ADSL og afritataka
Í Fréttablaðinu í dag (17.07., bls. 6, efst) er frétt sem er í senn skelfileg, stórfyndin og sorgleg en þar segir frá því að "tveimur tölvum ásamt ADSL-tengingu" hafi verið stolið.
Það er auðvitað ekki hægt draga úr því hvað það hlýtur að vera hræðilegt að það sé brotist inn hjá manni og hlutum stolið. En það ætti að vera auðvelt að upplýsa þetta mál fyrst að þjófarnir létu sér ekki duga að stela ADSL-endabúnaðinum heldur stálu ADSL-tengingunni líka. Það hlýtur að vera hægt að fylgja bara símasnúrunni heim til þjófanna?
Því miður er þetta ekki fyrsta skipti sem ég heyri af rithöfundi sem glatar handritinu sínu og á engin afrit. Það er svo auðvelt að taka afrit, t.d. annað hvort á CD eða DVD geisladiska (og geyma þá ekki heima hjá sér), að það er óskiljanlegt að fólk geri það ekki. Ég held því miður líka að fólk átti sig ekki á því að ef tölvan bilar eða henni er stolið þá eru t.d. stafrænu myndirnar horfnar að eilífu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli