Skattur á gos og sælgæti
Skuggaformaður Samfylkingarinnar skrifar í Blaðinu í dag (18.07., bls. 11, efst) að hann sé sammála öllum tillögum um að lækka matarverð "ef frá er talin lækkun virðisaukaskatts á sætindum og gosi" og bætir við að slík lækkun væri "tóm vitleysa". Fyrir þremur dögum síðan var hann þó sammála öllum tillögum og hafði enga fyrirvara þar á, sagði m.a. í viðtali á NFS (15.07., 05:10, hlekkur virkar einungis í IE) að hann styddi að það yrði "farið að róttækustu tillögunum".
Hann bætir við í greininni að honum sé "annt um heilsu dætra" sinna. Gott hjá honum! Hann ætti þá e.t.v. ekki að kaupa handa þeim sætindi og gos. En ber þá svo að skilja að ef virðisaukaskattur á sætindi og gos yrði lækkaður til jafns við aðra matvöru að þá myndi hann æða stjórnlaust út í búð, kaupa ókjörin öll af sætindum og gosi og neyða ofan í dætur sínar? Þarf hann virkilega á ríkisforsjárhyggju að halda til að hegða sér skynsamlega?
Ríkistjórnin er að vísu ekkert skárri og forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV (18.07.) að hann hefði lítinn áhuga á að "lækka gjöldin á sælgæti og gosdrykkjum". Hann bætti við að það væri "álitamál hvort að þær vörur eru matvæli". Enda er augljóst hver munurinn er. Tökum sem dæmi Prins Póló og Homeblest. Prins Póló súkkulaðikex er ferkantað og hverju stykki er pakkað í sérpakkningu (hár skattur). Homeblest súkkulaðikex er hringlaga og þeim er pakkað mörgum saman í pípulaga neytendaumbúðir (lágur skattur). Það sjá allir skynsemina í þessu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli