkað mörgum saman í pípulaga neytendaumbúðir (lágur skattur). Það sjá allir skynsemina í þessu.

Poseidon og Cars

Kvikmyndin Poseidon er þokkaleg afþreying. Ekkert sérstök, er fremur 99 mínútna "inn um annað, út um hitt" hasarmynd með ákaflega fyrirsjáanlegum söguþræði. Persónusköpunin var ekki sérstaklega spennandi, ég var að velta fyrir mér mestallan tímann hver dæi næst og hvernig.

Undir lokin verður handritsslys sem er mun stærra en þessi blessaða alda: Sögupersónurnar eru að reyna að komast út um bógskrúfurnar. Fyrir utan það að bógskrúfurnar eru ennþá í gangi þegar þau komast þangað (en engin vél myndi þola það að vera svona lengi í gangi á hvolfi) þá snúast þær á móti hver annarri. Bógskrúfur eru ekki til þess að sjúga sjó inn í skip eða blása honum út. Þær eiga að snúast með hver annarri til að snúa skipinu. En það er e.t.v. ástæðan fyrir því að ekki tókst að snúa þessu skipi í tæka tíð upp í ölduna?

Fær 5/10 í einkunn.

Teiknimyndin Cars er vel teiknuð, með mörg mjög skemmtileg sjónarhorn og söguhugmyndin er áhugaverð. Það er ágætis hraði í sögunni fram að seinni hluta myndarinnar en þá dettur hún niður um töluverða hríð. Handritið er hins vegar svo uppfullt af Hollywood-klisjum og fjölskyldu- og lífsgildum frá sömu borg að manni verður illt.

Fær 5/10 í einkunn.

17. júl. 2006

Dýrt er bændanna orðið

Í Blaðinu í dag (17.07., , bls. 2, efst) er rætt við formann Bændasamtaka Íslands undir fyrirsögninni "Matur verður alltaf dýrari hjá okkur", sem er ekki gæfuleg stefna og undarlegt markmið.

Þar segir hann að hann vilji helst "fá skýrt svar hvort Íslendingar vilji landbúnað eða ekki". Þegar vitlaust er spurt þá er ekki von til annars en að svarið verði bull.

Ég sem neytandi vil fá gæðavöru á góðu verði og ég hef enga trú á því að aðrir (íslenskir) neytendur séu gríðarlega ósammála þeirri skoðun. Síðan er (rétta) spurningin sú hvort að íslenskur landbúnaður treystir sér til þess að uppfylla þessar kröfur eða ekki.

Ég hef enga skoðun á því hvort ég vilji íslenskan landbúnað eða ekki og íslenskir bændur eiga enga kröfu á mig að ég svari því hvort ég vilji hann eða ekki. Ég tel mig hins vegar eiga kröfu á þá að þeir svari því hvort að þeir telji sig geta staðið sig í samkeppninni. Miðað við fyrirsögnina hjá formanninum þá er það ekki líklegt.

ADSL og afritataka

Í Fréttablaðinu í dag (17.07., bls. 6, efst) er frétt sem er í senn skelfileg, stórfyndin og sorgleg en þar segir frá því að "tveimur tölvum ásamt ADSL-tengingu" hafi verið stolið.

Það er auðvitað ekki hægt draga úr því hvað það hlýtur að vera hræðilegt að það sé brotist inn hjá manni og hlutum stolið. En það ætti að vera auðvelt að upplýsa þetta mál fyrst að þjófarnir létu sér ekki duga að stela ADSL-endabúnaðinum heldur stálu ADSL-tengingunni líka. Það hlýtur að vera hægt að fylgja bara símasnúrunni heim til þjófanna?

Því miður er þetta ekki fyrsta skipti sem ég heyri af rithöfundi sem glatar handritinu sínu og á engin afrit. Það er svo auðvelt að taka afrit, t.d. annað hvort á CD eða DVD geisladiska (og geyma þá ekki heima hjá sér), að það er óskiljanlegt að fólk geri það ekki. Ég held því miður líka að fólk átti sig ekki á því að ef tölvan bilar eða henni er stolið þá eru t.d. stafrænu myndirnar horfnar að eilífu.

Í upphafi...

Jamm, hérna byrjar það.